Kápa mánaðarins

Arnar Ásgeirsson

 

Arnar Ásgeirsson er fæddur árið 1982 og lauk framhaldsnámi í myndlist  frá Gerrit Rietveld Akademíunni í Amsterdam árið 2009. Verk Arnars á forsíðu er hluti af viðamikilli röð teikninga sem hann silkiþrykkir í takmörkuðu upplagi. Yfirskrift þeirra er Transmutants andEmotional Curves, 2017. Listamaðurinn lýsir þessum 72 teikningum sem ólíkum tilfinningaflækjum, verkefni sem byrjaði smátt en vatt upp á sig. Fyrirhuguð er útgáfa bókar með myndunum og stuttum textum sem eiga við hvert verk. Teikningarnar eiga það sameiginlegt að sækja í myndmál gróðurs og náttúru og þannig kallast þær á við kunnuglegar allegóríur um undirmeðvitund og sálarlíf. Þar mætti nefna hugmyndir föður greiningarsálfræðinnar, Carls Gustavs Jungs, um vísun til skógarins þegar rætt er um tilfinningar. Arnar hefur fengist við áþekkar grafískar teikningar með sínum einkennandi stíl, línuteikningu og skyggingu sem minnir á myndmál teiknimyndasöguhöfunda. Verkin eru ýmist fígúratíf eða hálfabstrakt eins og jurtavafningarnir sem hér um ræðir. Önnur verk Arnars eru af ólíkum toga og útfærð í ýmsa miðla, meðal annars skúlptúrar og vídeó. Þar er listamaðurinn líka á andlegum og tilfinningalegum nótum, til dæmis þar sem hann styðst við dáleiðslu og tekst á við spurningar um lífshamingju. Loks ber að nefna áhuga Arnars á verkum annarra listamanna en hann hefur gjarnan vísað í höfundarverk annarra þar sem hann veltir upp spurningum um uppruna hugmynda, gildi frumsköpunar og hins einstaka listaverks. Þá vekja verk hans vangaveltur um eðli, hlutverk og vægi listsköpunar og listnautnar. Þær pælingar setur hann fram á sýningu undir heitinu Happy People sem hann stýrir og stendur út júlímánuð í Nýlistasafninu í Marshallhúsinu við Reykjavíkurhöfn.

Markús Þór Andrésson

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica