Kápa mánaðarins

Jóhannes Atli Hinriksson

 

Jóhannes Atli Hinriksson (f. 1975) sýndi nýverið í nýjum húsakynnum hins listamannarekna sýningarrýmis, Kling og Bang, í Marshall húsinu á Granda. Á forsíðu Læknablaðsins er mynd af titilverki sýningarinnar, Ok, api Allt í lagi, frá þessu ári, 2017. Verkið er af sama meiði og aðrir skúlptúrar listamannsins sem gjarnan eru samsettir úr fundnum efnum. Hann gerir jafnframt tvívíð klippiverk sem byggja á sömu aðferð, endurvinnslu fundins myndefnis. Verk Jóhannesar Atla skírskota til launhelga og skurðgoða frá menningarheimi fjarri okkur í tíma og rúmi. Efniviðurinn og myndefnið eru þó greinilega afsprengi okkar samtíma, þau minna okkur á ofgnótt neyslu- og afþreyingarsamfélagsins. Skúlptúrinn Ok, api Allt í lagi er nokkurs konar tótem sem sýnir groddalega eftirmynd apa, útskorinn í frauðplast og tré. Hann trónir ofan á hausmynd manns sem virðist afmyndaður, blár og marinn. Ef til vill einhvers konar tilvísun í lof heimskunnar eða áminning um sigur náttúrunnar í stríði mannsins gegn henni. Á sýningunni mátti sjá ýmsa útfærslu af því sem kallað var í kynningu, fórnarlömb sköpunar. Jóhannes Atli lauk BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2000 og MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 2005. Hann hefur haldið sýningar víða um heim en sýning hans í Kling og Bang var sú fyrsta hérlendis í nokkurn tíma. 

Markús Þór AndréssonÞetta vefsvæði byggir á Eplica