07/08. tbl. 97.árg. 2011

Umræða og fréttir

Það skemmist ei tönn …

u00-fig1

Í sumar verður ýmislegt á döfinni í hinu nýreista Lækningaminjasafni og Nesstofu, að sögn Önnu Þorbjargar Þorgrímsdóttur safnstjóra. Nýja húsið er risið og sómir sér glæsilega og í sumar verður unnið að fegrun umhverfis bygginguna. Enn er ýmsum frágangi innanhúss ólokið en þó verður húsið opið og kynnt á auglýstum tímum á tímabilinu 10. júlí - 28. ágúst.

Á íslenska safnadeginum 10. júlí verður opnuð ný sýning, Það skemmist ei tönn… í nýbyggingunni og er hún haldin í tengslum við átak í tannheilsu og tannvernd. Sýndir verða ýmsir merkir munir í eigu safnsins er tengjast tannlækningum í gegnum tíðina, tannlæknastólar og ýmis áhöld. Þá verða haldnir fyrirlestrar um tannheilsu í tengslum við sýninguna.

Í Urtagarðinum í Nesi dafna lækningaplöntur og matjurtir vel en boðið verður upp á leiðsögn um garðinn á Safnadaginn. Nesstofan er opin alla daga í sumar frá 13-17 og þar verður opnuð ný sýning um lækningar og lyfjagerð 4. júlí.

Allar upplýsingar um sýningarnar, opnunartíma, fyrirlestra og aðra dagskrá Lækningaminjasafnsins er að finna á heimasíðunni www.laekningaminjasafn.is  og www.nesstofa.is en þar er einnig ýmis fróðleikur um starfsemi safnsins, byggingarframkvæmdirnar og sögu lækninga.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica