04. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Fyrsta ígræðsla gervigangráðs á Íslandi

u05-fig1

Ársæll Jónsson og Guðmundur Bjarnason

Það er beinlínis ætlast til þess að læknar sem komnir eru á eftirlaun iðki sitt golf af kappi. Ársæll lét af störfum í 70 ára afmælismánuðinum í nóvember 2009. Um vorið var byrjað að leika golf á ný en allt kom fyrir ekki, forgjöfin fór hækkandi. Á læknamóti í Leirunni gekk brösuglega og flugu fjórir golfboltar út í sjó. Verst var þó að það fannst fyrir mæði og erfitt var að ýta golfkerrunni áfram. Þegar heim var komið mældist blóðþrýstingur lágur og púlsinn hægur (96/64, p.38/mín). Þrátt fyrir mótmæli komu röggsamar konur (maki, dóttir og gigtarlæknir) Ársæli niður á móttökudeild Landspítala og tveimur dögum síðar var græddur í hann gervigangráður vegna Mobitz typu 2 hjartablokks.

Á hjartadeildinni rifjaðist það upp fyrir Ársæli að hann hafði aðstoðað Guðmund Bjarnason barnaskurðlækni við fyrstu gervigangráðsísetningu á Íslandi. Guðmundur notaði skemmtileg orð um tækið sem pantað var flugleiðis. Sjúklingurinn var silfurhærð eldri kona og fékk margar og langar pásur í rafleiðni hjartans og aðstoðarlæknar á lyflæknisdeildinni voru ærið oft kallaðir til bjargar. Rifjað var upp hið gleðilega augnablik er hún gekk ein og óstudd út úr sjúkrahúsinu með ánægjubros á vör. Snorri Páll Snorrason var ábyrgur sérfræðingur.

Guðmundur man líka vel eftir þessu og með góðum vilja og aðstoð tókst að hafa upp á sjúkraskýrslu konunnar, sem var lögð inn á hjartadeild Landspítalans í júlí 1968. Konan var 75 ára gömul ekkja, fimm barna móðir sem hafði verið með vaxandi hjartsláttarköst í rúmt ár. Hún hafði tvívegis alveg misst meðvitund og einnig fundið fyrir dofa- og máttleysisköstum með yfirliðskennd. Hún hafði fengið svæsna barnaveiki 16 ára og slæma mislinga 23 ára. Liðverkir og liðbólgur eftir barnaveikina allt fram undir fimmtugsaldur. Magaskurður 1956.

Í sjúkraskrá er einnig sagt frá því að hún hafi verið skýr í viðtali en þreyttist við að tala. Grannholda með hryggskekkju. Púls 30/mín. Ekki merki um hjartabilun. Hjartarafrit sýndi total AV blokk, vinstri greinrof og stækkun. Hún var í fyrstu meðhöndluð með atrópíni og isupreli. Á sjúkrahúsinu fékk hún endurtekin aðsvifsköst með hjartsláttartruflunum, ýmist sleglatif eða hraðsláttarglöp, en einnig hjartastopp. Það tókst ætíð að koma hjartslætti í gang og notað til þess rafstuð og pronestyl. Aðsvifsköstin héldu áfram og löguðust ekki fyrr en settur var ytri gervigangráður, sem staðsettur var á deildinni. Nokkurn tíma tók að fá ígræðanlegan gervigangráð til landsins, svo að þetta tæki var nýtt til bráðabirgða þar sem ástand sjúklings bauð ekki upp á marga daga bið.

Ísetningin var ekki mikið frábrugðin því sem nú er. Innri hóstaræð, hægra megin á hálsi, var frílögð og niður þá æð var elektróðan þrædd niður í hægri gátt og áfram niður í hægri slegil. Leiðslan var síðan tekin út á yfirborðið neðan við viðbein og gangráðurinn tengdur. Hjartsláttur varð þegar eðlilegur.

Röskum tveim vikum síðar fékkst svo annar gervigangráður til landsins og var hann lagður undir húð framan á brjóstkassa. Þegar þræðirnir úr eldra tækinu voru klipptir, datt hjartsláttur niður í 34 slög, en jafnaði sig strax eftir endurtengingu.

Konan náði fljótt upp fullri fótaferð og útskrifaðist á Vífilsstaði. Í útskriftarbréfi (ÁJ) stendur: eftirlit verður aðallega fólgið í því að telja púls, sem á að vera sem næst 70/mín og reglulegur. Verði aukaslög tíð, kemur til greina að setja hana aftur á Pronestyl. Sj. verður kölluð inn mánaðarlega til eftirlits fyrst um sinn. P.S.; sj. má ekki fá rafmagnsstuð, stuttbylgjur, diathermi, electrocoagulation eða hita localt. Gæta ber að jarðtengja EKG-tæki áður en rit er tekið.

u05-fig2
Spánnýr og óbrúkaður hjartagangráður myndaður á Landspítala
í mars 2011. Ljósm.: Inger Helene Bóasson

Greining leiðslutruflana í hjarta byggist á töku hjartalínurits en klínísk saga segir til um hversu lengi sjúkdómurinn hefur varað. Lyfjameðferð dugar skammt en ígræðsla gervigangráðs skiptir sköpum og sjúklingurinn nær sér fljótt. Nú á dögum er gervigangráður mun léttari og endist lengur en fyrsta kynslóðin, þótt ígræðsla sé með svipuðum hætti.

Í leit að okkar að sjúkraskýrslunni var fyrst leitað eftir skrásettum sjúkdómsgreiningum í safni sjúkraskráa Landspítalans en þær voru á þeim tíma: mb. cordis, mb cordis arterioscleroticus, degeneratio myocardii, atrioventricular blokk og Adam-Stokes syncope, en það var sú greining sem leiddi okkur að réttri sjúkraskrá. Um orsakir svima og yfirliðs (Stoke-Adams áfall) meðal aldraðra segir í Kumar & Clark´s kennslubók í lyflæknisfræði (Saunders, 2009) að þær séu örmyndun og kölkun í útlægu leiðslukerfi hjartans (sjúkdómur Levs) en ágeng bólga meðal þeirra sem yngri eru (heilkenni Lenegres). Röskun finnst í natríumjónagöngum í báðum þessum ferlum. Greinrof með AV blokki getur einnig orsakast af blóðþurrðarsjúkdómi í hjarta, hjartabólgu og hjartavöðvabólgu.

Svíinn Arne Larson fékk fyrsta gervigangráðinn í heiminum og það var á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi árið 1958. Sá gangráður entist í þrjár klukkustundir og sá næsti í tvo daga. Alls fékk Arne 26 gangráða og lifði til ársins 2001 og lengur en bæði uppfinningamaðurinn og hjartalæknir hans.

Hér hefur verið lýst fyrstu gangráðsígræðslu á Íslandi árið 1968 hjá 75 ára konu sem var við dauðans dyr. Konan fékk árangursríka meðferð með ígræðslu ytri og síðan innri gervigangráðs. Hún lést 12 árum síðar, eða árið 1990.

Greining leiðslutruflunar hjá Ársæli tók skamman tíma eftir að hann hafði verið þvingaður til að leita læknis. Útskrift hans af hjartadeildinni dróst um einn dag vegna hjartaþræðingar og var samtals fjórir dagar. Honum var ráðlagt að sveifla ekki golkylfu í sex vikur svo tími er löngu kominn til að bæta um betur.

Lesa má um áhugaverða sögu gervigangráða á netinu: http://en.wikipedia.org/wiki/Artificial_pacemaker



Þetta vefsvæði byggir á Eplica