Kápa mánaðarins

Ilmur Stefánsdóttir

 

Ilmur Stefánsdóttir (f. 1969) hélt nýverið einkasýningu í Listasafni Reykjavíkur þar sem hún sýndi nýja vídeóinnsetningu, Panik, 2017. Af því tilefni hélt hún erindi þar sem hún fór yfir myndlistarferil sinn sem hófst með textílnámi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á 10.  áratugnum. Þaðan fór hún til framhaldsnáms í myndlist við Goldsmiths College í London sem hún lauk árið 2000. Listsköpun Ilmar hefur haldist í hendur við farsælan feril sem leikmynda- og búningahönnuður. Þá hefur hún skapað vettvang þar sem heimur myndlistar og leikhúss blandast með frumlegum hætti, en það er í leikhópnum CommonNonsense sem hefur staðið að ýmsum viðburðum. Myndin á forsíðu Læknablaðsins er stillimynd úr einu af fjölmörgum myndböndum af sýningunni Panik. Eins og sjá má á smámynd hér við hlið textans minnti sýningarsalurinn á byggingarsvæði þar sem súlur, rör, salthaugar og kör voru á víð og dreif. Vídeóin voru síðan innan um allt þetta, varpað á loft, gólf og veggi eða laumað inn í sérsniðna loftræstistokka. Í öllum salnum ómaði verksmiðjudynur þar sem var eins og færiband væru í gangi eða önnur iðntæki. Í hverju myndbandi var Ilmur sjálf, líkt og sjá má á forsíðumyndinni, að hamast á einhverju verkfæri. Stundum var það súla sem hún sveiflaðist í kring um, á einum stað hljóp hún í risastóru hamsturshjóli og á enn öðrum sté hún skref, hristi sig eða skók. Hvarvetna ríkti óvissa um hvort kom á undan og hvað á eftir: var konan að svara kalli tækjanna eða stjórna þeim, var sýningarsalurinn að hruni kominn eða í uppbyggingu? Konan ónefnda á myndböndunum var óstöðvandi og ástandið í sýningarsalnum þrungið spennu og óþreyju. Innsetning Ilmar var í takt við hennar fyrri verk þar sem hún hefur skoðað samspil manns og umhverfis. Hún hefur gjarnan sett sig í spor þess sem ekki kann á alvanalega hluti og farartæki, sýnt ljósmyndir og myndbönd þar sem hún prófar sig áfram með fundna hluti eða tól sem hún setur sjálf saman. Eins var það í þessu nýjasta verki hennar þar sem manneskjan atti kappi við manngerða hluti og umhverfi í nokkurs konar tragíkómísku sjálfskaparvíti.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica