01. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Aðgangur að tengslaneti um alla Evrópu - Viðtal við Kristínu Halldórsdóttur

„Við erum hluti af stuðningsumhverfi nýsköpunar og okkar hlutverk er að tengja íslensk fyrirtæki, rannsóknarstofnanir og háskóla við sambærilega aðila erlendis. Aðferðafræði okkar felst í tækni- og þekkingaryfirfærslu á milli aðila í gegnum gríðarlega stórt tengslanet, Enterprise Europe Network, sem nær yfir alla Evrópu,“ segir Kristín Halldórsdóttir forstöðumaður Evrópumiðstöðvar tækniyfirfærslu hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

u04-fig1
Kristín Halldórsdóttir á skrifstofu EEN hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

„Tengslanetið er gríðarstórt, með um 600 skrifstofur og yfir 1000 sérfræðinga sem hafa tengsl inn í alla geira atvinnulífsins í viðkomandi landi. Í því tilfelli sem hér um ræðir, í heilbrigðis- og læknavísindum, eru starfandi fjölmargir hópar sérfræðinga sem eru tengdir háskólasamfélaginu og hátæknifyrirtækjum í hverju landi, svo möguleikarnir fyrir íslenska aðila að komast í samstarf við erlenda aðila í sömu greinum eru miklir. Það getur líka verið útflutningur á þjónustu og tækniþekkingu þannig að um viðskiptasamstarf sé að ræða ekki síður en rannsóknasamstarf,“ segir Kristín. Enterprise Europe Network er leitt af Nýsköpunarmiðstöð Íslands en Rannís og Íslandsstofa eru samstarfsaðilar þess.

Kristín segir að útfærslur á samstarfi séu fjölmargar og bendir á dæmi um rannsóknarfyrirtæki á sérhæfðu sviði sem þurfi á tiltekinni tækniþekkingu að halda. „Þeir vita að tæknin eða þekkingin er til annars staðar og það getur verið mun hagkvæmara að leita samstarfs við þann aðila sem býr yfir henni í stað þess að setja upp búnaðinn og afla sér þekkingarinnar sjálf. Þá er hægt að auglýsa eftir slíku í gegnum tengslanetið og komast í tengsl við starfshóp erlendis sem getur framkvæmt rannsóknina eða veitt tækniaðstoðina og þannig má stytta nýsköpunar- eða rannsóknarferlið verulega.“

Sparar tíma, fé og fyrirhöfn

Kristín nefnir dæmi um vel heppnað samstarf af þessu tagi að Blóðbankinn á Íslandi auglýsti eftir þekkingu vegna stofnfrumurannsókna sinna hér heima og komst í samband við mjög sterkan rannsóknaraðila á þessu sviði í Skotlandi. „Blóðbankinn fékk líka svörun frá áhugasömum aðilum í Þýskalandi, Finnlandi og Spáni en uppúr þessu urðu til sambönd við miðlun upplýsinga og þróun aðferða við vefjaverkfræði sem Blóðbankinn var byrjaður á. Þetta er ein af okkar velgengnissögum og upp úr þessu var gerður samstarfssamningur milli Blóðbankanna á Íslandi og Spáni með þátttöku rannsóknaraðilans í Skotlandi.“

Kristín segir að lykilatriði við þessa vinnu sé að leiða aðila saman til að flytja út eða inn þekkingu eða tækni við nýsköpun og rannsóknir og samstarfið getur verið fólgið í vöruþróun og markaðssetningu á hátæknibúnaði eða vörum sem fyrirtæki eru að þróa. „Við getum sparað fyrirtækjum mikla vinnu, tíma og fyrirhöfn við að koma þeim og afurðum þeirra á framfæri við aðila í sama geira erlendis. Við gerum okkur hins vegar fyllilega grein fyrir að auðvitað eru læknar og rannsóknaraðilar með sín sambönd og ýmsa samstarfsaðila, oftast frá þeim háskólum og löndum sem þeir hafa lært í og allir eru ágætlega tengdir við aðra hópa. Við hjá Enterprise Europe Network erum viðbótarleið til að styðja við nýsköpun í landinu,“ segir Kristín. Tengslanetið er fjármagnað að 60% hluta af Evrópusambandinu og 40% frá íslenska ríkinu og var ýtt úr vör árið 2008, en það er tilkomið vegna samruna tveggja fyrirrennara sem voru hýstir hjá fyrrum Útflutningsráði og Iðntæknistofnun.

Kristín segir mikilvægt að sem flestir viti af þeim möguleikum sem EEN á Íslandi býður uppá. „Þetta er algjörlega án kostnaðar fyrir viðkomandi, enda er þetta stuðningur opinberra aðila við nýsköpun og rannsóknir í landinu. Það sem við förum fram á frá fyrirtækjunum og rannsóknaraðilunum  er að þeir fylli út nákvæma lýsingu á starfsemi sinni. Eftir að tengslin hafa myndast á milli aðila drögum við okkur í hlé, enda hlutverki okkar í rauninni lokið.“

Styrkjakerfi Evrópusambandsins

Næsta áætlun Evrópusambandsins leggur að sögn Kristínar að hluta til áherslu á að hagnýta niðurstöður rannsókna. „Þetta kallar á ítarlegri viðskiptaáætlanir og nákvæmari útlistun á hvernig hagnýta megi niðurstöður rannsóknarverkefna á markaði. Þá getur verið að finna þurfi samstarfsaðila sem getur fleytt niðurstöðunum áfram, yfir í næsta þrep og þá getur EEN nýst til að finna slíka aðila svo niðurstöðurnar lokist ekki inni í stofnunum og komist ekki út á markað. Dæmi um vel heppnaðar tengingar rannsókna og markaðsetningar eru fyrirtæki eins og Marel og Össur.“

Á vegum Evrópusambandsins eru fjölmargir möguleikar til að sækja um styrki til rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði heilbrigðisvísinda og allar umsóknir þurfa að vera samsettar að minnsta kosti. af þremur aðilum í þremur löndum. Kristín hvetur alla sem fást við rannsóknir í heilbrigðisvísindum á Íslandi til að hafa samband við skrifstofu EEN og leggja lýsingu á starfsemi sinni á tengslanetið því eftirspurnin eftir samstarfsaðilum sé á báða bóga. „Ef við værum með fleiri lýsingar á starfsemi á skrá hjá okkur myndi fyrirspurnum um samstarfsaðila á Íslandi eflaust fjölga verulega.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica