Kápa mánaðarins

Margrét Helga Sesseljudóttir

 

 

Forsíðu Læknablaðsins nú í upphafi sumars prýðir ársgömul ljósmynd tekin á horni Freyjugötu og Mímisvegar í Reykjavík. Þar var á sínum tíma til húsa Listasafn ASÍ sem nú hefur flutt starfsemi sína þaðan. Sem kunnugt er var safnhúsið byggt af Ásmundi Sveinssyni og nefnt eftir honum, Ásmundarsalur. Hann bjó þar og starfaði ásamt konu sinni, Gunnfríði Jónsdóttur, sem einnig var myndhöggvari. Síðustu misserin áður en Listasafn ASÍ flutti var starfræktur sýningarvettvangur í garðinum fyrir utan húsið sem kallaður var Stöpull Gunnfríðar Jónsdóttur. Þar sýndu listamenn útiverk og val þeirra fór þannig fram að þeir völdu sjálfir sinn eftirmann á stöplinum. Í fyrrasumar kom röðin að Margréti Helgu Sesseljudóttur (1988) sem var sjöundi listamaðurinn í sýningarröðinni. Hún setti upp verk sitt, Undur sem er  hógvær
Guð
, 2016. Í stað þess að sitja ofan á stöplinum, eins og títt er um útiskúlptúra, umvafði verkið hann. Það myndaði sterkt þrívítt form, samsett úr ferhyrningum, bogum og hring og virtist minna á einhvern hlut eins og það ætti sér ákveðna fyrirmynd. Efnisvalið var óhefðbundið og féll ekki að hefðinni um varanleika verka í almenningsrými sem eru iðulega úr steini eða málmi. Verk Margrétar Helgu var úr mjúku og forgengilegu efni, bláleitt að lit og klætt glæru plasti sem máði út útlínur þess og ytri mörk þannig að form og efniskennd urðu mjúk og óræð. Titillinn setti svo punktinn yfir i-ið í allsherjar afbyggingu listamannsins á útilistaverkum eins og þeim sem við eigum að venjast – upphöfnum minnisvörðum karla um aðra karla. Margrét Helga útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2010. Hún vinnur gjarnan með líkamann og skoðar tengsl hans við umhverfið, en einnig skapar hún ljóðræn verk sem búa yfir sterkri efniskennd án skírskotunar til sérstakra hugmynda eða umfjöllunarefna.

Markús Þór Andrésson

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica