Ágrip erinda

Ágrip erinda

E-1        Forgangsröðun þjónustu til aldraðra einstaklinga:
heimaþjónusta og dvöl á hjúkrunarheimili

Ingibjörg Hjaltadóttir

Flæðisviði Landspítala

ingihj@landspitali.is

Bakgrunnur: Stefna stjórnvalda er að einstaklingar geti dvalið eins lengi á eigin heimili og kostur er. Jafnframt þessu hefur reynslan erlendis sýnt að þegar hlutfall veikra aldraðra sem dvelja heima hækkar þá fjölgar þeim sem leita eftir þjónustu á bráðamóttökum og sjúkrahúsum. Því er mikilvægt að bregðast rétt við þörfum þeirra sem dvelja heima með því að forgangsraða þjónustu sem er í boði í samræmi við þörf einstaklinga hvort sem um heimaþjónustu er að ræða eða hjúkrunarheimilisdvöl. Ætla má að umfang heimaþjónustu muni einnig aukast á næstu árum sem og kröfur um gæði, hagkvæmni og samræmda skráningu.

Markmið: Forrannsókn kannaði notagildi interRAI Home Care (interRAI HC). Upphafsmats við mat á heilsufari og MAPLe reikniritsins (e. Method to Assess Priority Levels) til að meta þörf fyrir þjónustu og kanna samræmi þess við þjónustu sem þegar var veitt.

Aðferðir: Gagnasöfnun fyrir forrannsóknina fór fram á tímabilinu febrúar til júní 2013. Heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta á Höfn í Hornafirði, Akureyri, Sauðárkróki auk félagslegrar heimaþjónustu í Reykjavík gerðu RAI HC Upphafsmat fyrir 200 einstaklinga. Einnig fékkst aðgangur að interRAI Home Care mati úr gagnagrunni frá Heimahjúkrun í Reykjavík og á Selfossi fyrir árin 2012-2013 (n=841). Lýsandi tölfræði var notuð við greiningu á gögnum.

Niðurstöður: Hlutfall kvenna sem þáðu heimaþjónustu var frá 37,5 til 73,6% eftir landsvæðum og meðalaldur var frá 74 til 84 ára. Hlutfall þeirra sem fengu heimahjúkrun og voru í 1. flokki MAPLE (þ.e. með góða ADL og vitræna getu) voru frá 11,9-44,0% eftir landsvæðum og þeir sem fengu félagslega heimaþjónustu og voru í 1. flokki MAPLE voru frá 42,9-63,0%. Heilsufar og þarfir einstaklinga samrýmdust vel niðurröðun í MAPLE flokka. Hins vegar reyndist sú þjónusta sem einstaklingarnir fengu ekki vera í samræmi við heilsufar þeirra eða flokkun í MAPLE.

Ályktanir: Niðurstöður gefa vísbendingar um að betur megi standa að vali á þjónustu til einstaklinga og að interRAI HC Upphafsmat og MAPLE reikniritið geti verið gagnlegur rökstuðningur fyrir ákvörðun fagfólks um forgangsröðun heimaþjónustu til einstaklinga.

 

 

E-2          Tilvísun aldraðra í hjúkrunarstýrð úrræði eftir endurteknar komur á bráðamóttöku

Ingibjörg Sigurþórsdóttir1, Elísabet Guðmundsdóttir1, Hlíf Guðmundsdóttir1, Helga Rósa
Másdóttir1, Lovísa Jónsdóttir1, Sigrún Sunna Skúladóttir1, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2

1Bráðadeild Landspítala, 2Háskóla Íslands

ingis@landspitali.is

Bakgrunnur: Aldraðir eru vaxandi hópur sjúklinga á bráðamóttökum. Kemur þar bæði til fjölgun aldraðra og að hækkandi aldur leiðir til versnandi heilsu og aukinnar þarfar fyrir heilbrigðisþjónustu. Tíðar komur aldraðra á bráðamóttöku hafa verið tengdar við verri afdrif og hærri dánartíðni. Á síðustu árum hafa verið starfrækt hjúkrunarstýrð úrræði fyrir aldraða, lungna- og hjartabilaða sjúklinga á Landspítala með því mögulega markmiði að fækka endurteknum komum á bráðamóttökur.

Markmið: Að kanna tíðni endurkoma aldraðra á bráðamóttökur Landspítala. Einnig að kanna hvort að félagslegur bakgrunnur, komutími, komuástæða og sjúkdómsgreining væru tengd því að sjúklingum sé vísað í hjúkrunarstýrð úrræði við útskrift af bráðamóttöku.

Aðferðir: Gerð var aftursýn gagnaöflun úr rafrænni sjúkraskrá um komur allra sjúklinga 67 ára og eldri innan 30 daga frá síðustu komu á bráðamóttöku eða 90 daga frá síðustu sjúkrahúslegu á bráðamóttökur Landspítalans árin 2008 til 2012. Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði og könnuð tengsl milli breyta með kí-kvaðrati og reiknað líkindahlutfall (OR) forspárþátta fyrir tilvísun í sérhæfð hjúkrunarúrræði með fjölþátta aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Endurkomur voru 18.154 á rannsóknartímabilinu eða rúmlega 27% af öllum komum 67 ára og eldri. Forspárþættir fyrir tilvísunum í sérhæfð hjúkrunarúrræði voru: búseta á höfuðborgarsvæðinu (OR 3,19; 95% vikmörk (CI):1,17-8,66), hækkandi aldur (OR 1,03 95% CI:1,01-1,06), lungnasjúkdómur (OR 4,17 95% CI:2,53-6,88), hjarta- og æðasjúkdómur (OR 1,80 95% CI:1,07-3.03), stoðkerfissjúkdómar eða beinbrot (OR 1,56 95% CI:1,01-2,41) eða einkennagreining samkvæmt ICD-10 (OR 2,04 95% CI:1,36-3,06). Kyn og hjúskapur reyndust hafa samvirkni: giftum konum (OR 2,10 95% CI) var frekar vísað en giftum körlum, einbúum (konur OR 1,16; karlar OR 2,44; 95% CI) var frekar vísað samanborið við gifta.

Ályktanir: Á rannsóknartímabilinu voru auknar líkur á tilvísunum aldraðra í sérhæfð hjúkrunarúrræði eftir endurkomu á bráðamóttöku fyrir þá sjúklingahópa þar sem slík úrræði eru í boði. Huga mætti að öðrum hópum aldraðra sem koma endurtekið á bráðamóttöku. Kyn og hjúskaparstaða gætu sagt fyrir um þarfir aldraðra eftir endurteknar komur á bráðamóttöku.

 

 

E-3          Komur aldraðra, 67 ára og eldri, á bráðamóttöku Landspítala vegna meiðsla á árunum 2011-2012

María Guðnadóttir1, Edda Björk Þórðardóttir1,2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3,4  Brynjólfur Mogensen3,5

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 2sálfræðideild Háskóla Íslands, 3rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 4hjúkrunarfræðideild, 5læknadeild Háskóla Íslands

mag85@hi.is

Bakgrunnur: Fyrri rannsóknir benda til að slys séu leiðandi orsök meiðsla á meðal aldraðra og að tíðni slysa aukist með aldri.

Markmið: Að athuga hver árlegur fjöldi koma á bráðamóttöku Landspítala vegna meiðsla af völdum slysa væri á meðal 67 ára og eldri og orsakir þeirra.

Aðferðir: Rannsóknarhópurinn samanstóð af einstaklingum 67 ára og eldri, sem komu á bráðamóttöku Landspítala á árunum 2011 og 2012. Gagna var aflað úr komuskráningarkerfi (NOMESCO) og rafrænni sjúkraskrá (Sögu) um allar komur vegna slysa, aðstæður slyss og ICD10-greiningu.

Niðurstöður: Alls leituðu 4969 einstaklingar, 67 ára og eldri, til bráðamóttöku á tímabilinu 2011-2012. Af hverjum 1.000 íbúum 67 ára og eldri leituðu að meðaltali 72 til bráðamóttökunnar á þessu tímabili vegna meiðsla. Fleiri konur en karlar leituðu til Landspítala vegna slysa bæði árin (83 af hverjum 1000 konum á móti 60 af hverjum 1000 körlum). Slysatíðni jókst með hækkandi aldri og var mest í aldurshópnum >90 ára (134 slys á 1000 íbúa). Flest slysanna (3567/4969; 72%) gerðust á heimili eða í næsta nágrenni þess. Helstu orsakir slysanna voru föll (3687/4969; 74%), bæði á meðal kvenna (2465/3094; 80%) og karla (1222/1875; 65%). Algengustu ICD-10 greiningarnar voru sár á höfði (5,1%; n=280), brot á sveif (4,3%; n=233), rifbrot (3,4%; n=188), lærleggsbrot (3,1; n=171) og upphandleggsbrot (3,0%; n=162).

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að slysavarnir aldraðra þurfi að vera markvissari og beinast að heimilum og stuðla þannig að fækkun slysa hjá þessum aldurshóp.

 

 

E-4          Gjörgæslusjúklingar á bráðamóttökum
Landspítala 2010-2012

Þorsteinn Jónsson1,2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Landspítala

thorsj@hi.is

Bakgrunnur: Erlendar rannsóknir sýna að sjúklingar sem þarfnast gjörgæslumeðferðar eru of lengi á bráðamóttöku. Lengri dvöl á bráðamóttöku fyrir innlögn á gjörgæsludeild er talin hækka dánartíðni sjúklinga, þar sem á bráðamóttökum eru almennt lakari aðstæður til að sinna gjörgæslusjúklingum. Þá hafa komið fram vísbendingar erlendis um að sjúklingum á bráðamóttökum sem þarfnast gjörgæslu fari fjölgandi.

Markmið: Að skoða umfang og afdrif sjúklinga sem lögðust inn á gjörgæsludeild frá þremur bráðamóttökum Landspítala.

Aðferð:Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúklinga sem skráðir voru inn á gjörgæslu frá einni af þremur bráðamóttökum Landspítala (BMT í Fossvogi; Hjartagátt við Hringbraut og BMT barna við Hringbraut) frá 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2012. Rýnt var í fjölda, kyn, dagsetningu, Emergency Severity Index (ESI) forgangsflokkun, dvalartíma á bráðamóttöku, legutíma og 30 daga dánartíðni.

Niðurstöður: Alls lögðust 1475 sjúklingar inn á gjörgæsludeildir Landspítala á rannsóknartímabilinu, 884 karlar (60%) og 591 kona (40%). Fjöldi sjúklinga var svipaður milli ára. Flestir lögðust inn á gjörgæsludeild í Fossvogi, eða 1120 sjúklingar (76%) og 355 sjúklingar á gjörgæsludeild við Hringbraut (24%). Flestir sjúklingar voru í forgangsflokki ESI 2 (n=810, 64%). Meðaldvalartími á bráðamóttöku fyrir innlögn á gjörgæsludeild var um þrjár klukkustundir, SF 3,4 klst. (spönn: 0-44,7 klst). Meðallegutími á gjörgæsludeild var tæplega 68 klst. og var svipaður milli ára. Þá var meðallegutími á sjúkrahúsi rúmlega 21 dagur. Þrjátíu daga dánartíðni hjá sjúklingum sem lögðust inn á gjörgæsludeild frá bráðamóttöku var rúmlega 17% (n=253).

Ályktanir: Margir sjúklingar af bráðamóttökum Landspítala leggjast inn á gjörgæsludeild. Þá endurspeglar ESI forgangsflokkun og há 30 daga dánartíðni bráðleikann. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir lengd dvalar sjúklinga sem þarfnast gjörgæslumeðferðar á bráðamóttöku.

 

   

E-5          Forprófun á mælitækinu Pain assessment in advanced dementia (PAINAD) til að meta verki hjá einstaklingum sem eiga erfitt með að tjá verki

Elfa Þöll Grétarsdóttir1,2, Ingibjörg Hjaltadóttir1,2, Guðrún Dóra Guðmannsdóttir1,, Svandís Íris Hálfdánardóttir4,, Karen Kjartansdóttir1,, Gunnar Tómasson3

1Öldrunardeild, flæðissviði, Landspítala,2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 4líknardeild Landspítala

elfag@landspitali.is

Bakgrunnur: Erfitt er að veita verkjameðferð byggða á formlegu verkja-mati hjá þeim sem ekki geta notað hefðbundin verkjamælitæki, t.d. vegna heilabilunar.

Markmið: Að prófa réttmæti íslenskrar þýðingar á PAINAD verkjamati hjá öldruðum sjúklingum.

Aðferðir: Þátttakendur voru fengnir með hentugleikaúrtaki á tveimur öldrunarlækningadeildum LSH og meðal íbúa á hjúkrunarheimili. Upplýsts samþykkis var aflað frá sjúklingum eða aðstandendum. Verkir voru metnir á 11-punkta númera kvarða (NRS) og með íslenskri þýðingu á PAINAD mælitækinu sem mælir verki á skalanum 0 til 10 í allt að fernum aðstæðum: i) í hvíld, ii) við aðhlynningu, iii) við flutning (t.d. úr rúmi í stól) og iv) á göngu. Sjúkdómsgreiningar tengdar við verki (meinvörp í beinum, samfallsbrot og önnur beinbrot) voru fengnar úr sjúkraskrá. Vitræn geta var mæld með Mini-mental state examination (MMSE) sem gefur skor á bilinu 0 til 30. Fylgni milli verkja skv. NRS og PAINAD var reiknuð með Pearsons prófi og niðurstöður settar fram með fylgnistuðlum. Meðalverkjaskor hjá sjúklingum með brot eða meinvörp í beinum og þeim án beinasjúkdóms voru borin saman með t-prófi. Reiknuð voru p-gildi og miðað við 0.05 fyrir tölfræðilega marktækni.

Niðurstöður: Gögn fengust frá 90 einstaklingum, þar af voru 55 (61,1%) konur, meðalaldur 82,9.ár (sd 8,2 ár). Meðalskor á MMSE var 14,8. (sd 8,3). Upplýsingar um verki á bæði NRS og PAINAD fengust hjá 47 einstaklingum (MMSE meðalskor 17,7 (sd 7,1)). Hjá 43 þátttakendum var eingöngu framkvæmt verkjamat skv. PAINAD (MMSE meðalskor 11,6 (sd 8,4)). Meðalskor PAINAD í hvíld var 0.75 (sd 1,3) og 2,5 (sd 2,6) á NRS. Fylgni milli PAINAD í hvíld og NRS í hvíld var r=0,52, (p=0.0002). Svipaðar niðurstöður fengust við aðhlynningu, við flutning og á göngu. Sautján sjúklingar (18.9%) höfðu meinvörp eða brot í beinum, í þeim hópi var meðalskor á PAINAD í hvíld 1,65 (sd 2.8) samanborið við 0,53 (sd 0,89) án sjúkdóms í beinum (p=0,05). Svipaður eða meiri munur var á PAINAD skorum milli þessara hópa við aðrar aðstæður en í hvíld.

Ályktanir: Íslensk þýðing á PAINAD hefur ytra réttmæti með tilliti til aðgreiningar milli sjúklingahópa sem sennilega hafa mismikla verki og með tilliti til hefðbundinna mæliaðferða á verkjum á meðal sjúklinga með vitræna skerðingu.

 

 

E-6          Gæði lyfjaupplýsinga, samantekt og samanburður á
lyfjaávísanavillum við útskrift aldraðra einstaklinga af sjúkrahúsi
yfir á hjúkrunar- og dvalarheimili

Karen Birna Guðjónsdóttir1,2, Þórunn K. Guðmundsdóttir1, Ólafur H. Samúelsson3

1Sjúkrahúsapóteki Landspítala, 2Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 3Landspítala

kbg6@hi.is

Bakgrunnur: Með hækkandi aldri aukast líkur á fjölþættum heilsufarsvandamálum og fjöllyfjanotkun, þáttum sem hvor fyrir sig tengjast verri afdrifum. Þrátt fyrir að lyf dragi úr sjúkdómsástandi og minnki einkenni þá geta þau leitt til lyfjatengdra vandamála sem eru algeng meðal aldraðra. Við flutning frá sjúkrahúsi yfir á annað þjónustustig geta orðið misbrestir hvað varðar lyfjaupplýsingar.

Markmið: Að meta gæði lyfjaupplýsinga, gera samantekt og samanburð á lyfjaávísanavillum við útskrift aldraðra einstaklinga af lyflækningasviði Landspítala á hjúkrunar- og dvalarheimili. Einnig að hanna lyfjaskýrslu sem fylgir sjúklingum sem fluttust frá lyflækningasviði á Hrafnistu, Eir og Vífilsstaði á 8 vikna tímabili á árinu 2014. Með hönnun lyfjaskýrslunnar var rannsakandi að leitast við að draga úr lyfjavillum við útskrift sjúklinga. Gæði lyfjameðferðar hjá sjúklingum sem útskrifuðust frá Landspítala á hjúkrunarheimili voru metin með gæðavísum.

Aðferð:Lyfjalisti sjúklings við útskrift, staðfestur af lækni, sendur til skömmtunarfyrirtækis. Það móttekur upplýsingarnar, skammtar lyfin og sendir þau á viðkomandi hjúkrunarheimili. Í rannsókninni var metin villuhætta og fjöldi villa í þessu ferli. Sautján einstaklingar fengu lyfjaskýrslu við útskrift, skýrslan var síðan borin saman við skömmtunarkort sjúklings. Með samanburðinum var kannað hvort misræmi ætti sér stað í ferlinu. Í viðmiðunarhópnum voru sjúklingar sem útskrifuðust á önnur hjúkrunarheimili af lyflækningasviði Landspítala, á sama tímabili árið 2013.

Niðurstöður: Við útskrift reyndist meðalfjöldi lyfja vera 11,4 lyf á hvern sjúkling. 53% þeirra sem fengu lyfjaskýrslu við útskrift voru með eina eða fleiri lyfjavillu, en hlutfallið var 78% hjá viðmiðunarhópnum. Algengustu lyfjavillurnar voru úrfellingar þ.e. lyfið var á útskriftarnótu en birtist ekki á skömmtunarkorti. Gæði lyfja voru einnig könnuð, óæskileg lyf voru fundin og flokkuð samkvæmt IPET og skilmerkjum Beers. Samkvæmt skilmerkjum Beers voru 78% sjúklinga með eitt eða fleiri óæskilegt lyf, en samkvæmt IPET voru það 43% sjúklinga.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að bæði lyfjavillur og óæskileg lyf er algengt vandamál við útskriftir aldraðra frá lyflækningadeildum Landspítala. Út frá gögnum rannsóknarinnar er ekki hægt að álykta hversu stórt hlutfall lyfjavilla var vegna ígrundaðra breytinga lækna eða vegna lyfjavilla.

 

 

E-7          Má mylja öll lyf? Lyfjagjafir á hjúkrunarheimilum

Pétur S. Gunnarsson1,3, Hlynur Torfi Traustason1, Ólafur Samúelsson2,3,4, Jón Eyjólfur Jónsson2,3,4, Aðalsteinn Guðmundsson2,4

1Lyfjafræðideild, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3sjúkrahúsapóteki, 4öldrunardeild flæðissviðs Landspítala

petursg@landspitali.is

Bakgrunnur: Lyfjanotkun íbúa hjúkrunarheimila er mikil og algengt að kyngingarörðugleikar eða aðrar færniskerðingar hamli notkun og gjöf hefðbundinna lyfjaforma.

Markmið: Að kanna stöðu lyfjagjafa á hjúkrunarheimilum. Skoðað var hvaða lyf var verið að gefa og fylgst með því hvort að þau væru meðhöndluð og gefin í samræmi við fylgiseðil.

Aðferðir: Rannsóknin fór fram á tveimur hjúkrunarheimilum þar sem farið var á tvær deildir á hvoru hjúkrunarheimili í fjóra daga. Íbúar voru flokkaðir eftir aldri, kyni og hvort að þeir voru með vitræna skerðingu. Fylgst var með hjúkrunarfræðingunum taka til lyfin, undirbúa lyfjagjöfina og gefa íbúum lyfin. Skráð voru niður nöfn lyfjanna, fjöldi og hvort að þau voru brotin í skömmtunarpokanum. Einnig var skráð hvort að lyfin voru mulin eða hylkin opnuð og þá í hvaða íblöndunarfasa þau voru gefin.

Niðurstöður: Heildarfjöldi íbúa á deildunum fjórum var 73 og að meðaltali tók hver þeirra 9,5 lyf. Meirihluti allra lyfja sem gefin voru á rannsóknartímabilinu voru mulin (54%). Ef litið er á dreifinguna eftir lyfjaformum er algengast að töflur bæði með og án filmuhúðar séu muldar (61%). Niðurstöður sýna að mulningur á lyfjum er algeng verklagsaðferð hjá hjúkrunarfræðingum og umtalsverðum fjárhæðum er eytt í lyf sem verða við það óvirk. Oft vantar heimildir um það hvort mylja megi töflur eða opna hylki og það getur komið í veg fyrir rétta lyfjagjöf. Úr niðurstöðum rannsóknarinnar var unninn listi yfir þau lyf sem ekki má mylja.

Ályktanir: Mulningur lyfja er almennur á hjúkrunarheimilum og getur ógnað lyfjaöryggi. Mörg lyf verða ónýt eða minna virk við mulning. Þörf er á frekari úttektum og endurskoðun verkferla.

 

 

E-8          Sjúkraflug til Landspítala árin 2011-2012

Elín Rós Pétursdóttir1, Þorsteinn Jónsson1,2 , Brynjólfur Mogensen3,4

1Aðgerðasviði Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4rannsóknastofu Landspítala og HÍ í bráðafræðum

elin.ros@simnet.is

Bakgrunnur: Flutningur sjúklinga milli staða með flugvél hefur aukist á Íslandi síðastliðin ár. Umræða um notagildi og kostnað sjúkraflugs hefur verið mikil, ásamt því að staðsetning á flugvelli í Reykjavík er umdeild. Sjúkraflug hefur lítið verið rannsakað hér á landi.

Markmið: Að greina umfang og eðli sjúkraflugs til Landspítala árin 2011 og 2012.

Aðferð:Stuðst var við afturvirka lýsandi aðferðafræði, þar sem unnið var með gögn úr gagnagrunni þjónustuaðila sjúkraflugs á Íslandi (Mýflug) og úr sjúkraskrárkerfi Landspítala. Í úrtaki rannsóknarinnar voru allir sjúklingar sem fluttir voru með sjúkraflugi Mýflugs til Landspítala frá 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2012.

Niðurstöður: Alls voru 703 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi til Landspítala á rannsóknartímabilinu. Börn 18 ára og yngri voru 11,2% (n=74) og einstaklingar 67 ára og eldri 36,5%(n=241). Meðalaldur var tæp 53 ár (0-95). Flest sjúkraflug voru frá Akureyri (29%) og Vestmannaeyjum (19%). Meirihluti sjúkrafluga voru í F1 (37%) eða F2 (27%) forgangi vegna bráðra og alvarlegra veikinda eða sjúklinga með áverka. Sjúklingar voru oftast fluttir vegna veikinda og flestir voru með hjarta- og æðasjúkdóma (36%). Algengustu áverkar hjá sjúklingum í sjúkraflugi voru áverkar á mjaðmagrind og á neðri útlimum (34%).Algengasta ástæða flutnings barna var tengt fæðingu, meltingarfærasjúkdómum, áverkum, eitrunum eða bruna. Hjá öldruðum voru hjarta- og æðasjúkdómar algengasta orsök flutnings með sjúkraflugi. Alls voru 586 sjúklingar (89,7%) lagðir inn á Landspítala. Legutími var að meðaltali 8,6 dagar (spönn: 1-103 dagar). Þar af voru rúmlega 21% lagðir inn á gjörgæsludeild. Rúmlega helmingur sjúklinga (54,3%) sem fluttir voru með sjúkraflugi til Landspítala fór í aðgerð. Þrjátíu daga dánartíðni sjúklinga sem fluttir voru með sjúkraflugi til Landspítala á rannsóknartímabilinu var 3,8% (n=25).

Ályktanir: Flest sjúkraflug eru í bráðum forgangi. Sjúklingar sem fluttir eru með sjúkraflugi til Landspítala eru alvarlega veikir eða mikið slasaðir. Innlagnartíðni þeirra er há. Fimmtungur sjúklinga þurfti á gjörgæslumeðferð að halda og helmingur allra innlagðra fór í aðgerð.

 

  

E-9          Öryggi barna í innkaupakerrum: Árangursríkt inngrip
til forvarna. Skrásetningu slysa er ábótavant

Árni Þór Eiríksson,Zuilma Gabríela Sigurðardóttir

Sálfræðideild Háskóla Íslands

athe1@hi.is

Bakgrunnur: Öryggi barna ætti að skipta foreldra miklu máli. Að leyfa barni að sitja eða standa ofan í innkaupakerru þar sem vörur eiga að vera, getur verið mjög áhættusamt. Árið 2005 gaf Landlæknisembættið út bækling þar sem fram kom að á hverju ári slasast um 100 börn við það að falla úr innkaupakerrum. Þó voru þetta áætlaðar tölur Landlæknisembættisins því engar samantektir voru til um algengi, alvarleika eða fjölbreytileika slysa sem börn sem sett eru ofan í innkaupakerrur lenda í.

Markmið: Að athuga hvort hægt væri að hafa áhrif á þá hegðun að foreldrar settu börn sín ofan í innkaupakerrur með því að koma fyrir spjaldi með mynd af barni ofan í innkaupakerru innan í bannhring í innkaupakerrum fjögurra verslana á höfuðborgarsvæðinu.

Aðferð: Þrír matsmenn töldu tíðni markhegðunar með endurteknum mælingum áður en spjöldin voru sett í innkaupakerrurnar, eftir að þeim hafði verið komið fyrir og eftir að spjöldin voru tekin úr og var samræmi á milli þeirra k=0,99. Notast var við margfalt grunnskeiðssnið með fráhvarfi til að meta áhrif íhlutunar í verslununum fjórum.

Niðurstöður: Á grunnskeiði var tíðni markhegðunar 7,72 tilfelli að meðaltali, en þegar inngripi var komið fyrir fór tíðni markhegðunar niður í 0,38 tilfelli að meðaltali í hverri mælingu. Þegar inngripið var svo tekið úr innkaupakerrunum fór tíðni markhegðunar í 9,42 tilfelli að meðaltali. Inngripið minnkaði líkur á markhegðun því töluvert.

Ályktanir: Í kjölfar þessarar rannsóknar hafa Rannsóknastofa í atferlisgreiningu við Háskóla Íslands og tryggingafélagið Sjóvá tekið höndum saman og vinna að merkingu innkaupakerra. Mikilvægt er að meta forvarnagildi merkingarinnar á landsvísu til langs tíma eftir því sem fleiri innkaupakerrur eru merktar á landinu og því er nauðsynlegt að fylgjast með og skrásetja upplýsingar um þau slys sem verða á börnum sem eru sett ofan í innkaupakerrur.

 

 

E-10        Stunguáverkar sem leiddu til innlagna
á Landspítala 2005-2014

Una Jóhannesdóttir1, Guðrún María Jónsdóttir2, Bergrós Kristín Jóhannesdóttir4, Hjalti Már Björnsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,4, Brynjólfur Mogensen1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3bráðadeild og 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

brynmog@landspitali.is

Bakgrunnur: Slys og ofbeldi eru meðal algengustu dánarorsaka fólks á aldrinum 15-44 ára. Á heimsvísu er talið að rúmlega fimm milljónir manna deyi vegna afleiðinga slysa og ofbeldis. Tegund ofbeldis er mismunandi milli heimshluta, landa og innan landa. Fáar rannsóknir eru til um faraldsfræði stunguáverka í Evrópu og ekki hafa birst rannsóknir sem ná til heillar þjóðar. Eldri rannsóknir takmarkast oft við ákveðna líkamshluta. Upplýsingar um stunguáverka vantar á Íslandi.

Markmið: Að kanna faraldsfræði sjúklinga með stunguáverka sem voru innlagðir á Landspítala á 10 ára tímabili með áherslu á greiningu, meðferð og afdrif.

Aðferðir: Í þessa afturskyggnu rannsókn voru teknir allir einstaklingar sem voru lagðir inn á Landspítala frá 2005-2014 í kjölfar áverka með hníf eða sveðju. Leitað var rafrænt eftir öllum einstaklingum sem komu slasaðir á Landspítala eftir hnífa- eða sveðjuáverka og áverkarnir flokkaðir samkvæmt NOMESCO-kerfi. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám gjörgæslu- og legudeilda Landspítala. Umfang áverka var metið með alþjóðlegum stöðlum; áverkastigi, áverkaskori og áverkamati.

Niðurstöður: Alls voru 49 sjúklingar lagðir inn (0,15 á hverja 1000 íbúa), þar af voru 42 karlmenn (86%); að meðaltali fimm einstaklingar á ári (bil: 1-10 einstaklingar/ári), meðalaldur 33 ár (bil: 5-68 ár, miðgildi 30 ár). Meirihluti stunguáverka urðu í heimahúsi eða 26 tilfelli (53%), 15 tilfelli utanhúss (31%), fjögur á skemmtistað (8%) og tvö á vinnustað (4%). Meðaltími frá áverka að komu á sjúkrahús var 41 mínúta (bil: 6-161 mín.). Meðal áverkaskor var 9,5 (bil 1-34), 9 einstaklingar (18%) voru alvarlega slasaðir, með áverkaskor 16 og yfir. Meðal áverkamat var 7,0. Meðallegutími var 5,5 dagar (bil: 0-53 dagar, miðgildi 2 dagar). Alls gengust 27 sjúklingar (55,1%) undir aðgerð, og var meðal áverkaskor þeirra 10,6, en 19 þeirra þurftu á gjörgæslumeðferð (38,8%) að halda, þar af 8 í öndunarvél. Tveir lífshættulega slasaðir sjúklingar, með áverkaskor 25 og 29, létust innan 30 daga (4%). Af þeim 47 sjúklingum sem lifðu útskrifuðust 43 heim (91,5%), tveir á endurhæfingardeild, einn á sjúkrahótel og einn á hjúkrunarheimili.

Ályktanir: Stunguáverkar sem leiða til innlagna eru tiltölulega sjaldgæfir hér á landi samanborið við nágrannalönd. Flestir eru mikið slasaðir en 18% einstaklinga reyndust með alvarlega eða lífshættulega áverka. Stór hluti sjúklinga þurfti á gjörgæslumeðferð að halda og meirihluti sjúklinga gekkst undir skurðaðgerð. Dánartíðni þeirra sem leggjast inn á Landspítala eftir stunguáverka er mjög lág (4%) og gæti stuttur viðbragðs- og flutningstími neyðarbíls skipt máli ásamt góðri meðferð á Landspítala.

 

 

E-11        Geðgreiningar og sjálfsvígstilraunir meðal sænskra eftirlifenda tsunami-hamfaranna: Fimm ára pöruð ferilrannsókn

Filip K. Arnberg1,2, Ragnhildur Guðmundsdóttir3, Agnieszka Butwicka4,5, Fang Fang4, Paul Lichtenstein4, Christina M. Hultman4,6, Unnur A. Valdimarsdóttir3,7

1National Centre for Disaster Psychiatry, Department of Neuroscience, Psychiatry, Uppsala University, Uppsölum,2Stress Research Institute, Stockholm University, Stokkhólmi,

3Miðstöð í lýðheilsuvísindum, læknadeild Háskóla Íslands, 4Department of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, Stokkhólmi, 5Department of Child Psychiatry, Medical University of Warsaw, Varsjá, 6Medical Psychology, Departmant of Neuroscience, Uppsala University, Uppsölum,7Department of Epidemiology, Harvard School of Public Health, Boston

rag16@hi.is

Bakgrunnur: Markmiðið var að rannsaka hvort sænskir eftirlifendur tsunami-hamfaranna árið 2004 væru í aukinni áhættu á geðgreiningum og sjálfsvígstilraunum fimm árum eftir heimkomu.

Aðferð: Eftirlifendur tsunami-hamfaranna sem komu heim frá Suðaustur-Asíu (8762 fullorðnir og 3742 börn) voru paraðir við 864.088 óútsetta einstaklinga og 320.828 óútsett börn á kyni, aldri og félagsstöðu. Að auki var upplýsingum um alvarleika útsetningar safnað með spurningalista til 3.534 eftirlifenda og þær notaðar í skammtasvörunargreiningu. Gögn um geðgreiningar og sjálfsvígstilraunir voru fengin úr sænskum sjúkraskrám. Áhættuhlutföll (HR) og 95% öryggisbil (CI) voru reiknuð og leiðrétt fyrir fyrri geðgreiningum fullorðinna og fyrir fyrri geðgreiningum foreldra barnanna.

Niðurstöður: Útsettir fullorðnir einstaklingar voru í meiri áhættu á að fá geðgreiningu en óútsettir fullorðnir einstaklingar (6,2 vs. 5,5%; HRadj=1,21, 95%CI: 1,11-1,32), sérstaklega streitutengdar greiningar (2,1 vs. 1,0%; HRadj=2,27, 95%CI: 1,96-2,62) og sjálfsvígstilraunir (0,43 vs. 0,32%; HRadj=1,54, 95%CI: 1,11-2,13), en ekki lyndis- eða kvíðaraskanir. Áhætta á streitutengdum greiningum var áberandi meðal eftirlifenda með alvarlega útsetningu og á fyrsta árinu eftir hamfarirnar. Það var enginn munur á heildaráhættu á geðgreiningum milli útsettra og óútsettra barna (6,6 vs. 6,9%; HRadj=0,98, 95%CI: 0,86-1,11), þó að útsett börn væru í meiri áhættu á sjálfsvígstilraunum með óvissum ásetningi (HRadj=1,43; 95%CI: 1,01-2,02) og streitutengdum greiningum (HRadj=1,79; 95%CI: 1,30-2,46), aðallega fyrstu þrjá mánuðina eftir hamfarirnar.

Ályktanir: Hamfarir, eins og tsunami-flóðbylgjan, geta, óháð fyrri geðvanda, aukið áhættu á alvarlegum geðgreiningum, aðallega streitutengdum greiningum og sjálfsvígstilraunum, í börnum og fullorðnum.

 

 

E-12        Banaslys í umferðinni á Íslandi í 100 ár

Óli H Þórðarson2, Þorsteinn Jónsson1,3, Ágúst Mogensen2, Sævar Helgi Lárusson2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,3, Brynjólfur Mogensen1,4

1Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, 2Rannsóknarnefnd samgönguslysa, 3hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 4læknadeild Háskóla Íslands

brynmog@landspitali.is

Bakgrunnur:  Banaslys í umferðinni hafa tekið háan toll frá upphafi bílaaldar á Íslandi og umferðarslys kosta árlega um 30 milljarða. Unnið hefur verið að fækkun banaslysa í umferðinni með m.a. umferðaröryggisáætlun, bættum forvörnum með meiri fræðslu, betra vegakerfi, öruggari bifreiðum og meiri þjálfun. Banaslysin hafa verið ítarlega rannsökuð eftir að Rannsóknarnefnd samgönguslysa tók til starfa. Látnum í umferðarslysum hefur fækkað mikið á síðustu 15 árum.

Markmið: Að kanna faraldsfræði látinna í umferðarslysum á Íslandi frá 1915-2014.

Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Að frumkvæði Óla H. Þórðarsonar var unnin banaslysaskrá frá upphafi bílaaldar þar sem stuðst var við gögn frá Samgöngustofu, lögreglu, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Vegagerðinni, fjölmiðlum og hundruði samstarfsaðila um allt land. Skráð var: Fjöldi látinna, kyn, aldur, tegund slyss, fjöldi banaslysa,staðhættir og fleiri þættir.

Niðurstöður: Alls létust í umferðarslysum 1502 á hundrað ára tímabili í 1374 banaslysum. Karlar voru 1062 (71%) og konur 440 (29%). Árið 1997 létust flestir eða 37 í 33 banaslysum. Látnum í umferðarslysum hefur fækkað mikið á síðustu árum og létust 4 á árinu 2014. Á tímabilinu létust 504 börn og ungmenni á aldrinum 0-19 ára eða 34% látinna. Á aldrinum 0-4 ára létust 95, 5-9 ára: 128, 10-14 ára: 70 og 15-19 ára: 211. Fyrsta fórnarlambið í umferðinni var níu ára drengur sem varð fyrir reiðhjóli í Austurstræti árið 1915. Í þéttbýli hafa látist 55% og í dreifbýli 45%. Í upphafi létust flestir í umferðarslysum í þéttbýli en síðustu tvo áratugi létust flestir í dreifbýli. Helstu vegfarendahópar voru ökumenn 530, farþegar 414, gangandi 470 og hjólandi 57. Á bundnu slitlagi létust 58% og á malarvegi 34% en ekki vitað hjá 8%.

Ályktanir: Alls hafa látist 1502 í umferðarslysum á síðustu hundrað árum þar af eru börn og ungmenni þriðjungur. Karlar eru í miklum meirihluta. Banaslysum í umferðinni hefur fækkað mikið á síðustu árum. Þekkingu á orsökum banaslysa í umferðinni hefur fleygt fram síðustu áratugi.

 

 

E-13        Komur slasaðra barna á bráðadeild Landspítala eftir reiðhjólaslys árin 2005-2010

Ármann Jónsson1, Sævar Helgi Lárusson2, Ágúst Mogensen2, Hjalti Már Björnsson1,3, Brynjólfur Mogensen1,3

1Bráðadeild Landspítala, 2Rannsóknarnefnd samgönguslysa, 3læknadeild Háskóla Íslands

armannj@landspitali.is

Bakgrunnur:  Reiðhjólaslys hafa lítið verið rannsökuð á Íslandi og reiðhjólaslys barna hafa ekki verið rannsökuð sérstaklega. Flest slys eru ekki tilkynnt til lögreglu og fjöldi reiðhjólaslysa er því miklu meiri en opinber skráning segir til um. Markmiðið var að kanna faraldsfræði slasaðra barna í reiðhjólaslysum sem komu á Bráðadeild Landspítala frá 1. janúar 2005- 31. desember 2010.

Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og var leitað að reiðhjólaslysum í rafrænu sjúkraskrárkerfi Landspítala. Skráð var: fjöldi slasaðra, kyn, aldur, hjálmanotkun, innlagnir, slysagreiningar og alvarleiki áverka metin skv. ISS áverkaskori ásamt legutíma innlagðra.

Niðurstöður: Alls leituðu 2124 börn á Landspítala eftir reiðhjólaslys á rannsóknartímabilinu, 70% drengir og 30% stúlkur. Meðalaldur barnanna var 10,6 ár. Með hjálm voru 210, án hjálms 115 en í 84,7% tilvika vantaði upplýsingar. Í 82,7% tilfella slasast börn við leik eða tómstundaiðju og gerast slysin við íbúðarsvæði utandyra í 49,6% tilvika. Í 204 tilvikum var enginn gagnaðili í slysi en upplýsingar um gagnaðila vantaði fyrir 1707 tilvik. Flest slysin gerast í maí t.o.m. september eða 1534 talsins. Áverkar voru á efri útlim í 36,7% tilvika og á mjaðmagrind/neðri útlim í 28,4% tilvika. Alls lögðust 72 börn (3,4%) inn á Landspítala þar sem meðallegutími var 5 dagar en 19,4% innlagðra þurfti innlögn á gjörgæsludeild. Samkvæmt ISS-áverkaskori voru 1445 börn lítið slösuð, 581 miðlungs slösuð, 22 voru mikið slösuð en 5 voru alvarlega eða lífshættulega slösuð.

Ályktanir: Mun fleiri drengir en stúlkur komu á Landspítala vegna afleiðinga reiðhjólaslysa þar sem meðalaldur er um 10 ár. Slysin áttu sér yfirleitt stað á vorin og á sumrin. Flestir slösuðust lítið en 72 (3,4%) barnanna þurfti að leggja in, þar af 14 á gjörgæsludeild. Ekkert barn lést á rannsóknartímabilinu. Meirihluti innlagðra (75%) voru drengir. Skráningu þarf að bæta.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica