Kápa mánaðarins

Ragnar Þórisson

Ragnar Þórisson (f. 1977) er höfundur málverksins sem mynd er af á forsíðu blaðsins. Það er án titils frá árinu 2016 og allstórt, eða 200 x 180 cm. Þar situr maður sem horfir fram til áhorfenda, að því er virðist, dreginn upp með frjálslegri línuteikningu sem kallast á við einlita fleti í bakgrunninum. Verkið er afrakstur áralangra tilrauna listamannsins sem málar gjarnan manneskjur í hlutlausu umhverfi. Uppstillingar hans sýna fólk á margræðan hátt, sveipað dulúðugu andrúmslofti. Þar blandast stórir, marglaga litafletir við fínlega pensilskrift. Verkin eru opin og gefa til kynna lágstemmda hreyfingu bæði í tíma og rúmi þannig að svo virðist sem listamaðurinn reyni að fanga eitthvað sem auganu er dulið alla jafna. Myndheimur málverkanna er kunnuglegur en jafnframt framandi. Mannsmyndin sem þau sýna kallast í grunninn á við meginuppistöðu málverkaarfleifðarinnar þar sem er að finna portrett af fyrirfólki frá ólíkum tímum. Það eru miðjusettar brjóstmyndir, andlitsmyndir og myndir af standandi og sitjandi mönnum og konum sem stilla sér upp fyrir málarann. Eðli þeirrar gerðar verka er að viðkomandi fyrirsæta sé þekkjanleg og að í umhverfi hennar megi greina tákn um persónu hennar og stöðu. Í málverkum Ragnars er mannfólkið aftur á móti allflest óþekkjanlegt og hefur hann enga sérstakar fyrirmyndir í huga. Andlitsdrættir eru máðir, teygðir og margfaldaðir, líkamar huldir stórum litaflötum eins og kuflar. Umhverfi þeirra gefur sáralitlar upplýsingar, aðeins óljósa tilfinningu fyrir því að vera utandyra eða inni. Ragnar útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2010. Hann hefur haldið nokkrar einkasýningar, tekið þátt í samsýningum og framundan er þátttaka hans í hinum Norræna tvíæringi, Momentum, í Moss í Noregi. Þá verða verk hans til sýnis í Listasafni Reykjavíkur á næstunni.

Markús Þór Andrésson

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica