04. tbl. 98. árg. 2012

Ritstjórnargrein

Framfaraskref: Ný réttargeðdeild

Páll Matthíasson geðlæknir og framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalaֽ hann er jafnframt klínískur dósent við læknadeild HÍ.

doi: 10.17992/lbl.2012.04.423

Þann 29. febrúar síðastliðinn opnaði velferðarráðherra nýja réttargeðdeild Landspítalans á Kleppi. Rétt er að staldra við og skoða hvers vegna þetta er mikilvægt framfara- og umbótaskref.

Sagan

Er kom fram á 9. áratug síðustu aldar urðu kröfur um réttargeðdeild á Íslandi háværar. Slík deild opnaði að lokum árið 1992 en ekki á Kleppi, eins og nærtækt hefði verið, heldur nauðlenti deildin í óhentugu húsnæði að Sogni í Ölfusi. 

Starfsemin hefur oft sætt gagnrýni síðan. Árið 1999 gerði „CPT-nefndin“ töluverðar athugasemdir við aðbúnað að Sogni. Spurt var hvort ekki væri rétt að „flytja stofnunina á stað sem ekki væri eins fjarri höfuðstaðnum og þar sem sjúklingar kynnu að njóta góðs af auðveldari aðgangi að faglegri þekkingu og aðstöðu til […] umönnunar.1, 2

Árið 2008 tók geðsvið Landspítala út starfsemi Sogns að ósk heilbrigðisráðuneytisins. Tilefnið var áhyggjur af faglegu starfi, miklir erfiðleikar við faglega mönnun og rekstrarerfiðleikar. Sjúklingar deildarinnar höfðu kvartað til landlæknis, umboðsmanns Alþingis og Geðhjálpar yfir umönnun og aðstæðum að Sogni. Niðurstaða úttektarinnar var sú að Landspítali tók við rekstri Sogns af Heilbrigðisstofnun Suðurlands 1. apríl 2009 og er Sigurður Páll Pálsson yfirlæknir frá þeim tíma. Árið 2008 var rekstrarhalli Sogns tugir milljóna en deildin hefur verið rekin á pari frá 2009.

Þverfaglegur hópur fagfólks gjörbreytti umönnun sjúklinga. Húsnæðið var samt áfram tæplega 600 m2 á þremur hæðum, þröngt og hentaði illa til að skapa öruggan ramma utan um starf réttargeðdeildar. Staðsetningin torveldaði endurhæfingu sjúklinga og smæðin stefndi í hættu öryggi starfsmanna og sjúklinga. Í janúar 2011 var í ljósi þessa í minnisblaði frá Landspítala til velferðarráðherra hvatt til þess að hefja þegar flutning réttargeðdeildar frá Sogni að Kleppi. Landlæknir studdi þau sjónarmið.

Framkvæmdastjórn Landspítala ákvað í októberbyrjun 2011 að loka Sogni og opna nýja réttargeðdeild á Kleppi. Velferðarráðherra samþykkti þá ákvörðun og 12. október síðastliðinn tilkynnti leiðarahöfundur starfsfólki Sogns og síðan öðrum hagsmunaaðilum ákvörðunina. Vinna við nýja réttargeðdeild á Kleppi hófst þegar, en kostnaður við þær breytingar var sem betur fer hóflegur, þar sem hægt var að nýta tvær ónotaðar deildir á 2. hæð aðalbyggingar Klepps.

Árangur Sogns

Sogn gegndi mikilvægu hlutverki í geðheilbrigðiskerfi landsins í tvo áratugi og starfsfólk deildarinnar á þakkir skildar fyrir óeigingjarnt starf. Árangur deildarinnar var hins vegar ekki „100%“ eins og haldið hefur verið fram, enda óraunhæft að búast við slíku. Af 44 útskrifuðum sjúklingum eru 18% látnir, nær allir fyrir fimmtugt. Árangur var ekki góður hjá 7, þar sem voveiflegir atburðir áttu sér stað hjá þremur og fjórir brutu af sér aftur.

Ný réttargeðdeild

Á Kleppi er aðbúnaður sjúklinga réttargeðdeildarinnar til fyrirmyndar. Húsnæðið er nærri 1000 m2, rammbyggt á einni hæð, með sérinngangi gegnum bjartan garð, umlukinn hárri tvöfaldri girðingu. Betra aðgengi er að fagfólki og háskólasamstarfi, styttra er fyrir fjölskyldur sjúklinga að koma í heimsókn og útskriftarferli fer fram á höfuðborgarsvæðinu þangað sem flestir útskrifast.

Öryggi sjúklinga og starfsmanna er miklu betra. Deildin er stærri og auðveldara að aðskilja sjúklinga. Mjög gott öryggisherbergi er til staðar, öflugt öryggiskerfi, nær öll deildin er í sjónlínu við vaktherbergi, stutt er í þrjár aðrar legudeildir og þar með annað starfsfólk ef þörf krefur. Geta til að sinna lögboðnu hlutverki batnar, þar sem deildin stækkar úr 7 í 9 rúm, auk möguleika á frekari stækkun. Nándin við aðrar deildir skapar einnig aðhald og möguleika á að fylgjast náið með gæðum þjónustunnar. Í viðbót við ofannefnd fagleg rök er reksturinn nærri fimmtungi ódýrari.

Lokaorð

Rök finnast á móti lokun Sogns. Þyngst vega þar byggðasjónarmið. Ótti við breytingar og ótti við að fordómar gegn geðsjúkum magnist eru önnur rök sem hafa heyrst gegn nýrri réttargeðdeild og þá frekar úr hópi eldra fagfólks.

Rök með nýrri réttargeðdeild eru þó miklu sterkari. Á heilbrigðisstofnun verða hagsmunir sjúklinga að ganga fyrir. Með nýrri réttargeðdeild á Kleppi er verið að setja í fyrsta sæti hagsmuni þessa viðkvæma sjúklingahóps (með betri og mann-úðlegri meðferð og aðstæðum) og hagsmuni þjóðfélagsins í heild (með fleiri plássum, bættu öryggi og minni rekstrarkostnaði). Jafnframt fékk starfsfólk Sogns nýja vinnu á réttargeðdeildinni á Kleppi ef það óskaði þess.

Það er sjaldgæft að hægt sé að slá svo margar flugur í einu höggi og bæta svo eindregið þjónustu á sama tíma og rekstrarhagræðing næst fram. Það er oft sagt að menningarstig þjóða sjáist á því hvernig þær koma fram við sína minnstu bræður. Með því að stíga þetta framfaraskref í meðferð alvarlega geðsjúks fólks sem hefur orðið fyrir því óláni að fremja glæpi, getum við sem þjóð borið höfuðið hærra. 

Heimildir

  1. Skýrsla Evrópunefndarinnar um varnir gegn pyntingum og ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð og refsingum til ríkisstjórnar Íslands. Febrúar 1999.
  2. Bráðabirgðaskýrsla ríkisstjórnar Íslands til Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT). 01.10.1999. innanrikisraduneyti.is/utgefid-efni/til_nefnda/nr/663 – mars 2012.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica