Kápa mánaðarins

Skagaströnd, janúar 1918

8.12.2006

             

Árið 1918 hófst með fádæma kuldakafla um land allt. Yfir 20 stiga frost í Reykjavík dag eftir dag og 30 stig fyrir norðan þar sem hafís lagðist að landi. Alla innfirði lagði og víða var gengt á ís þar sem sjaldan eða aldrei hafði frosið. Frostið sprengdi vatnsleiðslur og fréttir bárust af hrossum sem frusu í hel standandi í haga. Bátar lágu fastir við bryggju. Á sama tíma var vöruskortur sökum styrjaldarinnar og nauðþurftir seldar afarverði. Hún vakti því að vonum gleði í Blönduóslæknishéraði, einu 47 læknishéraða landsins, fréttin af innlyksa stórhvelum við Skagaströnd. Hvalirnir voru fastir við vök skammt innan kaupstaðarins en utan þeirrar fiskhelgi sem tilheyrði landeiganda samkvæmt rekabálki Jónsbókar.

Norðurland, tímarit sem var gefið út á Akureyri, greinir frá því að kaupmaðurinn í Höephnerverslun á Skagaströnd, Carl Berndsen, hafi ásamt þrjátíu sjómönnum og öðrum kaupstaðarbúum unnið á tveimur hnúfubakstörfum sem síðan voru dregnir upp á ísinn. Við drápið voru notuð lagvopn, skutull og annað, smíðuð af Brynjólfi Lýðssyni ábúanda á Ytri-Ey. Verslunarstjórinn Evald Hemmert tók myndina af hvalnum liggjandi á ísnum með Spákonufell í baksýn. Þaninn kviðurinn snýr upp og menn að undirbúa skurð því flensihnífur er kominn á loft. Fólk kom víða að framan úr sveitum til að kaupa spik og rengi og þó að hvalurinn hafi verið seldur afar ódýrt varð hluturinn yfir 300 krónur. Samtímaheimild segir annan hvalinn 40 álnir (25 metra) og hinn 50 (31 metra). Menn hafa getið sér þess til að hvor hvalur hafi gefið af sér nálægt 6000 krónum. Á sama tíma lá tillaga fyrir Alþingi um að hækka árslaun héraðslækna í 2500 krónur.

Hnúfubakur (Megaptera novaeangliae) er skíðishvalur, (getur orðið 90 ára og 35 tonn) syndir fremur hægt og heldur sig nálægt landi. Þeir voru því auðveld bráð og fækkaði verulega með aukinni veiði. Hnúfubakur var alfriðaður árið 1955 og er í dag tiltölulega algengur og sýnilegur við Íslandsstrendur.

Myndin er birt með leyfi Sigurðar Hrafns Þórólfssonar.

 

Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir

 

Læknablaðið hefur fengið Önnu Þorbjörgu Þorgrímsdóttur til liðs við sig til að velja og skrifa um kápumyndir á 104. árgang blaðsins í tilefni 100 ára afmælis Læknafélags Íslands. Myndirnar tengjast þeim efnum sem verða í brennidepli afmælisgreina hvers tölublaðs.

Mynd janúarblaðsins er tekin nánast á þeim degi þegar félagið var stofnað, 14. janúar frostaveturinn mikla 1918.Þetta vefsvæði byggir á Eplica