Kápa mánaðarins

„Svona var lífið leiðinlegt þá“


 

Um miðjan nóvember 1918 lágu þúsundir Reykvíkinga veikir í inflúensu. Samfélagið var allt úr skorðum, ekki nokkur sála á götunum, búðir lokaðar og skortur á matvöru og eldiviði. Blöð komu ekki út. Sorgin sem grúfði yfir höfuðstaðnum var blönduð hræðslu og reiði. Hræðslu því útbreiðsla veikinnar var hröð og dánartíðnin há, sérstaklega hjá ungu fólki, og reiði því heilbrigðisyfirvöld þóttu viðhafa ómarkviss viðbrögð við að stemma stigu við útbreiðslunni.

Orsakavaldur veikinnar var óljós og hefðbundnar meðferðir við hitasótt og lungnabólgu gagnslitlar. Því freistuðust læknar að reyna ýmsar tilraunakenndar meðferðir en með litlum árangri. Í Reykjavík störfuðu 10 læknar sem sinntu sjúkum dag sem nótt og voru undir ofurmannlegu álagi, bæði andlegu og líkamlegu. Allir veiktust nema Þórður Thoroddsen sem var þeirra elstur.

Mánudaginn 25. nóvember var veikin í rénun og lífið farið að taka á sig sína réttu mynd. Þann dag hætti sérstök hjúkrunarnefnd störfum og í Morgunblaðinu mátti sjá tilkynningu Daníels Bernhöft um opnun brauðsölubúðarinnar. Einnig er þar greint frá því að messað hefði verið í Dómkirkjunni eftir þriggja vikna hlé og að undanfarið hefðu að meðaltali 15 greftranir farið fram dag hvern. Enn var auglýst eftir hjúkrunarfólki og ný andlát tilkynnt og þennan dag dró heimasætan í Ingólfsstræti 23, hin 12 ára gamla Jórunn Dagmar, andann í síðasta sinn. Sorgin er áþreifanleg. Myndin hefur verið dýrmæt minning syrgjandi fjölskyldu enda líklega sú eina sem til er af snótinni. Eins og hefð var fyrir fór jarðarför fram í beinu framhaldi af húskveðjunni þann 7. desember. Nokkrum dögum fyrr fór fram önnur húskveðja við Nýlendugötu sem Eufemia Waage lýsti svo: „Þegar verið var að syngja við húskveðjuna niðri í kjallaranum, greip mig mesta hugarvíl og fór ég bara að hágráta. Svona var lífið leiðinlegt þá.“

Ólafur Oddsson tók myndina sem er birt með leyfi Ljósmyndasafns Íslands.

Anna Þorbjörg ÞorgrímsdóttirÞetta vefsvæði byggir á Eplica