Kápa mánaðarins

Við enda færibandsins eða hluti langrar keðju?

Við erum stödd við enda færibandsins í nýinnréttaðri smitgáttardeild (steríldeild) Lyfjaverzlunar ríkisins í Borgartúni 6. Árið er 1979. Salvör Veturliðadóttir og Guðríður Guðjónsdóttir bera glerflöskur samviskusamlega upp að ljósi. Þær grandskoða hverja flösku sem allar innihalda innrennslislyf. Er flaskan heil? Er mögulega eitthvað torkennilegt við innihaldið? Leiki minnsti vafi á að varan sé í fullkomnu lagi er hún tekin til hliðar, annars er flöskunni pakkað í kassa og er tilbúin til afhendingar.

Stungulyf eru framleidd með smitgát (aseptískt) og áður en kemur að hinni nákvæmu skoðun hafa margnota flöskurnar runnið á færiböndum, fyrst tvívegis í gegnum þvottavél og sótthreinsun og þaðan að áfyllingarvél sem staðsett er í dauðhreinsuðu herbergi. Þar er skipt um loft 20 sinnum á klukkustund og starfsfólkið er með grímur. Að lokum eru flöskurnar hitaðar upp í 120 °C í 20 mínútur enda þurfa stungulyf að vera sæfð (steríl).

Í upphafi fór framleiðsla innrennslislyfja fram á sjúkrahúsunum en fluttist til Lyfjaverzlunarinnar 1954. Þá hafði þörfin aukist verulega vegna framfara á sviði skurðlækninga og svæfingalækninga. Stöðugt flóknari skurðaðgerðir voru gerðar á æ veikari sjúklingum sem var bætt vökvatap og saltmissir með blöndu af vatni, glúkósa og dálitlu af matarsalti. Í byrjun voru framleiddir 50 lítrar á dag en þegar hér er komið sögu 500-1000 lítrar.

Nýja færibandið nýttist ekki lengi. Sex árum síðar, 1985, var glerflöskum skipt út fyrir einnota plastpoka. Framundan voru fleiri breytingar á starfseminni. Lyfjaverzlun ríkisins breyttist í Lyfjaverslun Íslands hf með lögum árið 1994. Einkavæðingu lyfjaframleiðslunnar lauk ári síðar og 2002 hætti framleiðsla innrennslislyfja því hún þótti ekki lengur svara kostnaði. Þar sem innflutningur getur raskast vegna heimsfaraldurs, farsótta, náttúruhamfara eða verkfalla voru árið 2006 sett lög um neyðarframleiðslu dreypilyfja og birgðahald í landinu.  

Ljósmyndina tók Bjarnleifur Bjarnleifsson og birtist hún ásamt fleiri myndum í Dagblaðinu 24. janúar 1980.

 

Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica