07/08. tbl. 97.árg. 2011

Fræðigrein

Stadfeldt: danskur og kannski „íslenskur“

f04-fig1

Maðurinn á myndinni gæti hæglega verið íslenskur og nöfnin gátu, að einu frátöldu, ekki verið öllu íslenskari, Asger Snebjørn Nicolai Stadfeldt. Danskur prófessor í fæðingarhjálp og kvensjúkdómafræðum á 19. öld, frumkvöðull í sínu fagi (mynd 1 og 2). Ekkert sagt í danskri grein um rætur frá Fróni.1 Hvernig gat danskur maður haft þessi nöfn og þetta útlit og ekki tengst Íslandi?

Sagan hefst 1775. Ekki gat talist skemmtiför að sigla með haustskipi frá Íslandi til Danmerkur það árið fremur en önnur. Leiðin var löng, veður rysjótt, farkosturinn lítið og hægfara seglskip, með litlum þægindum. Búast mátti við tveggja vikna ferð ef mjög vel gekk, en mánuður eða tveir voru líklegri. Í huga íslensks stúdents, sem hafði komið úr fásinninu í Steingrímsfirði á Ströndum og þaðan úr vondum húsakynnum Skálholtsskóla, hlýtur ferðin þó að hafa verið fyllt spenningi fyrir því sem verða vildi. Snæbjörn Ásgeirsson, prófastssonur frá Stað í Steingrímsfirði, var að loknu stúdentsprófi að halda til Kaupmannahafnarháskóla til náms í lögfræði. Þessi ungi Íslendingur tók með tímanum að kalla sig að dönskum sið Asgeirsen Stadfeldt eftir Staðarfjalli ofan við bæinn þar sem hann ólst upp. Allan sinn aldur var hann erlendis, þar sem hann tók hið meira lagapróf (candidatus juris) 1781 með góðri einkunn, varð embættismaður í rentukammerinu (fjármálaráðuneytinu), eftir það embættismaður í Vébjörgum (Viborg) og bæjarfógeti og herdómari í Randers. Hann tók doktorspróf frá Göttingenháskóla í Þýskalandi árið 1801 og varð borgarstjóri í Randers 1804. Til er góð lýsing og úttekt hans á Randersbæ frá 1804. Hann varð dómstjóri (justitsráð) 1809 og lést þar í bæ 1840, orðinn 87 ára að aldri. Sennilega kom hann aldrei aftur til Íslands.1, 2 Hann hlýtur að hafa verið með best menntuðu lögfræðingum í Danaveldi í þann tíð, virtur áhrifamaður, en kemur ekki við sögu Íslands.

Snæbjörn var tvígiftur og virðist ekki hafa átt börn með skammlífri fyrri konunni, en með þeirri seinni, Sidsel (eða Cecilie) Margarethe Bay, kaupmannsdóttur frá Randers, átti hann fjögur börn. Hann var kannski ekki afkomendalaus á Íslandi heldur, því getið er laundóttur með Margréti Bogadóttur Benediktssonar í Hrappsey (síðar gift síra Jóni Þorlákssyni skáldi á Bægisá). Stúlkan hét Þrúður og var fædd 1772 eða 1773.2 Á öðrum stað er faðir hennar þó kallaður Magnús.

Fjórða barn Snæbjarnar var sonurinn Andreas Bay Stadfeldt, heitinn eftir móðurafa sínum, fæddur 1795. Sá varð einnig löglærður, giftist danskri konu og varð borgarstjóri í Rípum (Ribe) 1824-1830, en fluttist þá til Kaupmannahafnar þar sem hann hlaut dómaraembætti í landsyfirréttinum.3 Í Rípum fæddist þeim sonur 21. mars 1830 sem fékk hin íslensku nöfn Asger Snebjørn eftir langafa og afa sínum, þó hann væri aðeins Íslendingur að einum fjórða hluta. Að auki kom nafnið Nicolai. Þessi fjórðungs Íslendingur varð einn af merkustu fæðinga- og kvensjúkdómalæknum Dana.

Asger virðist hafa tekið stúdentspróf hjá einkakennara, en settist svo í læknadeild Hafnarháskóla  árið 1847. Hann tók eitt ár að eigin ósk til að gegna herþjónustu í fyrra stríði Dana við Prússa vegna Slésvíkur árið 1848 og öðru ári, 1853, varði hann sem kólerulæknir í faraldri í þeirri óheilbrigðu borg sem Kaupmannahöfn var þá. Hann lauk loks læknaprófi 1854.3 Um það leyti var Ignaz Semmelweiss suður í Austurríki-Ungverjalandi að vekja athygli á smitandi orsökum barnsfarasóttar,4 sem kunnugt er með litlum árangri og honum tókst ekki að birta grein sem vakti víðtæka athygli fyrr en 1861. Læknakandídatinn Stadfeldt fékk árið 1863 stöðu sem aðstoðarfæðingalæknir (underaccoucheur) á hinum 350 rúma Friðriksspítala í Breiðgötu, sem þá hafði verið til í 111 ár (stofnaður 1752). Fæðingadeild var á spítalanum allt frá árunum 1756-1759 og þar hafði ekkjudrottning Friðriks V, Júlíane Maríe frá Brúnsvík-Lüneburg-Wolfenbüttel (1729 –1796), gefið á árunum 1782-1785 byggingu og fé til einnar fyrstu spítaladeildar í heiminum til að vista fátækar konur sem ekki höfðu efni á að leita til ljósmóður, heldur dóu sjálfar eða yfirgáfu eða jafnvel deyddu börn sín af því þær gátu ekki séð þeim farborða. Þetta var „Den Kongelige Fødelse Stifelse“ í Amalíugötu, rétt hjá Amalíuborg (mynd 3).5-9 Ekkjudrottningin Júlíana vildi bjarga börnunum og kvenna- og barnasvið Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn heitir nú eftir henni (Juliane Marie Centret). Víðfrægir húsameistarar, Niels Eigtvedt og Laurits de Thurah, teiknuðu byggingar fæðingastofnunarinnar á árunum um 1782, en Amalíuborg og Viðeyjarstofa eru líka verk Eigtvedts.

***

f04-fig2Asger Stadfeldt tók doktorspróf 1857  og hét ritgerðin „Nogle iagttagelser om glykosurien“. Að því búnu fór hann, eins og algengt var með þá sem höfðu efni og ætluðu sér frama, í árslanga námsferð suður um Evrópu, þar sem hann lagði sig sérstaklega eftir fæðingahjálp. Ástandið hvað varðar barnsfarasótt var eins og víðar skelfilegt á þessari fæðingadeild sem sinnti nú fleiri konum en fátækum einstæðum mæðrum Kaupmannahafnar. Fjórtán prósent kvenna sem þar fæddu dóu. Stadfeldt var fljótlega gerður það sem nú mætti kalla deildarlæknir á fæðingastofnuninni og um leið ritstjóri spítalablaðsins. Um þetta leyti fór hann að leggja sig eftir vísindavinnu og kennslu í faginu. Þegar prófessorinn Carl Levy lést 1866 (sem trúði loftbærni- eða miasmakenningunni og ekki Semmelweiss) varð Stadfeldt yfirlæknir smábarnadeildarinnar (Pleye Stiftelse for de Nye Fødde Børn) sem hafði verið stofnuð í næsta húsi við fæðingadeildina og ári síðar var honum veitt lektorsstaða í faginu „fæðingahjálp, kvensjúkdómafræði og barnalæknisfræði“, 37 ára gömlum. Ári eftir það varð hann hlutskarpari hinum álíka hæfa Frantz Howitz í umsókn um prófessorsstöðuna og meðfylgjandi forstöðulæknisstöðu hinna sameinuðu fæðinga- og nýburastofnana1 og var endanlega skipaður 1869.5, 6, 8

Asger Stadfeldt varð mikilvirkur og virtur læknir.6 Kennslubók í ljósmóðurfræðum eftir Stadfeldt kom út 1870 og var endurbætt tvisvar. Bók um misræmi milli fósturs og grindar (De Mekaniske Misforhold under Fødselen), kennslubók um hvernig ætti að höndla afbrigðilegar fæðingar, kom út 1873. Jón Hjaltalín var þá landlæknir í Reykjavík og Gísli Hjálmarsson, vinur Jóns Sigurðssonar, var aðstoðarlæknir Hjaltalíns. Þeir höfðu gert fyrsta keisaraskurðinn á Íslandi 1865 í moldarkofa í Þingholtunum,10 áður en Joseph Lister birti grein sína um sóttvarnaaðgerðir 1867 á grunni uppgötvana Louis Pasteurs á bakteríum.11 Þegar sú grein birtist var Stadfeldt hins vegar einn þeirra allra fyrstu sem hóf að nota aðferðir Listers í fæðingafræðinni, með miklum árangri. Hann áttaði sig á að barnsfarasóttin var sama eðlis og sárasýkingar og að sömu aðferðir þyrfti að nota. Hann varð þannig áhrifamikill brautryðjandi í Danmörku og á Norðurlöndum varðandi barnafarasótt og sóttvarnir á fæðingadeildum þótt hann væri ekki sá allrafyrsti til að nota aðferðir Semmelweiss og Listers, meðal annars aðeins á eftir fyrrum keppinauti sínum í Kaupmannahöfn, Frantz Howitz. Stadfeldt var gætinn og ekki var auðhlaupið að því að ganga gegn kenningum sér eldri manna án góðra gagna. Í þá daga sömdu menn, lásu upp og lögðu fram greinargerðir á fundum lærðra manna  (á ensku „to read a  paper“) og það gerði hann á þingi í Brussel 1876, þegar hann skýrði í ýtarlegu erindi á frönsku frá niðurstöðum 25 ára uppgjörs um fæðingar í Kaupmannahöfn þar sem hann kom með nýjar kenningar um forvarnir vegna barnsfarasóttar. Þetta vakti verðskuldaða athygli og átti hvarvetna þátt í hröðum breytingum til batnaðar. Áhrif sóttvarnanna voru „vidunderlig“ að hans eigin mati. Árið 1890 gat hann skrifað í ársskýrslu spítalans að engin kona hefði látist úr barnsfarasótt meðal 1500 fæðandi kvenna á deildinni, en tók fram að slíkt gæti verið tilviljun („skyldtes vel tildels et Held“), sem reyndar var, þó slík dauðsföll yrðu nú óalgeng.

***

Eitt það fyrsta sem honum tókst að gera sem yfirmanni fæðingastofnunarinnar á Friðriksspítala var að opna þar göngudeild fyrir konur með kvensjúkdóma árið 1870, þó innlagnadeild fyrir kvensjúkdóma yrði ekki að veruleika fyrr en stuttu fyrir lát hans.6, 8 Hann vildi sameina fæðingarhjálp og kvensjúkdóma, en það tókst ekki vel vegna þess hve allar aðstæður voru frumstæðar og lélegar á þessum gamla spítala. Þarna niður undir Amalíuborgarhöll kóngsins var meginspítali Kaupmannahafnar og Danmerkur í nær 160 ár fram að opnun Ríkisspítalans 1910. Svo til allir danskir og velflestir íslenskir læknakandídatar lærðu þar að gera ytri og innri vendingar, að draga niður barnið og leggja tangir, auk hinna mikilvægu sóttvarna. Þetta voru meginatriðin fyrir lækna að kunna í fæðingarhjálp. Þar lærðu íslenskir læknanemar við Kaupmannahafnarháskóla (alls um 25 á starfstíma Stadfeldts) sín verklegu fræði og sóttu fyrirlestra, og þangað fóru útskrifaðir kandídatar frá landlæknum (útskriftaleyfi veitt 1862) og Læknaskólanum í Reykjavík (stofnaður 1876) til að sækja sér reynslu og þekkingu um fæðingarhjálp og með tímanum kvensjúkdóma.12, 13 Frá 1849 hafði dönskum læknum verið gert að skyldu að starfa um tíma á fæðingastofnuninni í Kaupmannahöfn áður en þeir mættu hjálpa konum í barnsnauð og sama skilyrði var áréttað árið 1871 fyrir lækna sem útskrifuðust á Íslandi. Fararstyrkur fékkst til þessa.12 Alls störfuðu 19 danskir læknar á 19. öld á Íslandi en allir nema þrír voru í læknadeild Kaupmannahafnarháskóla fyrir tíma Stadfeldts sem prófessors. Þeir sem gætu hafa þekkt hann best, auk Jóns Hjaltalíns landlæknis (sem var þekktur maður í Danmörku vegna vatns- og baðlækninga), Gísla Hjálmarssonar og Jónasar Jónassens landlæknis, voru Hans Jacob Georg Schierbeck, landlæknir og Peter Anton Schleisner sem rannsakaði ginklofann í Vestmannaeyjum 1847-48, en varð svo læknir í Danmörku. Útskrifaðir læknar frá landlæknum á þessum tíma og síðar Læknaskólanum í Reykjavík voru 42.12, 14 Þeir hljóta flestallir að hafa farið til Kaupmannahafnar og kynnst Stadfeldt eitthvað og hlustað á fyrirlestra hans.15 Tómasar Hallgrímssonar er meðal annars getið í ársskýrslum spítalans og Sigurður Magnússon Dýrafjarðar- og Patreksfjarðarlæknir var þar í mánuð 1892 og segir sig hafa haft mikið gagn af, enda ætlaðist Stadfeldt til virkrar þátttöku þeirra sem þangað komu.13 Meðan Stadfeldt var sjálfur í læknaskólanum og eftir að hann varð prófessor, lærðu um 28 menn frá Íslandi til læknis í Kaupmannahöfn, þó ekki kæmi nema hluti þeirra til starfa á Íslandi.12 Í gegnum afa sinn, sem dó þegar Stadfeldt var 10 ára en hafði búið í öðrum landshluta, og þessa læknanema, hina fáu forystumenn lækna á Íslandi og íslensku kandídatana sem voru flestir nokkra mánuði á deildinni (tafla I), hefur hann helst tengst Íslandi, en tæpast með öðrum hætti. Meðal þessara manna voru Guðmundarnir þrír, Hannesson, Magnússon og Björnsson, sem lögðu mikið til læknakennslu á Íslandi og til þróunar skurðlækninga og Landspítalans, en fæðinga- og kvensjúkdómafræði var þá talin þar með. Á þennan hátt má segja að Stadfeldt sé forveri akademískra kennara á Íslandi í fæðinga- og kvensjúkdómafræðum. Stadfeldt var samtímamaður hina yngri Fjölnis- og Félagsritamanna en nær tveim áratugum yngri en Jón Sigurðsson (fjarskyldir).

f04-fig3Sagt er að konur frá öllum Norðurlöndum hafi fætt á fæðingadeildinni,6 en hvort einhver var frá Íslandi þar á meðal er ekki vitað, vegna þess að frá öndverðu var konunum heitið nafnleynd á fæðingastofnuninni og nöfn þeirra ekki skráð.8 Átján íslenskar ljósmæður lærðu á spítalanum,16 sem hýsti eina ljósmæðraskóla Danmerkur langt fram á 20. öld, en aðeins þrjár voru þar á starfstíma Stadfeldts (tveggja getið í ársskýrslum spítalans frá 1886-1896) vegna þess að menntun þeirra var þá betur fyrir komið á Íslandi. Stadfeldt átti mikinn þátt í að bæta menntun ljósmæðra í Danmörku og þá óbeint í öðrum hlutum Danaveldis og hann vildi auka veg þeirrar stéttar.9

Asger Stadfeldt var sennilega nokkuð liðtækur vísindamaður á þeirra tíma mælikvarða, en fyrst og fremst kennari, bæði klínískur kennari og akademískur. Hann hafði gáfur í góðu meðallagi, hafði orð á sér fyrir frjálslyndi, samviskusemi og manngæsku, vann mikið, skoðaði málin vandlega en var að því búnu sagður fljótur til ákvarðanatöku. Auk kennslubóka komu um 60 greinar frá honum.8 Hann gat komið með naprar athugasemdir um lægra sett starfsfólk en var almennt mikils metinn af læknum og ljósmæðrum sinnar stofnunar og síns tíma.8 Síðar á ævinni gaf hann út kennslubók um meinafræði þungunar og með kollega sínum, Emmerik Ingerslev, bók um meinafræði fæðinga og sængurlegu, ásamt sögu fæðingastofnunarinnar í Kaupmannahöfn. Fyrir störf sín hlotnaðist honum ýmis heiður innanlands og utan, meðal annars Dannebrogsorðan. Hann dó 1896, aðeins 66 ára að aldri, úr heilablæðingu, sennilega eftir fall nokkrum mánuðum áður.17 Þá hafði hann starfað 33 ár á Friðriksspítala og þar af 30 ár sem forstöðumaður. Þessi „íslenski“ Dani heimsótti aldrei ættland sitt úr föðurætt. Hann átti sennilega þrjú börn, stúlku (Karen Margarethe) og tvo syni með danskri konu sinni að nafni Kirstine Abelone Andersen. Sá eldri (Andreas Eduard) varð augnlæknir í Kaupmannahöfn, en hinn (Eigil) varð aðeins þriggja ára. Sex manns eru með nafnið Stadfeldt í dönsku símaskránni.

f04-TI

Reynir Tómas Geirsson
reynirg@landspitali.is

Læknir, kvenna- og barnasviði Landspítala Hringbraut,
101 Reykjavik. Prófessor í fæðinga- og kvensjúkdómafræði við læknadeild HÍ.

Heimildir

  1. Fra Historisk Arbejdsgruppe. DSOG bladet 2007; 28: 9.
  2. Jónsson AK. Lögfræðingatal 1736-1963. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1963, 570-1.
  3. Ricka CF. Dansk Biografisk Lexikon/XVI. Bind. runeberg.org/dbl/16/0253.html
  4. Kertész R. Semmelweiss. Der Kämpfer für das Leben der Mütter. Rascher Verlag, Zürich 1943.
  5. Nellemose W (ritstj.). Danmarks Jordemødre. W. Nellemose Forlag, København.
  6. Esmann V. A.S.N. Stadfeldt. Í: Beretning om Det kongelige Frederiks Hospital samt Den Kongelige Fødsels- og Plejestiftelse for Regnskabsåret fra 1. April 1896 til 31. Marts 1897. Stiftelsernes Inspektør. J.H. Schultz, Kjøbenhavn 1897: 103-7.
  7. Teisen K. Fremstilling af de for Det kongelige Frederiks Hospital og Den kongelige Fødsels- og Plejestiftelse gældende vigtigste Retsregler. J.H. Schultz, Kjøbenhavn 1901: 20-38.
  8. Osler M. Fødselshjelpen historie. FADL Forlag, København.
  9. Nellemose W (ritstj.). Danmarks Jordemødre. W. Nellemose Forlag, Charlottenlund 1935.
  10. Jónsson V. Lækningar og saga: Tíu ritgerðir. Menningarsjóður, Reykjavík 1969.
  11. Lister J. Antiseptic Principle in the Practice of Surgery. BMJ 1867; 2: 245-60.
  12. Blöndal LH, Jónsson V. Læknar á Íslandi. Læknafélag Íslands/Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1970.
  13. Magnússon S. Æviminningar læknis. Iðunn, Reykjavík 1985.
  14. Jónsson B. Íslenskir Hafnarstúdentar. BS, Akureyri 1949.
  15. Kolka PGV. Ferð um tímann. Lesbók Morgunblaðsins 5.8. 1962: 11.
  16. Einarsdóttir B (ritstj.). Ljósmæður á Íslandi, Menntun ljósmæðra, II. bindi. Ljósmæðrafélag Íslands, Reykjavík 1984: 179-92.
  17. Dansk Biografisk Lexikon, Tredje Udgave, VIII. Bind. Gyldendal, København: 1983, 613-4.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica