05. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Samstarf sem styður við rannsóknir og kennslu. Viðtal við Önnu Þorbjörgu Þorgrímsdóttur

Fimmtudaginn 15. apríl undirrituðu í Nesstofu Steinunn Kristjánsdóttir formaður námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir safnstjóri Lækningaminjasafn Íslands og Ásgerður Halldórsdóttir fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar, samning um sköpun kennsluvettvangs í Nesi fyrir nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

u08-fig1
Dr. Steinunn Kristjánsdóttir formaður námsbrautar í fornleifafræði
við Háskóla Íslands, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir safnstjóri og
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness.

„Með samstarfi við háskólann styður Lækningaminjasafnið við rannsóknir og kennslu um leið og við aukum þekkingu okkar á nærumhverfi Bjarna Pálssonar og eftirmanna hans í Nesi,“ segir Anna Þorbjörg safnstjóri. „Í Nesstofu er verið að útbúa sýningu um búsetu í Nesi á því tímabili þegar landlæknir, ljósmóðir og lyfjsali bjuggu í Nesi. Þar verður sögu lækninga og lyfjagerðar í Nesi gerð góð skil en einnig verður sagt frá daglegu lífi íbúanna. Frá 13. maí til 3. júní mun safnið standa fyrir leiðsögn um uppgraftrarsvæðið og sýninguna Saga og framtíð. Í fyrri fornleifarannsóknum á svæðinu hafa komið í ljós gripir sem tengjast sögu lækninga, til dæmis lyfjakrukka, lyfjaglös og lyfjaleifar.“

Að sögn Önnu Þorbjargar er markmið samkomulagsins að skapa vettvang fyrir verklega kennslu í fornleifafræði og gera aðgengileg á einum stað gögn sem tengjast fornleifarannsóknum í Nesi. Námsbraut í fornleifafræði við HÍ mun halda úti kennslu í vettvangsrannsóknum í Nesi á hverju vori næstu 10 ár. Hefst fyrsta vettvangsnámskeiðið 10. maí næstkomandi og mun það standa yfir í einn mánuð. Í tengslum við fornleifarannsóknirnar verður boðið upp á leiðsögn fyrir almenning um uppgraftarsvæðið og niðurstöður rannsóknanna verða kynntar jafnóðum í sýningum í Nesstofu. Að rannsóknum loknum verður gengið frá uppgraftarsvæðinu þannig að rústir mannvirkjanna verða sýnilegar gestum svæðisins.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Lækningaminjasafns www.laekningaminjasafn.is.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica