Ágrip veggspjalda

 Ágrip veggspjalda

Pdf - útgáfa af ágripum veggspjalda


V001Tengsl óbeinna reykinga við kransæðasjúkdóm

Kristján Baldvinsson1, Þórarinn Guðnason2, Ísleifur Ólafsson3, Karl Andersen2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjartadeild, 3klínískri lífefnafræðideild Landspítala

 

Inngangur: Tóbaksreykingar eru einn af megin áhættuþáttum kransæðasjúkdóma. Komið hefur í ljós að óbeinar reykingar valda einnig umtalsverðu heilsutjóni. Með banni við reykingum á opinberum stöðum hefur tekist að draga úr óbeinum reykingum. Fjöldi rannsókna hafa sýnt að tíðni bráðra kransæðatilfella hefur minnkað um 17-20% í kjölfar reykingabanns á opinberum stöðum. Með þessari rannsókn er ætlunin að rannsaka nánar sambandið milli óbeinna reykinga og kransæðasjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framskyggn ferilrannsókn. Öllum sjúklingum sem fóru í hjartaþræðingu á LSH á tímabilinu 27. janúar 2010 – 12. apríl 2010 var boðin þátttaka. Alls var 361 sjúklingi boðin þátttaka þar af tóku 269 þátt, 202 karlar og 67 konur. Upplýsingar um áhættuþætti kransæðasjúkdóma, meðferð og niðurstöður þræðingingar sjúklinga fengust úr SCAAR og RIKSHIA gagnagrunnum. Einnig var spurt um reykingasögu og munntóbaks- og níkótínlyfjanotkun. Þátttakendur voru einnig beðnir um að meta hvað þeir teldu sig vera útsettir fyrir miklum óbeinum reyk. Blóðsýni var tekið af öllum sjúklingum við komu og var cotinine, sem er níkótínafleiða, og hs-CRP mælt í blóði hvers og eins.

Niðurstöður:Þýðið sem notað var við úrvinnslu voru einstaklingar sem ekki reyktu, notuðu ekki munntóbak eða níkótínlyf samkvæmt spurningalista. Mælanlegt cotinine í þessum hópi var talið vera vegna óbeinna reykinga. Hlutfall sjúklinga með mælanlegan cotinine styrk í blóði var 16,4% í hópi þeirra sem fóru í bráða hjartaþræðingu miðað við 10,6% hjá þeim sem fóru í valþræðingu (p=0,34). 16,1% sjúklinga með CRP>2 var með mælanlegt cotenine í blóði miðað við 9,0% hjá sjúklingum með CRP<2 (p=0,23). Hlutfall sjúklinga með mælanlegt cotinine í blóði eykst stigvaxandi eftir því sem kransæðasjúkdómurinn er alvarlegri (p=0,22). Frávik er þó fyrir þrengingu í einni æð.

Ályktanir: Niðurstöður gefa hugsanlega til kynna vísbendingar um að óbeinar reykingar hafi áhrif á tíðni brá ðra kransæðasjúkdóma og alvarleika þess. Niðurstöður voru ekki tölfræðilega marktækar en meira tölfræðilegt afl vantar í rannsóknina til að fá áreiðanlegri niðurstöður.

 

 

V002 Áhrif reglugerðarbreytingar á greiðsluþátttöku vegna statínlyfja á kólesterólgildi hjá sjúklingum með blóðþurrðarhjartasjúkdóma

Karl Andersen1, Linda Rós Björnsdóttir2, Sveinbjörn Gizurarson2, Matthías Halldórsson3, Rannveig Alma Einarsdóttir4

1Hjartadeild Landspítala, 2lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 3landlæknisembættinu, 4deild lyfjamála, Landspítala

 

Inngangur: 1. mars 2009 tók gildi ný reglulgerð um greiðsluþátttöku ríkisins í kólesterollækkandi lyfjum. Einungis var heimiluð greiðsluþátt-taka ódýrasta samheitalyfs (simvastatin 10 og 20 (síðar einnig 40 mg) nema sótt væri um lyfjaskírteini. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta áhrif þessarar nýju reglugerðar á kólesterolmeðferð og árangur meðferðar hjá þeim hjartasjúklingum sem þurftu að breyta meðferð vegna hennar.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingum var safnað um blóðfitulækkandi meðferð og kólesterólgildi sjúklinga sem lögðust inn á hjartadeild LSH einu ári fyrir reglugerðarbreytinguna 1. mars 2009. Upplýsingar um statinlyfjanotkun fengust í lyfjaskrá Landlæknisembættisins.

Niðurstöður: 422 sjúklingar sem lágu á hjartadeild LSH voru útskrifaðir á öðru lyfi en simvastatini síðasta árið fyrir reglugerðarbreytingu. 225 (53%) þeirra samþykktu þáttöku í rannsókninni. 86% þýðisins voru á atorvastatini, 13% á rosuvastatini og 1% á pravastatini. Heildarkólesteról þessara sjúklinga hækkaði að miðgildi úr 3,85 mmol/l í 4,33 mmol/l, eða um 12,5% p<0.001. LDL kólesterol hækkaði einnig, úr 2,0 mmol/l fyrir reglugerð í 2,48 mmol/l, sem er 24% hækkun p<0.001. Þríglýseríð hækkuðu somuleiðis að miðgildi úr 1,23 mmol/l í 1,4 mmol/l, eða um 14% (p=0,08). 27% sjúklinga fengu afgreidd kólesterollyf undir jafngildisskammti. 35% sjúklinga sem höfðu náð meðferðarmarkmiðum (<4,5 mmol/l) fyrir reglulgerðarbreytingu hækkuðu yfir meðferðarmarkmið. Að meðaltali hækkaði kólesterólgildi þeirra um 0,9 mmól/l.

Ályktanir: Reglugerðarbreytingin leiddi til marktækrar hækkunar á kólesterólgildum þeirra hjartasjúklinga sem þurftu að skipta um lyf vegna breytingarinnar. Um þriðjungur sjúklinga sem höfðu náð meðferðarmarkmiði fyrir reglugerðarbreytingu voru yfir meðferðar-markmiðum nokkrum mánuðum síðar.

 

 

 

V003 Draga reykingar úr áhættu á gáttatifi á fyrstu dögum eftir kransæðahjáveituaðgerð?

Davíð O. Arnar1,3, Guðrún V. Skúladóttir1,2, Ragnhildur Heiðarsdóttir1,2, Bjarni Torfason1,5, Runólfur Pálsson1,4, Viðar Ö. Eðvarðsson1,6, Gizur Gottskálksson3, Ólafur Skúli Indriðason4

1Læknadeild, 2lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands, 3rannsóknarstöð hjartasjúkdóma og hjartalækningaeiningu, 4nýrnalækningaeiningu, 5brjóstholsskurðlækningadeild, 6Barnaspítala Hringsins, Landspítala

Inngangur: Gáttatif er algengur fylgikvilli hjartaskurðaðgerða. Meðal þátta sem eru taldir auka áhættu á gáttatifi eru hár aldur, bráð bólgusvörun og aukin styrkur katekólamína í blóði á fyrstu dögum eftir aðgerð. Fyrirbyggjandi meðferð með beta-blokkum hefur enda gefist vel. Neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar reykinga eru vel þekktar. Nikótín hvetur losun katekólamína úr nýrnahettum og taugaendum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna samband reykinga og gáttatifs eftir kransæðahjáveituaðgerðir.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarþýðið samanstóð af 125 sjúklingum sem tóku þátt í slembiraðaðri rannsókn á gagnsemi meðferðar með ómega-3 fitusýrum til að fyrirbyggja gáttatif eftir opna kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala 2007-2009. Allir sjúklingarnir voru í hjartarafsjá meðan á sjúkrahúsdvöl stóð. Endapunktur rannsóknarinnar var gáttatif sem stóð í >5 mínútur. Sjúklingar með fyrri sögu um gáttatif voru útilokaðir.

Niðurstöður: Miðgildi aldurs var 66 ár (spönn 45-82 ára) og 82% voru karlar. Alls fengu 62 sjúklinganna (49%) gáttatif. Gáttatif greindist að meðaltali 2,6 dögum eftir aðgerði. Í gáttatifshópnum reyktu 14.5% á móti 27% í hópnum sem fékk ekki gáttatif (p=0,086). Notkun beta-blokka var svipuð í báðum hópunum. Við fjölþáttagreiningu var líkindastuðull fyrir gáttatif hjá reykingamönnum 0,216 (95% vikmörk 0,070-0,664; p=0,007). Engar tengsl, hvað varðar áhættu á gáttatifi, voru milli reykinga og þátta eins og aldurs, hámarksgildis CRP eða líkamsþyngdarstuðuls.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að reykingamenn séu í minni áhættu á að fá gáttatif eftir kransæðahjáveituaðgerð. Þessar niðurstöður eru óvæntar og kalla á frekari skoðun. Hugsanleg skýring er betra þol reykingamanna fyrir háum styrk katekólamína í blóði á fyrstu dögunum eftir skurðaðaðgerð.

 

 

V004 Er kynbundinn munur á greiningu og meðferð kransæðasjúkdóma hjá öldruðum á Íslandi og í Svíþjóð?

Guðný Stella Guðnadóttir1, Karl Andersen1, Inga Sigurrós Þráinsdóttir1, Bo Lagerqvist2, Þórarinn Guðnason1

1Hjartadeild Landspítala, 2Department of Cardiology, Uppsala Clinical Researsch Center, Svíþjóð

 

Inngangur: Konur fá síðri meðferð við kransæðasjúkdómum en karlar, eru 10 árum eldri við greiningu og hafa verri horfur. Við könnuðum hvort kynbundinn munur væri til staðar á greiningu og meðferð aldraðra sem fara í kransæðaþræðingu (KÞ) á Íslandi og í Svíþjóð.

Efniviður og aðferðir: Allar KÞ á Íslandi og í Svíþjóð eru skráðar framsýnt í gæðaskrá, Swedish Coronary Angiography and Angioplasty Registry. Við bárum saman niðurstöður KÞ vegna bráðs kransæðaheilkennis og kransæðastíflu með ST hækkun í löndunum frá 2007 til 2009 fyrir bæði kynin meðal 70 ára og eldri.

Niðurstöður: Meðalfjöldi KÞ/100,000/ár hjá 70 ára og eldri var 1277 fyrir karla en 600 fyrir konur á Íslandi og 1109 á móti 532 í Svíþjóð (öll p<0,001). Hlutfall kvenna í þessum hópi var 37% á Íslandi en 40% í Svíþjóð (ns). Við KÞ sáust ekki marktæk þrengsli hjá 5% karla en 23% kvenna á Íslandi og 9% karla á móti 21% kvenna í Svíþjóð (bæði p<0,001). Þriggja æða sjúkdómur var algengari hjá körlum í báðum löndum, á Íslandi 31% vs. 17% (p<0,01) en í Svíþjóð 28% vs. 20% (p<0,001). Á Íslandi var engin enduræðavæðing framkvæmd hjá 28% karla en 43% kvenna (p<0,001) en enginn munur var á hlutfalli framkvæmdra hjáveituaðgerða og kransæðavíkkana (KV). Í Svíþjóð var engin enduræðavæðing framkvæmd hjá 21% karla en 31% kvenna, hjáveituaðgerð var framkvæmd hjá 13% vs. 8% og KV hjá 65% vs. 61% (öll p<0,001). Aukaverkanir á Íslandi hjá öllum KÞ með og án KV voru 12% hjá körlum en 10% hjá konum (ns) en 6% vs. 9% í Svíþjóð (p<0,001). Andlát á legudeild á Íslandi voru 3,8% hjá körlum og 0,8% hjá konum (p<0,05) en 1,2% hjá körlum og 1,7% hjá konum í Svíþjóð (p<0,01).

Ályktanir: Sama hlutfall kvenna er meðal eldri sjúklinga í báðum löndum. Alvarlegri kransæðasjúkdómur finnst hjá körlum. Meðhöndlun kynjanna er svipuð í báðum löndum.

 

 

V005 Lækkandi dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma hjá 75 ára og yngri á Íslandi skýrist af batnandi stöðu áhættuþátta meðal þjóðarinnar fremur en nýrri meðferðartækni

Thor Aspelund1,2, Karl Andersen1,2, Vilmundur Guðnason1,2, Bergrún Magnúsdóttir1, Bolli Þórsson1, Gunnar Sigurðsson1,2, Julia Critchley3, Martin O´Flaherty4, Simon Capewell4

1Hjartavernd, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Institute of Health and Society, University of Newcastle, Englandi, 4Department of Public Health, University of Liverpool, Englandi

 

Inngangur: Dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma hefur farið lækkandi á Íslandi frá því um 1980. Í þessari rannsókn er áætlað hversu mikið af þessari lækkun skýrist af batnandi stöðu áhættuþátta, bættri lyfjameðferð og framförum í aðgerðum á sjúkrahúsum hjá 25-74 ára körlum og konum á Íslandi frá 1981-2006.

Efniviður og aðferðir: Við notuðum IMPACT reiknilíkanið til að meta framlag áhættuþátta, lyfjameðferða og skurðaðgerða til lækkunar á dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma. Út frá alþjóðlegum rannsóknum um áhrif þessara þátta á dánartíðni var reiknað vægi hvers um sig á rannsóknartímabilinu. Upplýsingar voru fengnar úr fyrirliggjandi tölulegum upplýsingum frá Dánarmeinaskrá Hagstofu (mannfjöldi, dánartíðni), rannsóknum Hjartaverndar (áhættuþættir) og tölulegum upplýsingum Landspítalans (algengi kransæðastíflu, lyfjameðferða og aðgerða).

Niðurstöður: Á tímabilinu 1981 til 2006 lækkaði dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma um 80% meðal karla og kvenna á aldursbilinu 25-74 ára. Þetta leiddi til 295 færri dauðsfalla árið 2006 en hefðu orðið ef sama dánartíðni væri til staðar og var árið 1981. Fjórðungur af þessari lækkun á dánartíðni skýrist af breytingum á meðferð við kransæðasjúkdómi en um þrír fjórðu hlutar eru vegna hagstæðra breytinga á áhættuþáttum meðal þjóðarinnar (32% vegna lækkunar í kólesteroli, 22% vegna fækkunar reykingamanna, 26% vegna lækkunar á slagbilsþrýstingi og 5% vegna aukinnar hreyfingar). Aukning á algengi sykursýki og offitu á tímabilinu hafði neikvæð áhrif og jók dánartíðni kransæðasjúkdóma um samtals 9%.

Ályktanir: Þrjá fjórðu hluta af lækkandi dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma á Íslandi 1981-2006 má skýra með bættri stöðu grunnáhættuþátta meðal þjóðarinnar. Þetta undirstrikar mikilvægi forvarnaraðgerða með reykingavörnum og bættu mataræði.

 

 

V006 Samanburður á meðferð við hjartaáfalli á Íslandi og í Svíþjóð

Þórarinn Guðnason1, Tomas Jernberg2, Davíð O. Arnar1, 4, Fríða Skúladóttir1, Gestur Þorgeirsson1, Anders Jeppsson3, Karl Andersen1,4

1Rannsóknarstöð hjartasjúkdóma og hjartadeild Landspítala, 2Karolinska University Hospital, Svíþjóð, 3 Sahlgrenska University Hospital, Svíþjóð, 4læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Ýmis sérhæfð meðferð hérlendis er einungis í boði á Landspítala og því mikilvægt að bera árangur saman við erlend sjúkrahús. Tilgangur þessarar rannsóknar var að bera saman árangur af meðferð við bráðu hjartaáfalli á Íslandi og í Svíþjóð.

Efniviður og aðferðir: Árið 2009 hóf Landspítali skráningu allra kransæðasjúklinga í sænska gæðaskrá (SWEDEHEART). Allir sjúklingar með hjartaáfall (I21 til I23 skv. ICD10) á Landspítala árið 2009 voru skráðir á framvirkan hátt og árangur borinn saman við sænsk sjúkrahús.

Niðurstöður: Konur voru 33% sjúklinganna á Íslandi en 36% í Svíþjóð. Miðgildi aldurs var 67 ár á Íslandi og 73 ár í Svíþjóð. Á Íslandi voru 39% hjartaáfalla með ST hækkun á hjartariti en 61% án ST hækkunar og í Svíþjóð voru 26% með ST hækkun en 74% án hennar (p<0,05 fyrir bæði ST hækkun og án ST hækkunar). Við innlögn höfðu 54% íslenskra sjúklinga háþrýsting á Íslandi en 49% Svía (p<0,05). Tíðni sykursýki var 15% á Íslandi en 24% í Svíþjóð (p<0,001). Reykingamenn voru 31% á Íslandi en 20% í Svíþjóð (p<0,001). Blóðfitulyf notuðu 34% á Íslandi og 35% í Svíþjóð. Á Íslandi fóru 80% sjúklinga með ST hækkun tafarlaust í víkkun en 74% í Svíþjóð. Tími frá komu til víkkunar var 46 mínútur á Íslandi en 82 í Svíþjóð (p<0,01). Þá voru 68% sjúklinga á Íslandi en 33% í Svíþjóð víkkaðir innan klukkustundar frá komu (p<0,05). Legutími á Landspítala og sænsku sjúkrahúsunum var sambærilegur. Lyfjagjöf við útskrift var keimlík, t.d var aspirín gefið í 91% tilvika á Ísland og 93% í Svíþjóð en beta-blokkar í 88% og 89% tilvika. Dauðsföll í sjúkrahúslegu voru fátíð, hjá sjúklingum undir 70 ára voru þau t.d. 1,8% á Íslandi og 1,3% í Svíþjóð (p=ns).

Ályktanir: Meðferðin í löndunum er svipuð og í samræmi við alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar um meðferð kransæðastíflu. Landspítali stenst þannig fyllilega samanburð við sænsk sjúkrahús hvað varðar gæði meðferðar hjartaáfalla.

 

 

V007 Samanburður á öllum kransæðaþræðingum á þriggja ára tímabili hjá einstaklingum eldri og yngri en 70 ára á Íslandi og í Svíþjóð

Guðný Stella Guðnadóttir1, Bo Lagerqvist2, Kristján Eyjólfsson1, Karl K. Andersen1, Guðmundur Þorgeirsson1, Gestur Þorgeirsson1, Stefan James2, Þórarinn Guðnason1

1Hjartadeild Landspítala, 2Department of Cardiology, Uppsala Clinical Researsch Center, Svíþjóð

 

Inngangur: Frá árinu 2007 hafa allar kransæðaþræðingar (KÞ) á Íslandi og í Svíþjóð verið skráðar í sænska gæðaskrá, SWEDEHEART. Þar sem aldur hefur áhrif á ýmsar breytur hjá kransæðasjúklingum var ákveðið að skoða hvort munur væri á ýmsum þáttum meðal eldri og yngri sjúklinga í löndunum tveimur.

Efniviður og aðferðir: Allar KÞ voru skráðar framsýnt frá 1.1.2007 til 31.12.2009 og þau gögn rannsökuð. Sjúklingar yngri en 70 ára og 70 ára og eldri voru bornir saman.

Niðurstöður: Á Íslandi voru 33% sjúklinga 70 ára og eldri en 40% í Svíþjóð (p<0,001). Meðalfjöldi KÞ/ár á 100.000 íbúa yngri en 70 ára var 417 á Íslandi en 282 í Svíþjóð, en hjá 70 ára og eldri 2254 vs. 1302 (bæði p<0,001). Konur voru 26% yngri sjúklinga á Íslandi en 29% í Svíþjóð (p<0,001) en 39% vs. 40% eldri sjúklinga (ns). Munur var á ábendingum, stöðug hjartaöng hjá 37% á Íslandi vs. 25% í Svíþjóð, óstöðugt kransæðaheilkenni hjá 28% vs. 37% og bráð kransæðastífla hjá 10% vs. 15% í yngri hópnum (öll p<0,001). Hjá 70 ára og eldri var stöðug hjartaöng ábending hjá 40% vs. 21%, óstöðugt kransæðaheilkenni hjá 32% vs. 44% og bráð kransæðastífla hjá 8% vs. 16% (öll p<0,001). Engin marktæk þrengsli eða aðeins veggbreytingar undir 50% fundust oftar hjá yngri hópnum á Íslandi, hjá 39% vs. 36% (p<0,05) en enginn munur var hjá eldri hópnum. Höfuðstofnsþrengsli fundust oftar á Íslandi, hjá 7% vs. 5% af yngri hópnum en 14% vs. 11% af eldri hópnum (bæði p<0,001). Heildarfylgikvillar voru 3,9% á Íslandi vs. 2,1% í Svíþjóð hjá yngri en 70 ára (p<0,001) en 4,5% vs. 2,8% hjá 70 ára og eldri (p<0,01).

Ályktanir: Tvöfalt fleiri KÞ eru framkvæmdar á Íslandi hjá 70 ára og eldri en kransæðar án þrengsla finnast þó jafnoft á Íslandi og höfuðstofnsþrengsli oftar. Lítil munur sést á fylgikvillum hjá yngri og eldri hópunum.

 

 

V008 Spá um þróun algengis gáttatifs á Íslandi næstu fjóra áratugi

Hrafnhildur Stefánsdóttir1, Thor Aspelund2,3, Vilmundur Guðnason2,3, Davíð O. Arnar1,3

1Hjartadeild Landspítala, 2Hjartavernd, 3læknadeildHáskóla Íslands

Inngangur: Gáttatif hefur alvarlega fylgikvilla, svo sem hjartabilun og slag, og er sjúkdómurinn kostnaðarsamur fyrir heilbrigðiskerfið. Einn sterkasti áhættuþáttur gáttatifs er hækkandi aldur. Markmið rannsóknarinnar var að kanna umfang þessa sjúkdóms hér á landi í dag og reyna að spá fyrir um framtíðarþróun.

Efniviður og aðferðir: Leitað var afturskyggnt í tölvukerfi Landspítalans að öllum höfuðborgarbúum 20-99 ára sem höfðu fengið greininguna gáttatif þar á árunum 1987 til 2008. Við höfum áður sýnt að frá 1991-2008 jókst nýgengi gáttatifs á höfuðborgarsvæðinu um 0.1% (95% CI: -0.6 – 0.9) hjá körlum og 0.9% (95% CI: 0.1 – 1.8) hjá konum. Notað var líkan sem byggir m.a. á nýgengi gáttatifs, dánartíðni og mannfjöldaspá á Íslandi til að spá fyrir um algengi gáttatifs á Íslandi fram til 2050.

Niðurstöður: Algengi gáttatifs á höfuðborgarsvæðinu var 1.9% árið 2008. Það svarar til að á Íslandi hafi 4330 fullorðnir haft gáttatif. Spáð er að árið 2050 verði fjöldinn 10617, ef nýgengi gáttatifs helst óbreytt frá 2008, en 12115 ef nýgengi heldur áfram að hækka. Þessi aukning skýrist af breyttri aldursdreifingu þjóðarinnar (54%), vaxandi mannfjölda (27%) og auknu nýgengi gáttatifs (19%). Árið 2008 voru 50% gáttatifssjúklinga 75 ára að aldri en áætlað er að 2050 verði það um 65%.

Ályktanir: Algengi gáttatifs á Íslandi er hátt í dag. Búast má við að fjöldi sjúklinga muni allt að þrefaldast á næstu fjórum áratugum og að sífellt stærri hluti hópsins verði aldraðir. Þessi breyting skýrist að stærstu af þáttum sem erfitt er að stýra. Gáttatif er þegar alvarlegt lýðheilsuvandamál og mun byrði þessa sjúkdóms fara vaxandi.

 

 

V009 Tengsl ómega-3 fjölómettaðra fitusýra í himnum rauðra blóðkorna og bólguþátta í blóði hjá sjúklingum sem gangast undir opna hjartaskurðaðgerð

Lára Björgvinsdóttir1,2, Ólafur Skúli Indriðason3, Ragnhildur Heiðarsdóttir1,2, Davíð O. Arnar2,4, Bjarni Torfason2,5, Runólfur Pálsson2,3, Kristin Skogstrand7, David M. Hougaard7, Viðar Örn Eðvarðsson2,6, Gizur Gottskálksson4, Guðrún V. Skúladóttir1,2

1Lífeðlisfræðistofnun, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3nýrnalækningaeiningu, 4rannsóknarstöð hjartasjúkdóma og hjartalækningaeiningu, 5brjóstholsskurðlækningadeild, 6Barnaspítala Hringsins, Landspítala, 7Department of Clinical Biochemistry, Statens Serum Institut, Kaupmannahöfn, Danmörku

Inngangur:Bólga kann að eiga þátt í meinmyndun gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð. Ómega-3 fjölómettuðu fitusýrurnar (FÓFS) eikósapentaensýra (EPA) og dókósahexaensýra (DHA) gætu því komið í veg fyrir gáttatif vegna bólguhemjandi eiginleika sinna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl hlutfalls ómega-3 FÓFS í himnum rauðra blóðkorna (RBK) við styrk bólguþátta í blóði og tilkomu gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin byggðist á sjúklingum sem gengust undir opna hjartaskurðaðgerð á Landspítala. Rétt fyrir aðgerð og á þriðja degi eftir aðgerð voru blóðsýni tekin úr sjúklingum og hlutfall fitusýra í himnum RBK ákvarðað. Styrkur bólguþátta í blóðvökva var mældur með ELISA-aðferð. Gáttatif var skilgreint sem óreglulegur óreglulegur taktur er varaði lengur en 5 mínútur á hjartasírita.

Niðurstöður: Af 152 sjúklingum sem tóku þátt í rannsókninni greindust 54,6% með gáttatif. Þeir voru eldri en sjúklingar sem fengu ekki gáttatif og var miðgildi (spönn) aldurs 70 (45-82) ár samanborið við 64 (43-79) ár (P<0,001). Enginn munur var á hlutfalli EPA og DHA í himnum RBK sjúklinga sem fengu gáttatif og þeirra sem ekki fengu gáttatif. Fyrir aðgerð voru neikvæð tengsl milli hlutfalls EPA í himnum RBK og styrks bólguþáttanna IL-18 (r=-0,198, P=0,019) og CRP (r=-0,171, P=0,046), og á milli hlutfalls DHA og styrks IL-6 (r=-0,252, P=0,003), IL-18 (r=-0,303, P<0,001) og TGF-ß (r=-0,202, P=0,016) í blóði. Neikvæð tengsl voru milli hlutfalls EPA og DHA í himnum RBK sjúklinga fyrir aðgerð og styrks IL-18 í blóði á þriðja degi eftir aðgerð (r=-0,188, P<0,027 og r=-0,228, P=0,007).

Ályktanir:Niðurstöður rannsóknarinnar benda til aðEPA og DHA hafi bólguhemjandi áhrif en hátt hlutfall þeirra í frumuhimnum virðist ekki leiða til lægri tíðni gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð.

V010 Snemmkomnir fylgikvillar eftir lokuskipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi 2002-2006

Inga Lára Ingvarsdóttir1, Sólveig Helgadóttir1, Ragnar Danielsen1,2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjartadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

Inngangur: Ósæðarlokuskipti er önnur algengasta hjartaaðgerðin og eru ósæðarlokuþrengsli algengasta ábendingin. Tilgangur rannsóknarinnar var að gera ítarlega rannsókn á árangri ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn sem náði til allra sjúklinga með ósæðarlokuþrengsl er gengust undir ósæðarlokuskipti á Landspítala (LSH) á árunum 2002-2006, samtals 156 einstaklinga. Sleppt var 29 sjúklingum sem fóru í aðgerð vegna ósæðarlokuleka eða höfðu áður farið í hjartaaðgerð. Meðalaldur var 71,7 ár (bil 41-88) og karlar 64,7%. Skráðir voru áhættuþættir og fylgikvillar aðgerðanna, þ.á.m. skurðdauði, en einnig niðurstöður hjartaómunar fyrir og fyrst eftir aðgerð.

Niðurstöður: Algengustu einkenni voru mæði (80,8%) og hjartaöng (52,6%), en 11 sjúklingar voru án einkenna. Fyrir aðgerð var hámarks þrýstingsfall (ΔP) að meðaltali yfir lokuna 74,1 mmHg, útfallsbrot (EF) 57% og EuroScore 9,6%. Meðal aðgerðar- og tangartími voru 282 og 124 mínútur. Ríflega helmingur sjúklinganna gekkst samtímis undir kransæðahjáveitu og 9 undir aðgerð á míturloku. Lífrænni loku var komið fyrir í 127 aðgerðanna (81,4%), í 102 tilvikum án grindar (stentless), og gerviloka hjá 18,6% sjúklinganna. Meðalstærð ígræddra loka var 25,6 mm (bil 21-29) og hámarks þrýstingsfallandi yfir nýju lokuna viku frá aðgerð 28,1 mmHg. Algengustu fylgikvillar eftir aðgerð voru nýtilkomið gáttatif (64%) og nýrnaskaði (32%) en 19 sjúklingar (12,2%) fengu fjöllíffærabilun. Enduraðgerð vegna blæðingar þurfti í 12% tilfella. Miðgildi legutíma var 13 dagar, þar af 1 á gjörgæslu. Skurðdauði (<30 d.) var 6,4%.

Ályktanir: Fylgikvillar eru tíðir eftir ósæðarlokuaðgerðir, sérstaklega gáttatif og nýrnaskaði en einnig blæðingar sem oft krefjast enduraðgerðar. Skurðdauði er helmingi hærri en eftir kransæðahjáveituaðgerðir, sem er í samræmi við aðrar rannsóknir.

 

 

V011 Rof á hjarta eftir gangráðsísetningu - tilfellaröð af Landspítala

Ingvar Þ. Sverrisson1, Halla Viðarsdóttir1, Gizur Gottskálksson2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Tíðni alvarlegra fylgikvilla er lág eftir gangráðsísetningu. Blæðingar og sýkingar eru þar efstar á blaði en einnig er þekkt að rof geti komið á hjartavöðvann og gangráðsvírarnir stungist út úr hjartanu. Um er að ræða sjaldgæfan en hættulegan fylgikvilla. Lýst er 5 tilfellum af Landspítala sem meðhöndluð voru á tveggja ára tímabili.

Efniviður og aðferðir: Safnað var upplýsingum um öll tilfelli þar sem rof á hjarta hafði greinst með vissu eftir gangráðsísetningu á Landspítala frá 1. jan. 2008 til 31. des. 2009. Farið var yfir sjúkraskrár og skráð meðferð og afdrif sjúklinganna.

Niðurstöður: Fimm sjúklingar greindust á tímabilinu, 1 árið 2008 og 4 árið 2009. Á sama tímabili voru gerðar 389 nýísetningar á gangráðum á Landspítala og komið fyrir samtals 700 gangráðsvírum. Tíðni hjartarofs var því 0,7% fyrir hvern vír og 1,3% fyrir hverja gangráðsísetningu. Meðalaldur sjúklinga með rof var 71 ár (51-84 ára), 3 konur og 2 karlar. Algengasta einkennið var brjóstverkur og hafði enginn sjúkl. klár einkenni um bráða hjartaþröng (tamponade). Greining var staðfest með TS (gated CT) eða ómskoðun og greindust allir sjúklingarnir nema einn <3ja vikna frá aðgerð (bil: 1 sólarhr. - 33 mán.). Hjá 3 sjúklinganna var gerður bringubeinsskurður, blóð tæmt úr gollurshúsi (mest 0,5 L), saumað yfir gatið og nýjum leiðslum komið fyrir. Hjá hinum 2 var vírinn dreginn á skurðstofu með vélindaómstýringu. Fjórir sjúklingar lifðu af rofið og útskrifuðust, en 83 ára kona dó á gjörgæslu úr lungnabólgu sem ekki tengdist gangráðsísetningunni.

Ályktanir: Rof á hjartavöðva eftir gangráðsísetningu er hættulegur fylgikvilli sem getur valdið blæðingu inn í gollurshúsið. Fáar rannsóknir eru til um tíðni þessa fylgikvilla og sömuleiðis hvaða meðferð sé skynsamlegast að beita. Mikilvægt er að hafa rof á hjartavöðva í huga hjá sjúklingum með brjóstverk eða lágþrýsting eftir gangráðsísetningu.

 

 

V012 Tíðni gáttatifs eftir kransæðahjáveituaðgerð með tilliti til hlutfalls ómega-3 og ómega-6 fjölómettaðra fitusýra í fosfólípíðum blóðvökva

Guðrún V. Skúladóttir1,2, Ragnhildur Heiðarsdóttir1,2, Davíð O. Arnar2,4, Bjarni Torfason2,5, Runólfur Pálsson2,3, Viðar Ö. Eðvarðsson2,6, Gizur Gottskálksson4, Ólafur Skúli Indriðason3

1Lífeðlisfræðistofnun, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3nýrnalækningaeiningu, 4rannsóknarstöð hjartasjúkdóma og hjartalækningaeiningu, 5brjóstholsskurðlækningadeild, 6Barnaspítala Hringsins, Landspítala

Inngangur: Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur (FÓFS) hafa bólguhemjandi áhrif og mögulega áhrif á rafleiðni í hjarta er gætu komið að gagni við að fyrirbyggja gáttatif eftir opna hjartaskurðaðgerð. Þar sem íhlutunarrannsóknir hafa verið misvísandi var tilgangur rannsóknarinnar að kanna tíðni gáttatifs með tilliti til hlutfalls ómega-3 og ómega-6 FÓFS í fosfólípíðum (FL) blóðvökva.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggðist á sjúklingum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala. Rétt fyrir aðgerð og á þriðja degi eftir aðgerð voru blóðsýni tekin og hlutfall fitusýra í FL blóðvökva ákvarðað. Gáttatif var skilgreint sem óreglulegur taktur er varaði lengur en 5 mínútur á hjartasíriti. Tíðni gáttatifs var borin saman milli fjórðunga af hlutfalli fitusýranna í FL blóðvökva með einþátta og fjölþátta greiningu.

Niðurstöður: Af 125 sjúklingum sem tóku þátt greindust 49,6% með gáttatif. Tíðni gáttatifs var marktækt lægri með hverjum hækkandi fjórðungi af hlutfalli arakídónsýru (AA, ómega-6 FÓFS) og marktækt hærri með hverjum hækkandi fjórðungi af hlutfalli dókósahexaensýru (DHA, ómega-3 FÓFS) bæði fyrir og eftir aðgerð (P<0,01 fyrir allar einþátta greiningar). Marktækt U-kúrfu samband var milli gáttatifs og fjórðunga af ómega-3 FÓFS eftir aðgerð, þar sem næstlægsti fjórðungur hafði lægstu tíðni gáttatifs (25,8%, P=0,01). Við fjölþátta greiningu var þetta U-kúrfu samband ekki marktækt en samband AA og DHA fjórðunga við gáttatif var áfram marktækt (P<0,05).

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að meðferð með ómega-3 FÓFS við gáttatifi eftir opna hjartaskurðaðgerð gæti gagnast sjúklingum með lágt grunnhlutfall þessara fitusýra, en aukið líkur á gáttatifi hjá þeim með hátt grunnhlutfall. Arakidónsýra í fosfólípíðum blóðvökva gæti gegnt mikilvægu hlutverki í raflífeðlisfræðilegum ferlum hjartans.

 

 

V013 Gáttatif eftir opnar hjartaaðgerðir á Íslandi

Sólveig Helgadóttir1, Inga Lára Ingvarsdóttir1, Sæmundur J. Oddsson1, Hannes Sigurjónsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Davíð O. Arnar2,3, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Gáttatif er algengt vandamál eftir opnar hjartaaðgerðir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni gáttatifs eftir hjartaaðgerðir hér á landi, skilgreina áhættuþætti og meta fylgikvilla.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og náði til sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveitu- (n=638) og/eða ósæðarlokuskiptaaðgerð (n=128) á Landspítala 2002-2006. Sjúklingum sem gengust undir aðrar hjartaaðgerðir eða höfðu þekkt gáttatif fyrir aðgerð var sleppt. Gáttatif var greint með hjartalínuriti eða hjartarafsjá, stóð í a.m.k. 5 mínútur, og/eða sjúklingur fékk lyfjameðferð við gáttatifi. Ein- og fjölþáttagreining var notuð til samanburðar áhættuþátta sjúklinga með gáttatif og þeirra með reglulegan hjartslátt.

Niðurstöður: Tíðni gáttatifs fyrir allan hópinn var 44% og reyndist marktækt hærri eftir ósæðarlokuskipti en hjáveituaðgerð (72% sbr. 38%, p<0,001). Útfallsbrot (EF) og helstu áhættuþættir kransæðasjúkdóms voru sambærilegir í báðum hópum, sem og notkun ß-blokkera. Sjúklingar með gáttatif voru hins vegar sjaldnar á blóðfitulækkandi lyfjum, oftar með hjartabilun, marktækt eldri, oftar konur og með hærra EuroSCORE. Vélar- og tangartími þeirra var lengri og tíðni bæði alvarlegra og minni fylgikvilla hærri. Loks var  legutími þeirra helmingi lengri og dánartíðni rúmlega fimmföld (0,9% sbr. 4,8%, p=0,002). Í fjölbreytugreiningu reyndust ósæðarlokuskipti (OR 4,2), heilkenni bráðrar andnauðar (OR 6,0), hár aldur (OR 1,1) og hjartabilun (OR 1,8) sjálfstæðir áhættuþættir gáttatifs.

Ályktanir: Gáttatif er algengasti fylgikvilli hjartaaðgerða hér á landi og greinist hjá næstum helmingi sjúklinga. Þetta er frekar hátt hlutfall en í erlendum rannsóknum er tíðni gáttatifs oftast á bilinu 17-35%. Áhættuþættir hérlendis eru svipaðir og lýst hefur verið í öðrum rannsóknum.

 

 

V014 Blóðfitulækkandi statín lækka dánartíðni sjúklinga eftir kransæðahjáveituaðgerð

Sæmundur J. Oddsson1, Sólveig Helgadóttir1, Hannes Sigurjónsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Sindri Aron Viktorsson3, Þórarinn Arnórsson1, Guðmundur Þorgeirsson2,3, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Hækkun á blóðfitum er þekktur áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma og felst meðferð m.a. í lyfjameðferð með statínum. Sýnt hefur verið fram á að statín minnka bólguviðbrögð (SIRS) í líkamanum, m.a. eftir skurðaðgerðir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif statína á tíðni fylgikvilla og dánartíðni 30 dögum eftir kransæðahjáveituaðgerð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og náði til 720 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala (LSH) árin 2002-2006. Bornir voru saman sjúklingar sem voru á statínum fram að aðgerð (n=529) og þeir sem ekki tóku statín (n=154).  Hóparnir voru bornir saman og ein- og fjölþáttagreining notuð til að meta áhrif statína á fylgikvilla og dánartíðni <30 daga frá aðgerð.

Niðurstöður: Hóparnir voru mjög sambærilegir hvað varðar áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, tegund og tímalengd aðgerða. Sjúklingar á statínum höfðu þó oftar háþrýsting og EuroSCORE þeirra var lægra (4,6 vs. 5,6, p=0,003). Ekki var marktækur munur á tíðni alvarlegra fylgikvilla í hópunum tveimur (5,8 vs. 5,1%), þ.m.t. heilablóðfalli, sýkingu í bringubeini, kransæðastíflu og enduraðgerð vegna blæðingar. Dánartíðni sjúklinga á statínum var hins vegar marktækt lægri (1,7 vs. 5,8%, p=0,001). Í fjölþáttagreiningu, þar sem m.a. var leiðrétt fyrir EuroSCORE (OR 1,36 p=0,003) og hækkandi aldri (OR 1,13, p=0,02), reyndust statín vera sjálfstæður verndandi forspárþáttur 30 daga dánartíðni eftir aðgerð (OR 0,20, p= 0,02).

Ályktanir: Blóðfitulækkandi statín tengjast lækkaðri dánartíðni sjúklinga eftir kransæðahjáveituaðgerð. Erlendis hefur verið lýst svipuðum niðurstöðum eftir opnar hjartaaðgerðir. Skýringin á áhrifum statína er ekki augljós en gæti hugsanleg legið í bólguhemjandi áhrifum þeirra eftir skurðaðgerðina og/eða jákvæðum áhrifum á æðaþelsstarfsemi.

 

 

V015 Slímvefjaræxli í hjarta á Íslandi

Hannes Sigurjónsson1, Karl Andersen2,7, Maríanna Garðarsdóttir3, Vigdís Pétursdóttir4, Guðmundur Klemenzson5, Gunnar Þór Gunnarsson6,7, Ragnar Danielsen2, Tómas Guðbjartsson1,7

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2hjartadeild, 3myndgreiningardeild, 4rannsóknarstofu í meinafræði,  5svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 6Sjúkrahúsinu á Akureyri, 7læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Slímvefjaræxli (myxoma) eru algengustu æxlin sem upprunnin eru í hjarta. Þetta eru góðkynja æxli sem vaxa staðbundið og valda oft fjölbreytilegum einkennum, m.a. stíflu/leka á míturloku og blóðreka. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta nýgengi slímvefjaræxla hér á landi og kanna árangur skurðaðgerða við þeim.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og nær til allra sjúklinga sem greindust með slímvefjaræxli á Íslandi frá því hjartaaðgerðir hófust í júní 1986 og fram til dagsins í dag. Sjúklingar voru fundnir eftir þremur leiðum, meinafræði- og hjartaómunarskrá- og vélindaómskrá frá skurðstofu Landspítala.

Niðurstöður: Alls greindust 9 tilfelli, 3 karlar og 6 konur, með meðalaldur 60,7 ár (bil 37-85). Aldursstaðlað nýgengi var 0,12 á hverja 100.000 íbúa/ári (95% CI: 0.05-0.22). Átta æxli voru staðsett í vinstri gátt og eitt í hægri gátt. Meðalstærð æxlanna var 3,6cm (bil 1,5-7cm). Mæði (n=5) og heilablóðfall vegna reks (n=2) voru algengustu einkennin. Átta tilfelli greindust við hjartaómun og 1 fyrir tilviljun á tölvusneiðmynd af kransæðum. Allir sjúklingarnir fóru í aðgerð þar sem æxlið var fjarlægt. Meðalaðgerðartími var 236 mín. og allir sjúklingarnir lifðu aðgerðina og útskrifuðust heim. Fylgikvillar voru minniháttar, oftast gáttatif (n=4). Legutími var 30 dagar (miðgildi), þar af 1 dagur á gjörgæslu. Í mars 2009 voru 7 sjúklingar af 9 á lífi, allir við góða heilsu og án teikna um endurtekið slímvefjaræxli.

Ályktanir: Einkenni, greining og nýgengi slímvefjaræxla á Íslandi eru svipuð og í erlendum rannsóknum. Eftir því sem best er vitað er þetta fyrsta rannsóknin á slímvefjaræxlum að ræða sem nær til heillar þjóðar og þar sem reiknað er út lýðgrundað nýgengi.

 

 

V016 Gollurshússtrefjun – sjúkratilfelli

Jón Þorkell Einarsson1, Ragnar Danielsen2, Ólafur Skúli Indriðason1, Tómas Guðbjartsson3,4

1Nýrnalækningaeiningu, 2hjartadeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Trefjagollurshús (constrictive pericarditis) er sjaldgæft fyrirbæri þar sem gollurshúsið þrengir að hjartanu og hindrar eðlilega fyllingu þess. Afleiðingin getur orðið hægri hjartabilun með þróttleysi, mæði og bjúg. Trefjagollurshús má stundum rekja til sýkinga, geislameðferðar eða asbestmengunar, en oft er orsökin óþekkt. Greining getur verið snúin og töf orðið á réttri greiningu. Meðferð felst í því að fjarlægja hluta gollurshússins með skurðaðgerð. Hér er lýst tilfelli af Landspítala.

Tilfelli: 58 ára pípulagningamaður leitaði á bráðamóttöku Landspítala vegna þreytu og bjúgs á ganglimum, en hann hafði þyngst um 30 kg á tæpum mánuði. Á 8 ára tímabili var hann nokkrum sinnum lagður inn vegna svipaðra einkenna og voru þá m.a. gerðar rannsóknir á nýrum, hjarta og útlimabláæðum án þess að skýring fengist á einkennum. Sýni úr fleiðru sýndu örvef en engar asbestbreytingar. Við innlögn var mikill bjúgur á neðri hluta líkamans og vó sjúklingurinn 160 kg. Hann fékk þvagræsilyf í æð. Hjartaómskoðun sýndi skertan samdrátt á vinstri slegli og grun um aðþrengjandi gollurshús. Á tölvusneiðmyndum og segulómun sást greinilega þykknað gollurshús (4-5 mm). Við hægri og vinstri hjartaþræðingu féllu þrýstingskúrfur beggja slegla saman í lagbili (kvaðratrótarteikn). Meðalþrýstingur í lungnaslagæð mældist 21 mmHg og fleygþrýstingur 19 mmHg. Á 4 vikum tókst að ná af honum bjúgnum og hann var útskrifaður með háskammta  þvagræsilyf. Hálfu ári síðar var fremri hluti gollurshússins fjarlægður með skurðaðgerð. Aðgerðin gekk vel en gollurshúsið reyndist glerhart og kalkað. Vefjaskoðun sýndi ósérhæfða bólgu. Gangur eftir aðgerð var góður og samdráttur hjartans á ómskoðun betri. Tæpum tveimur árum frá aðgerð er hann við góða heilsu og útlimabjúgur og mæði að mestu leyti horfin á lágskammta þvagræsilyfjameðferð.

Umræða: Þetta tilfelli sýnir hversu erfitt getur verið að greina trefjagollurshús, þrátt fyrir dæmigerð einkenni og sjúkdómsteikn. Með skurðaðgerð er hægt að lækna sjúkdóminn.

 

 

V017 Risagúll frá ósæðarrót – sjúkratilfelli

Þorsteinn Viðar Viktorsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Jón Þór Sverrisson2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2lyflækningadeild Sjúkrahúss Akureyrar, 3læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur:  Ósæðargúlar eru oftast staðsettir á kviðarhluta ósæðar eða í brjóstholi. Sjaldgæft er að ósæðargúlar eigi upptök sín frá ósæðarrót. Hér er lýst nýlegu tilfelli þar sem risagúll gekk út frá hægri sinus valsalva.

Sjúkratilfelli: Áður hraust sjötug kona leitaði læknis vegna mæði. Við hjartahlustun heyrðist óhljóð í lagbili yfir ósæðarloku og á hjartalínuriti sást 1° AV blokk. Tekin var lungnamynd sem sýndi  fyrirferð í hægra brjóstholi, sem á tölvusneiðmyndum reyndist vera 10 x 9 cm ósæðargúll, upprunninn frá hægri sinus valsalva. Á hjartaómun sást iðustraumur í gúlnum og meðal ósæðarlokuleki. Gúllinn þrýsti á hægri gátt og slegil en útstreymisbrot vi. slegils var eðlilegt. Ákveðið var að fjarlægja gúlinn með skurðaðgerð. Á kransæðaþræðingu fyrir aðgerð sáust óeðlilegar kransæðar með næstum fjórfaldri víkkun (ectasia) á vi. framveggsgrein hjartans (LAD). Gerð voru ósæðarrótarskipti og komið fyrir ósæðarrót úr svíni (Freestyle®) í stað gúlsins sem var fjarlægður. Gangur eftir aðgerð var góður og hún útskrifaðist heim til sín 3 vikum síðar. Hálfu ári frá aðgerð er hún án einkenna og ósæðarlokan þétt.

Umræða: Risagúll frá sinus valsalva er sjaldgæft fyrirbæri sem getur haft lífshættulega fylgikvilla í för með sér, sérstaklega rof og blóðsegarek. Einkenni geta geta þó verið hægfara eins og sást í þessu tilfelli, en mæði var rakin til versnandi ósæðarlokuleka auk þess sem gúllinn þrýsti á hægri helming hjartans. Um er að ræða einn stærsta gúl sinnar tegundar sem lýst hefur verið, en mikil víkkun kransæða vekur einnig athygli.

 

 

V018 Erfðabreytileiki í SCN10A geninu eykur áhættu á leiðslutruflunum í hjarta og þörf fyrir gangráð

Hilma Hólm1, Hrafnhildur Stefánsdóttir2, Daníel F. Guðbjartsson1, Guðmundur Þorgeirsson2,3, Augustine Kong1, Unnur Þorsteinsdóttir1,3, Davíð O. Arnar2,3, Kári Stefánsson1,3

1Íslenskri erfðagreiningu, 2lyflækningasviði Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Tólf leiðslu hjartalínurit er mikilvæg rannsókn sem endurspeglar m.a. starfsemi sérhæfða leiðslukerfisins. Meðal breyta sem eru mældar eru hjartsláttarhraði, PR bil og QRS bil sem allar gefa upplýsingar um rafleiðni í hjarta. Frávik í þessum mælingum tengjast áhættu á ýmsum hjartasjúkdómum. Tilgangur rannsóknarinnar var að leita að fylgni milli breytileika í erfðamenginu og hjartsláttarhraða, lengd PR bils og QRS bils.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingum um mælibreytur var safnað úr gagnabanka hjartalínurita (Tracemaster) við Landspítala (2002-2007).  Gerð var víðtæk erfðamengisleit í gögnum frá 10.373-12.760 einstaklingum með upplýsingar um bæði arfgerð og svipgerð. Áhugaverðum tengslum var fylgt eftir í 9.152-10.352 einstaklingum til viðbótar. Kannað hvort tengsl væru á milli ýmissa takttruflana og þeirra erfðabreytileika sem sýndu fylgni við hjartsláttartíðni, lengd PR bils og/eða QRS bils.

Niðurstöður: Marktæk tengsl fundust milli sjö mismunandi erfða-breytileika og einnar eða fleiri hjartalínuritsbreytu. Þar á meðal var erfðabreytileiki (rs6795970) í geninu SCN10A með mjög sterka fylgni við bæði lengd PR bils (P = 9,5 x 10-59) og QRS bils (P = 3,5 x 10-9). Sami breytileiki hafði einnig marktæka fylgni við gangráðsísetningu í íslensku þýði (OR = 1,13, P = 0,0029, N = 1.252 tilfelli og 48.114 viðmið). Samsætan sem hefur fylgni við lengt PR/QRS bil hefur fylgni við auknar líkur á gangráðsísetningu.

Ályktanir: Erfðabreytileikinn rs6795970 í geninu SCN10A hefur fylgni við bæði lengd PR/QRS bils og þörf á gangráð. SCN10A er náskylt SCN5A sem skráir fyrir spennustýrðum natríumgöngum í hjarta. Stökkbreytingar í SCN5A hafa verið tengdar mörgum hjartasjúkdómum, en þetta er í fyrsta skipti sem annað natríumganga gen en SCN5A er tengt rafleiðni hjartans og hjartasjúkdómum.

 

 

V019 Algengi reykinga og langvinnrar lungnateppu hjá skjólstæðingum Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri

Guðrún Dóra Clarke1, Gunnar Guðmundsson2,5, Jón Steinar Jónsson3, 5, Sigrún Sif Jóelsdóttir4, Magnús Ólafsson1

1Heilsugæslustöðinni á Akureyri, 2lungnadeild Landspítala, 3Heilsugæslunni í Garðabæ, 4rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, 5læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur:Skaðsemi reykinga er vel þekkt og hafa rannsóknir sýnt fram á tengsl þeirra við ýmsa lífshættulega sjúkdóma þar á meðal langvinna lungnateppu (LLT). Árið 2009 reyktu 16% Íslendinga 40 ára og eldri daglega. Nýleg íslensk rannsókn frá árinu 2007 sýndi að algengi LLT hjá 40 ára og eldri á höfuðborgarsvæðinu var 18%. Það er vel þekkt að LLT er mjög vangreindur sjúkdómur og greinist oft á síðari stigum. Tilgangur rannsóknarinnar var m.a. að kanna algengi LLT á einni heilsugæslustöð hjá skjólstæðingum með sögu um reykingar og leggja mat á alvarleika sjúkdómsins við greiningu.

Efniviður og aðferðir:Úrtakið voru allir 40 ára og eldri sem leituðu til Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri á fjórum samfelldum vikum (febrúar-mars 2010). Rannsóknin var í formi spurningalista sem þátttakendur svöruðu en valinn markhópur reykingafólks var síðar kallaður inn til lungnamælingar (spirometriu).

Niðurstöður:Afhentir voru alls 416 spurningalistar á tímabilinu og voru heimtur 262 listar (63%). Af þeim 262 voru 142 (54%) sem sögðust reykja eða einhvern tímann hafa reykt og þar af höfðu 124 af þeim áhuga á þátttöku í lungnamælingu. Komu til mælinga 104 (73%) sem uppfylltu skilyrði markhópsins og reyndust 97 mælingar áreiðanlegar. Reyndust N=16 (16,5%) hafa mælanlega LLT og þar af 10 einstaklingar (62,5%) sem ekki höfðu fyrri sögu um LLT. Af þessum 10 einstaklingum með áður óþekkta LLT voru N=3 (30%) með LLT á stigi I og N=7 (70%) á stigi II. Af 262 einstaklingum reykja N=33 (12,7%).

Ályktanir:Meðal skjólstæðinga Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri 40 ára og eldri sem hafa reykingasögu eru 16,5% með LLT og þar af flestir að greinast í fyrsta sinn. Meirihluti hefur vægan eða meðalalvarlegan sjúkdóm. Með markvissri notkun lungnamælinga í heilsugæslu er unnt að bæta greiningu á LLT.

 

 

V020 Algengi svefnleysis meðal kæfisvefnssjúklinga samanborið við almennt þýði og áhrif meðferðar með svefnöndunarvél á svefnleysi 

Erla Björnsdóttir1, Christer Janson3, Sigurður Júlíusson2, Bryndís Benediktsdóttir1, Allan I. Pack4, Þórarinn Gíslason1

1Lungnadeild/svefnrannsókn, 2háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 3lungnadeild Háskólasjúkrahússins í Uppsölum, Svíþjóð, 4svefnrannsókn, Háskólanum í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum

 

Inngangur: Kæfisvefn og svefnleysi eru algeng vandamál sem fylgjast gjarnan að. Samband þeirra er flókið og óljóst en líklegt er að þessir sjúkdómar hafi neikvæð áhrif hvor á annan. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni svefnleysis hjá kæfisvefnssjúklingum í samanburði við hóp úr almennu þýði. Jafnframt að meta áhrif meðferðar með svefnöndunartæki á einkenni svefnleysis hjá kæfisvefnssjúklingum.

Efniviður og aðferðir: 620 kæfisvefnssjúklingar og 748 einstaklingar úr almennu þýði gengust undir læknisskoðun og blóðprufu ásamt því að svara stöðluðum spurningalista um heilsu og svefnvenjur. Kæfisvefnssjúklingar hófu síðan meðferð með svefnöndunartæki og var fylgt eftir með samskonar mati tveimur árum síðar. Þess samantekt byggir á 257 kæfisvefnssjúklingum sem lokið hafa eftirfylgni. Svefnleysi var metið með spurningum frá Sleep-Basic Nordic Sleep Questionnaire. Skoðaðir voru annarsvegar erfiðleikar við að sofna og hins vegar erfiðleikar við að viðhalda nætursvefni.

Niðurstöður: Alls áttu 35 % kæfisvefnssjúklinga erfitt með að viðhalda nætursvefni (vöknuðu oft) samanborið við 17 % viðmiðunarhóps. Þessir svefnörðugleikar eru algengari eftir því sem einkenni kæfisvefns eru alvarlegri. Við eftirfylgd kom í ljós að hjá þeim hópi sem notaði svefnöndunarvél að staðaldri dró mjög úr algengi þess að vakna oft að nóttu. Erfiðleikar við að sofna voru ekki algengari hjá kæfisvefnssjúklingum samanborið við viðmiðunarhóp.

Ályktanir: Ómeðhöndlaður kæfisvefn dregur úr svefngæðum og sjúklingar fá ekki eins góða hvíld og heilbrigðir einstaklingar. Meðferð með svefnöndunartæki er gagnleg til þess að draga úr svefnleysi sem einkennist af því að vakna oft. Því er mikilvægt að einstaklingar með alvarlegan kæfisvefn og svefnleysi noti svefnöndunartæki og bæti þannig svefngæði sín.

 

 

V021 Faraldsfræði lungnareks á Landspítala árin 2005-2007

Kristján Óli Jónsson1, Uggi Þ. Agnarsson2, Ragnar Daníelsen2, Guðmundur Þorgeirsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjartadeild Landspítala

 

Inngangur: Blóðrek til lungna (LR) er algengt vandamál í sjúklingum sem dvelja á spítala og getur haft áhrif á framvindu og dánartíðni. Sjúkdómsmyndin er fjölbreytileg og greining oft flókin. Algengi LR er að miklu leyti órannsakað hér á landi en talið er að árlega deyi um 300.000 manns í Bandaríkjunum af völdum sjúkdómsins. Mætti því áætla að dánartíðni hér á landi sé allt að 300 á ári. Markmið þessarar rannsóknar er að meta faraldsfræði LR á LSH.

Efniviður og aðferðir: Skimaðar voru sjúkraskrár allra sjúklinga á LSH árin 2005-2007 sem fengu greininguna I26 í ICD-10 kerfinu (LR).

Niðurstöður: Alls fengu 350 sjúklingar greininguna LR á LSH 2005-2007. Af þeim voru 30 útilokaðir vegna áður greinds LR, rangrar greiningar eða ónógra gagna. Af einkennum sýndu 81% sjúklinga mæði, 39% brjóstverk, 13% yfirlið/nær yfirlið og 17% brjóstþyngsli. Engin ofantalinna einkenna voru til staðar hjá 7%.  Nýleg saga eða einkenni segamyndunar í djúpu bláæðum fóta (DVT) voru til staðar hjá 31% sjúklinga. Greining var oftast gerð með tölvusneiðmynd (TS) (89%), 4% greindust með ísótópaskanni (ÍS), 1% með báðum aðferðum, krufning (2%) og klínísk greining (4%). Blóðþynningu var beitt hjá 93%, einungis 4% fengu segaleysandi meðferð. Engin meðferð var veitt í 4% tilfella, þar af hafði helmingur látist áður en unnt var að veita meðferð. Innan 30 daga frá greiningu lést 31 sjúklingur (9,7%).

Ályktanir: Algengasta einkenni sjúklinga sem greinast á LSH með LR er mæði og svo verkur í brjósti. Sú greiningaraðferð sem mest er notuð er TS, þar á eftir ÍS. Algengasta meðferð LR er blóðþynning. Þá sýnir dánartíðnin jafnframt fram á hversu alvarlegur sjúkdómurinn er.

 

 

V022 Styrkur NT-pro B-type natriuretic peptíðs í blóði kæfisvefnssjúklinga

Sólborg Erla Ingvarsdóttir1, Þórarinn Gíslason1,2, Bryndís Benediktsdóttir1, Ísleifur Ólafsson3, Christer Janson4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lungnadeild, 3klínískri lífefnafræðideild Landspítala, 4lungnadeild Háskólasjúkrahússins í Uppsölum, Svíþjóð

 

Inngangur: Kæfisvefn er sjúkdómsástand tilkomið vegna þrenginga í efri loftvegum og einkennist af hrotum og öndunarhléum í svefni. B-type natriuretic peptíð (BNP) er fjölpeptíð sem er aðallega losað úr hvolfum hjartans í samsvari við álag og strekkingu hjartavöðvafruma. Markmið þessa verkefnis var að skoða hugsanlegan þátt BNP í meingerð kæfisvefns.

Efniviður og aðferðir: Þetta var sjúklingamiðuð samanburðarrannsókn. Í rannsóknarhópnum voru einstaklingar sem greinst höfðu með kæfisvefn á LSH á árunum 2005 til 2008. Til samanburðar voru einstaklingar sem tekið höfðu þátt í rannsókn á algengi langvinnrar lungnateppu á Íslandi. Styrkur NT-proBNP var mældur í blóði hjá sambærilegum hópum sjúklinga og viðmiða og hann borinn saman við breytur sem segja til um alvarleika kæfisvefns, þekkta áhættuþætti og tengda sjúkdóma.

Niðurstöður: Styrkur NT-proBNP var mældur hjá 61 kæfisvefnssjúklingi
og 62 viðmiðum. NT-proBNP var marktækt lægra hjá kæfisvefnssjúkling-um en samanburðarhóp (p<0,01). Marktækur munur var á styrk NT-proBNP milli aldurshópa, bæði hjá kæfisvefnssjúklingum (p=0,023) og samanburðarhóp (p<0,01). NT-proBNP hjá háþrýstingssjúklingum var hærra bæði hjá kæfisvefnssjúklingum (p=0,042) og samanburðarhóp (p<0,01). Ekki var marktækur munur á NT-proBNP styrk milli BMI hópa, né heldur þegar tekið var tillit til reykingasögu og alvarleika kæfisvefns. Styrkur NT-proBNP breyttist ekki marktækt við CPAP meðferð.

Ályktanir: Rannsóknin sýndi að styrkur NT-proBNP í blóði er lægri í kæfisvefnssjúklingum en samanburðarhóp. NT-proBNP styrkur hækkar með hækkandi aldri og hann er marktækt hærri hjá háþrýstingssjúklingum. Lítill fjöldi þátttakanda gæti verið takmarkandi þáttur í rannsókninni og því væri áhugavert að kanna samband NT-proBNP styrks í blóði og kæfisvefns frekar í stærra úrtaki.

 

 

 

 

V023 Azitrómycín ver öndunarfæraþekju gegn Pseudomonas aeruginosa, óháð bakteríudrepandi verkun

Ólafur Baldursson1, Skarphéðinn Halldórsson2, Þórarinn Guðjónsson3, Magnús Gottfreðsson4, Guðmundur Guðmundsson2, Pradeep Singh5

1Lungnadeild Landspítala, 2líffræðistofnun, 3lífvísindasetri Læknagarðs, 4læknadeild Háskóla Íslands, 5University of Washington, Seattle, Bandaríkjunum

 

Inngangur: Þéttitengi (e. tight junctions) milli þekjufrumna viðhalda styrk öndunarfæraþekju og verja hana gegn innrás örvera. Sjúklingar með LLT eða slímseigjusjúkdóm (ss.) (e. cystic fibrosis) glíma oft við langvinnar lungnasýkingar vegna Pseudomonas aeruginosa (PA) sem framleiðir efni til innrásar í vefi, m.a. rhamnolípíða (rhl). Azithromycin (azm) bætir líðan og lungnastarfsemi ss. sjúklinga, án áhrifa á vöxt PA, en skýring á þessum jákvæðu áhrifum liggur ekki fyrir. Fyrri rannsóknir okkar sýna að azm hækkar rafviðnám lungnaþekju in vitro.

Efniviður og aðferðir: Við notuðum líkan af öndunarfæraþekju (VA10) og mældum rafviðnám hennar og tjáningu þéttitengslaprótína, fyrir og eftir árás PA eða PA-delta rhl (afbrigði sem framleiðir ekki rhl). Við hreinsuðum einnig bakteríur úr æti sínu og mældum þannig áhrif seyttra þátta án baktería.

Niðurstöður: Í ljós kom að árásarþættir PA lækkuðu rafviðnám þekjunnar, breyttu tjáningarmynstri þéttitengjaprótína og gerðu hana viðkvæmari fyrir innrás PA. Rhl höfðu snemmbær og mikil áhrif af þessu tagi á þekjuna. Athygli vakti að þessi áhrif voru mun minni ef þekjuvefur var meðhöndlaður með azm fyrir árás.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að azm dragi úr rofi þéttitengsla við PA sýkingu og gætu átt þátt í að skýra hin óvæntu jákvæðu áhrif lyfsins á sjúklinga með langvinna PA sýkingu í lungum. Rannsaka þarf nánar mögulegar leiðir til eflingar varna öndunarfæraþekju gegn sýkingum.

 

 

V024 Greining og meðferð lungnabólgu fullorðinna í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu

Ágúst Óskar Gústafsson1, Jón Steinar Jónsson1,2, Steinn Steingrímsson2, Gunnar Guðmundsson2,3

1Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3lungnadeild Landspítala

 

Inngangur: Lungnabólga er algeng sjúkdómsgreining hjá fullorðnum í heilsugæslu. Lítið er vitað um klínísk einkenni,greiningaraðferðir og meðferð lungnabólgu í heilsugæslu hérlendis. Tilgangur rann-sóknarinnar var að kanna greiningaraðferðir, sýklalyfjanotkun og aðra meðferð.

Efniviður og aðferðir: Safnað var saman upplýsingum frá Heilsugæsl-unni á Seltjarnarnesi, Garðabæ og Hamraborg hjá einstaklingum eldri en 18 ára. Leitað var eftir greiningum um lungnabólgu í sjúkraskrárkerfi fyrir tímabilið 1. september 2008 til 1.september 2009. Stuðst var við samskiptaseðla, lyfseðla, röntgensvör og niðurstöður blóðrannsókna sem og ræktunarsvör og mótefnamælingar.

Niðurstöður: Alls voru skoðuð gögn hjá 215 einstaklingum, 64% konur. Meðalaldur var 50,2 ár. 22% höfðu þekktan lungnasjúkdóm fyrir. Alls komu 47% í bókaðan tíma. Lengd veikinda var undir viku hjá 64%. Algengustu einkennin voru hósti (71,6%), hiti (40,0%) og kvefeinkenni (29,8%). Blóðþrýstingur var skráður hjá 26 (14%) einstaklingum sem komu á stofu, hjartsláttur hjá 24 (13%) og líkamshiti hjá 7 (4%). Lungnahlustun var lýst hjá 188 (98%) og voru 53% með brak og 30% með slímhljóð. Alls fóru 23 (11%) í blóðrannsókn og 68 (32%) í röntgenmynd við fyrstu komu. Hjá 7 (3%) sjúklingum voru gerðar aðrar rannsóknir þar af tekið hrákasýni hjá 3 (1%). Amoxicillin var fyrsta val í 33% tilfella, amoxicillin-clavulansýra hjá 24% og azithromycin hjá 23%. Nokkur munur var á sýklalyfjanotkun á milli heilsugæslustöðva. Innúðalyf voru gefin hjá 13% sjúklinga sem hluti af meðferð.

Ályktanir: Lungnabólgugreining virðist í flestum tilfellum fengin útfrá sjúkrasögu og lungnahlustun. Skráning lífsmarka var minni en búast mátti við.  Marktækur munur var á milli heilsugæslustöðva við val á sýklalyfjum og einungis í þriðjungi tilfella var fyrsta val amoxicillin.

 

 

V025 Öldrunarrannsókn Hjartaverndar - fylgni er milli skertrar fráblástursgetu og lungnaþéttleika á tölvusneiðmynd

Ólöf Birna Margrétardóttir1, Sigurður Sigurðsson1, Gyða S. Karlsdóttir1, Grímheiður F. Jóhannsdóttir1, Thor Aspelund1,2, Vilmundur Guðnason1,2, Gunnar Guðmundsson2,3

1Hjartavernd, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3lungnadeild Landspítala

 

Inngangur: Algengast er að langvinn lungnateppa sé greind með skertu fráblástursprófi en þéttleiki lungna mældur með tölvusneiðmyndum er næm aðferð til að greina lungnaþembu. Ekkert er vitað um fylgni milli þessara tveggja rannsóknaaðferða hjá öldruðum en fyrri rannsóknir hafa sýnt fylgni í blönduðu þýði.

Efniviður og aðferðir:Í öldrunarrannsókn Hjartaverndar var gerð fráblástursmæling hjá hluta þátttakenda. Tölvusneiðmyndir af lungum voru teknar af öllum þátttakendum. Sérstakur hugbúnaður var notaður til að lesa þéttleika lungnanna. Fylgni milli lungnaþéttleika og fráblástursgilda var könnuð. Úrtakinu var skipt í fimm hópa eftir því hversu mikil lungnaþemban var.

Niðurstöður:Alls voru 659 einstaklingar sem gerð hafði verið á fráblástursmæling og mældur lungnaþéttleiki. Um var að ræða 325 karla og 334 konur. Meðalgildi FEV1/FVC hlutfalls var 0.70 hjá körlum og 0.71 hjá konum. Hlutfall þéttleika undir -950 HU var að miðgildi 4.5% (fjórðungamörk 2.4% - 7.5%). Fylgnistuðull (Spearman) milli þéttleika og FEV1/FVC hlutfalls var -0.35 (p<0.0001).

Ályktanir: Fylgni er á milli skertrar fráblástursgetu á blástursprófi og lungnaþéttni mældri á tölvusneiðmyndum í öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Mun fleiri einstaklingar hafa farið í tölvusneiðmyndir en blásturspróf og einnig hafa verið gerðar langsum rannsóknir með tölvusneiðmyndum. Þetta býður því upp á mikla rannsóknamöguleika.

 

 

V026 Öndunarfæraeinkenni hjá ungu fólki á höfuðborgarsvæðinu 1990 og 2007

Stefán Sigurkarlsson1, Michael Clausen2, Davíð Gíslason1,2, Þórarinn Gíslason1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2göngudeild í lungna- og ofnæmissjúkdómum, Landspítala

 

Inngangur: Talið er að ofnæmi og ofnæmissjúkdómar hafi verið að aukast á Vesturlöndum á undanförnum áratugum. Við samanburð á ungu fólki á höfuðborgarsvæðinu 1990 við jafnaldra í Evrópu voru ofnæmissjúkdómar í öndunarfærum sjaldgæfara á Íslandi en í samanburðarlöndunum. Við rannsókn á 10-11 ára börnum árið 2000 kom ekki fram slíkur munur við nágrannalöndin. Tilgangur þessarar rannsóknar var að bera saman algengi ofnæmissjúkdóma í öndunarfærum hjá ungu fólki árið 2007 við jafnaldra árið 1990.

Efniviður og aðferðir: Árið 1990 voru 3600 einstaklingar af Reykjavíkursvæðinu valdir af handahófi til að svara spurningum um öndunarfæraeinkenni af póstlista. Svarhlutfall var 80,6%. Rannsóknin var hluti af evrópski rannsókn (ECRHS I). Árið 2007 voru 2811 einstaklingar á sama aldri (20-44 ára) og af sama svæði valdir af handahófi til að svara sömu spurningum af póstlista. Spurningarnar voru aukaspurningar í víðtækri alþjóðlegri rannsókn á fæðuofnæmi (EuroPrevall). Svarhlutfall var 47,3%.

Niðurstöður: Árið 1990 höfðu 18% tekið eftir pípi eða surg fyrir brjósti á síðasta ári en 14% árið 2007 (p< 0,02). Mæði samfara surg var þó marktækt meiri seinna árið (p<0.0001). Árið 1990 kváðust 2,2% hafa fengið astmakast á síðasta ári, 2,4% hafa notað astmalyf og 18% haft ofnæmi í nefi. Samsvarandi tölur fyrir árið 2007 voru 6,8%, 7,3% og 30%. Munurinn er afar marktækur (p<0,0001). Ekki var munur á kynjum varðandi þessi einkenni

Ályktanir: Rannsóknin bendir til þess að veruleg aukning hafi orðið á astma, ofnæmiseinkennum í nefi og notkun astmalyfja á þessu tímabili. Þó verður að hafa fyrirvara vegna lakara svarhlutfalls 2007. Þó er ólíklegt að þessar spurningar hafi haft mikil áhrif á svarhlutfallið, þar sem megin áhersla var lögð á spurningar varðandi fæðuofnæmi í póstlistanum.

 

 

V027 Ósértæk millivefslungnabólga á Íslandi - faraldsfræðileg rannsókn

Sigurður James Þorleifsson1, Jónas Geir Einarsson2, Helgi Ísaksson3, Gunnar Guðmundsson1

1Lungnadeild Landspítala, 2lungnadeild Háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð, 3rannsóknastofu í meinafræði, Landspítala

 

Inngangur: Lungnatrefjun er almennt hugtak sem er notað til að lýsa hóp millivefssjúkdóma sem valda bandvefsmyndun í millivef lungna og getur leitt til öndunarbilunar. Alþjóðleg flokkun þessara millivefssjúkdóma var endurskoðuð árið 2001. Í flokkuninni var sett inn ný gerð af millivefslungnabólgu sem er ósértæk millivefslungnabólga sem heitir á ensku nonspecific interstitial pneumonia (NSIP). Vefjafræðilegt útlit skiptist í 3 flokka: bólgu, bandvef eða blöndu af báðum. Ósértæk millivefslungnabólga getur verið hluti af sjúkdómsmynd ýmissa sjálfsofnæmisjúkdóma en getur einnig verið ein sér án sjúkdóma í öðrum líffærum. Lítið er vitað um sjúkdóminn í almennu þýði og ekkert um hann hjá heilli þjóð.

Efniviður og aðferðir: Við könnuðum ósértæka millivefslungnabólgu á Íslandi á tímabilinu 1999-2010. Tilfellin voru fundin með leit í gagnabanka Rannsóknastofu í meinafræði við Landspítala og á meinafræðideild Sjúkrahússins á Akureyri. Eingöngu voru tekin með tilfelli sem greind höfðu verið með sýnatöku frá lunga, ýmist með berkjuspeglun eða skurðaðgerð. Lýðfræðilegir þættir voru kannaðir ásamt nýgengi og tengslum við aðra sjúkdóma.

Niðurstöður: Á tímabilinu greindust 20 tilfelli; 10 (50%) hjá körlum og 10 (50%) hjá konum. Vefjafræðileg flokkun sýndi bólgu í fimm (25%) tilfellum , bandvefsmyndun í einu (5%) tilfelli og blandaða mynd í 13 (65%) tilfellum. Alls tengdust fjögur tilfelli (20%) öðrum sjúkdómum en í 16 (80%) tilfella voru engin tengsl við aðra sjúkdóma. Þeir sjúkdómar sem tengdust voru eftirfarandi: Gigtarsjúkdómar í þremur (75 %) tilfellum (Liðagigt, herslismein) og frumkomin gallskorpulifur einu tilfelli. Nýgengi sjúkdómsins var 0,7/100.000 á ári.

Ályktanir: Ósértæk millivefslungnabólga er fremur sjaldgæfur sjúkdómur á Íslandi og tengist ýmsum öðrum sjúkdómum, en getur einnig verið ein sér.

 

 

 

V028 Samanburður á kostnaði vegna langvinnrar lungnateppu í nútíð og framtíð á Íslandi og Noregi

Bryndís Benediktsdóttir1, Þórarinn Gíslason1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lungnadeild Landspítala

 

Inngangur: Á tímum vaxandi kostnaðar við heilbrigðisþjónustu er kostnaðargreining algengra langvinnra sjúkdóma mikilvæg. Skoða þarf kostnað líðandi stundar, en ekki síður þarf að áætla hver kostnaður muni verða í komandi framtíð. Taka þarf tillit til algengi, nýgengi, og áætla líklega framvindu sjúkdóms á komandi árum. Greining á kostnaði þarf að vera gagnsæ og sundurliðuð þannig að hægt sé að draga ályktanir af niðurstöðum í heild, en samtímis varpa ljósi á einstaka kostnaðarliði þar sem ná má hagræðingu. Gagnlegt er að bera saman milli landa kostnaðarliði mismunandi þjónustueininga

Efniviður og aðferðir: Gögnum um notkun Íslendinga með langvinna lungnateppu (LLT) á heilbrigðiskerfiinu var aflað úr niðurstöðum fjölþjóða rannsóknar á algengi og eðli LLT (Benediktsdottir B, Læknablaðið. 2007 Jun;93(6):471-7). Kostnaðartölur voru fundnar á samræmndan hátt í opinberum gögnum á Íslandi og í Noregi. Stuðst var við niðurstöður Framingham rannsóknarinnar þegar væntanleg framþróun á LLT var metin með tilliti til reykinga, aldurs og kynferðis.

Niðurstöður: Kostnaður árið 2005 vegna LLT á Íslandi reyndist vera 478 evrur, en 284 evrur í Noregi á hvern sjúkling. Áætlaður heildarkostnaður vegna einstaklinga eldri en 40 ára með LLT næstu 10 árin varð 130 milljónir evra á Íslandi en 1539 í Noregi. Hlutdeild LLT af heildar fjárframlögum til heilbrigðismála reyndist vera 1,2% á Íslandi, en 0,7% í Noregi. Tölfræðileg úrvinnsla leiðir í ljós að hversu oft sjúklingum með LLT versnar hefur mest áhrif á áætlaðan kostnað vegna LLT næstu 20 árin.

Ályktanir: Kostnaður þjóðarbús vegna LLT er verulegur bæði á Íslandi og í Noregi og mun að óbreyttu aukast í framtíðnni. Forvarnir sem draga úr tíðni versnana á LLT eru líklegastar til að minnka kostnað vegna LLT næstu 10 árin.

 

 

V029 Samspil æðaþels og lungnaþekjufrumna í þrívíðri rækt

Þórarinn Guðjónsson1,2, Sigríður Rut Franzdóttir3, Ívar Axelsson3, Ari Jón Arason3, Ólafur Baldursson4, Magnús Karl Magnússon2,3,5

1 Lífvísindasetri læknagarðs Háskóla Ísland, 2rannsóknastofu í blóðmeinafræði, 3rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum, 4lungnadeild Landspítala, 5rannsóknarstofu HÍ í lyfja- og eiturefnafræði

Loftvegir lungna þroskast þannig að sífellt smærri greinar myndast út frá fyrri greinum. Þroskunar- og erfðafræðilegur bakgrunnur greinóttrar formgerðar er aðeins þekktur að litlu leyti, og byggir sú þekking að mestu á rannsóknum í nagdýrum. Lungu verða stöðugt fyrir áreiti agna úr innönduðu lofti sem valda smásæjum skemmdum. Sérstakir ferlar vinna stöðugt að viðgerð en talið er að ójafnvægi milli áreitis og viðgerðar eigi þátt í tilurð sjúkdóma svo sem LLT og lungnakrabbameins. Við höfum þróað þrívíða frumurækt sem byggir á lungnafrumulínunni VA10 en hún inniheldur grunnfrumur. Við notum þetta kerfi til að rannsaka myndun greinóttrar formgerðar og samspil þekjufrumna við aðrar frumugerðir. Nýlegar rannsóknir benda til þess að æðaþelsfrumur gegni mikilvægu hlutverki í þroskun ýmissa líffæra. Æðaþel og lungnaþekjufrumur eiga náin samskipti í neðri loftvegum lungans og er því ástæða til að rannsakahlutverk æðaþels í þroskun lungna. Ef VA10 frumur eru ræktaðar þannig að efra borð þeirra snúi að lofti (air-liquid interface) mynda þær sýndarlagskipta þekju eins og er í efri loftvegum manna. Þegar VA10 frumur eru hins vegar ræktaðar í þrívíðri rækt í grunnhimnugeli mynda þær kúlulaga þyrpingar. Sé æðaþelsfrumum bætt út í gelið verður breyting á formgerð þyrpinganna og þær vaxa greinótt sem minnir á berkjur og lungnablöðrur í lungum. Þetta bendir til þess að æðaþel geti örvað greinótta formmyndun lungnaþekjufrumna. Við höfum áhuga á að finna þá þætti sem stýra þessum samskiptum æðaþels og VA10 þekjufrumnanna, auk þess að skilgreina þá boðferla innan þekjufrumnanna sem stýra greinóttri formmyndun.Við höfum sérstakan áhuga á hlutverki FGF boðferlisins og Sprouty próteina, en munum einnig leitast við að kanna hlutverk annarra sameinda í þessu ferli.

 

 

V030 Skurðaðgerðir vegna lungnameinvarpa á Íslandi 1984-2008

Halla Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller2, Jón Gunnlaugur Jónasson3, Tómas Guðbjartsson4.

1Skurðlækningasviði, 2almennri skurðdeild, 3rannsóknarstofu í meinafræði, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

 

Inngangur: Rúmur þriðjungur sjúklinga með krabbamein greinast fyrr eða síðar með lungnameinvörp. Þegar meinvörpin eru bundin við lungu kemur til greina að fjarlægja þau með skurðaðgerð og bæta þannig lífshorfur. Markmið þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna algengi og árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir brottnám á lungnameinvörpum með lækningu að markmiði á Íslandi 1984-2008. Litið var nánar á sjúklinga með 3 algengustu frumæxlin, m.a. kannaðar ábendingar, fylgikvillar aðgerða og reiknuð út lifun (Kaplan-Meier). Útreikningar miðuðust við 31. des. 2009 og var meðal eftirfylgni 45 mánuðir (bil: 3-311).

Niðurstöður: Alls fór 81 sjúklingur í aðgerð vegna lungnameinvarpa á tímabilinu (aldur 55 ár, bil: 2-81 ár, 51% karlar). Algengustu frumæxlin voru krabbamein í ristli/endaþarmi (33%, n=27), sarkmein (26%, n=21) og nýrnafrumukrabbamein (17%, n=14) en fjórðungur sjúklinga hafði önnur krabbamein. Hlutfall sjúklinga sem fóru í aðgerð var 1.0%, 6,5% og 1,4% fyrir þrjár algengustu æxlisgerðirnar. Þessir 62 sjúklingar gengust undir 79 aðgerðir. Fleygskurður (n=45) og blaðnám (n=30) voru algengastu aðgerðirnar en hjá 4 var framkvæmt lungnabrottnám. Skurðdauði var 1,2%. Miðgildi legutíma var 11 dagar (bil: 4-85). Fimm ára lifun fyrir sjúklinga með ristil og endarþarmskrabbamein var 45%, nýrnafrumukrabbamein 39% og sarkmein 19% (p=0,11).

Ályktanir: Hlutfall krabbameinssjúklinga sem sem fer í brottnám á lungnameinvörpum hér á landi var frekar lágt. Árangur þessara aðgerða var góður og sambærilegur við erlendar rannsóknir.

 

 

V031 Styrkur ferritíns í sermi kæfisvefnssjúklinga - faraldsfræðileg samanburðarrannsókn

Elín Helga Þórarinsdóttir1, Bryndís Benediktsdóttir1, Þórarinn Gíslason2, Christer Janson3, Ísleifur Ólafsson4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lungnadeild Landspítala, 3lungnadeild Háskólasjúkrahússins í  Uppsölum, Svíþjóð, 4klínískri lífefnafræðideild Landspítala

 

Inngangur: Kæfisvefn er sjúkdómsástand sem einkennist af endur-teknum öndunartruflunum í svefni. Ferritín er prótein sem bindur járn og gerir það skaðlaust líkamanum en einnig getur hækkaður styrkur S-ferritíns endurspeglað bráða og króníska bólgusvörun. Við kæfisvefn er vitað að öndunarstopp og súrefnisskortur leiða til almennrar bólgusvörunar en hvort styrkur S-ferritín tengist því hefur lítið verið rannsakað.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar greindir með kæfisvefn frá sept. 2005 til sept. 2009 var boðið að taka þátt í rannsókninni. Til samanburðar voru einstaklingar 40 ára og eldri sem tekið höfðu þátt í rannsókn á algengi langvinnrar lungnateppu á Íslandi. Hóparnir voru rannsakaður á sama hátt fyrir utan að viðmiðunarhópurinn gegst ekki undir svefnrannsókn. Styrkur S-ferritín var borinn saman milli sjúklinga og viðmiða og eftir alvarleika kæfisvefnsins. Leiðrétt var fyrir helstu áhrifaþáttum hækkaðs ferritíns og sjúkdómum tengdum kæfisvefni.

Niðurstöður: Í sept. 2009 höfðu alls 754 kæfisvefnssjúklingar tekið þátt og af þeim höfðu 300 komið í tveggja ára eftirfylgnirannsókn. Samanburðarhópurinn samanstóð af 758 þátttakendum (81 % þátttaka). Styrkur S-ferritín var marktækt hærri í hópi kæfisvefnssjúklinga en viðmiða, bæði meðal karla (p=0.025) og kvenna (p<0.001) en eftir að leiðrétt hafði verið fyrir aldri, líkamsþyngdarstuðli, reykingum og sjúkdómum tengdum kæfisvefni var hækkunin aðeins marktæk hjá konum með kæfisvefn (p=0.032). Styrkur S-ferritins sýndi ekki marktæka fylgni við alvarleika kæfisvefnsins, dagsyfju né notkunn CPAP tækis í tvö ár.

Ályktanir: Styrkur S-ferritíns var marktækt hærri meðal kvenna með kæfisvefn en kvenna í samanburðarhópnum. Þessi munur var óháður helstu áhrifaþáttum hækkaðs ferritíns og öðrum þekktum sjúkdómum tengdum kæfisvefni.

 

 

V032 Þættir sem ákvarða langtímalifun sjúklinga með langvinna lungnateppu sem lagst hafa inn á sjúkrahús

Gunnar Guðmundsson1,3, Stella Hrafnkelsdóttir1, Christer Janson2, Þórarinn Gíslason1,3

1Lungnadeild Landspítala, 2Department of Medical Sciences, Respiratory Medicine and Allergology, Háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum, Svíþjóð, 3læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Margar rannsóknir eru til á skammtíma dánartíðni sjúklinga með langvinna lungnateppu (LLT) sem lýsa hárri dánartíðni. Fjöldamörgum áhættuþáttum hefur verið lýst. Takmarkaðar upplýsingar eru til um langtímadánartíðni og tengda áhættuþætti í þessum sjúkdómi. Tilgangur rannsóknarinnar var að greina langtíma dánartíðni og tengda áhættuþætti í sjúklingum með LLT sem innlagðir höfðu verið á sjúkrahús vegna bráðrar versnunar. Megináhersla var á líkamsþyngdarstuðul, heilsutengd lífsgæði, lyf og aðra samhliða sjúkdómskvilla.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða framsæja rannsókn á 256 sjúklingum með LLT í Reykjavík, Kaupmannahöfn, Danmörku og Uppsala, Svíþjóð. Þeim var fylgt eftir í 8.7±0.4 ár eftir sjúkrahúsinnlögn vegna versnunar á LLT á árunum 2000 og 2001. Í sjúkrahúsinnlögninni var St. George öndunarfæraspurningalistinn lagður fyrir sjúklingana. Aflað var upplýsinga um aðra samhliða sjúkdómskvilla og lyfjameðferð.

Niðurstöður: Á tímabilinu sem sjúklingunum var fylgt eftir höfðu 202 sjúklingar (79%) dáið og 54 (21%) voru á lífi. Aðal dánarorsök var öndunarfæri (n=116), hjarta- og æðakerfi (n=43), krabbamein (n=28), annað (n=10) og upplýsingar fengust ekki hjá fimm sjúklingum. Dánartíðni tengdist vaxandi aldri, lakari lungnastarfsemi, lægri líkamsþyngdarstuðli og sykursýki. Hærri aldur, lægri líkamsþyngdarstuðull og sykursýki tengdust bæði öndunarfæra og hjarta og æða dánarorsökum. Öndunarfæraorsakir tengdust lakari öndunarfærastarfsemi. Það voru engin tengsl við lyfjameðferð, kvíða eða þunglyndi.

Ályktanir: Langtímadánartíðni var há eftir sjúkrahúsinnlögn vegna LLT. Helstu áhættuþættir voru hærri aldur, skert lungnastarfsemi, lægri líkamsþyngdarstuðull og sykursýki. Frekari rannsókna er þörf á því hvaða áhrif bætt meðferð áhættuþátta getur haft á dánartíðni.

V033 Árangur lungnasmækkunaraðgerða við lungnaþembu á Íslandi 1996-2008

Sverrir I. Gunnarsson1, Kristinn B. Jóhannsson2, Marta Guðjónsdóttir3,5, Hans J. Beck3, Björn Magnússon4, Tómas Guðbjartsson2,5

1Lyflækningasviði, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3hjarta- og lungnarannsókn Reykjalundi, 4Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, 5læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Lungnasmækkunaraðgerð (lung-volume reduction surgery) getur bætt líðan og lífshorfur sjúklinga með alvarlega lungnaþembu. Þar sem fylgikvillar eru tíðir hafa þessar aðgerðir þó verið umdeildar. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

 Efniviður og aðferðir: Framsæ rannsókn á 16 sjúklingum (meðalaldur 59 ár, 10 karlar) með alvarlega lungnaþembu sem gengust undir lungnasmækkunaraðgerð á Landspítala frá 1996 til 2008. Flestir sjúklingarnir voru stórreykingamenn og höfðu reykt í 49 pakkaár að meðaltali. Í gegnum bringubeinsskurð var ~20% af efri hluta beggja lungna fjarlægður með heftibyssu. Skráð voru afdrif sjúklinga, fylgikvillar, legutími og öndunarmælingar fyrir og 3 mánuðum eftir aðgerð. Meðaleftirfylgd var 8,7 ár og miðaðist við 31. des. 2009.

 Niðurstöður: Aðgerðartími var 86 mín. (bil 55-135) og miðgildi legutíma 17 dagar (bil 9-85). Allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina. Viðvarandi loftleki (n=7) var algengasti fylgikvillinn en 4 þurftu í enduraðgerð, 3 vegna bringubeinsloss og hinir vegna blæðingar, gallblöðrubólgu og rofs á smágirni. Einn sjúkling þurfti að endurlífga í enduraðgerð.  FEV1 hækkaði marktækt um 34%, úr 0,97 L (33% af spáðu) fyrir aðgerð í 1,3 L (44% af áætluðu) (p<0.001) eftir aðgerð og FVC hækkaði marktækt úr 2,9 L (76% af spáðu) í 3,3 L (87% af spáðu) eftir aðgerð (p=0,014).  Aukning í þoli  var hins vegar ekki marktæk, eða úr 69 W  í 71 W eftir aðgerð (p=0,09). Við eftirlit voru 10 af 16 sjúklingum á lífi og voru  eins og 10 ára lífshorfur 100% og 60%.

Ályktanir: FEV1 og FVC mælingar jukust marktækt eftir aðgerð og allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina. Tíðni alvarlegra fylgikvilla var þó há og legutími langur. Túlka verður þessar niðurstöður varlega þar sem um lítinn sjúklingahóp er að ræða og viðmiðunarhópur ekki til staðar.

 

 

V034Árangur skurðaðgerða við risablöðrum í lungum

Sverrir I. Gunnarsson1, Kristinn B. Jóhannsson2, Hilmir Ásgeirsson1, Marta Guðjónsdóttir3,5, Hans J. Beck3, Björn Magnússon4, Tómas Guðbjartsson2,5

1Lyflækningasviði, 2hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 3hjarta- og lungnarannsókn Reykjalundi, 4Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, 5læknadeild Háskóla Ísland

 

Inngangur: Risablöðrur (giant bullae) í lungum eru sjaldgæf fyrirbæri sem ná yfir að minnsta kosti 1/3 lungans. Þær greinast oftast í efri lungnablöðum miðaldra stórreykingamanna og skerða lungnastarfsemi með því að þrýsta á aðlægan lungnavef. Mælt er með skurðaðgerð ef einkenni eða fylgikvillar (til dæmis loftbrjóst) hafa gert vart við sig. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna árangur aðgerða við risablöðrum hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Frá 1992-2008 gengust 12 sjúkl. (aldur 60 ár, 11 karlar) undir risablöðrubrottnám á Íslandi. Stærð blaðranna var >30% af heildarrúmmáli lungans í öllum tilvikum og 8 sjúkl. höfðu blöðrur í báðum lungum. Flestir sjúklingarnir voru með alvarlega lungnaþembu (GOLD-stig III eða IV) og höfðu reykt í að meðaltali 33 ár. Blöðrurnar voru fjarlægðar í gegnum brjótholsskurð (n=4) eða bringubeinsskurð (n=8). Lungnamælingar voru gerðar fyrir og eftir aðgerð. Meðaleftirlitstími var 8,8 ár og miðast við 31. des. 2009.

Niðurstöður: Aðgerðirnar tóku 91 mín. að meðaltali (bil 58-150) og fylgikvillar komu ekki fyrir í aðgerð. FEV1 fyrir aðgerð mældist að meðaltali 1,0 L (33% af spáðu) og FVC 2,9 L  (68% af spáðu). Tveimur mánuðum eftir aðgerð hækkaði FEV1 marktækt um 80% í 1,8 L (58% af spáðu) (p=0,008) en FVC hækkaði um 7% í 3,1 L (81% af spáðu) (p=0,18). Helstu fylgikvillar eftir aðgerð voru viðvarandi loftleki (>7 d.) (n=9) og lungnabólga (n=2). Einn sjúklingur þurfti enduraðgerð vegna bringubeinsloss. Miðgildi legutíma var 24 dagar (bil 10-74). Við síðasta eftirlit voru 7 sjúklinganna á lífi en 5 og 10 ára lífshorfur voru 100% og 63%.

Ályktanir: Árangur þessara aðgerða er góður. FEV1  hækkaði marktækt eftir aðgerð og alvarlegir fylgikvillar voru sjaldgæfir. Allir sjúklingarnir voru á lífi 5 árum frá aðgerð. Viðvarandi loftleki eftir aðgerð er algengt vandamál og lengir legutíma þessara sjúklinga verulega.

 

 

V035 Loftmengun í Reykjavík og notkun lyfja gegn teppusjúkdómum í öndunarvegum

Hanne Krage Carlsen1, Helga Zoëga1, Unnur Valdimarsdóttir1, Þórarinn Gíslason1,3, Birgir Hrafnkelsson2

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, læknadeild, 2raunvísindadeild Háskóla Íslands, 3lungnadeild Landspítala

 

Inngangur: Loftgæði á höfuðborgarsvæði Íslands eru yfirleitt góð en brennisteinsmengun (H2S) frá jarðhitavirkjunum og svifryk (PM10) eru áhyggjuefni. Skammtímaáhrif H2S á heilsu eru nær óþekkt. Sýnt hefur verið fram á að svifryk veldur versnun á einkennum öndunarfærasjúkdóma. Markmið rannsóknarinnar var að kanna skammtímaáhrif loftmengunar á heilsu.

Efniviður og aðferðir: Fengnar voru upplýsingar úr lyfjagagnagrunni landlæknisembættisins um fjölda einstaklinga 18 ára og eldri sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu sem leysti út lyf gegn teppusjúkdómi í öndunarvegi (ATC-lyfjaflokkur R03A) á hverjum degi. Gögn um loftmengun voru fengin frá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar. Rannsóknartímabilið var frá mars 2006 til maí 2008. Poisson aðhvarfsgreining var notuð til að greina samband þriggja daga meðaltals- og hæsta dagsgildis mengunar (PM10, H2S, níturoxíðs (NO2) og ósons (O3)) við fjölda einstaklinga sem leystu út lyf. Leiðrétt var fyrir áhrifum veðurs, tímaþætti, flensutímabilum og vikudögum.

Niðurstöður: Jákvætt samband reyndist á milli loftmengunar og fjölda einstaklinga á hverjum degi sem leysti út lyf. Sambandið var tölfræðilega marktækt fyrir þriggja daga meðaltal H2S og PM10 með 3-5 daga seinkun og samsvarar áhrifin 3% og 2% aukningu þegar mengun fór úr 10nda upp í 90sta hundraðshlutamark. Þá fannst marktækt samband á milli lyfjanotkunar og þriggja daga meðaltal hæsta klukkutímagildis allra mengunarþátta.

Ályktanir: Aukin loftmengun á höfuðborgarsvæði Íslands virðist hafa væg tengsl við lyfjanotkun borgarbúa við teppusjúkdómi í öndunarvegum, ekki síst þegar litið er til hæstu mengunargilda. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að H2S auki einkenni öndunarfærasjúkdóma jafnvel þegar aukin mengun varir aðeins í skamman tíma.

 

 

 

 

V036 Er sykursýkislyfið metformín verndandi gegn krabbameini?

Gunnar Jóhannsson1, Helgi Sigurðsson2, Valgarður Egilsson3, Matthías Halldórsson4, Jón G. Jónasson3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2krabbameinslækningadeild, 3rannsóknarstofu í meinafræði, Landspítala, 4landlækni, landlæknisembættinu

 

Inngangur: Nóbelsverðlaunahafinn Otto Warburg lýsti því fyrstur að efnaskipti æxla væru frábrugðin öðrum frumum, þau væru að mestu í glýkólýsu. Nú er álitið að með því að hafa áhrif á glýkólýsu megi hindra vöxt æxla. Metformín er algengt sykursýkislyf sem dregur úr insúlín viðnámi sykursjúkra. Virkni lyfsins er aðallega um AMP-virkjaðan kínasa, orkunema sem er talinn miðpunktur efnaskiptastjórnunar frumna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort metformín hefði verndandi áhrif gegn krabbameini eða stuðli að bættum horfum þeirra sem taka það.

Efniviður og aðferðir: Samkeyrsla á upplýsingum um lyf úr Lyfjagagnagrunni landlæknisembættisins við Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands. Borin var saman áhætta á krabbameinum og lifun einstaklinga á metformíni, súlfónýlúreu og þeim sem voru á báðum lyfjum. Ennfremur voru hóparnir paraðir við viðmiðunarþýði úr þjóðskrá.

Niðurstöður:3157 einstaklingar sem ekki höfðu fengið æxli fyrir rannsóknartímabilið leystu út lyfin (metformín 1608, sýlfónýlúrea 560, bæði 989). Miðað við viðmiðunarhóp (12.628) eru um 40% auknar líkur á krabbameinum hjá notendum sykursýkislyfja. Krabbameinssjúklingar á sykursýkislyfjum eru 10% líklegri til að látast. Ekki var marktækur munur á nýgengi krabbameina hjá þeim sem tóku metformín eitt og sér miðað við þá sem voru á súlfónýlúreu. Marktækt verri lifun var hjá einstaklingum á sýlfónýlúreu miðað við viðmiðunarhóp. Þeir sem voru eingöngu á metformíni höfðu jafn langa lifun og viðmiðunarhópur sinn.

Ályktanir:Einstaklingar með sykursýki eru í verulega aukinni áhættu á að fá krabbamein. Metformín hefur hagstæð áhrif á lífshorfur þeirra sem taka sykursýkislyf og greinast með krabbamein umfram önnur sykursýkislyf. Þessi rannsókn gat ekki sýnt fram á fyrirbyggjandi áhrif metformíns á myndun krabbameina.

 

 

V037 Hodgkins-eitilfrumuæxli á Íslandi - klínísk og meinafræðileg rannsókn

Hallgerður Kristjánsdóttir1,2, Brynjar Viðarsson1, Friðbjörn Sigurðsson1, Bjarni A. Agnarsson2,3

1Lyflækningasvið Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3rannsóknarstofu í meinafræði Landspítala

 

Inngangur: Hodgkin-eitilfrumukrabbamein (Hodgkin lymphoma, HL) er sjaldgæft krabbamein og er aldursstaðlað nýgengi 2-3 per 100.000 íbúa í hinum vestræna heimi. Á síðastliðinni hálfri öld hefur HL farið frá því að vera ólæknandi í að vera oftast læknanlegur sjúkdómur með fimm ára lifun yfir 80%.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar fengust frá Krabbameinsskrá Íslands um alla þá sem greindust með HL frá 1990-2005. Sjúkraskrár voru yfirfarnar og klínískum og meðferðartengdum upplýsingum safnað. Vefjasýni úr eitlum voru yfirfarin, gert tissue microarray og ónæmisfræðilegar litanir á sýnum framkvæmdar. Gerðar voru lifunargreiningar með Kaplan-Meier aðferð og Cox líkani. Niðurstöður voru taldar marktækar ef p<0.05.

Niðurstöður: Alls voru 105 sjúklingar greindir með HL og aldursstaðlað nýgengi því 2.05 per 100.000 íbúa. Rannsóknin sýndi að á Íslandi er nýgengi hæst hjá ungum fullorðnum og eftir 70 ára aldur. Kynjahlutfallið var þrír karlar fyrir hverjar tvær konur. Algengasti vefjaundirflokkurinn var nodular sclerosis. Fimm ára lifun var 81%. Í einþáttalifunargreiningu voru eftirfarandi þættir tengdir verri lifun: kvenkyn, aldur 60 ára og eldri, sjúkdómur á stigi III/IV, sjúkdómur neðan þindar, undirflokkar aðrir en nodular sclerosis eða mixed cellularity og tap á MUM1 tjáningu. Í fjölþáttalifunargreiningu var eingöngu hækkandi aldur og fyrirferðarmikill sjúkdómur tengdir verri lifun.

Ályktanir: HL á Íslandi er svipaður sjúkdómur og HL í öðrum Vestrænum löndum hvað varðar klíníska og meinafræðilega þætti. Niðurstöður úr ónæmisfræðilegum litunum fylgja að mestu niðurstöðum eins og sést hafa í öðrum rannsóknum. Hækkandi aldur var sterkur neikvæður forspárþáttur og fyrirferðarmikill sjúkdómur mögulegur neikvæður áhættuþáttur.

 

 

V038 Notkun blóðfitulækkandi statínlyfja og áhrif þeirra á tíðni krabbameina og lífshorfur

Þórunn Halldóra Þórðardóttir1, Valgarður Egilsson2, Jón Gunnlaugur Jónasson3, Matthías Halldórsson4, Ólafur B. Einarsson5, Helgi Sigurðsson6

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 4stjórnunarsviði, 5heilbrigðistölfræðisviði landlæknisembættisins, 6krabbameinslækningadeild Landspítala

Inngangur: Statínlyf eru HMG-CoA reduktasa hindrar sem sporna við kólesterólmyndun mevalónat boðleiðar. Tengsl þeirra við krabbamein hafa verið umdeild og rannsóknir á statínnotendum gefið misvísandi niðurstöður, allt frá aukinni krabbameinsáhættu yfir í verndandi áhrif. Statín sýna þó óyggjandi hömlun á æxlisvöxt í rækt. Markmið rannsóknarinnar var að athuga krabbameinstíðni meðal statínnotenda og lífshorfur þeirra almennt sem og eftir greiningu krabbameins.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn þýðisrannsókn með samkeyrslu á Lyfjagagnagrunni og Krabbameinsskrá. Úr Lyfjagagnagrunni fengust 14.281 einstaklingar sem notuðu statín á árunum 2003-2004. Úr þjóðskrá fengust 15.953 viðmið sem ekki tóku statín á tímabilinu. Samkeyrsla við Krabbameinsskrá upplýsti um krabbameinstilfelli og dauðsföll í hvorum hóp fyrir sig frá og með 2005. Hópunum var fylgt eftir fram til 2010.

Niðurstöður: Ekki fannst marktækur munur á krabbameinstíðni milli hópa (p=0,41). Marktækt verri lifun fannst í rannsóknarþýði, í heild og eftir krabbameinsgreiningu. Rannsóknarþýði takmarkað við notendur fitusækinna statína gaf sambærilegar niðurstöður en þeir eru ekki í marktækt meiri áhættu að greinast með krabbamein samanborið við viðmiðunarhóp (OR=1,06, 95% vikmörk 0,84-1,33). Þeir eru í hlutfallslega 163% aukinni áhættu að láta lífið á tímabilinu (6,8% af rannsóknarþýði lést (100/1.471) en 2,7% af viðmiðunarhóp (248/9.204)) og 102% aukinni áhættu að láta lífið eftir greiningu krabbameins (31,5% af þýði (29/92) samanborið við 18,5% (101/545)). Hlutfallsleg umfram áhætta lækkaði því eftir krabbameinsgreiningu. Fjölþáttagreining sýnir að statín séu verndandi eftir greiningu krabbameins.

Ályktanir: Ekki er munur á krabbameinstíðni milli hópa en statínnotkun virðist fela í sér verndandi áhrif eftir greiningu krabbameins

 

 

V039 Notkun kvenhormónalyfja eftir tíðahvörf - áhrif á tíðni krabbameina og lífshorfur     

Elín Arna Aspelund1, Valgarður Egilsson2, Jón Gunnlaugur Jónasson3, Matthías Halldórsson4, Ólafur B. Einarsson5, Helgi Sigurðsson6

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, 4stjórnunarsviði, 5heilbrigðistölfræðisviði landlæknisembættisins, 6krabbameinslækningadeild Landspítala

Inngangur: Niðurstöður stórra rannsókna hafa sýnt fram á tengsl milli langtímanotkunar kvenhormónalyfja eftir tíðahvörf og aukinnar tíðni brjóstakrabbameins sem og aukinnar tíðni hjarta- og æðasjúkdóma. Jafnframt virðist minni hætta á ristilkrabbameini og beinbrotum samhliða notkun þeirra. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort notkun slíkra lyfja hefði áhrif á tíðni krabbameina og að meta lífshorfur.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn þýðisrannsókn með samkeyrslu á upplýsingum úr Lyfjagagnagrunni og Krabbameinsskrá. Rannsóknar-þýðið voru konur, 50 ára og eldri árið 2003, sem tóku hormónalyf árin 2003-2004 og höfðu ekki greinst með krabbamein fyrir árið 2005. Aldursstaðlaður viðmiðunarhópur var fenginn úr þjóðskrá þar sem engin kona tók inn slík lyf árin 2003-2010. Hlutfallsleg áhætta var reiknuð til að meta mun milli hópa.

Niðurstöður: Í rannsóknarþýði voru 13.087 konur, af þeim greindust 726 (5,5%) með krabbamein árin 2005-2009. Í viðmiðunarhóp voru 14.565 konur og af þeim greindust 654 (4,5%) með krabbamein. Aukin áhætta var á greiningu brjóstakrabbameins í rannsóknarþýði, OR=1,51 (vikmörk 1,26-1,81), mest aukning hjá konum á samsettri hormónameðferð OR=1,98 (1,58-2,49). Lífshorfur eftir greiningu brjóstakrabbameins voru betri en hjá viðmiðunarhóp. Marktækt færri tilfelli ristilkrabbameins voru hjá konum á samsettri hormónameðferð, OR=0,40 (0,21-0,78), en ekki á annars konar meðferð. Lífshorfur eftir greiningu ristilkrabbameins voru verri en hjá viðmiðunarhóp.

Ályktanir: Konur sem nota hormónalyf eftir tíðahvörf greinast frekar með brjóstakrabbamein en þær sem ekki nota þau. Lífshorfur eftir greiningu virðast þó betri hjá þeim sem taka hormónalyf. Vernd gegn ristilkrabbameini virðist vera samhliða notkun lyfjana en þau tilfelli sem greinast eru heldur illvígari.

 

 

 

V040 Réttlætir kostnaður við meðferð krabbameins í ristli og endaþarmi skimun fyrir sjúkdómnum?

Friðbjörn Sigurðsson, Kristín Skúladóttir

Lyflækningasviði Landspítala

Inngangur: Nýgengi krabbameins í ristli og endaþarmi hefur aukist umtalsvert á Íslandi á undanförnum áratugum. Miklar framfarir hafa orðið í meðferð, en þeim fylgir jafnframt mikill kostnaðarauki. Með skimun fyrir sjúkdómnum, er unnt að greina hann á fyrri stigum og meðhöndla með minni kostnaði. Í rannsókninni var leitast við að leggja mat á kostnað vegna meðferðar á krabbameini í ristli og endaþarmi á Íslandi og hann borinn saman við kostnað við skimun.

Efniviður og aðferðir: Samkvæmt erlendum rannsóknum má áætla að sjúklingar, sem greinast með sjúkdóminn, fái nær alla sína meðferð á 5 ára tímabili frá greiningu. Því voru fengnar upplýsingar frá Krabbameinsskrá Íslands um þá einstaklinga sem greinst höfðu með krabbamein í ristli og endaþarmi á árunum 2004-2008. Kostnaður vegna meðferðar þeirra árið 2008 á Landspítalanum var skoðaður. Kostnaðartölur voru fengnar frá hag- og upplýsingasviði, Sjúkrahúsapótekinu og nokkrum öðrum einingum spítalans. Reynt var að áætla hver kostnaður væri vegna meðferðar sjúklinga á öðrum sjúkrastofnunum. Ekki var lagt mat á kostnað sjúklinga vegna sjúkdómsins, vinnutaps, né annarra óbeinna þátta. Kostnaður við mismunandi skimunaraðferðir var metinn.

Niðurstöður: Beinn kostnaður við meðferð sjúklinga með krabbamein í ristli og endaþarmi, sem fengu þjónustu á Landspítalanum árið 2008, var 547.453.110 krónur sem er varlega áætlað. Áætlað var að kostnaður vegna sjúklinga sem fengu hluta eða alla sína meðferð utan Landspítala væri um fjórðungur af þessari upphæð. Því gæti heildarkostnaður verið um 684.000.000 krónur.

Ályktanir:Hafa verður í huga kostnað við meðferð sjúkdómsins þegar rætt er um fýsileika þess að hefja skipulagða skimun hér á landi.

 

 

V041 Testing of a poly(ADP-ribose) polymerase (PARP) inhibitor on human BRCA2 heterozygous cell lines

Anna María Halldórsdóttir, Linda Viðarsdóttir, Ólafur Andri Stefánsson, Hörður Bjarnason, Sigríður Klara Böðvarsdóttir, Jórunn Erla Eyfjörð

Rannsóknarstofu í krabbameinsfræðum og læknadeild Háskóla Íslands

 

Introduction: The PARP inhibitor olaparib is a promising targeted anticancer agent for patients with specific DNA-repair defects such as found in BRCA mutation carriers. Early clinical trials suggest that this targeted drug is effective on tumour cells and well tolerated by normal tissues in mutation carriers.

Materials and methods: Response to olaparib was tested on three heterozygous mammary epithelial cell lines derived from carriers of a 999del5 BRCA2 founder mutation (A176, A240, A256) and a non-BRCA cell line (D492) transformed in the same way, as well as the commercially available BRCA2 deficient pancreatic cell line Capan-1 and the mammary cell line MCF7. Heterozygous cell lines were examined for BRCA2 allel loss using TaqMan qRT-PCR and copy number changes on CGH arrays. MTS assay was used to estimate survival and determine the IC50 values for all cell lines. Cell death was assessed with annexin-V and PI staining. Immunostaining for RAD51 and gH2AX was carried out to evaluate DNA double stand breaks and DNA repair.

Results:Olaparib testing using the MTS assay shows that the heterozygous cell lines have similar IC50 values as both the non-BRCA cell lines, D492 and MCF-7. Whereas, Capan-1 shows increased sensitivity to the inhibitor. Annexin-V and PI staining show that the Capan-1 cell line goes through apoptosis at low dosages. Immunostaining with gH2AX and RAD51 antibodies indicates that the Capan-1 cell line has loss of gH2AX/RAD51 colocalization after treatment with olaparib, whereas the heterozygous cell lines show colocalization after treatment.

Conclusions: Human mammary cell lines heterozygous for a BRCA2 mutation that have retained the second BRCA2 allel are not more sensitive to PARP inhibitor olaparib treatment than non-BRCA2 mammary cell line controls.

 

 

V042 Stærð nýrnafrumukrabbameina - líkur á meinvörpum og lífshorfur

Jóhann P. Ingimarsson1, Sverrir Harðarson2,4, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1, Guðmundur V. Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3,4

1Þvagfæraskurðlækningadeild, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3skurðlækningasviði Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Sífellt fleiri nýrnafrumukrabbamein greinast fyrir tilviljun, og mörg þeirra eru smá (<4 cm). Oftast er mælt með brottnámi þessara æxla. Sumir hafa þó hallast að virku eftirliti (active surveillance), einkum hjá eldri sjúklingum og þeim sem síður eru taldir þola aðgerð. Slíkt eftirlit hefur verið byggt á þeim forsendum að smærri æxlin hafi aðra klíníska hegðun en þau stærri og meinverpist síður. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif stærðar nýrnafrumukrabbameins á tíðni meinvarpa við greiningu og lífshorfur sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 791 sjúklingum með nýrnafrumukrabbamein á Íslandi 1971-2005. Aðeins voru tekin með tilfelli þar sem greining var staðfest með vefjasýni og stærð æxlis lá fyrir. Öll sýni voru endurskoðuð og TNM-kerfi notað við stigun. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Fjölbreytugreining var notuð til að meta áhrif stærðar á tíðni meinvarpa og lífshorfur (sjúkdóma sértækar).

Niðurstöður: 28% sjúkl. höfðu meinvörp og jókst tíðni þeirra marktækt með vaxandi æxlisstærð; eða frá 9% fyrir æxli <4 cm í 48% fyrir æxli >11 cm. Fimm ára lífshorfur versnuðu marktækt með aukinni stærð, eða úr 86% fyrir æxli <4 cm í 35% fyrir >11 cm æxli (p<0,001). Við fjölþáttagreiningu reyndist stærð marktækur sjálfstæður forspárþáttur,.bæði fyrir meinvörpum við greiningu (OR 1,08, p=0,01), og lífshorfum (OR 1,09, p<0,01), þótt leiðrétt hafi verið fyrir TNM stigi (OR=2,58, p<0,01).

Ályktanir: Eftir því sem nýrnafrumukrabbamein eru stærri aukast líkur á meinvörpum og lífshorfur skerðast. Þessi áhrif stærðar bætast við forspárgildi TNM stigs sem er langsterkasti forspárþátturinn. Æxli <4 cm geta meinverpst, eða í 9% tilfella, og 5 ára sjúkdóma sértækar lífshorfur eru 86%. Þetta ber að hafa í huga þegar íhugað er virkt eftirlit í stað brottnáms þessara æxla.

 

 

V043 Nýrnafrumukrabbamein af litfælugerð Íslandi 1971-2005

Jóhann P. Ingimarsson1, Sverrir Harðarson2,4, Vigdís Pétursdóttir2, Eiríkur Jónsson1, Guðmundur V. Einarsson1, Tómas Guðbjartsson3,4

1Þvagfæraskurðlækningadeild, 2rannsóknastofu í meinafræði, 3skurðlækningasviði Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Litfæluæxli (chromophobe) eru sjaldgæfur undirflokkur nýrnafrumukrabbameina. Erlendar rannsóknir benda til betri lífshorfa sjúklinga með þessi æxli, en fáar byggja á stóru þýði sjúklinga frá heilli þjóð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna lífshorfur þessara sjúklinga borið saman við aðra vefjaflokka.

Efniviður og aðferðir: 828 vefjafræðilega staðfest nýrnafrumukrabbamein greindust á Íslandi 1971-2000. Öll vefjasýni voru endurskoðuð og reyndust 15 þeirra af litfælugerð. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð og reiknaðar út lífshorfur (sjúkdóma sértækar), með aðferð Kaplan-Meier. Litfæluæxlin voru borin saman við tærfrumu (n=740) og totugerð (n=66) nýrnafrumukrabbameina, bæði með ein- og fjölþáttagreiningu. Eftirfylgd var 5 ár að miðgildi.

Niðurstöður: Litfæluæxli voru 1,8% nýrnafrumukrabbameina og nýgengi 0,17/100.000/ári fyrir bæði kyn. Samanborið við hinar vefjagerðirnar voru æxli af litfælugerð oftar greind vegna einkenna, (93% vs 71%, p=0,02) og á lægri stigum (73% vs 45% á stigum I+II, p<0,01). Einn sjúklingur var með meinvörp við greiningu og annar greindist ári síðar. Báðir létust úr meininu en aðrir 6 létust af öðrum orsökum og 7 voru á lífi í lok árs 2009. Fimm ára lífshorfur voru 87% fyrir litfæluæxlin, en 59% og 50% fyrir tærfrumu- og totufrumugerð. Munurinn var marktækur í einþáttagreiningu, en eftir að leiðrétt var fyrir stigun reyndist litfælugerð ekki sjálfstæður forspárþáttur lífshorfa.

Ályktanir: Hlutfall litfæluæxla á Íslandi (1,8%) er ívíð lægra en annars staðar hefur verið lýst (~2-3%). Þrátt fyrir að vera oftar einkennagefandi eru litfæluæxli oftar staðbundin í nýrum en æxli af hinum vefjagerðunum, þ.e á lægra stigi, sem skýrir líklega betri lífshorfur þeirra. Þetta bendir til að litfæluæxli hafi aðra líffræðilega hegðun en hinar vefjagerðirnar.

  

V044  Illkynja iðraþekjuæxli í fleiðru á Íslandi 1985-2008

Tómas Guðbjartsson1,4, Eyrún Valsdóttir1, Tryggvi Þorgeirsson1, Helgi J. Ísaksson2, Hrönn Harðardóttir3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3lungnadeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Æxli í fleiðru eru aðallega af tveimur gerðum, góðkynja SFTP-æxli (solitary fibrous tumor of pleura) eða illkynja iðraþekjuæxli (malignant mesothelioma). Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á illkynja fleiðruæxlum á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða tíðni sjúkdómsins hérlendis, einkenni, áhættuþætti og lífshorfur.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 33 sjúklingum (meðalaldur 71,5 ár; bil 49-89 ár; 88% karlar) sem greindust með illkynja fleiðruæxli á Íslandi 1985-2009. Úr sjúkraskrám voru skráð einkenni ásamt atvinnu- og reykingasögu og sögu um snertingu við asbest. Æxlin voru endurskoðuð af meinafræðingi og stiguð skv. kerfi International Mesothelioma Interest Group. Einnig voru reiknaðar lífshorfur (hráar) og miðast útreikningar við 31. des. 2009.

Niðurstöður: Aldursstaðlað nýgengi var 4,9 fyrir milljón karla og konur (95% CI 3,32-7/106). Alls höfðu 87% sjúklinganna sögu um reykingar og 63% höfðu staðfesta sögu um snertingu við asbest. Algengustu einkenni sem leiddu til greiningar voru mæði og brjóstverkur. Alls voru 78% sjúklinganna á stigi III eða IV við greiningu, þar af 11 (41%) með staðfest fjarmeinvörp, oftast í lifur og lungum. Enginn greindist á stigi I og 6 sjúklingar (22%) voru á stigi II. Ekki var hægt að stiga 6 sjúklinga vegna ófullnægjandi upplýsinga. Fleiðrusýni til greiningar voru tekin hjá 14 sjúklingum, annaðhvort í gegnum brjóstholsskurð (n=8) eða með brjóstholsspeglun (n=6). Enginn sjúklinganna gekkst undir brottnám á fleiðru og lunga með lækningu að markmiði. Lífshorfur voru 8,3 mánuðir að meðaltali (bil 2 vikur til 40 mánuðir). Við lok rannsóknartímabilsins voru 5 af 33 sjúklingum á lífi og höfðu þeir allir verið greindir innan 48 mánaða.

Ályktanir: Illkynja fleiðruæxli eru fátíðari á Íslandi en í nágrannalöndunum. Fjórir af hverjum fimm sjúklingum greinast með útbreiddan og ólæknandi sjúkdóm. Rannsóknin sýnir að stigun sjúkdómsins er oft ábótavant og athygli vekur að enginn sjúklinganna gekkst undir brottnám á æxlinu.

 

 

V045 Fleyg- og geiraskurðir við lungnakrabbameini á Íslandi

Ásgeir Alexandersson1, Steinn Jónsson1,2, Helgi J. Ísaksson3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lungnadeild, 3rannsóknarstofu í meinafræði, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

 

Inngangur: Hefðbundin aðgerð við lungnakrabbameini öðru en smáfrumukrabbameini (ÖES) er blaðnám. Í völdum tilvikum er þó gripið til fleyg- eða geiraskurðar, t.d. ef lungnastarfsemi er mikið skert. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem gengust undir fleyg- eða geiraskurð vegna lungnakrabbameins (ÖES) á Íslandi 1994–2008. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og voru kannaðar ábendingar aðgerðar, TNM-stigun, fylgikvillar og heildarlífshorfur. Öll vefjasýni voru endurskoðuð.

Niðurstöður: Alls gengust 44 sjúklingar (52,3% konur) undir samtals 47 fleyg- eða geiraskurði. Meðalaldur var 69,1 ár og greindust 38,3% sjúklinga fyrir tilviljun. Alls höfðu 55,3% sögu um kransæðasjúkdóm og 40,4% langvinna lungnateppu. Meðal ASA-skor var 2,6. Aðgerðirnar tóku að meðaltali 82,5 mínútur (bil 30-131), blæðing í aðgerð var 260

ml (bil 100-650) og miðgildi legutíma 9 dagar (bil 4-24). Sýni úr eitlum voru tekin í 12,8% aðgerðanna en miðmætisspeglun aðeins gerð einu sinni. Helstu fylgikvillar voru lungnabólga (14,9%), langvarandi loftleki (12,8%) og blæðing í aðgerð (>500 ml) (8,7%). Tveir sjúklingar fengu alvarlega fylgikvilla, 36,2% dvöldu á gjörgæslu yfir nótt, en enginn lést <30 daga frá aðgerð. Meðalstærð æxlanna var 2,3 cm (bil 0,8–5). Kirtilmyndandi krabbamein var algengasta vefjagerðin (66,7%) og 43,8% æxlanna illa þroskuð. Eftir aðgerð voru 78,7% sjúklinga á stigi IA/IB, 17,0% á stigi IIA/IIB og tveir á stigi IIIA. Eins og 5 ára lífshorfur voru 85,1% og 41,2%.

Ályktanir: Tíðni fylgikvilla eftir fleyg- og geiraskurði er lág á Íslandi, svipuð og eftir blaðnám. Lífshorfur eru einnig sambærilegar. Þetta er athyglisvert þar sem flestir þessara sjúklinga hafa undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma.

 

 

V046 Forspárþættir lífshorfa eftir blaðnám við lungnakrabbameini á Íslandi 1999-2008

Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Rut Skúladóttir1, Húnbogi Þorsteinsson1, Helgi J. Ísaksson2, Steinn Jónsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3lungnadeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

Inngangur: Skurðaðgerð er helsta læknandi meðferð við lungna-krabbameini. Tilgangur þessarar rann-sóknar var að kanna stigun, lífshorfur og forspárþætti lífshorfa hjá sjúklingum sem gengist hafa undir lungnablaðnám vegna lungnakrabbameins á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 213 sjúklingum (meðalaldur 66,9 ár) sem gengust undir blaðnám á Íslandi við lungnakrabbameini öðru en smáfrumukrabbameini (ÖES) á tímabilinu 1999-2008. Æxlin voru stiguð samkvæmt TNM-stigunarkerfi og ein- og fjölþáttagreining notuð til að meta forspárþætti lífshorfa.

Niðurstöður: Heildarlífshorfur (Kaplan-Meier) eftir 1 og 5 ár voru 82,7% og 45,1%, en enginn lést <30 daga frá aðgerð. Algengustu vefjagerðir voru kirtilfrumu- (62%) og flöguþekjukrabbamein (29,1%) og meðalstærð æxlanna var 3,7 cm. Flestir sjúklinganna greindust á stigi I (59,6%) eða II (17,8%,) en 7% á stigi IIIA og 14,6% á stigi IIIB-IV. Stigun, stærð æxlis, kirtilfrumukrabbamein (HR=0,5, p=0,002), skert lungnastarfsemi og hjartsláttaróregla reyndust sjálfstæðir forspárþættir lífshorfa í fjölbreytugreiningu.

Ályktanir: Lífshorfur eru sambærilegar við erlendar rannsóknir, en tæplega helmingur sjúklinga var á lífi fimm árum eftir aðgerð. Hátt TNM sjúkdómsstig, skert lungnastarfsemi og saga um hjartsláttaróreglu fyrir aðgerð skerða lífshorfur þessara sjúklinga. Sjúklingum með kirtilfrumukrabbamein vegnar hins vegar betur en sjúklingum með flöguþekjukrabbamein, ólíkt því sem flestar aðrar rannsóknir hafa sýnt.

 

 

V047 Árangur lungnaskurðaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi

Húnbogi Þorsteinsson1, Ásgeir Alexandersson1, Guðrún Nína Óskarsdóttir1, Rut

Skúladóttir1, Helgi J. Ísaksson3, Steinn Jónsson1,4, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknarstofu í meinafræði, 4lungnadeild Landspítala

Inngangur: Hér á landi hefur vantað upplýsingar um hlutfall sjúklinga með lungnakrabbamein sem gangast undir lungnaskurðaðgerð með lækningu að markmiði. Í Bandaríkjunum hefur þetta hlutfall verið um 30% en 20-25% í Evrópu. Markmið okkar var að kanna þetta hlutfall hér á landi og bera saman árangur helstu aðgerða.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sjúklinga með lungnakrabbamein önnur en smáfrumukrabbamein (ÖES) sem gengust undir læknandi lungnaskurðaðgerð á Íslandi 1994–2008. Upplýsingar um tegund aðgerðar, alvarlega fylgikvilla og skurðdauða (<30 d.) fengust úr sjúkraskrám. Heildarfjöldi greindra lungnakrabbameina (ÖES) fékkst úr Krabbameinsskrá, en þau voru 1568. Æxli voru stiguð skv. TNM-kerfi og lífshorfur reiknaðar. Borin voru saman þrjú 5 ára tímabil.

Niðurstöður: Alls gengust 397 sjúklingar undir 404 aðgerðir; þar af voru 73,5% blaðnám, 14,9% lungnabrottnám og 11,6% fleyg-/geiraskurðir (tafla 1). Hlutfall sjúklinga sem fóru í aðgerð var 25,3% og breyttist ekki marktækt milli tímabila. Sama átti við um hlutfall kirtilfrumukrabbameina, tilviljunargreindra æxla og sjúklinga á stigum I+II. Alvarlegir fylgikvillar greindust í 8,4% tilfella, oftast eftir lungnabrottnám (18,3%). Skurðdauði var 0,7% eftir blaðnám, 3,3% eftir lungnabrottnám og 0% eftir fleygskurð (p>0,1). Fimm ára lífshorfur fyrir allan hópinn voru 40,7% samanborið við 4,8% fyrir þá sem ekki fóru í aðgerð. Lífshorfur voru marktækt betri eftir blaðnám (44,5%) og fleyg/geiraskurð (41,2%) samanborið við  lungnabrottnám (22,3%) (p<0,005) og á síðustu 5 árunum miðað við fyrstu 5  (p=0,04).

Ályktanir: Hlutfall sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð var 25,3% sem er í hærra lagi miðað við önnur Evrópulönd. Árangur fyrst eftir aðgerð er mjög góður (skurðdauði 1%) og langtíma lífshorfur í meðallagi.

 

Tafla 1 Blað­nám Lungna­brottnám Fleyg-/geira­skurður Samtals
Fjöldi aðg. og hlutfall (%) af heildarfj. greindra (n=1757) 290 (16,5%) 60 (3,4%) 47 (2,68%) 397 (22,6%)
Hlutfall á stigi I+II 78,9% 60,1% 95,7%* 78,1%
Tíðni alv. fylgikvilla 5,9% 18,3%* 4,3% 7,6%
5 ára lífshorfur 44,6% 21,2%* 40,9% 40,3%
Skurðdauði (<30 d.) 0,7% 3,3% 0% 1,0%
* marktækur munur (p<0,05)

 

 

 

 

V048 Æxli í hóstarkirtli á Íslandi 1984-2010

Elín Maríusdóttir1,2, Sigfús Nikulásson3, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta- og lungnaskurðdeild, 3rannsóknarstofu í meinafræði Landspítala

Inngangur: Æxli í hóstarkirtli eru sjaldgæfur og misleitur hópur æxla með afar mismunandi horfur. Upplýsingar um faraldsfræði þessara æxla hérlendis er ekki þekkt. Markmið rannsóknarinnar er að bæta úr því og flokka æxlin skv. nýjustu skilmerkjum, nýlega var gefin út alþjóðleg vefjafræðiflokkun (WHO) þar sem lífshorfur sjúklinga eru lagðar til grundvallar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra einstaklinga á Íslandi sem greindust með æxli í hóstarkirtli frá 1984 til 2010. Upplýsingar fengust úr meinafræði- og sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð (Masoka-kerfi) og flokkuð vefjafræðilega en einnig reiknaðar lífshorfur og aldursbundið nýgengi sjúkdómsins. Meðal eftirfylgni var 67 mán.

Niðurstöður: Alls greindust 19 tilfelli (11 karlar, aldur 63 ár, bil 31-87) og var aldurstaðlað nýgengi 0.3 og 0.2 /100.000/ár fyrir karla og konur. Átta sjúklingar greindust fyrir tilviljun, 9 vegna staðbundinna einkenna og 2 við uppvinnslu vöðvaslensfárs. Ellefu sjúklingar gengust undir brottnám æxlis í gegnum bringubeinsskurð en í 8 tilfellum var eingöngu tekið sýni. Alvarlegir fylgikvillar sáust ekki og enginn lést <30 daga frá aðgerð. Fimmtán æxlanna (79%) reyndust góðkynja (thymoma) og voru þau oftast af flokki B2 (n=5) og A (n=5). Sex þeirra voru á stigi I og tveir á stigi II, tveir á stigi III. Ekki var hægt að stiga þá 6 sjúklinga sem eingöngu fóru í lokaða sýnatöku. Af 4 sjúklingum með illkynja æxli (thymic carcinoma) voru 2 á hvoru stigi, III og IV. Eins og fimm ára lifun var 76% og 53 % fyrir allan hópinn en enginn sjúklingur með illkynja æxli lifði lengur en tvö ár.

Ályktanir: Æxli í hóstarkirtli eru sjaldgæf, aldurstaðlað nýgengi er 0,2-0,3/100000. Í flestum tilvikum eru æxlin góðkynja og horfur góðar. Illkynja hóstarkirtilsæxli hafa mun verri horfur og flestir látnir innan árs frá greiningu.

 

 

V049 Krabbamein í eistum á Íslandi 2000-2009

Andri Wilberg Orrason1, Bjarni Agnarsson2, Guðmundur Geirsson3, Helgi H. Helgason4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknarstofu í meinafræði, 3þvagfæraskurðdeild, 4krabbameinslækningadeild Landspítala

Inngangur: Á síðustu áratugum hafa lífshorfur sjúklinga með eistnakrabbamein batnað umtalsvert, aðallega vegna tilkomu öflugra krabbameinslyfja. Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi, stigun og lífshorfur sjúklinga við greiningu eistnakrabbameins á Íslandi á 10 ára tímabili og bera saman við eldri rannsóknir.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem nær til allra íslenskra karla sem greindust með kímfrumuæxli í eistum 2000-2009. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám. Æxlin voru stiguð (Boden-Gibb) og reiknaðar heildarlífshorfur. Borin voru saman sáðfrumu-krabbamein (SFK) og ekki-sáðfrumukrabbamein (E-SFK). Eftirlitstími var 4,9 ár að meðaltali.

Niðurstöður: Alls greindust 97 karlar og var aldursstaðlað nýgengi 5,9/100.000/ári. Hlutfall SFK og E-SFK var jafnt og voru einkenni svipuð í báðum hópum. Meðalstærð æxla var 4,0±2,1 cm og hélst óbreytt á rannsóknartímabilinu. Meðalaldur sjúklinga var marktækt hærri hjá sjúklingum með SFK (41,6 ár) samanborið við E-SFK (30,1 ár) (p<0,0001). Flest æxlanna voru á stigi I, eða 78,4%, 13,4% á stigi II og 8,2% á stigum III-IV. SFK greindust á marktækt lægri stigum samanborið við E-SFK (57,9 vs. 42,1% á stigi I; p=0,003). Enginn fjarmeinvörp greindust hjá sjúklingum með SFK en hjá 8 sjúklingum með E-SFK (p<0,006). Fjórir sjúklingar létust á rannsóknartímabilinu, 2 úr E-SFK, 2 vegna óskyldra sjúkdóma en enginn úr SFK. Fimm ára lífshorfur fyrir allan hópinn voru 96%.

Ályktanir: Miðað við nágrannalönd er nýgengi eistnakrabbameins á Íslandi í meðallagi og hefur haldist stöðugt síðustu tvo áratugi. Á sama tímabili hefur hlutfall sjúklinga með staðbundinn sjúkdóm (stig I) lítið breyst og stærð æxlanna sömuleiðis. Lífshorfur hér á landi eru mjög góðar og með því hæsta sem þekkist.

 

 

V050 Árangur Landspítala í fyrirbyggjandi meðferð gegn bláæðasegasjúkdómum – framsýn þversniðsrannsókn

Hallgerður Lind Kristjánsdóttir1, Guðný Stella Guðnadóttir1, Sigríður Bára Fjalldal1, Hulda Rósa Þórarinsdóttir2, Agnar Bjarnason1, Óskar Einarsson1

1Lyflækningasviði, 2svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

 

Inngangur: Bláæðasegasjúkdómar (venous thromboembolism (VTE)) eru taldir valda 5-10% af dauðsföllum hjá inniliggjandi sjúklingum. ENDORSE, fjölþjóðleg rannsókn frá 2008 sýndi að 51.8% sjúklinga á bráðadeildum voru í áhættuhópi fyrir VTE en af þeim fengu 58.5% og 39.5% sjúklinga á skurð (SKD)- og lyflækningadeildum (LD) forvarnarmeðferð.

Tilgangur rannsóknarinnar er að sjá hver árangur LSH er í að veita fyrirbyggjandi meðferð gegn VTE. Niðurstöðurnar verða bornar saman við árangur annarra landa úr ENDORSE.

Efniviður og aðferðir: Þann 2.des 2009 var farið yfir sjúkraskrár allra inniliggjandi sjúklinga á SKD og LD LSH. Kannað var hvort viðkomandi var að fá fyrirbyggjandi meðferð gegn VTE skv. leiðbeiningum American College of Chest Physicians (ACCP) frá 2008.

Niðurstöður: Inntökuskilyrðin uppfylltu 251 sjúklingur. Leiðbeiningum ACCP var fylgt hjá 82% sjúklinga á SKD og 76% á LD. Inniliggjandi sjúklingar á LSH voru í 47% tilfella með ábendingu fyrir forvarnarmeðferð (áhættusjúklingar) og af þeim fengu 57% slíka meðferð. Áhættusjúklingar fengu forvarnameðferð í 78% tilfella á SKD og 26% tilfella á LD.

Ályktanir:Árangur skurðlæknisdeilda LSH var góður og yfir meðaltali í ENDORSE rannsókninni en árangur lyflæknisdeilda var slakur. Skurðlæknar eru betur meðvitaðir um efnið en eins eru ábendingar skýrari. Í þessum niðurstöðum felst tækifæri til að bæta gæða þjónustu LSH. Besta leiðin til þess er að deildir hafi skýrar leiðbeiningar um fyrirbyggjandi meðferð, notist við stöðluð innlagnafyrirmæli eða kvaðir í tölvuskráningu lyfja.

 

 

V051 Notkun espaðs storkuþáttar VII á Landspítala á 10 ára tímabili

Róbert Pálmason1, Brynjar Viðarsson2, Felix Valsson3, Kristinn Sigvaldason3, Tómas Guðbjartsson4,5, Páll Torfi Önundarson2,5

1Lyflækningasviði, 2blóðmeinafræðideild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 5læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Espaður storkuþáttur VII (recombinant factor VIIa, rFVIIa) hefur verið notaður á Landspítala (LSH) frá árinu 1999 við blæðingum af ýmsum orsökum. Tilgangur þessarar aftursæju rannsóknar var að athuga ábendingar og árangur af notkun rFVIIa á LSH frá upphafi til ársloka 2008.

Efniviður og aðferðir:Fengnar voru upplýsingar um notkun rFVIIafrá apóteki LSH og gagnagrunni blæðaramiðstöðvar. Klínískar upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám og voru m.a. skráðar ábendingar notkunar lyfsins; klínísk svörun að mati meðhöndlandi læknis; fjöldi blóðhluta gefinn 12 klst. fyrir og 12 klst. eftir gjöf rFVIIa;storkupróf fyrir og eftir gjöf; og afdrif sjúklinga.

Niðurstöður: Alls fengu 73 sjúklingar rFVIIa, meðalaldur 51 ár (0-84). Helstu ábendingar voru óviðráðanlegar blæðingar við hjartaskurðaðgerðir (n=23), eftir áverka (n=8) og fæðingu (n=9). Átta sjúklingar fengu lyfið vegna heilablæðingar, níu sem fyrirbyggjandi meðferð fyrir skurðaðgerð og 16 við öðrum ábendingum. Klínísk svörun var góð í 73% tilfella. Notkun rauðkornaþykknis minnkaði að meðaltali úr 10,6 einingum 12 klst. fyrir lyfjagjöf (bil 0-32, miðgildi 10) í 4,3 einingar 12 klst. eftir gjöf lyfsins (bil 0-22, miðgildi 3; p<0,0001); notkun blóðvökva minnkaði úr 10,2 einingum (bil 0-26, miðgildi 8) í 6,2 (bil 0-33, miðgildi 5,5; p<0,002); og PT styttist um 6,9 sek (p<0,0001). Alls létust 24 sjúklingar innan 30 daga (33%), þar af 6 af 9 með heilablæðingu og 10 af 24 sjúklingum eftir opnar hjartaaðgerðir.

Ályktanir: Þrír af hverjum fjórum sjúklingum svöruðu rFVIIavel skv. klínísku mati. Marktæk minnkun á gjöf blóðhluta og stytting PT styður það mat. Þótt dánarhlutfall sé hátt (33%), sérstaklega eftir heilablæðingar (66%), þá ber að hafa í huga að lyfið var aðeins gefið þegar önnur meðferðarúrræði höfðu brugðist.

 

 

V052 Áhrif af gjöf fíbrínógenþykknis við alvarlegar blæðingar

Friðrik Th. Sigurbjörnsson1, Hulda R. Þórarinsdóttir1, Kári Hreinsson1, Páll T. Önundarson2,4, Tómas Guðbjartsson3,4, Gísli H. Sigurðsson1,4

1Svæfinga- og gjörgæsludeild, 2blóðmeinafræðdeild, 3hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Fíbrínógen er mikilvægur storkuþáttur sem virðist lækka fyrr en blóðflögur og aðrir storkuþættir við alvarlegar blæðingar. Dýrarannsóknir hafa sýnt bætta storknun blóðs þegar lyfið er gefið við alvarlegar blæðingar. Klínískar rannsóknir eru hins vegar af skornum skammti. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur af gjöf fíbrínógenþykknis við alvarlegar blæðingar á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem tók til 37 sjúklinga (meðalaldur 74 ár, bil 23-87, 51% karlar) sem fengu fíbrínógen við alvarlegum blæðingum (>2000 mL) á Landspítala 2006-2008. Sjúklingar sem fengu marga skammta af fíbrínógeni eða virkjaðan storkuþátt VIIa  voru ekki teknir með í rannsóknina. Flestir sjúklinganna fengu alvarlega blæðingu í tengslum við hjarta- (68%) eða kviðarholsaðgerð (13%). Skráð var tímasetning fíbrínógengjafar og styrkur þess í sermi, blóðhluta- og vökvagjafir, blæðingarpróf (APTT; PT), blóðflögur og D-dímer; fyrir og eftir gjöf lyfsins. Notkun annarra storkuhvetjandi lyfja, áhættuþættir blæðinga, undirliggjandi sjúkdómar og afdrif sjúklinganna voru könnuð.

Niðurstöður: Eftir gjöf fíbrínógenþykknis (miðgildi 2g, bil 1-6g) hækkaði s-fíbrínógen úr 1,8g/L í 2,4g/L (p<0,001). Einnig varð marktæk lækkun á APTT og PT-gildum (p<0,001) en blóðflögufjöldi og D-dímer héldust óbreytt. Gjöf rauðkornaþykknis minnkaði marktækt á 24 klst. eftir gjöf fíbrínógens en ekki varð marktæk breyting á gjöfum blóðvatns eða blóðflagna. Engar aukaverkanir tengdar gjöf lyfsins voru skráðar. Átta sjúklingar (22%) létust á gjörgæslu, flestir innan 28 daga, en 76% útskrifuðust af sjúkrahúsi og voru á lífi hálfu ári síðar.

Ályktanir: Fíbrínógengjöf við alvarlegar blæðingar virðist (i) hækka marktækt styrk fíbrínógens í blóði, (ii) bæta blæðingarpróf (PT og APTT) þegar það er gefið sem viðbót við hefðbundna meðferð og (iii) gæti tengst minnkaðri þörf á rauðkornaþykkni.

 

 

V053 Áhættugreining augnbotnabreytinga hjá sykursjúkum einstaklingum

Rúnar Bragi Kvaran1, Arna Guðmundsdóttir2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2innkirtla- og efnaskiptalækningadeild Landspítala

Inngangur: Venja er að sykursjúkir einstaklingar mæti árlega í skimun fyrir augnbotnabreytingum. Þar sem áhættuþættir sykursjúkra fyrir augnbotnabreytingum eru mismunandi fara sumir einstaklingar oftar í augnskoðun en þeir þurfa og aðrir sjaldnar en á er þörf. Tilgangur rannsóknarinnar var að prófa áhættureikniforrit Risk Medical Solutions (RMS) á íslensku úrtaki sykursjúkra og meta út frá þekktum áhættuþáttum hversu reglulega þeir þurfa að mæta í augnskoðun.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn og voru sjúkraskrár sjúklinga, er hittu tvo af innkirtlalæknum Göngudeildar sykursjúkra á LSH í janúar, febrúar og mars árið 2010, rannsakaðar. Áhættuþættir augnbotnabreytinga voru skráðir fyrir hverja komu. Út frá þeim var áhættureikniforrit RMS látið reikna hvenær sjúklingar ættu næst að mæta í augnskoðun. 4% áhættumörk voru notuð við útreikninga. Forritið gefur lágmarksskimunartíma þrjá mánuði en hámark 60 mánuði.

Niðurstöður: Komurnar voru alls 289 og voru karlar í meirihluta (58%). 53% höfðu sykursýki af tegund eitt og meðalárafjöldi frá greiningu sykursýki var rúm 17 ár. 68% höfðu engar augnbotnabreytingar, 23% höfðu bakgrunnsbreytingar og rúm 9% höfðu lengra genginn augnsjúkdóm. Samkvæmt útreikningum þurfa 41% sjúklinganna að fara í augnskoðun innan árs. Hins vegar þurfa önnur 41% allra sjúklinga ekki að fara í augnskoðun nema á tveggja ára fresti eða sjaldnar og 27% á þriggja ára fresti eða sjaldnar.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að breytilegt er meðal sykursjúkra hversu oft þeir þurfa á augnskoðun að halda. Mesta athygli vekur að rúmur fjórðungur sjúklinga þarf aðeins á augnskoðun að halda á þriggja ára fresti eða sjaldnar. Þetta bendir til þess að með upptöku einstaklingsmiðaðrar skimunar væri hægt að ráðstafa betur því fjármagni sem varið er í skimanir.

 

 

V054 Beinþéttni og lystarstol

Rebekka Rúnarsdóttir1, Guðlaug Þorsteinsdóttir2, Ólafur Skúli Indriðason3, Gunnar Sigurðsson1, 4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2geðsviði, 3nýrnalækningaeiningu, 4innkirtla- og efnaskiptalækningadeild Landspítala

Inngangur: Ótímabært beintap er þekktur fylgikvilli meðal sjúklinga með lystarstol en á Íslandi hafa engar rannsóknir verið gerðar á beinheilsu þessa sjúklingahóps. Markmið rannsóknarinnar var að athuga beinþéttni ungra kvenna með lystarstol og öðlast betri skilning á mögulegum orsakaþáttum svo unnt verði að beita forvörnum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er samanburðarrannsókn. Skoðaðar voru beinþéttnimælingar (DXA) hjá sjúklingum sem leitað höfðu meðferðar hjá átröskunarteymi Landspítala, fengið greiningarnar á ICD-10; F50.0 eða F50.1 og niðurstöður bornar saman við 30 ára heilbrigðar konur (n=58) Skoðaðar voru 63 sjúkraskár og endanlegt úrtak alls n=40 (21 ára (18-36)), þar af n=26 sem höfðu farið í fleiri en eina beinþéttnimælingu.

Niðurstöður: Beinþéttnin í lendhrygg, lærleggshálsi og nærenda lærleggs var marktækt lægri hjá sjúklingum með lystarstol en samanburðarhóp (15,3%-17,5%; p<0,001). Í heild höfðu 55% beinrýrnun og 15% beinþynningu en aðeins 30% höfðu eðlilega beinþéttni. Marktæk fylgni beinþéttni fannst við þyngd og hæð, en mest var fylgni beinþéttni við lægstu þyngd í veikindum (r=0,482-0,499; p<0,01). Engin fylgni fannst milli beinþéttni og tímalengdar átröskunar né aldurs við upphaf átröskunar. Í lystarstolshópnum var beinþéttni marktækt lægri hjá þeim sem höfðu sögu um kalíumskort (K<3,5 mmol/L). Þegar skoðaðar voru breytingar hjá þeim sem áttu fleiri en eina beinþéttnimælingu kom í ljós að þær sem töpuðu þyngd milli mælinga lækkuðu marktækt í beinþéttni í lærleggshálsi (-6,6%; p=0,030).

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hátt hlutfall kvenna með lystarstol höfðu beinrýrnun eða beinþynningu. Í samanburði við almennt þýði benda niðurstöðurnar til að vegna lystarstols nái sjúklingahópurinn lægri hámarksbeinþéttni en ella.

 

 

V055 Framrás nýrnameins af völdum sykursýki 1 á Íslandi

Unnur Lilja Þórisdóttir1, Ólafur S. Indriðason2, Rafn Benediktsson1,3, Runólfur Pálsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu,3innkirtla- og efnaskiptalækningaeiningu Landspítala

Inngangur: Þrátt fyrir svipað nýgengi hefur sykursýkinýrnamein (SNM) verið mun fátíðari orsök lokastigsnýrnabilunar (LSNB) hér á landi en víðast annars staðar. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna þróun nýgengis og framrás nýrnameins meðal sjúklinga með tegund 1 sykursýki á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og beindist að einstaklingum er greindust með tegund 1 sykursýki á Íslandi fyrir 2002. Fundust þeir með leit í skrá göngudeildar sykursjúka og í tölvukerfi Landspítala. Sjúklingar voru skilgreindir með tegund 1 sykursýki ef þeir greindust fyrir 30 ára aldur og voru insúlínháðir frá upphafi. SNM var skilgreint sem viðvarandi próteinmiga (³300 mg/l) eða albúmínmiga (>300 mg/l) við eftirlit í þrjú skipti í röð með minnst tveggja mánaða millibili. Eftirfylgd var til ársloka 2008, síðustu komu eða til dánardags.

Niðurstöður: Alls fundust 464 sjúklingar með tegund 1 sykursýki og var meðallengd eftirfylgdar 23,13 ± 12,8 ár. Hurfu 61 þeirra (13,1%) úr eftirliti að meðaltali 17,5 ± 11,8 árum frá greiningu. Eftirfylgd var a.m.k. 20 ár hjá 247 sjúklingum og a.m.k. 40 ár hjá 48. Sjötíu og fjórir sjúklingar greindust með SNM. Safngengi SNM eftir 20 ár með sykursýki var 15,0% og 31,6% eftir 40 ár. Ekki var marktækur munur á 20 ára safngengi SNM eftir því á hvaða árabili sykursýki greindist. Átján sjúklingar fengu LSNB að meðaltali 10,5 ± 9,6 árum (spönn 0,31-29,3 ár) eftir greiningu SNM. Safngengi LSNB eftir 40 ár með sykursýki var 13,2%. Meðaleftirfylgd eftir greiningu SNM hjá þeim sem ekki fengu LSNB var 11,8 ± 9,1 ár.

Ályktanir:Safngengi SNM hefur ekki lækkað að sama marki og í Danmörku og Svíþjóð en er þrátt fyrir það mun fátíðari orsök LSNB hérlendis. Fremur hátt hlutfall sjúklinga með staðfest SNM virðist ekki fá nýrnabilun. Það bendir til að framrás SNM sé hægari hér á landi.

 

 

V056 Tengsl þunglyndis og sykursýki af tegund 2 meðal aldraðra á Íslandi

Benedikt Bragi Sigurðsson1, Thor Aspelund2,3, Arna Guðmundsdóttir4, Brynja Björk Magnúsdóttir5, Þórður Sigmundsson5,6, Tamara Harris7, Lenore Launer7, Vilmundur Guðnason2,6, Eiríkur Örn Arnarson5,6

1Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, 2Hjartavernd, 3raunvísindadeild Háskóla Íslands, 4lyflækningasviði, 5sálfræðiþjónustu geðsviðs Landspítala, 6læknadeild Háskóla Íslands, 7Öldrunarstofnun Bandaríkjanna

Inngangur: Tilgangur rannsóknar var að kanna algengi þunglyndis meðal aldraðra með sykursýki af tegund 2 (SS2); hvort munur væri á algengi meðal þekktrar (áður greind) og óþekktrar (nýgreind) SS2; hvort samband væri milli árafjölda frá greiningu SS2 og þunglyndis; hvernig þunglyndir og sykursjúkir mátu eigin heilsu.

Efniviður og aðferðir: Gögn voru fengin úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar; handahófsúrtak (n = 5.764) var dregið úr eftirlifandi þýði (N = 30.795) Íslendinga sem bjuggu á Stór-Reykjavíkur svæðinu árið 1967 og voru hluti af Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar. Þátttakendur sem uppfylltu viðmið fyrir úrvinnslu gagna voru 4.605 (42,7% karlar og 57,3% konur). Mini-International Neuropsychiatric Interview (M.I.N.I.) geðgreiningarviðtal (lagt fyrir 1.030 þátttakendur, 22%) var notað til að meta þunglyndi eftir skimun með Geriatric Depression Scale (GDS), en SS2 var ákvörðuð með spurningum og mælingu á fastandi blóðsykurgildi. Þátttakendur mátu heilsu sína á fimm stiga kvarða. Notuð var aðfallsgreining hlutfalla og kí-kvaðrat.

Niðurstöður: 214 (4,6%) greindust með alvarlega geðlægð og 533 (11,6%) með SS2. Tölfræðilega marktækt samband var milli þunglyndis og SS2. Eftir því sem lengra var liðið frá greiningu SS2 jukust líkur á þunglyndi: SS2 sem varað hafði lengur en 10 ár Odds Ratio (OR) = 2,47 (95% öryggisbil: 1,35-4,51); SS2 sem varað hafði skemur en í 10 ár OR = 1,50 (95% öryggisbil: 0,79-2,88); nýgreind SS2 OR = 1,17 (95% öryggisbil: 0,50-2,76). Marktækt samband var milli þunglyndis og þess að vera á insulínmeðferð vegna SS2 OR = 4,28 (95% öryggisbil 1,56-11,70). Stjórnað var fyrir 14 lýðfræðilegum og heilsufarstengdum breytum, m.a. blóðsykurstjórnun (HbA1c); breyturnar skýrðu ekki sambandið. Þunglyndir og sykursjúkir meta heilsu sína marktækt verr en samanburðarhópur.

Ályktanir: Fylgni er á milli þunglyndis og SS2. Algengi þunglyndis eykst hjá sykursjúkum því lengra sem liðið hefur frá greiningu. Niðurstöður benda til þess að sálfélagslegir þættir tengdir SS2 auki líkur á þunglyndi.

 

 

 

V057 Vanstarfsemi heiladinguls í bráðafasa höfuðáverka og innanskúmsblæðinga - framsýn rannsókn

Pétur Sigurjónsson1, Ásta Dögg Jónasdóttir1, Ingvar Hákon Ólafsson2, Sigurbergur Kárason3, Guðrún Karlsdóttir4, Guðmundur Sigþórsson5, Rafn Benediktsson6, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir6

1Lyflækningasviði, 2heila- og taugaskurðlækningadeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4endurhæfingardeild, 5klínískri lífefnafræðideild, 6innkirtla- og efnaskiptalækningadeild, Landspítala

Inngangur: Höfuðáverkar (TBI) eru algengasta orsök fötlunar og dauða ungs fólks. Innanskúmsblæðingar (SAH) valda einnig fötlun og dauða. Rannsóknir sýna að TBI og SAH geti fylgt tímabundin eða varanleg vanstarfsemi heiladinguls (HP), allt að 50% í bráðafasa TBI.

Efniviður og aðferðir: Meta algengi HP í bráðafasa eftir alvarlega TBI (A-TBI) og miðlungsalvarlega TBI (M-TBI) (Glasgow coma score £8 eða 9-12) og SAH á LSH. Efniviður og aðferðir: Á einu ári voru framsýnt valdir 21 TBI sjkl., 6 M-TBI og 15 A-TBI, 17 karlar og 4 konur, meðalaldur 34±13 ár (aldursbil 18-65 ára). Nítján SAH sjkl., 12 karlar og 7 konur, meðalaldur 54±14 ár (aldursbil 30-85 ára). Hormónagildi voru mæld við innlögn og 6 dögum síðar, kortisól að morgni dags 1-6 og synacthen próf á degi 6.

Niðurstöður: Á degi 6 höfðu, 3 af 6 M-TBI, 6 af 15 A-TBI og 3 af 19 SAH sjkl. miðlægan kynhormónaskort, einn A-TBI mið-
lægan skjaldkirtilshormónaskort, þrír SAH sjkl. mögulegan vaxtar-hormónaskort, einn A-TBI sykursteraskort sem hafði lagast á degi 19. Tveir A-TBI og einn SAH sjkl. höfðu vanstarfsemi á tveimur hormónaöxlum. Sjö voru ekki athugaðir á degi 6, fjórir höfðu látist, þrír mættu ekki. Algengi HP við M-TBI og A-TBI til samans var 42,9% og SAH 26,3%.

Ályktanir: Algengi HP við TBI er sambærilegt við erlendar rannsóknir. Miðlægur kynhormónaskortur finnst í bráðafasa SAH eins og TBI. Vanstarfsemi annarra hormónaöxla er líklegri við A-TBI og SAH en M-TBI. Rannsóknin sýnir að HP getur fylgt SAH í bráðafasa líkt og TBI, því hefur ekki verið lýst áður.

 

 

V058 Lyfjameðferð á lítinn þátt í lækkun heildarkólesteróls hjá Íslendingum

Bolli Þórsson1, Thor Aspelund1, Gunnar Sigurðsson1,2, Karl Andersen1,2, Vilmundur Guðnason1,2

1Hjartavernd, 2læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Heildarkólesteról í blóði hefur farið lækkandi á Vesturöndum undanfarna áratugi. Lækkunin hefur orðið hvað mest eftir 1990 samtímis því sem ný fitulækkandi lyf komu á markað. Í mörgum rannsóknum hefur verið ályktað að lækkunin kunni að stafa af aukinni notkun blóðfitulækkandi lyfja. Hins vegar hafa fyrri rannsóknir ekki getað kannað slíkt samhengi þar sem upplýsingar um lyfjanotkun og blóðgildi kólesteróls hafa ekki legið fyrir hjá sömu einstaklingum.

Efniviður og aðferðir: Heildarkólesteról hefur verið mælt í blóði í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar á umliðnum 40 árum. Upplýsingar um kólesteról liggja því fyrir hjá um 20 þúsund einstaklinga á aldursbilinu 45-64 ára. Spurt hefur verið um blóðfitulækkandi lyfjanotkun frá 1988.

Niðurstöður: Notkun statinlyfja hefur aukist hratt frá því um 1990. Núna eru um 15% karla og 7% kvenna á Íslandi á statin lyfja meðferð. Ef borin er saman sú lækkun sem orðið hefur í heildarkólesteróli meðal allra karla annars vegar og hjá þeim 88% karla sem ekki eru á statin lyfjum hins vegar kemur í ljós að lækkunin er að meðaltali sú sama. Það sama á við um konur.

Ályktanir: Sú lækkun sem orðið hefur í heildarkólesteróli Íslendinga á síðustu 15-20 árum skýrist ekki af aukinni notkun kólesteróllækkandi statin lyfja.

 

 

V059 Sheehan-heilkenni á 21. öldinni

Hallgerður Kristjánsdóttir1, Sigrún Perla Böðvarsdóttir2, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,2,3.

1Lyflækningasviði, 2barna- og kvennasviði, 3innkirtla- og efnaskiptalækningadeild, Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Sheehan-heilkenni (SH) er heiladingulsbilun sem verður hjá konum eftir fæðingu. Fyrir hálfri öld var algengið 10-20 per 100.000 konur. Með betri fæðingarhjálp hefur algengi SH minnkað og því fengið litla athygli. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi SH á 21.öldinni á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar voru fundnir með viðtölum við alla starfandi innkirtlasérfræðinga á Íslandi og rafæna skráningarkerfi LSH frá 1983 var skannað. Upplýsingum varðandi fæðingarhjálp, einkenni við greiningu og niðurstöður hormónaprófa var safnað.

Niðurstöður: Átta konur fundust með SH og algengi því 5.1 per 100.000 konur. Meðaldur við inngöngu í rannsókn var 51,5 (spönn 41-81) ár. Elsta konan (fædd 1928) var útilokuð vegna skorts á upplýsingum. Meðalaldur við fæðingu barns og greiningu sjúkdóms var 33,0 (spönn 21-39) ár og 36,6 (spönn 30-41) ár og greiningartöf (GT) því 2-240 mánuðir. Konan með lengstu GT greindist fyrir tilviljun. Fjórar konur höfðu lágan blóðþrýsting í fæðingu og fimm höfðu hlotið mikið blóðtap (>1000 mL). Einungis ein fæðingin var fylgikvillalaus. Algengasta einkennið var vangeta til að mjólka og að fara aftur á blæðingar. Sjúklingarnir voru með 3-5 hormónaöxla skaðaða.

Ályktanir:Lágt algengi SH á Íslandi skýrist mögulega af góðri fæðingarhjálp. Löng GT og tilviljanagreiningar benda til þess að einhverjar konur séu ógreindar úti í samfélaginu. Auðvelt er að greina og meðhöndla SH en ógreint getur það verið lífshættulegt. Mikilvægt er að læknar og ljósmæður séu vakandi fyrir greiningunni.

 

 

V060 Vanstarfsemi heiladinguls þremur mánuðum eftir höfuðáverka eða innanskúmsblæðingu - framsýn rannsókn

Ásta Dögg Jónasdóttir1, Pétur Sigurjónsson1, Ingvar Hákon Ólafsson2, Sigurbergur Kárason3, Guðrún Karlsdóttir4, Guðmundur Sigþórsson5, Rafn Benediktsson6, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir6

1Lyflækningasviði, 2heila- og taugaskurðlækningadeild, 3gjörgæslu- og svæfingadeild, 4endurhæfingardeild, 5klínísk lífefnafræðideild, 6innkirtla- og efnaskiptalækningadeild Landspítala

 

Inngangur: Niðurstöður nýlegra rannsókna benda til að vanstarfsemi heiladinguls (VH) sé algengur fylgikvilli höfuðáverka (HÁ) og innanskúmsblæðinga (IB). Rannsóknir hafa sýnt að VH getur gengið til baka skömmu eftir HÁ og IB eða komið fram síðar. Markmið rannsóknarinnar er að meta algengi og þróun VH í síðfasa eftir HÁ og IB á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Þrjátíu og níu sjúklingum, 18-65 ára, sem komu á Landspítala á 1 árs tímabili og voru greindir með miðlungs alvarlega (MAHÁ, GCS 9-12) og alvarlega (AHÁ, GCS <9) HÁ eða IB, var boðin þátttaka í rannsókninni. Sextán sjúklingar voru með AHÁ og 6 með MAHÁ, 17 karlmenn og 5 konur, meðalaldur 37±13 ár (spönn 18-65 ára) og 17 með IB, 10 karlmenn og 7 konur, meðalaldur 51±11 ára (spönn 30-66 ára). Fimmtán sjúklingar tóku ekki þátt í frekari eftirfylgni, 4 létust, 1 var erlendur ríkisborgari og 10 afþökkuðu þátttöku. Heiladingulsstarfsemi var metin hjá 24 sjúklingum, 12 HÁ (8 AHÁ og 4 MAHÁ) og 12 IB, 3 mánuðum eftir HÁ/IB. Hormónagildi í blóði voru mæld og insúlínþolpróf (IÞP) framkvæmt. Við frábendingu fyrir IÞP var framkvæmt GHRH+Arg próf og Synachten próf.

Niðurstöður: Ein 65 ára kona með AHÁ hafði prólaktínofgnótt. Tveir karlmenn, 56 ára með IB og 37 ára með AHÁ, höfðu vaxtarhormónaskort. Í báðum tilvikum var skorturinn staðfestur með GHRH+Arg prófi. Tvær konur, 41 og 50 ára, höfðu fátíðir í kjölfar IB.

Ályktanir: VH greindist hjá 2 af 8 (25%) AHÁ sjúklingum og 3 af 12 (25%) IB sjúklingum, sem er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að skoða starfsemi heiladinguls í kjölfar HÁ og IB. Nánari eftirfylgni getur leitt í ljós hvenær ber að meta sjúklinga eftir AHÁ, MAHÁ og IB.

 

 

V061 Tengsl offitu við snemmkominn árangur kransæðahjáveituaðgerða

Sæmundur J. Oddsson1, Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Offita hefur verið talin auka tíðni fylgikvilla eftir ýmsar skurðaðgerðir, þ.á.m. opnar hjartaaðgerðir. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að tengsl offitu og fylgikvilla sé flóknara en áður var talið, t.d. eru rannsóknir sem hafa sýnt lægri tíðni fylgikvilla hjá þessum sjúklingum. Tilgangur þessarar rannsóknar var kanna tengsl offitu við árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Aftursýn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð (CABG/OPCAB) á Landspítala frá 2002-2006, samtals 720 einstaklinga. Sjúklingum var skipt í tvennt; offituhóp með BMI >30 kg/m2 (n=207, 29%), og viðmiðunarhóp með BMI £30 kg/m2) (n=513, 71%). Hóparnir voru bornir saman með ein- og fjölþáttagreiningu og áhrif offitu metin hvað varðar tíðni fylgikvilla og skurðdauða <30 daga.

Niðurstöður: Ekki var marktækur munur á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma en sjúklingar í ofþyngd vou með lægra EuroSCORE (4,3 vs 5,0, p=0,02) og voru 2,7 árum yngri (p=0,002). Aðgerðartími var lengri hjá sjúklingum í ofþyngd og munaði 18 mínútum (p=0,02). Tíðni minniháttar fylgikvilla (53 og 55%) og alvarlegra fylgikvilla (9 og 10%) var sambærileg í báðum hópum, einnig dánartíðni <30 daga (2 og 3,7%, p=0,3). Þegar leiðrétt var fyrir EuroSCORE og aldri við fjölbreytugrein-ingu reyndist offita hvorki sjálfstæður áhættuþáttur fyrir tíðni fylgikvilla né dánartíðni (p>0,1).

Ályktanir: Tíðni fylgikvilla og dánartíðni eftir kransæðahjáveituaðgerð er ekki marktækt aukin hjá offitusjúklingum en aðgerðirnar taka lengri tíma. Hafa verður í huga að viss valskekkja getur verið til staðar og haft áhrif á niðurstöðurnar, t.d. voru offitusjúklingarnir bæði yngri og með lægra EuroSCORE.

 

 

V062 Kalkkirtill í brjóstholi sem orsök kalkvakaóhófs – sjúkratilfelli

Hrund Þórhallsdóttir1, Kristján Skúli Ásgeirsson1,3, Maríanna Garðarsdóttir2, Tómas Guðbjartsson1,3

1Skurðlækningasviði, 2myndgreiningardeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Kalkvaki (PTH) er framleiddur af fjórum kalkkirtlum sem oftast eru staðsettir aftan við skjaldkirtil. Kalkvakaóhóf (primary hyperthyroidism) getur sést við góðkynja stækkun á kalkirtlum en þeir eru yfirleitt staðsettir aftan við skjaldkirtil og framleiða kalkvaka (PTH). Í einstaka tilfellum geta stækkaðir kalkkirtlar fundist utan hálssvæðis. Hér er lýst slíku tilfelli.

Tilfelli: 72ja ára karlmaður með fyrri sögu um háþrýsting og vinstri helftarlömun leitaði á bráðamóttöku Landspítala vegna dreifðra lið- og vöðvaverkja, stirðleika, þreytu og minnisleysis. Við skoðun bar á rugli, smáliðir handa voru bólgnir og greinilega eymsli í nærvöðvum efri og neðri útlima. Blóðprufur við innlögn sýndu hækkað S-CRP (140 mg/L) án merkja um sýkingar og gigtarpróf reyndust eðlileg. Daginn eftir komu var mælt S-jóniserað Ca2+ og reyndist það hækkað (1,53 mmol/L) líkt og S-PTH (215 ng/L). Ekki var með vissu hægt að sjá stækkun á kalkkirtlum við ómskoðun á hálsi og var því gert kalkkirtlaskann. Þar sást aukin upptaka í fremri hluta miðmætis sem á tölvusneiðmyndum reyndist 1,5 cm fyrirferð í hæð við neðanverðan ósæðarboga. Ákveðið var að fjarlægja fyrirferðina með skurðaðgerð og varð að opna efri hluta bringubeins til að komast að æxlinu. Hann var útskrifaður 2 dögum eftir aðgerð með eðlilegt S-jóniserað Ca2+. Þremur vikum síðar voru liðeinkenni horfin og vitsmunageta eðlileg. Rúmu ári frá aðgerð er hann einkennalaus og með eðlileg blóðpróf.

Umræða: Einkenni kalkvakaóhófs eru fjölbreytt eins og sást í þessu tilfelli þar sem lið- og vöðvaeinkenni voru mest áberandi. Sjaldgæft er að stækkaðir kalkkirtlar finnist í brjóstholi. Sjúkdóminn er hægt að lækna með skurðaðgerð.

 

 

V063Clostridium difficile sýkingar á Landspítala 1998-2008

Rúnar Bragi Kvaran1, Elsa Björk Valsdóttir2, Helgi Kjartan Sigurðsson2, Magnús Gottfreðsson3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2skurðlækningasviði, 3smitsjúkdómadeild Landspítala

 

Inngangur: Tíðni og alvarleiki ristilbólgu af völdum C. difficile hefur vaxið á Vesturlöndum síðustu ár með tilkomu meinvirkari stofna. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði og alvarleika ristilbólgu af völdum C. difficile á LSH og meta hvort meinvirkni sýkingarinnar hafi aukist á Íslandi líkt og víða á Vesturlöndum.

Efniviður og aðferðir: Sýkingar með C. difficile á LSH árin 1998-2008 voru fundnar með því að finna jákvæð eiturefnapróf í hægðasýnum úr gagnagrunni sýklafræðideildar LSH. Úrtak klínískra upplýsinga um sjúklinga, sem greindust í janúar og júní hvert ár á rannsóknartímabilinu, var skoðað sérstaklega. Alls voru það 237 sýkingar.

Niðurstöður: Á 11 ára tímabili reyndist 1.861 sýni af 11.968 (16%) jákvætt fyrir C. difficile og einstakar sýkingar voru 1.492. Heildarnýgengi sýkingar var 29% hærra í lok en upphafi tímabilsins og var að meðaltali hæst í aldurshópnum >80 ára þar sem það var 387 tilfelli á hverja 100.000 íbúa Íslands í þeim aldurshópi hvert ár. Fjöldi sýkinga á hverjar 1.000 innlagnir jókst um 71% og fjöldi sýkinga á hverja 10.000 legudaga jókst um 102%. 92% sýkinga tengdust heilbrigðisþjónustu og 47% sýkinganna flokkuðust sem spítalasýkingar. Meirihluti sjúklinga tók sýklalyf innan þriggja mánaða fyrir sýkingu og algengasta einkenni sýkingar var niðurgangur. Yfirgnæfandi meirihluti (93%) þeirra sem nægar upplýsingar fundust um náðu bata eftir eina sýklalyfjameðferð og enginn gekkst undir aðgerð.

Ályktanir: Sýkingar með C. difficile voru fleiri árið 2008 á LSH en árið 1998. Innsendum sýnum fjölgaði hins vegar stöðugt og meira en sýkingum. Fáir sýkjast án þess að hafa einn eða fleiri þekktra áhættuþátta. Flestum dugði stök meðferð með metrónídazóli til þess að uppræta sýkingu. Meinvirkni C. difficile virðist ekki hafa aukist hér á landi.

 

 

 

V064 Hjartaþelsbólga á Íslandi 2000-2009

Elín Björk Tryggvadóttir1, Uggi Þórður Agnarsson2, Jón Þór Sverrisson3, Sigurður B. Þorsteinsson4, Jón Vilberg Högnason2, Guðmundur Þorgeirsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjartadeild og 4deild lyfjamála, Landspítala, 3lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri

 

Inngangur:Hjartaþelsbólga (IE – infective endocarditis) er sýking í hjartaþeli. Sjúkdómurinn er sjaldgæfur en alvarlegur og leiðir til langvarandi veikinda og/eða dauða. Erlendar rannsóknir sýna töluverðar breytingar á sjúkdómsmynd IE á síðustu áratugum. Markmið rannsóknarinnar er að meta faraldsfræði IE hér á landi m.t.t. nýgengis, orsaka og afdrifa. Einnig að kanna hvort breytingar hafi orðið á sjúkdómsmyndinni frá árunum 1976 -85 þegar faraldsfæði IE var síðast metin hér á landi.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra sjúklinga sem greindust með IE á Íslandi árin 2000 – 2009. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og við mat á gæðum greiningar var stuðst við Dukes greiningarskilmerkin.

Niðurstöður: Nýgengi IE reyndist 2,9/100 þúsund íbúa/ári. Meðalaldur var 58 ár (bil 1,3 – 91 árs) og karlar í meirihluta (71%). Flestar sýkingar (90%) urðu í lokum vinstri hluta hjartans og í 19 tilfellum var sýking í gerviloku (22%). Algengustu orsakavaldar voru streptókokkar (31%), stafýlókokkar (24%) og enterókokkar (17%) en í 9 tilfellum var blóðræktun neikvæð (10%). Gripið var til lokuaðgerðar í 16 tilfellum (20%). Tíu sjúklingar létust í legu (12%) og hjá þrem þeirra greindist IE fyrst við krufningu.

Ályktanir: Nýgengi IE er lágt hér á landi samanborið við erlendar rannsóknir en virðist svipað og á árunum 1976-85. Hlutfall sprautufíkla er töluvert aukið og hærra hlutfall sjúklinga reyndist hafa gerviloku nú en áður. Bakteríuflóran hefur lítið breyst, streptókokkasýkingar voru algengastar gagnstætt því sem sést víða erlendis þar sem S. aureus er orðinn megin orsakavaldur. Lokuaðgerð er sjaldnar beitt hér en víða erlendis en virðist þó heldur algengari en áður. Dánartíðni samanborin við fyrra tímabil og erlendar upplýsingar er fremur lág.

 

 

V065 Notkun aðferða kerfislíffræði til að spá fyrir um ný lyfjamörk gegn P. aeruginosa í klösum

Gunnar Sigurðsson1, Ines Thiele2

1Læknadeild, 2rannsóknarsetri í kerfislíffræði, Háskóla Íslands

Inngangur: Sýklalyfjaónæmi er hratt vaxandi vandamál í heilbrigðiskerfinu. Bakteríur sem vaxa í klösum eru taldar gegna mikil-vægu hlutverki í aðlögunarhæfni baktería og þróun ónæmra stofna. Með aðferðum kerfislíffræðinnar má líkja eftir vexti og efnaskiptum baktería hvort sem þær eru í klösum eða stakar og nota niðurstöðurnar til að finna líkleg lyfjamörk.

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn var notast við efnaskiptalíkan af Pseudomonas aeruginosa (PA) og in silico vöxtur bakteríunnar rannsakaður með því að nota skilyrta-eftirmyndun. Einkum voru könnuð áhrif genaeyðingar á vöxt baktería bæði í klösum og stakra. Niðurstöður: 26 gen fundust sem stöðva vöxt PA undir öllum kringumstæðum og hafa enga samsvörun í genamengi manna. Engin gen fundust sem stöðva sértækt fyrir klasa vöxt en hins vegar mörg gen sem hægja á vextinum. Einnig var prófað að eyða tveimur genum í einu og með því fundust 17 genasamsetningar úr 21 geni sem stöðvuðu vöxt PA og voru niðurstöðurnar mismunandi fyrir klasa og stakan vöxt PA. Í nokkrum tilvikum var unnt að útskýra mismuninn með ætinu sem var notað til að líkja eftir mismunandi aðstæðum, einnig var greinilegur munur á áhrifum genasamsetninganna með því að breyta súrefnismettuninni. Í öðrum tilfellum fannst engin augljós skýring.

Ályktanir: Þessi rannsókn bendir til að hægt sé að nota efnaskiptalíkön af bakteríum til að finna líkleg lyfjamörk. Þessi aðferð kerfislíffræðinnar getur því reynst öflug við uppgötvun og þróun nýrra sýklalyfja.

 

 

V066 Ífarandi sýkingar af völdum Haemophilus spp. á Íslandi 1983-2008

Marta Rós Berndsen1, Helga Erlendsdóttir2, Magnús Gottfreðsson3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2sýklafræðideild, 3smitsjúkdómadeild Landspítala

Inngangur: Haemophilus influenzae (Hi) er gram-neikvæð baktería sem flokkuð er í 6 hjúpgerðir (a–f) og óhjúpgreinanlegar gerðir (NTHi). Hjúpgerð b (Hib) veldur skæðum sýkingum aðallega í börnum en bólusetning gegn Hib var tekin upp 1989 á Íslandi. NTHi valda nú flestum Hi sýkingum og sumar rannsóknir hafa sýnt fram á aukningu þeirra eftir að bólusetningar hófust. Markmið rannsóknarinnar var að skoða breytingar á faraldsfræði þessara sýkinga á landsvísu á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Gerð var lýðgrunduð aftursæ rannsókn sem tók til 206 sýkingartilfella af völdum Haemophilus spp. á Íslandi, 1983-2008. Skráð voru einkenni sjúklings, heilsufar, niðurstöður rannsókna, meðferð og fylgikvillar.

Niðurstöður:Fyrir bólusetningu, 1983 til 1989 voru skráð 124 sýkingartilfelli, þar af 84% börn. Eftir bólusetningu, 1990 til 2008 voru 82 sýkingartilfelli þar af 33% börn. Fyrir bólusetningu olli Hib 88% allra Hi sýkinga en eftir aðeins 19%. Algengasta greiningin fyrir bólusetningu var heilahimnubólga af völdum Hib en eftir að Hib bólusetningar hófust lungnabólga og sýklasótt af völdum Hi, annarra en Hib. Eftir bólusetningu lækkaði nýgengi Hib í öllum aldurshópum en aðeins marktækt í aldurshópunum ˂1 árs og 1-5 ára (p˂0,05). Nýgengi sýkinga af völdum Hi annarra en Hib jókst um 0,9/100 000 íbúa á tímabilinu eftir að bólusetningar hófust (p˂0,05). Dánarhlutfall af völdum Hi annarra en Hib var hæst hjá nýburum (22%) og öldruðum (13%-29%).

Ályktanir: Rannsókn þessi sýnir fram á gríðarlega góðan árangur Hib bólusetningar hér á landi. Hún gefur ekki einungis börnum í markhóp vörn heldur hefur myndast hjarðónæmi í samfélaginu sem veldur einnig lækkun á tíðni sýkinga í eldri aldurshópum. Marktæk aukning á nýgengi sýkinga af völdum annarra Hi en Hib er afar athyglisverð og kann að skýrast af svæsnari inflúensustofnum á sama tíma.

 

 

V067 Sameindafræðileg faraldsfræði endurtekinna Candida blóðsýkinga

Lena Rós Ásmundsdóttir1, Helga Erlendsdóttir2, Anna Lilja Gísladóttir3, Magnús Gottfreðsson3,4

1Lyflækningasviði, 2sýklafræðideild, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4smitsjúkdómadeild Landspítala

Inngangur: Dánartíðni sjúklinga sem fá blóðsýkingu með Candida gersveppum er afar há. Meðal þeirra sem lifa af slíkar sýkingar hefur í vaxandi mæli verið greint frá endurteknum blóðsýkingum af völdum sveppa en tíðni þeirra hefur ekki verið metin í óvöldu þýði sjúklinga. Einnig er ekki ljóst hvort endurteknar sýkingar endurspegli endurvakningu fyrri sýkingar eða sýkingu með nýjum stofni.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var lýðgrunduð og náði til allra sjúklinga með jákvæða blóðræktun fyrir Candida gersveppum á Íslandi á árunum 1980-2008. Faraldsfræðilegar og klínískar upplýsingar voru skráðar. Blóðsýkingar voru metnar aðskildar ef >1 mánuður leið milli jákvæðra blóðræktana eða ef þær voru af völdum ólíkra Candida tegunda. Arfgerð meinvaldandi stofna var ákvörðuð með fjölföldunarhvarfi (PCR) með ferns konar vísum; M13, (GACA)4, PA03 og T3B. Sveppalyfjanæmi stofnanna var einnig kannað.

Niðurstöður: Á tímabilinu 1980-2008 greindust 308 sjúklingar með Candida sýkingu í blóði á Íslandi. Þar af fengu 299 (97,1%) staka sýkingu. Alls lifðu 204 sjúklingar lengur en 1 mánuð frá fyrstu jákvæðu blóðræktun og voru því í hættu á að fá endurtekna sýkingu (1060 sjúklingaár). Af þeim fengu 9 sjúklingar (4,4%) endurteknar blóðsýkingar af völdum Candida gersveppa. Meðaltími milli sýkinga voru 6 mánuðir (miðgildi, bil <1 mánuður - 14 ár). Algengustu tegundirnar voru Candida albicans (46%), C. parapsilosis (15%) og C. tropicalis (15%). Stofnar sem ræktuðust í endurteknum sýkingum voru af sömu arfgerð í 2 af 13 tilfellum (15%) en af ólíkri arfgerð eða annarri tegund í 8 af 13 tilfellum (62%); stofna vantaði í 3 tilfellum. Ekki varð vart marktækra breytinga á næmi sveppastofna í endurteknum sýkingum.

Ályktanir: Endurteknar blóðsýkingar af völdum Candida gersveppa eiga sér stað hjá 4,4% sjúklinga sem lifa af upphaflegu sýkinguna og eru því tiltölulega sjaldgæfar. Í flestum tilfellum (62%) er um að ræða sýkingar með nýjum stofnum sem eru næmir fyrir algengum sveppalyfjum.

 

 

V068 Framsýn rannsókn á skurðsýkingum eftir 246 opnar hjartaaðgerðir

Helga G. Hallgrímsdóttir1, Magnús Gottfreðsson2, Tómas Guðbjartsson3

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2smitsjúkdómalækningadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Í framsýnni rannsókn á Landspítala árið 2007 kom óvænt í ljós að tíðni skurðsýkinga á ganglim eftir bláæðatöku við kransæðahjáveituaðgerðir var óvenjuhá, eða 23,1%. Í kjölfarið var ákveðið að yfirfara verkferla, m.a. húðþvott og frágang umbúða. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig til tókst, en í þetta sinn á heilu ári og í ferfalt stærra þýði en í fyrri rannsókn. Einnig var markmiðið að kanna tíðni sýkinga í bringubeinsskurði.

Efniviður og aðferðir:Framsýn rannsókn sem tók til allra sjúklinga sem gengust undir opna hjartaaðgerð á Landspítala á 12 mánaða tímabili, 2008-2009, samtals 246 einstaklinga (191 karlar, meðalaldur 66,5 ár). Flestir (60,1%) gengust undir kransæðahjáveitu (CABG/OPCAB), ósæðalokuskipti (11,4%) eða báðar aðgerðirnar saman (13,4%). Skurðsár voru metin á 2 - 4. og 6 - 7. degi þegar sjúklingar lágu inni. Einnig var haft samband við alla sjúklinga nema þrjá símleiðis, 30 dögum frá útskrift. Skurðsár voru skilgreind skv. staðli CDC og bornir saman sjúklingar með og án sýkingar.

Niðurstöður: Alls greindust 31 sjúkl. með skurðsýkingu (12,6%) og voru 16 þeirra í bringubeinsskurði (6,5%), þar af 5 djúpar með miðmætisbólgu (2%). Nítján sjúklingar af 184 sem fóru í bláæðatöku á ganglim greindust með sýkingu (10,3%) og voru 90% þeirra yfirborðssýkingar. Sýkingar eftir bláæðatöku greindust á 24. degi frá aðgerð (miðgildi) og voru þá 20% sjúklinga inniliggjandi. Sambærilegar tölur fyrir bringubeinssýkingar voru 20,5 dagar og 41,7%. Algengustu sýkingavaldarnir voru kóag. neikv. staphylococcar (35,5%)og staph. aureus (35,5%). Legutími var marktækt lengri hjá sjúklingum með sýkingu í bringubeini en ganglim (17,1 vs. 9 dagar, p=0,006).

Ályktanir:Skurðsýkingar eru töluvert vandamál eftir opnar hjartaaðgerðir og reyndust mun algengari á ganglim eftir bláæðatöku (10,3%) en á brjóstholi (6,5%). Ljóst er að tíðni þessara sýkinga á ganglim hefur lækkað um helming frá fyrri rannsókn, en tíðni djúpra bringubeinssýkinga (2,0%) er svipuð og í eldri rannsókn (2,5%).

 

 

V069 Bringubeinsfistlar eftir opnar hjarta­skurðaðgerðir - tíðni, áhættuþættir og horfur

Steinn Steingrímsson1,3, Tómas Guðbjartsson1,3, Ronny Gustafsson2, Arash Mokhtari2, Richard Ingemansson2, Johan Sjögren2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2hjartaskurðdeild Háskólasjúkrahússins á Skáni, Svíþjóð, 3læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Bringubeinsfistlar er alvarlegur en fátíður fylgikvilli opinna hjartaaðgerða. Erfitt er að uppræta þessa fistla og oft þörf á langvarandi sýklalyfjameðferð og endurteknum skurðaðgerðum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni þessara fistla, skilgreina áhættuþætti og kanna afdrif og lifun sjúklinganna.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á framsýnum gagnagrunni hjartaskurðdeildar Háskólasjúkrahússins í Lundi, eða 12.297 opnum hjartaaðgerðum frá 1999-2008. Af þeim greindust 30 sjúklingar með bringubeinsfistil. Aðhvarfsgreining var notuð við mat á áhættuþáttum og 120 (4:1) sjúklingar án fistla notaðir sem samanburðarhópur.

Niðurstöður: Tíðni bringubeinsfistla var 0,23% einu ári frá aðgerð. Meðalaldur sjúklinga var 68 ár, þar af 77% karlar. Flestir, eða 63%, höfðu farið í kransæðahjáveituaðgerð og 20% í ósæðarlokuskipti. Helstu áhættuþættir fistla voru fyrri saga um sýkingu í bringubeinsskurði (OR=15,7), nýrnabilun (OR=12,5), reykingar (OR=4,7) og þegar beinvax var notað í upphaflegu aðgerðinni (OR=4,2). Sárasugu (VAC) var beitt í 20 alvarlegustu tilfellunum og létust tveir sjúklingar á meðan meðferð stóð. Fimm ára heildarlifun sjúklinga með fistla var 58% borið saman við 85% í viðmiðunarhóp (p=0,003).

Ályktanir: Dánartíðni er aukin hjá sjúklingum með bringubeinsfistla og fylgikvillar tíðir. Fyrri sýking í bringubeinsskurði og nýrnabilun eru langmikilvægustu áhættuþættirnir. Flestir hafa þó ekki fyrri sögu um sýkingu í bringubeini, sem bendir til að í þorra tilfella sé um síðbúna sýkingu að ræða í kringum stálvíra sem halda saman bringubeininu. Á síðari árum hefur sárasuga reynst vel í meðferð þessara sjúklinga.

 

 

V070 Bráður nýrnaskaði á gjörgæsludeildum - notkun útreiknaðra grunngilda kreatíníns í sermi til skilgreiningar á bráðum nýrnaskaða og alvarleika stigunar samkvæmt RIFLE-skilmerkjum

Íris Ösp Vésteinsdóttir1, Ólafur Skúli Indriðason2, Kristinn Sigvaldason,3 Gísli H. Sigurðsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu, 3svæfinga og gjörgæsludeild Landspítala

 

Inngangur: Tíðni bráðs nýrnaskaða meðal gjörgæslusjúklinga í tveimur nýlegum rannsóknum var 36% og 67%. Þessar rannsóknir reiknuðu grunngildi kreatíníns í sermi (S-kr) með MDRD jöfnunni út frá áætluðum gaukulsíunarhraða (GSH) miðað við aldur, kyn og kynþátt. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni bráðs nýrnaskaða í sjúklingum á gjörgæslu með áherslu á að finna rétt grunngildi S-kr.

Efniviður og aðferðir: Þetta var afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum >18 ára aldri er lögðust inn á gjörgæsludeildir LSH árið 2007. Serum kreatínín var fengið úr sjúkraskrám LSH og ítarleg leit var gerð að grunnkreatínínildum á öðrum rannsóknarstofum og sjúkrastofnunum á Íslandi. RIFLE (Risk, Injury, Failure, Loss, End-stage kidney disease) skilmerki voru notuð til að skilgreina bráðan nýrnaskaða.

Niðurstöður: 1026 sjúklingar lögðust inn á gjörgæsludeildir LSH árið 2007, meðalaldur 60,6±17,8 ár, 61,1% karlmenn. Áreiðanleg grunngildi S-kr fundust í gagnagrunni LSH fyrir 70% sjúklinga en með ítarlegri leit fundust grunngildi S-kr fyrir yfir 99% þeirra. 231 (22,3%) hlutu bráðan nýrnaskaða í gjörgæslulegunni og voru 83 í “Risk” hópi, 70 í “Injury” hópi og 78 í “Failure” hópi. Ef grunngildi S-kr var reiknað út frá áætluðum GSH fyrir þá sem ekki áttu grunngildi á LSH var tíðni bráðs nýrnaskaða marktækt hærri, 310 sjúklingar, 30,2% (p<0,01). Meðalaldur þeirra sem hlutu bráðan nýrnaskaða var 67,0±16,0 ár á móti 58,7±18,0 ár hjá þeim sem ekki hlutu bráðan nýrnaskaða (p<0,001). Dánartíðni í sjúkrahúslegunni var 40,7% meðal þeirra sem hlutu bráðan nýrnaskaða en 9,1% meðal hinna (p<0,001).

Ályktanir: Tíðni bráðs nýrnaskaða á gjörgæsludeildum LSH er um 23% sem er lægra en erlendar rannsóknir hafa sýnt. Þær rannsóknir hafa þó sennilega ofmetið tíðnina þar sem þær notuðust við útreiknuð gildi á S-kr ef grunngildi fannst ekki.

 

 

V071 Faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms á stigi II-V meðal íslenskra barna

Helgi Jónsson1, Ólafur S. Indriðason2, Loftur I. Bjarnason3, Runólfur Pálsson1,2, Viðar Eðvarðsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu Landspítala, 3tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, 4Barnaspítala Hringsins, Landspítala

 

Inngangur: Faraldsfræði lokastigsnýrnabilunar meðal barna er vel þekkt en tíðni vægari stiga langvinns nýrnasjúkdóms (LNS) hefur ekki verið vel rannsökuð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði LNS á stigi II–V meðal íslenskra barna á tímabilinu 1997-2006.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og náði til áranna 1997-2006. Leitað var að öllum mælingum kreatíníns í sermi (S-Kr) meðal einstaklinga yngri en 18 ára á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og á einkareknum rannsóknarstofum. Reiknaður gaukulsíunarhraði (r-GSH) var metinn með Schwartz-jöfnu. Stig II LNS var skilgreint sem r-GSH 60-89, stig III 30-59, stig IV 15-29 og stig V <15 ml/mín./1,73 m² eða meðferð við lokastigsnýrnabilun.

Niðurstöður: Við fundum 40.486 mælingar S-Kr hjá 15.170 börnum. Af þeim voru 19 (9 drengir) með LNS á stigi II-V, þar af 13 börn sem voru með LNS við upphaf rannsóknartímabilsins. Á hverju ári höfðu 10-14 börn LNS á stigi II-V og var meðalalgengi 15,5/100.000 börn. Sex börn greindust með LNS á tímabilinu og var árlegt nýgengi 0,77/100.000 börn að meðaltali. Átta börn voru á stigi V við upphaf tímabilsins og 6 börn færðust yfir á stig V. Árlegt nýgengi lokastigsnýrnabilunar var því 0,77/100.000 börn og meðalalgengi 7,7/100.000 börn. Að auki höfðu 373 börn óeðlilega lág gildi r-GSH en áttu ýmist aðeins eina mælingu S-Kr eða að r-GSH varð eðlilegur innan 3 mánaða og því töldust þessi börn ekki hafa LNS.

Ályktanir: Þessi rannsókn, sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, gefur nýjar upplýsingar um faraldsfræði LNS í börnum. Fyrir hvert barn með lokastigsnýrnabilun er um það bil eitt með LNS á stigi II-IV. Algengi og nýgengi lokastigsnýrnabilunar hjá börnum á Íslandi er svipað og hjá öðrum Evrópuþjóðum.

 

 

V072 Nýgengi nýrnasteina á Íslandi 1990-2008

Viðar Eðvarðsson1,3, Ólafur S. Indriðason2, Runólfur Pálsson2,3

1Barnaspítala Hringsins, 2nýrnalækningaeiningu Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Nýrnasteinar eru algengt heilsufarsvandamál á Vesturlöndum og benda erlendar rannsóknir til þess að tíðni þeirra hafi aukist á undanförnum áratugum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi nýrnasteina á Íslandi síðustu áratugi.

Efniviður og aðferðir: Leitað var að öllum sjúkdóms-, myndgreiningar- og aðgerðarkóðum sem gáfu til kynna nýrnasteina í gagnagrunnum Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og Læknisfræðilegrar myndgreiningar frá 1983 til 2008. Sjúklingar sem greindust með sinn fyrsta stein fyrir 1990 voru útilokaðir frá rannsókninni þar sem rafræn kóðun upplýsinga í tölvukerfum ofangreindra stofnana var ófullkomin á þeim tíma. Sjúkraskrár voru yfirfarnar með tilliti til sjúkdómseinkenna og til staðfestingar á steinsjúkdómi í nýrum. Breytingar á nýgengi nýrnasteina voru metnar með aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Á tímabilinu 1990 til 2008 greindust 5026 sjúklingar með sinn fyrsta nýrnastein, þar af 3170 karlar (63.1%). Meðalaldur karla var 52,8 +17,5 ár og kvenna 48,9 +18,9 ár. Alls höfðu 4202 sjúklingar (83,6%) einkenni af völdum nýrnasteins, 505 (10%) voru einkennalausir og hjá 319 sjúklingum (6,3%) reyndist ekki unnt að ákvarða hvort einkenni voru fyrir hendi. Árlegt nýgengi hjá körlum var 149-185/100.000 og breyttist ekki á rannsóknartímabilinu (P=0,76). Árlegt nýgengi hjá konum var 72-123/100.000 og breyttist ekki í tímans rás (P=0,17). Árlegt nýgengi einkennalausra steina jókst, úr 10 í 24/100.000 hjá körlum (P<0,001) og úr 6 í 21/100.000 hjá konum (P=0,001). Einkennalausir sjúklingar voru eldri en þeir sem höfðu einkenni, 65,6 ± 15,0 ár samanborið við 49,4 ± 17,8 ár (P <0,001).

Ályktanir: Heildarnýgengi nýrnasteina á Íslandi hefur ekki aukist síðustu 2 áratugi. Nýgengi einkennalausra steina hefur hins vegar tvöfaldast, mögulega vegna aukinnar notkunar myndgreiningarrannsókna.

 

 

V073 Nýgengi nýrnasteina hjá íslenskum börnum 1990-2008

Viðar Eðvarðsson1,3, Ólafur S. Indriðason2, Runólfur Pálsson2,3

1Barnaspítala Hringsins, 2nýrnalækningaeiningu Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Erlendar rannsóknir benda til þess að tíðni nýrnasteina hjá börnum hafi farið vaxandi undanfarna áratugi. Markmið rannsóknar-innar var að kanna nýgengi nýrnasteina hjá íslenskum börnum og unglingum síðustu tvo áratugi.

Efniviður og aðferðir: Leitað var að öllum sjúkdóms-, myndgreiningar- og aðgerðarkóðum sem gáfu til kynna nýrnasteina hjá börnum undir 18 ára aldri í gagnagrunnum Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og Læknisfræðilegrar myndgreiningar frá 1983 til 2008. Sjúklingar sem greindust með sinn fyrsta stein fyrir 1990 voru útilokaðir frá rannsókninni þar sem rafræn kóðun upplýsinga í tölvukerfum ofangreindra stofnana var ófullkomin á þeim tíma. Sjúkraskrár voru yfirfarnar með tilliti til sjúkdómseinkenna og til staðfestingar á steinsjúkdómi í nýrum. Aldursstaðlað nýgengi var reiknað og breytingar á nýgengi voru metnar með aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Á tímabilinu 1990 til 2008 greindust 147 börn og unglingar með sinn fyrsta nýrnastein, 66 drengir og 81 stúlka. Miðgildi (spönn) aldurs drengja var 13,7 (0,2-17,9) ár og stúlkna 15,1 (0,8-17,8) ár. Árlegt meðalnýgengi hjá börnum <18 ára var 9,9 ± 4,5/100.000. Hjá drengjum var meðalnýgengi 8,7 ± 4,3 og stúlkum 11,1 ± 7,2/100.000 (P=0,21). Einungis 6 af 147 sjúklingum voru einkennalausir. Árlegt nýgengi, sem var áberandi lægst fyrstu 5 rannsóknarárin, breyttist ekki marktækt á rannsóknartímanum (P=0,058).

Ályktanir: Nýgengi nýrnasteina hjá börnum og unglingum á Íslandi er hátt miðað við önnur vestræn lönd. Ekki hefur orðið marktæk aukning á nýgengi nýrnasteina hjá íslenskum börnum og unglingum síðustu tvo áratugi eins og nýlega hefur verið lýst í erlendum rannsóknum.

 

V074 Gæði skilunarmeðferðar á Landspítala 2003-2008

Helga Mogensen1, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur Indriðason2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu Landspítala

 

Inngangur: Nýlega hafa komið fram klínískar leiðbeiningar og meðferðarmarkmið fyrir ýmsa sjúkdómsþætti sjúklinga í skilunarmeðferð. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna gæði skilunarmeðferðar á Íslandi með hliðsjón af þessum leiðbeiningum.

Efniviður og aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn sem beindist að öllum sjúklingum sem gengust undir skilunarmeðferð á Landspítala lengur en 3 mánuði á árunum 2003-2008. Upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám. Rannsóknartímabilinu var skipt í 2 jafnlöng tímabil. Kí-kvaðrat próf var notað til að bera saman hlutfall þeirra sem voru innan meðferðarmarkmiða á hvoru tímabili og einnig til að bera saman sjúklinga í blóðskilun og kviðskilun.

Niðurstöður: Við fundum 180 sjúklinga sem gengust undir skilunarmeðferð á rannsóknartímabilinu. Hemóglóbín var innan meðferðarmarka hjá 65,0% sjúklinga á fyrra tímabilinu og 67,5% á seinna tímabilinu (p=0,68). Kalsíum var innan meðferðarmarka hjá 72,1% á fyrra tímabilinu og 70,7% á því seinna (p=0,56). Aðeins 53,0% sjúklinga náðu meðferðarmörkum fyrir fosfat á fyrra tímabilinu og 55,7% á því seinna (p=0,67) og PTH var innan meðferðarmarka hjá einungis 23,9% sjúklinga á fyrra tímabilinu og 33,0% á því seinna (p=0,297). Albúmín var innan viðmiðunarmarka hjá 42,1% á fyrra tímabilinu og hjá 55,0% á seinna tímabilinu (p=0,03). Loks náðu 80,4% blóðskilunarsjúklinga meðferðarmörkum fyrir hlutfallslega minnkun úrea á fyrra tímabilinu og 72,6% á því seinna (p=0,80). Kolsýra var innan meðferðarmarka hjá 94,9% sjúklinga í kviðskilun en aðeins hjá 65,6% sjúklinga í blóðskilun (p<0,001). Albúmín var innan viðmiðunarmarka hjá 50,3% sjúklinga í blóðskilun en 36,1% í kviðskilun (p=0,036).

Ályktanir: Þrátt fyrir vel skilgreinda gæðastaðla og útgáfu leiðbeininga hafa ekki orðið miklar breytingar til batnaðar á skilunardeild Landspítala síðustu ár. Þörf er á úrræðum til að bæta úr því og er brýnt að tryggja að klínískum leiðbeiningum sé fylgt.

 

 

V075 Skýrist lágt nýgengi meðhöndlaðrar lokastigsnýrnabilunar á Íslandi af því að skilunarmeðferð er síður beitt?

Þorbjörg Karlsdóttir1, Runólfur Pálsson2, Ólafur Skúli Indriðason2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu Landspítala

Inngangur: Nýgengi meðhöndlaðrar lokastigsnýrnabilunar (LSNB) er lægra á Íslandi en í öðrum vestrænum ríkjum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort þetta skýrist af því að hátt hlutfall sjúklinga með LSNB hér á landi fær ekki skilunarmeðferð.

Efniviður og aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn er náði til allra sjúklinga með LSNB á Íslandi á árunum 2000-2007 sem ekki fengu meðferð með skilun eða ígræðslu nýra. Sjúklinga með kreatínín >280 µmól/l var leitað á öllum heilbrigðisstofnunum á Íslandi. Nánari upplýsingar um þessa sjúklinga fengust úr sjúkraskrám og dánarmeinaskrá Hagstofunnar. LSNB var skilgreind sem reiknaður gaukulsíunarhraði (r-GSH) <15 ml/mín./1,73 m2.

Niðurstöður: Alls greindust 78 einstaklingar (43 karlar) með LSNB sem ekki hlutu meðferð. Á sama tíma hófu 164 sjúklingar meðferð við LSNB. Heildarnýgengi LSNB var því 102,5/milljón á ári. Meðalaldur þeirra sem ekki hlutu meðferð var 79,3 ±9,6 ár og þeir voru með 4±1,8 skráða fylgisjúkdóma. Síðasti þekkta gildi r-GSH var 9,6 ±3,4 ml/mín./1,73 m2 og 31 sjúklingur var með r-GSH á bilinu 10-15 ml/mín./1,73 m2. Nýrnalæknir var með í ráðum hjá 76% sjúklinga. Í 36% tilfella ráðlagði læknir frá meðferð, 23% sjúklinga höfnuðu meðferð og í 18% tilfella var ákvörðun um að beita ekki meðferð sameiginleg. Sex sjúklingar (8%) voru búnir undir meðferð en létust áður en hún hófst og hjá 10 einkennalitlum sjúklingum (13%) hafði ákvörðun um meðferð ekki verið tekin. Níu sjúklingar voru á lífi við lok rannsóknartímabilsins. Hjarta- og æðasjúkdómar (54%) og nýrnabilun (23%) voru helstu dánarorsakir.

Ályktanir: Þriðjungur sjúklinga sem fá LSNB á Íslandi hljóta ekki meðferð en þó er nýgengi LSNB lágt miðað við önnur vestræn ríki. Flestir þessara sjúklinga eru aldraðir og með marga fylgisjúkdóma og hefðu því líklega ekki mikinn ávinning af skilunarmeðferð.

 

 

V076 Tíðni sjúkrahúsinnlagna meðal skilunarsjúklinga á Íslandi

Dóra Erla Þórhallsdóttir1, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur Skúli Indriðason2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu Landspítala

Inngangur:Tíðni sjúkrahúsinnlagna er einn þeirra mælikvarða sem notaðir eru til að meta alvarleika veikinda og árangur meðferðar skilunarsjúklinga. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tíðni og orsakir innlagna meðal skilunarsjúklinga á Íslandi.

Efniviður og aðferðir:Rannsóknin var afturvirk og náði til allra sjúklinga sem gengust undir meðferð á skilunardeild Landspítala 2000-2009. Upplýsinga um sjúklinga var aflað úr sjúkraskrám, m.a. um allar innlagnir á sjúkrahús, sjúkdómsgreiningar og lengd legu. Hópar voru bornir saman með Wilcoxon-Mann-Whitney og kí-kvaðrat prófum.

Niðurstöður:Fjöldi skilunarsjúklinga á tímabilinu var 249, þar af 153 karlar (61,4%). Alls voru 149 (59,8%) í blóðskilun, 59 (23,7%) í kviðskilun og 41 (16,5%) reyndu báðar tegundir. Meðalaldur við upphaf skilunar var 61,4 ±18,8 ár. Voru 17 (6,8%) með engan skráðan fylgisjúkdóm, 71 (28,5%) með einn, 69 (27,7%) með tvo og 92 (36,9%) með þrjá. Tíðni innlagna (miðgildi (spönn)) var 2,4 (0-46,6) á hvern sjúkling á ári. Tíðni innlagna var marktækt hærri hjá sjúklingum með 2 fylgisjúkdóma en þeim sem höfðu <2 fylgisjúkdóma (2,6 á móti 1,6 á ári,  P=0,004). Meðallengd sjúkrahúslegu var 4 (1-180) dagar. Marktækur munur var á lengd legu blóðskilunar- og kviðskilunarsjúklinga (4,0 dagar á móti 6,0, P<0,001) og hjá sjúklingum <65 ára og 65 ára (4,0 dagar á móti 6,0, P<0,001). Hjarta- og æðasjúkdómar voru algengasta orsök innlagnar (20,0%). Vandamál í tengslum við skilunaraðgengi lágu að baki 10,7% innlagna.

Ályktanir: Tíðni sjúkrahúsinnlagna meðal skilunarsjúklinga er há hér á landi miðað við önnur lönd. Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta orsök innlagna en einnig er stór hluti vegna vandamála er tengjast skilunaraðgengi. Auk þess að rýra lífsgæði sjúklinga fylgir sjúkrahúsvist mikill kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið.

 

 

V077 Framrás gauklasjúkdóma - áhrif valinna áhættuþátta

Konstantín Shcherbak1, Ólafur Skúli Indriðason2, Viðar Eðvarðsson3, Jóhannes Björnsson4,5, Runólfur Pálsson2,5

1Öldrunarlækningaeiningu, 2nýrnalækningaeiningu, 3Barnaspítala Hringsins, 4rannsóknarstofu í meinafræði, Landspítala, 5læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur:Gauklasjúkdómar geta valdið lokastigsnýrnabilun (LSNB) en framvinda þeirra hefur lítið verið rannsökuð í almennu þýði. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áhrif ýmissa áhættuþátta á framrás gauklasjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: Þetta var afturskyggn rannsókn á einstaklingum sem greindust með gauklasjúkdóm með töku vefjasýnis á árunum 1983-2002. Upplýsingar um afdrif sjúklinga voru fengnar úr sjúkraskrám Landspítala og Íslensku nýrnabilunarskránni. Notuð var Cox aðhvarfsgreining og Kaplan-Meier lifunargreining til að kanna tengsl áhættuþátta við lifun og LSNB.

Niðurstöður:Vefjasýni frá 281 einstaklingi leiddu til 286 greininga á gauklasjúkdómi. Upplýsingar um afdrif voru aðgengilegar í 280 tilvikum. Gauklasjúkdómum fylgdi hærri dánartíðni en í almennu þýði (hlutfallsleg áhætta (HÁ)=1,8, p<0,001). Hæst var áhættan hjá sjúklingum með gauklabólgu af völdum rauðra úlfa (HÁ=15,9) og mýlildi (HÁ=14,7) en ekki var marktækt aukin áhætta fyrir sjúklinga með IgA-nýrnamein eða FSGS. Án leiðréttingar fyrir aðra þætti höfðu aldur við greiningu (HÁ=2,2 fyrir hver 10 ár, p<0,001), saga um háþrýsting (HÁ=5,3, p<0,001), saga um fjölkerfasjúkdóm (HÁ=2,3, p<0,001), lækkun r-GSH (HÁ=0,7 fyrir hverja 10 ml/mín./1,73 m2, p<0,001), hlutfall af bandvefsumynduðum gauklum í vefjasýni (HÁ=1,3 fyrir hver 10%, p<0,001) ásamt próteinmigu og birtingarmynd sjúkdómsins mest tengsl við lifun. Sömu breytur höfðu líka sterkast forspárgildi fyrir LSNB að undanskildri sögu um fjölkerfasjúkdóm. Mest var hætta á LSNB eða dauða þegar gauklasjúkdómur einkenndist af bráðri nýrnabilun (HÁLSNB=32,0 og HÁdauði=12,2, p<0,001) eða nýrungaheilkenni (HÁLSNB=8,0 og HÁdauði=8,2, p<0,001).

Ályktanir: Dánartíðni einstaklinga með gauklasjúkdóm er nær tvöföld miðað við almennt þýði en er þó mismunandi fyrir einstaka sjúkdóma. Gauklasjúkdómar virðast hafa sameiginlega áhættuþætti fyrir slæma framvindu og vega þar bráð nýrnabilun við greiningu, saga um háþrýsting og próteinmiga þyngst.

 

 

V078 Myndun og endingartími æðaaðgengis  í blóðskilunarsjúklingum

Steinþór Runólfsson1, Ólafur Skúli Indriðason1,2, Elín Laxdal1,3,4, Lilja Þyri Björnsdóttir3, Runólfur Pálsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu, 3æðaskurðlækningaeiningu Landspítala, 4Department of Surgical Sciences, háskólanum í Bergen, Noregi

 

Inngangur:Æðaaðgengi sem tryggir ríkulegt blóðflæði er nauðsynleg forsenda árangursríkrar blóðskilunarmeðferðar. Markmið rannsóknar-innar var að kanna tíðni og endingartíma mismunandi tegunda æðaaðgengis fyrir blóðskilun á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og náði til allra sjúklinga sem hófu blóðskilun á skilunardeild Landspítala á tímabilinu 2000-2009. Aflað var upplýsinga úr sjúkraskrám, m.a. um tímasetningu upphafs og loka blóðskilunar og tegund og staðsetningu æðaaðgengis. Þroskunar og endingartími æðaaðgengis var metinn með Kaplan-Meier aðferð og hópar bornir saman með log-rank prófi.

Niðurstöður:Á tímabilinu voru mynduð 282 æðaaðgengi hjá 145 sjúklingum, 86 körlum og 59 konum. Meðalaldur við upphaf blóðskilunar var 61,5 ±18,2 ár og hlutfall sykursjúkra var 24,1%. Hjá 75 sjúklingum (51,7%) hófst blóðskilun um fistil en 70 (48,3%) byrjuðu meðferðina um legg. Á tímabilinu fengu 41,1% sjúklinga eitt aðgengi, 35,2% tvö aðgengi og 23,4% þrjú eða fleiri.  Af 203 fistlum voru 163 (80,3%) náttúrulegir og gerviæðarfistlar voru 40 (19,7%). Upplýsingar um þroskunar- og endingartíma voru tiltækar fyrir 193 fistla. Þar af urðu 32 náttúrulegir og 3 gerviæðarfistlar ekki nothæfir (P=0,23). Miðgildi þroskunartíma annarra fistla var 77 (1-805) dagar fyrir náttúrulega fistla en 28 (1-196) dagar fyrir gerviæðarfistla (P<0,001).  Endingartími náttúrulegra fistla (n=163) var 516 (0-3559) dagar en gerviæðarfistla (n=30) 587 (0-2051) dagar (P=0,56). Fistlar sjúklinga sem voru yngri en 65 ára höfðu marktækt betri endingartíma en þeirra sem eldri voru (P=0,029). Sykursjúkir reyndust hafa marktækt skemmri endingartíma náttúrulegra fistla en þeir sem ekki voru með sykursýki (P=0,028).

Ályktanir: Niðurstöður okkar sýna að hátt hlutfall fistla eru af náttúrulegum toga en dræmur þroski þeirra gæti það verið ein af ástæðum þess hve margir sjúklingar hefja blóðskilun um legg. Athyglisvert er að endingartími gerviæðarfistla er svipaður og náttúrulegra fistla.

 

 

V079 Bráður nýrnaskaði eftir kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi

Sólveig Helgadóttir1,4, Ólafur S. Indriðason2, Gísli Sigurðsson3,4, Martin I. Sigurðsson4, Hannes Sigurjónsson4, Tómas Guðbjartsson1,4

1Hjarta- og lungnaskurðdeild, 2nýrnalækningaeiningu, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarlegur fylgikvilli hjartaaðgerða og áhættuþáttur fyrir lakari útkomu. Tilgangur rann-sóknarinnar var að kanna í fyrsta sinn tíðni BNS í kjölfar hjartaaðgerða á Landspítala, með hliðsjón af hinum alþjóðlega viðurkenndu RIFLE-skilmerkjum.

Efniviður og aðferðir: Aftursæ rannsókn er náði til sjúklinga sem gengust undir kransæðaaðgerð á Landspítala 2002-2006. Farið var yfir sjúkra- og svæfingarskrár og fjölbreytugreining nýtt til úrvinnslu gagna.

Niðurstöður: Af 720 sjúklingum greindust 112 (15,5%) með BNS; 70 féllu í RISK-flokk, 22 í INJURY- og 16 í FAILURE-flokk. Af þeim fengu 14 (12,5%) skilunarmeðferð í framhaldinu. Sjúklingar með BNS voru 3,9 árum eldri, með lægri gaukulsíunarhraða (71 sbr. við 78 mL/mín/1,73m2, p<0,001) og útstreymisbrot (EF) (49 sbr. 53%, p=0,02) en hærra EuroSCORE (7,1 sbr. 4,4, p<0,001), auk þess sem fleiri féllu í NYHA-flokk III-IV fyrir aðgerð. Háþrýstingur var algengari í BNS-hópnum (71% sbr. 60%, p<0,001) en ekki reyndist marktækur munur á öðrum þekktum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma, umfangi kransæðasjúkdóms eða hlutfalli aðgerða á sláandi hjarta. Í BNS-hóp voru fleiri bráðaaðgerðir (13% sbr. 2%, p<0,001) og  tími á hjarta- og lungnavél var lengri (100 sbr. 83 mín, p<0,001). Sjúklingar með BNS lágu 8 dögum lengur á sjúkrahúsi og höfðu 6-falt hærri dánartíðni <30 daga (11,1% sbr. 1,8%, p<0,001). Í fjölþáttagreiningu reyndust bráðaðgerð (OR 5,97), háþrýstingur (OR 1,78) og hátt EuroSCORE (OR 1,16) sjálfstæðir áhættuþættir fyrir BNS. 

Ályktanir: Samkvæmt RIFLE-skilmerkjum hlutu tæplega 16% sjúklinga BNS eftir kransæðaaðgerð á Landspítala. Reyndist sjúkrahússlega þeirra lengri og dánartíðni umtalsvert hærri sem er sambærilegt við niðurstöður erlendra rannsókna. Sjúklingar sem fara í bráðaaðgerð, eru með sögu um háþrýsting eða hátt EuroSCORE eru í sérstakri áhættu að fá BNS.

 

 

V080 Dreifing blóðþrýstings, tengsl við líkamsþyngdarstuðul og algengi háþrýstings í 9-10 ára börnum á Íslandi

Sandra D. Steinþórsdóttir1, Sigríður B. Elíasdóttir1, Ólafur S. Indriðason2, Inger M. Ágústsdóttir3, Hróðmar Helgason3, Runólfur Pálsson1,2, Viðar Eðvarðsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu, 3Barnaspítala Hringsins, Landspítala

 

Inngangur: Algengi háþrýstings meðal barna hefur aukist samkvæmt nýlegum erlendum rannsóknum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna algengi háþrýstings, dreifingu blóðþrýstings (BÞ) og tengsl BÞ við líkamsþyngdarstuðul (LÞS) meðal barna hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Börnum í öllum grunnskólum á höfuðborgar-svæðinu sem fædd voru 1998 var boðin þátttaka. Í upphafi var BÞ mældur í fjögur skipti í sitjandi stöðu með mínútu millibili á skólatíma. Börn með BÞ ³95. hundraðsröð að meðaltali við fyrstu mælingu voru mæld aftur á sama hátt tveimur vikum síðar og væri meðaltal BÞ þá ³95. hundraðsröð var þriðja mælingalotan framkvæmd á LSH. Börn með BÞ ³95. hundraðsröð í öll skiptin voru talin hafa hækkaðan blóðþrýsting. Fengnar voru upplýsingar um kyn, hæð og þyngd og LÞS reiknaður. Hundraðsröð og fjórðungsbil BÞ var reiknað út frá gögnum um BÞ í bandarískum börnum.

Niðurstöður: BÞ var mældur hjá 1023 börnum í samtals 39 grunnskólum. Af 989 börnum sem áttu fullnægjandi gögn, voru 496 stúlkur (50,2%). Við fyrstu mælingu voru meðaltalsgildi BÞ stúlkna 111/63 mm Hg og drengja 112/64 mm Hg (p<0,001). Við fyrstu mælingu voru 0,5%, 9,7%, 29,8% og 60% barna með slagbilsþrýsting (SBÞ) og 3,4%, 32,5%, 49,5% og 14,6% með hlébilsþrýsting í 1., 2., 3. og 4. fjórðungi. Meðaltal SBÞ var 95. hundraðsröð hjá 13,1%, 6,0% og 3,0% barnanna eftir fyrstu, aðra og þriðju mælingarlotu. Af 30 börnum með hækkaðan BÞ reyndust 6 hafa eðlilegan sólarhringsblóðþrýsting og voru talin hafa hvítsloppaháþrýsting. Háþrýstingur var greindur hjá 24 börnum (2,4%). Jákvæð fylgni var milli SBÞ og LÞS (r=0,261, p<0,001) og höfðu 10% of feitra barna háþrýsting.

Ályktanir: Algengi frumkomins háþrýstings meðal 9-10 ára íslenskra barna er lægra en í nýlegum bandarískum og evrópskum rannsóknum en svipað og í bandarískum rannsóknum á 7. áratug síðustu aldar. Sterk fylgni er milli blóðþrýstings og LÞS og gæti munur á algengi háþrýstings því stafað af mismunandi holdafari.

 

 

V081 Samanburður á sjálfvirkum og handvirkum blóðþrýstingsmælingum hjá 9-10 ára börnum á Íslandi

Sigríður B. Elíasdóttir1, Sandra D. Steinþórsdóttir1, Runólfur Pálsson1,3, Ólafur S. Indriðason2, Viðar Eðvarðsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu, 3Barnaspítala Hringsins, Landspítala

 

Inngangur: Notkun sjálfvirkra blóðþrýstingsmæla hefur aukist gríðarlega í barnalækningum en rannsóknum ber ekki saman um áreiðanleika þeirra. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna mismun á blóðþrýstingi (BÞ) mældum með sjálfvirkum mæli (SM) og handvirkum mæli (HM) hjá 9-10 ára börnum.

Efniviður og aðferðir: BÞ var mældur hjá 1023 skólabörnum sem fædd voru 1998 og var þeim slembiraðað í tvo hópa. Í hópi 1 var hvert barn mælt í tvígang með HM og svo tvisvar með SM og það sama var gert í hópi 2 en í öfugri röð. Hóparnir voru bornir saman með t-prófi og C2-prófi.

Niðurstöður: Af 980 börnum sem áttu fullnægjandi gögn voru 520 í hópi 1 og 459 í hópi 2. Enginn munur var á hópunum m.t.t. kyns, hæðar eða líkamsþyngdarstuðuls. Fyrsta mæling slagbilsþrýstings (SBÞ) var hærri með SM en HM (115±10 á móti 113±8 mm Hg, p<0,001). Enginn munur var á annarri og þriðju mælingu en við fjórðu mælingu var SBÞ lægri með SM (108±10 á móti 110±8 mm Hg, p=0,006). Ekki var munur milli fyrstu mælinga hlébilsþrýstings (HBÞ) en við aðra, þriðju og fjórðu mælingu mældist HBÞ lægri með SM en HM (61±8 á móti 64±6, p<0,001, 61±7 á móti 65±7, p<0,001 og 60±7 á móti 65±7 mm Hg, p<0,001). Meðaltalsgildi SBÞ var 112±8 mm Hg með SM en 111±8 með HM (p=0,011) og meðaltalsgildi HBÞ var 63±5 mm Hg með SM og 64±6 mm Hg með HM (p<0,001). Þegar meðaltal mælinga var skoðað reyndust 15,9% hafa hækkaðan SBÞ (³95. hundraðsröð) með SM en 14,0% með HM. Helmingur þeirra sem mældust með hækkaðan SBÞ með annarri aðferðinni reyndist vera undir 95. hundraðsröð SBÞ með hinni.

Ályktanir: Okkar niðurstöður benda til nokkurs misræmis milli sjálfvirkra og handvirkra blóðþrýstingsmælinga. Þar sem BÞ lækkar við endurteknar mælingar skiptir röð þeirra einnig máli og það flækir samanburðinn.

 

 

V082 Marklíffæraskemmdir hjá 9-10 ára börnum með háþrýsting

Sigríður B. Elíasdóttir1, Sandra D. Steinþórsdóttir1, Ólafur S. Indriðason2, Hróðmar Helgason3,  Inger M. Sch. Ágústsdóttir3, Runólfur Pálsson1, 2, Viðar Ö. Eðvarðsson1, 3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningaeiningu, 3Barnaspítala Hringsins, Landspítala

 

Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna undirliggjandi orsakir háþrýstings og tíðni marklíffæraskemmda hjá 9-10 ára börnum með háþrýsting á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Þrjátíu börn fædd 1998 greindust með háþrýsting (BÞ ³95. hundraðsröð) við rannsókn í skólum höfuðborgarsvæðisins vorið 2009 og var þeim boðin þátttaka í frekari rannsókn. Foreldrar fylltu út spurningalista um fyrra heilsufar, ættarsögu, lyf og lakkrísneyslu. Leitað var að undirliggjandi sjúkdómum og marklíffæraskemmdum með blóð- og þvagrannsóknum og ómskoðun hjarta, hálsslagæða og nýrna. Þrjátíu heilbrigðir jafnaldrar af sama kyni, hæð og þyngd voru valdir til samanburðar og gengust undir ómskoðun á hjarta og hálsslagæðum. Hóparnir voru bornir saman með Mann-Whitney prófi. Notast var við miðgildi og fjórðungshlutamörk.

Niðurstöður: Helmingur barnanna í háþrýstingshópnum borðaði lakkrís einu sinni í viku en hin sjaldnar. Þrjú voru með athyglisbrest og tóku Concerta. Þrjú börn höfðu væga smáalbúmínmigu. Ekki var munur á þykkt vöðvalags hálsslagæða hjá hópunum. Stækkun á vinstri slegli greindist hjá 6 börnum í háþrýstingshópi en 1 barni í viðmiðunarhópi (p=0,044). Þykkt sleglaskilveggjar var meiri hjá háþrýstingshópi en viðmiðunarhópi bæði í hlébili eða 0,63 (0,60-0,72) á móti 0,57 (0,53-0,57) cm (p<0,001) og slagbili, 0,86 (0,80-0,98) á móti 0,83 (0,47-0,91) cm (p=0,05). Þykkt afturveggs vinstri slegils í slagbili var meiri hjá háþrýstingshópi en viðmiðunarhópi, 0,69 (0,6-0,75) cm á móti 0,63( 0,57-0,66) cm (p=0,013). Ekki var marktækur munur á massa vinstri slegils milli hópanna en hjá háþrýstingshópnum var hlutfall massans og líkamsyfirborðs 69,1 (59,0-75,6) á móti 57,8 (53,3-70,0) (p=0,034).

Ályktanir: Frumkominn háþrýstingur virðist vera aðalorsök háþrýstings hjá 9 til 10 ára börnum þar sem engar undirliggjandi ástæður fundust. Rannsóknin bendir hins vegar til að merki um marklíffæraskemmdir séu komnar fram í hjarta þegar á unga aldri.

 

 

V083 Langtímaárangur og lifun eftir lokuskiptaaðgerð vegna ósæðarlokuþrengsla á Íslandi

Sindri Aron Viktorsson1, Inga Lára Ingvarsdóttir1, Kári Hreinsson3, Ragnar Danielsen1,2, Tómas Guðbjartsson1,4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjartadeild, 3svæfinga- og gjörgæsludeild, 4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala

 

Inngangur: Árangur ósæðarlokuaðgerða hefur lítið verið rannsakaður á Íslandi. Markmið okkar var að kanna árangur ósæðarlokuskipta vegna ósæðarlokuþrengsla með sérstaka áherslu á langtíma fylgikvilla.

Efniviður og aðferðir: 156 sjúklingar sem gengust undir ósæðarloku-skipti vegna ósæðarlokuþrengsla á Landspítala 2002-2006. Sleppt var sjúklingum sem áður höfðu farið í hjartaaðgerð (n=17) eða fóru í aðgerð vegna ósæðarlokuleka eða hjartaþelsbólgu (n=5). Meðalaldur sjúklinga var 71,7 ár (bil 41-88) og voru 2/3 karlar. Gerviloku var komið fyrir hjá 29 (18,6%) sjúklingum en lífrænni loku hjá 127. Úr sjúkraskrám og stofu-nótum sérfræðinga voru skráðir langtíma fylgikvillar og lokutengdar innlagnir til 1. apríl 2010. Einnig voru kannaðar hjartaómanir og reiknuð heildarlifun skv. upplýsingum frá Hagstofu. Meðal eftirfylgd var 4,8 ár. Tíðni langtímafylgikvilla er miðuð við 100 sjúklingaár.

Niðurstöður: EuroSCORE fyrir aðgerð var 9,6%, hámarks þrýstingsfall (DP) yfir lokuna 74,1 mmHg og útfallsbrot (EF) 57%. Þremur til tólf mánuðum eftir aðgerð mældist þrýstingsfallandi yfir nýju lokunni 19,8 mmHg (bil 2,5 - 38) og útfallsbrot hélst óbreytt. Hjá 50 sjúklingum virðist ómskoðun ekki hafa verið gerð eftir aðgerð. Rúmur fjórðungur sjúklinga var lagður inn vegna lokutengdra vandamála; 4 oftar en einu sinni, sem eru 6,0 innlagnir/100 sjúkl.ár. Algengustu ástæður endurinnlagna voru hjartabilun (1,74/100 sjúkl.ár), blóðsegarek (1,60), blæðing (1,6), hjarta-þelsbólga (0,67) og hjartadrep (0,40). Eins og 5 ára lifun eftir aðgerð var 93% og 90%.

Ályktanir: Tíðni langtíma fylgikvilla eftir ósæðarlokuskipti hér á landi er tiltölulega lág samanborið við erlendar rannsóknir, sérstaklega tíðni alvarlegra blæðinga vegna blóðþynnandi meðferðar. Tíðni blóðsegareks og hjartaþelsbólgu er hins vegar svipuð. Of snemmt er að segja til um endingu lífrænu lokanna en lifun sjúklinga er góð.

 

 

V084 Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi 2002-2006

Hannes Sigurjónsson1, Sólveig Helgadóttir2, Sæmundur J. Oddsson1, Martin Ingi Sigurðsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Hátt í 4000 kransæðahjáveituaðgerðir hafa verið fram-kvæmdar hér á landi. Í flestum tilvikum hefur verið notast við hjarta- og lungnavél (CABG) en á síðasta áratug hafa margar aðgerðanna verið gerðar á sláandi hjarta (OPCAB). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna árangur þessara aðgerða hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nær til allra sjúklinga (n=720) sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi árin 2002-2006. Sjúklingum sem gengust undir aðrar aðgerðir samtímis, t.d. lokuaðgerð, var sleppt. Bornir voru saman fylgikvillar og dánartíðni (<30 d.) í CABG-hópi (n=513), og OPCAB-hópi (n=207), og notuð til þess bæði ein- og fjölþáttagreining.

Niðurstöður: Áhættuþættir voru mjög sambærilegir fyrir báða hópa, m.a. aldur, líkamsþyngdarstuðull, fjöldi æðatenginga (2,8) og EuroSCORE (4,8). Aðgerðir á sláandi hjarta tóku lengri tíma (222 vs. 197 mín., p<0,001) og blæðing var aukin samanborið við hefðbundna aðgerð og munaði 274 ml (p<0,001). Tíðni enduraðgerða vegna blæðinga og blóðgjafir voru heldur hærri í CABG-hópnum og CK-MB mældist hærra (43,4 vs. 36,3 µg/L, p<0,05). Aftur á móti var tíðni gáttatifs (53%) og heilablóðfalls (2%) sambærileg í báðum hópum,, einnig legutími (12 dagar) og dánartíðni <30 d. (3% vs. 4%). Í fjölþáttagreiningu hafði tegund aðgerðar ekki forspárgildi fyrir dánartíðni <30 d. en það gerðu EuroSCORE, blófitulækkandi lyf og magn blóðgjafar sem voru sjálfstæðir forspárþættir. Línuleg aðhvarfsgreining sýndi að tegund aðgerðar, líkamsþyngdarstuðull og fjöldi æðatenginga voru sjálfstæðir áhættuþættir aukinnar blæðingar.

Ályktanir: Árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi er góður (3,2% dánir <30 d.) og sambærilegur við stærri hjartaskurðdeildir erlendis. Þetta á við um bæði hefðbundnar aðgerðir og aðgerðir á sláandi hjarta. Í þessari óslembuðu rannsókn reyndist þó blæðing aukin eftir aðgerðir á sláandi hjarta en tíðni hjartadreps hins vegar lægri.

 

 

 

V085 Míturlokuskipti á Íslandi 1990-2006

Sigurður Ragnarsson1, Þórarinn Arnórsson1, Tómas Guðbjartsson1,2

1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Árangur míturlokuskipta á Íslandi hefur ekki verið kannaður áður en fyrsta slíka aðgerðin hér á landi var gerð 1990. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna skammtímaárangur þessara aðgerða, þ.m.t. dánartíðni og fylgikvilla.

Efniviður og aðferðir: Aftursýn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem fóru í míturlokuskipti á Íslandi 1990-2006. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og var lagt mat á ábendingar og árangur aðgerðanna.

Niðurstöður: Af 52 sjúklingum voru 34 karlar (65%) og meðalaldur 61 ár (bil 17-85). Rúmlega 2/3 voru með míturlokuleka en 15 með þrengsli. Sex sjúklingar höfðu hjartaþelsbólgu, 7 nýlegt hjartadrep og 90% voru í NYHA flokki III-IV fyrir aðgerð. Meðal logEuroSCORE var 16,2% (bil 1,5-78,9%). Helmingur fór samtímis í kransæða-hjáveituaðgerð, 19,2% í ósæðarlokuskipti og 9,6% í þríblöðkulokuviðgerð. Fjórðungur hafði áður farið í opna hjartaaðgerð. Tveir fengu lífræna loku en 50 gerviloku. Meðalstærð nýju lokanna var 30,3 mm (bil 27-31). Meðaltími á hjarta- og lungnavél var 162 mín. og tangartími 107 mín. Miðgildi gjörgæslulegu var 2,9 sólarhringar (bil 0,5-77). Marktæk hækkun á hjartaensímum (CK-MB >70) greindist hjá 62% sjúklinganna og alvarlegir fylgikvillar hjá 46%. Nýtilkomið hjartadrep var algengast (22%), en aðrir alvarlegir fylgikvillar voru öndunarbilun (n=5) og bráð nýrnabilun (n=4). Sjö sjúklingar (13,5%) fóru í enduraðgerð vegna blæðingar og 2 þurftu ósæðardælu (IABP) eftir aðgerð. Minniháttar fylgikvillar greindust hjá helmingi sjúklinga, og voru gáttatif, lungnabólga og skurðsýkingar algengastar. Þrír sjúklingar létust <30 d. (5,8%), en tveir til viðbótar létust fyrir útskrift.

Ályktanir: Míturlokuskipti er umfangsmikil aðgerð þar sem tíðni alvarlegra fylgikvilla er há, sérstaklega hjartadrep og blæðingar sem krefjast enduraðgerða. Hér á landi er dánartíðni <30 daga tiltölulega lág (5,8%), sérstaklega þegar haft er í huga að margir sjúklinganna eru alvarlega veikir fyrir aðgerð. 

 

 

V086 Enduraðgerðir vegna blæðinga eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi -  tíðni, fylgikvillar og afdrif sjúklinga

Njáll Vikar Smárason1, Hannes Sigurjónsson2, Kári Hreinsson3, Þórarinn Arnórsson2, Tómas Guðbjartsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2hjarta-og lungnaskurðdeild,3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

 

Inngangur: Blæðing er algengur fylgikvilli opinna hjartaaðgerða. Í alvarlegum tilfellum getur þurft að taka sjúklinga aftur á skurðstofu til að stöðva blæðinguna. Tíðni og afdrif í kjölfar enduraðgerðar er ekki þekkt hér á landi og er tilgangur rannsóknarinnar að bæta úr því.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar 18 ára sem gengust undir enduraðgerð vegna blæðinga eftir opna hjartaskurðaðgerð á tímabilinu 2000-2005 voru fundnir eftir tveimur aðskildum skrám. Úr sjúkraskrám voru m.a. skráð lyf sjúklings fyrir aðgerð, blóðgjafir, fylgikvillar og legutími.

Niðurstöður: Alls voru gerðar 103 enduraðgerðir (meðalaldur 67,9 ár, 75 karlar) sem er 8% hjartaaðgerða á tímabilinu. Þriðjungur sjúklinganna tóku acetýlsalicýlsýru og 8 klópídógrel síðustu 5 dagana fyrir aðgerð. Meðalblæðing í upphafi enduraðgerðar var 1523 ml (bil 300-4780ml) og á fyrsta sólarhring 3942 ml (bil 690-10740ml). Helmingur sjúklinganna var tekinn í enduraðgerð innan tveggja klst. og 97% innan sólarhrings frá upprunalegri aðgerð. Samtals voru gefnar 16,5 ein af rauðkornaþykkni, 15,6 ein af plasma og 2,3 sett af blóðflögum. Helstu fylgikvillar eftir aðgerð voru hjartsláttaróregla, fleiðruvökvi sem þurfti að tæma, hjartadrep og sýking í bringubeinsskurði. Miðgildi legutíma var 14 dagar (bil 6-85 dagar), þar af 2 dagar (bil 1-38 dagar) á gjörgæslu. Alls létust 16 sjúklingar (15,5%) 30 daga frá aðgerð en 79,6% sjúklinganna voru á lífi ári eftir aðgerð.

Ályktanir: Tíðni enduraðgerða vegna blæðinga (8%) er í hærra lagi hér á landi, án þess að skýringin á því sé þekkt. Um er að ræða hættulegan fylgikvilla sem lengir legutíma og getur dregið sjúklinga til dauða. Kostnaður er einnig verulega aukinn vegna blóðgjafa. Því er mikilvægt að leita lausna til að draga úr blæðingum og um leið fækka enduraðgerðum.

 

 

V087 Endurkomur, innlagnir og andlát eftir ófullkomna heimsókn á bráðadeild - framsýn hóprannsókn

Vilhjálmur Rafnsson1, Oddný S. Gunnarsdóttir2

1Rannsóknarstofu í heilbrigðisfræði, læknadeild Háskóla Íslands, 2Vísinda-, mennta- og gæðasviði Landspítala

 

Inngangur: Horfur sjúklingar með ófullkomna heimsókn á bráðadeild (BD) eru óþekktar. Tilgangurinn var að rannsaka hvort endurkomur, innlagnir og andlát meðal þessara sjúklinga væru frábrugðin því sem gerist meðal sjúklinga sem fullkláruðu heimsókn sína á BD.

Efniviður og aðferðir: Við fjöllum um sjúklinga 18 ára og eldri, sem fóru gegn læknisráði, fóru vegna eigin ákvörðunar án þess að fá læknisskoðun og þeirra sem luku eðlilega heimsókn sinni og voru útskrifaðir heim af BD Landspítalans árin 2002-2008. Samkeyrsla á kennitölum úr skrá BD, sjúkrahússskránni og dánarmeinaskránni var gerð til að finna hvort og hvenær sjúklingarnir leituðu aftur til BD, voru lagðir inn á LSH eða létust. Endurkomur, innlagnir og andlát hjá rannsóknarhópunum og hjá hinum sjúklingunum voru borin saman með kíj-kvaðrat prófi.

Niðurstöður: Þetta voru 106 772 sjúklingar og þar af fóru 77 gegn læknisráði en 4471 fór án læknisskoðunar. Hlutfallsleg áhætta að leita aftur til BD innan 30 daga frá fyrstu komu á BD var 5,85, (95% ÖM 3,55-9,66) fyrir þá sem fóru gegn læknisráði og 4,43, (95% ÖM 4,16-4,72) fyrir þá sem fóru án læknisskoðunar. Hlutfallsleg áhætta að leggjast inn á LSH innan 30 daga var 7,56, (95% ÖM 4,47-12,81) fyrir þá sem fóru gegn læknisráði og 0,88, (95% ÖM 0,75-1,03) fyrir þá sem fóru án læknisskoðunar. Hlutfallsleg áhætta að deyja innan 30 daga var 11,53, (95% ÖM 2,85-46,70) fyrir þá sem fóru gegn læknisráði og 0,50, (95% ÖM 0,21-1,19) fyrir þá sem fóru án læknisskoðunar. Hátt hlutfall sjúklinga sem í upphafi fóru án læknisskoðunar fóru aftur án læknisskoðunar í seinni heimsókninni.

Ályktanir: Sjúklingar sem fóru gegn læknisráði höfðu slæmar horfur vegna endurkoma, innlagna og andláts, en sjúklingar sem fóru án læknisskoðunar höfðu einungis hátt hlutfall endurkoma.

 

 

V088 Lyfjameðferð eldra fólks sem leggst inn á bráðadeild og tengsl við breytur í MDS-AC matstækinu - samnorræn rannsókn

Rósa Björk Þórólfsdóttir1, Ólafur H. Samúelsson2, Pálmi V. Jónsson2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2öldrunarlækningadeild Landspítala

 

Inngangur: Aldurstengdar lífeðlisfræðilegar breytingar, aukinn fjöldi sjúkdóma og fjöllyfjanotkun valda því að eldra fólk er útsett fyrir aukaverkunum lyfja. Heildrænt mat eldri sjúklinga með stöðluðu matstæki er mikilvægt fyrir öryggi lyfjameðferðar. Í þessari rannsókn var notast við gögn úr samnorrænni rannsókn á Minimum Data Set for Acute Care (MDS-AC) öldrunarmatstækinu til að skoða lyfjameðferð eldra fólks á Norðurlöndum og kanna tengsl við valdar breytur í MDS-AC, legutíma og eins árs lifun. Áhersla var lögð á fjöllyfjanotkun, óæskileg lyf, geðlyf og hjarta- og æðasjúkdómalyf.

Efniviður og aðferðir: Söfnun lyfjaupplýsinga og mat með MDS-AC fór fram á árunum 2001-2002 á völdum sjúkrahúsum í Danmörku, Íslandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Þátttakendur voru 770 talsins, valdir með slembiúrtaki úr hópi 75 ára og eldri sjúklinga sem lögðust brátt inn á lyflækningadeild.

Niðurstöður: Meðalfjöldi lyfja var 6,2 (3,7). Fjöllyfjanotkun (³5 lyf) var til staðar hjá 66% þátttakenda og notkun óæskilegra lyfja hjá 16%. Norðmenn tóku marktækt fæst lyf. Konur tóku fleiri lyf en karlar og geðlyfjanotkun var meiri meðal kvenna. Geðlyfjanotkun var áberandi mest á Íslandi og Finnlandi, rúmlega 59%. Samkvæmt fjölbreytuaðhvarfsgreiningu skýrði lyfjameðferð 2-14% af breytileika í útkomuþáttum. Geðlyf og undirflokkar þeirra tengdust verri útkomu í flestum færnibreytum. Óæskileg lyf tengdust lengri legutíma. Hjarta- og æðasjúkdómalyf höfðu í þessari rannsókn tengsl við betri útkomu.

Ályktanir: Fjöllyfjanotkun, notkun óæskilegra lyfja og geðlyfja er algeng á Norðurlöndum. Niðurstöður samræmast að flestu leyti niðurstöðum annarra rannsókna. Heildaráhrif lyfjameðferðar á breytileika í útkomuþáttum voru ekki sterk, en erfitt er að álykta um svo flókið samband út frá þessum niðurstöðum.

 

 

V089 Óþægindi af fæðu eru algeng meðal fullorðinna Íslendinga

Michael Clausen1, Davíð Gíslason2, Þórarinn Gíslason2

1Göngudeild í ofnæmissjúkdómum, 2lungnadeild Landspítala

Inngangur: Ofnæmi af völdum fæðu hefur aukist undanfarin ár á Vesturlöndum. Lítið er vitað um algengi fæðuofnæmis á Íslandi. Ísland er þátttakandi í evrópskri rannsókn á fæðuofnæmi (Europrevall) þar sem kanna á algengi fæðuofnæmis, megin einkenni og algengustu fæðuofnæmisvaldana. Bera á niðurstöðurnar saman á milli þátttökulandanna.

Efniviður og aðferðir: Árið 2007 voru 3300 einstaklingar af Reykjavíkursvæðinu á aldrinum 20-54 ára valin af handahófi til að svara spurningum um fæðuofnæmi í póstlista.

Niðurstöður: Alls svöruðu 2091 (63,3%) spurningalistanum þaraf voru 51,9% konur. Sexhundruðáttatíu og níu (32,9%) sögðust verða illt af því að borða einhverja fæðu. Þar af voru 508 (73,7%) sem höfðu fengið þessi einkenni oftar en fjórum sinnum. Algengustu einkennin voru frá meltingarvegi (50%), húð (28%) og munni og koki (24%). Algengustu orsakavaldar voru mjólkurvörur 5,0%, fiskur 2,4%, skelfiskur 1,5%, kiwi 0,7%, egg 0,6% , hveiti 0,6% og hnetur 0,5% af öllum svarendum. Rúmlega 14% nefndu ekki ákveðna fæðu sem orsakavald heldur hluti eins og pizzu, feitan mat eða áfengi. Læknir hafði sagt 91 (4,3%) að viðkomandi hefði fæðuofnæmi.

Ályktanir: Óþægindi af völdum fæðu eru algeng meðal fullorðinna Íslendinga. Einkenni frá meltingarfærum og húð eru algengust. Flestir telja að mjólkurvörur eða sjávarfang valdi einkennum sínum. Ólíklegt er að bráðaofnæmi eigi þátt í nema litlum hluta þessara einkenna.

 

 

 

 

V090 Skimun fyrir áhættuþáttum skyndidauða íþróttamanna

Baldur Þórólfsson1, Fríða Rún Þórðardóttir2, Gunnar Þór Gunnarsson3, Axel F. Sigurðsson4

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyflækningasviði, 4hjartadeild Landspítala, 3lyflækningadeild Sjúkrahússins Akureyri

 

Inngangur: Skyndidauði meðal ungs þróttafólks er sjaldgæft fyrirbæri sem sem oftast má rekja til undirliggjandi hjartasjúkdóms. Rannsóknir benda til að draga megi úr hættu á skyndidauða með reglubundinni skimun. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fýsileika skimunar á íslenskum íþróttamönnum til að móta leiðbeiningar fyrir lækna og íþróttaforystuna. Þetta fólst í að kanna: 1) tíðni áhættuþátta í sjúkrasögu, skoðun og hjartalínuriti, 2) í hve mörgum tilvikum þörf er á frekari rannsóknum og 3) að meta umfang og kostnað slíkrar skimunar.

Efniviður og aðferðir: Skimaðir voru 105 íþróttamenn (70 karlar og 35 konur) á aldrinum 18- 35 ára. Skimað var skv. leiðbeiningum ESC (European Society of Cardiology).Tekin var sjúkra, heilsufars- og fjölskyldusaga íþróttamannsins, gerð var klínísk hjartaskoðun og tekið var 12-leiðslu hjartalínurit.

Niðurstöður: Algeng sjúkdómseinkenni sem komu fram í sjúkrasögu voru ofnæmi eða exem (28%), astmi (24%), óeðlileg áreynslumæði (15%), brjóstverkur við áreynslu (12%), hjartsláttartruflanir við áreynslu (7%) og svimi (38%)eða yfirliðakennd (10%) við áreynslu. Klínísk hjartaskoðun var óeðlileg hjá 21 (20%). Hjartalínurit var greinilega óeðlilegt hjá 22 (21%) og vægt óeðlilegt hjá 23 (22%). Ábending fyrir hjartaómskoðun var til staðar hjá 24 (23%) og var rannsóknin gerð hjá 19 þeirra. Reyndist hún eðlileg eða nánast eðlileg hjá 6 (32%), vægt óeðlileg hjá 13 (68%) en enginn taldist hafa greinilega óeðlilega ómskoðun.

Ályktanir: Fremur algengt er að íþróttamenn lýsi sjúkdómseinkennum sem tengja má við hjartasjúkdóma. Óeðlilegt hjartalínurit er algengt meðal ungra íþróttamanna. Búast má við að gera þurfi hjartaómskoðun hjá tæpum fjórðungi þeirra sem eru skimaðir. Unnt er að framkvæma skimun keppnisíþróttamanna skv. leiðbeiningum ESC með hóflegum tilkostnaði.

 

 

V091 Áhrif eldgoss í Eyjafjallajökli á heilsufar íbúa undir jöklinum

Hanne Krage Carlsen1, Þórarinn Gíslason2, Þórir Björn Kolbeinsson3, Haraldur Briem4, , Gunnar Guðmundsson5, fyrir hönd rannsóknarhóps um áhrif eldgoss í Eyjafjallajökli, Háskóla Íslands

 

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 2lungnadeild Landspítala, 3Heilsugæslunni á Hellu, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 4sóttvarnalækni, landlæknisembættinu

 

Inngangur: Eldgos með miklu öskufalli hófst í Eyjafjallajökli 14. apríl 2010 og stóð yfir með miklum krafti í sex vikur. Aska og önnur efni frá eldgosum getur haft skaðleg áhrif á heilsu manna og var því ákveðið að bjóða öllum íbúum á svæðið næst gosinu í heilsufarskönnun.

Efniviður og aðferðir: Vegna sóttvarnaráðstafana buðu heilsugæslu-stöðvarnar á Hellu, Hvolsvelli og Vík íbúum á svæðinu frá Markarfljóti að Vík í Mýrdal að taka þátt í heilsufarskönnun. Framkvæmd var læknisskoðun með blástursmælingu. Fullorðnir fylltu út spurningalista um líkamlega og andlega líðan á meðan á gosinu stóð en einnig var spurt um einkenni hjá börnum, upplifun á gosinu og notkun á úrræðum og hlífðarbúnaði.

Niðurstöður: 207 einstaklingar (40 undir 18 ára aldri) mættu í könnunina, þar af 107 konur (52%). Meðalaldur var 44 ára (bil 0-91 árs). Langflestir fullorðinna stunduðu búskap (63%) og þó nokkrir unnu við ferðaþjónustu (7%). Öskufall hafði verið við heimili allra þátttakenda. Samkvæmt blástursmælingu voru 18 % með skerta öndunargetu en 13% höfðu þekktan lungnasjúkdóm fyrir. Margir fullorðinna greindu frá hósta, augneinkennum og munnþurrki (38-41%) á meðan öskufalli stóð. Einkenni áfallastreitu voru til staðar hjá 7% fullorðinna og 13% greindu frá andlegri vanlíðan í læknisviðtali. Helstu einkenni hjá börnum voru kvíði og/eða áhyggjur (30%), einkenni frá öndunarfærum (26%) og höfuðverkir (9%) á meðan öskufalli stóð. Börn með astma (15%) upplifðu öll versnun á öndunarfæraeinkennum.

Ályktanir: Íbúar á öskufallssvæði virðast ekki finna fyrir alvarlegum heilsubrest í kjölfar þessa eldgos. Samt sem áður upplifðu margir talsvert af einkennum á meðan öskufalli stóð, einkum fólk með undirliggjandi sjúkdóma, likamlega eða andlega. Því er full ástæða til að hafa sérstakt eftirlit með þeim hópum.

 

 

V092 Skráning og mat á ávinningi íhlutana lyfjafræðinga á deildum Landspítala

Brynja Sólmundsdóttir1, Anna Birna Almarsdóttir1, Þórunn Guðmundsdóttir2, Anna Gunnarsdóttir2, Pétur Gunnarsson3

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2Sjúkrahúsapótekinu, Landspítala, 3Actavis

 

Inngangur: Mikilvægt er að skrá upplýsingar um klíníska þjónustu lyfjafræðinga til að sýna fram á vinnuframlag þeirra og þjónustu og til að fá heilsteyptari mynd af störfum þeirra á LSH. Þrír lyfjafræðingar veita að staðaldri klíníska þjónustu á fjórum legudeildum LSH. Þeir taka m.a. þátt í þverfaglegri teymisvinnu með þátttöku í stofugangi, flettifundum og innliti á deild, en skrá einnig lyfjasögu sjúklings við innlögn og veita útskriftarviðtal. Markmið rannsóknarinnar var að endurhanna og prófa skráningarblað fyrir íhlutanir lyfjafræðinga á LSH og að meta á markvissan hátt bæði klínískan og hagrænan kostnað og ávinning íhlutana.

Efniviður og aðferðir:Í byrjun var endurhannað skráningarblað sem lyfjafræðingarnir notuðu við skráningu á íhlutunum meðan á gagnasöfnun stóð. Þrenns konar flokkunarkerfi voru notuð, í fyrsta lagi til að meta lyfjatengd vandamál, í öðru lagi til að meta gerðir íhlutana og í þriðja lagi til að meta klínísk áhrif íhlutana.

Niðurstöður: Flestar íhlutanir voru framkvæmdar á stofugangi eða fundi (56,4%) og voru íhlutanir samþykktar í yfir 90% tilfella. Algengast var að íhlutanir lyfjafræðings tengdust tauga- og geðlyfjum (N) eða í 19,3% tilfella. Íhlutanir voru metnar sem þýðingarmiklar í 53,4% tilfella og sem nokkuð þýðingarmikið - ekki þýðingarmikið í 30,7% tilfella. Erfitt var að leggja mat beinan kostnað fyrir allar íhlutanir en nokkur valin dæmi voru tekin sem gáfu vísbendingar hvers konar íhlutanir leiða til sparnaðar. Alls voru 98 íhlutanir skoðaðar (20,5% af öllum íhlutunum) sem leiddi til heildarsparnaðar yfir milljón króna.

Ályktanir: Í þessari rannsókn var ekki hægt að leggja fullt mat á sparnað vegna þess að ekki lágu fyrir nægjanleg gögn til að meta beinan kostnað. Næsta skref snýr því að viðameiri greiningu á hagrænum áhrifum íhlutana lyfjafræðinga á LSH.

 

 

V093 Svimi á slysa- og bráðadeild

Árni Egill Örnólfsson1, Ólöf Birna Margrétardóttir1, Einar Hjaltested1, Hannes Petersen1

1Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala

Inngangur: Kanna umfang og gæði uppvinnslu hjá sjúklingum sem leita á Slysa- og bráðadeild Landspítala (SBD) vegna svima.

Efniviður og aðferðir: Allar komur á SBD þar sem svimi var aðalkvörtun sjúklings voru skoðaðar á aftursæjan hátt. Skoðaðir voru sérstaklega þrír rannsóknarþættir, 1) blóðprufur, 2) myndgreining og 3) álit sérfræðinga.

Niðurstöður: Frá 1. nóvember 2008 til 28. febrúar 2009 fundust 163 tilfelli. Konur voru í meirihluta (63%). Meðalaldur kvenna var 54 ár (± 20 ár) og meðalaldur karla var 50 ár (± 21 ár). Í 126 tilfellum (77%) voru teknar blóðprufur. Tölvusneiðmynd (TS) af höfði var fengin í 65 tilfellum (40%) en í aðeins 2 tilfellum (3%) leiddu niðurstöður tölvusneiðmyndar til greiningar. Í 27 tilfellum (17%) var gerð segulómun (MRI) af heila og í 2 tilfellum (12%) leiddu niðurstöður segulómmyndar til greiningar. Leitað var eftir sérfræðiáliti í 98 skipti í tengslum við 80 tilfelli. Álit sérfræðings leiddi til greiningar í 40 skipti. Í langflestum tilfellum (144; 88,3%) kom ekki til innlagnar. Meðal dvalartími á bráðamóttöku hjá sjúklingum sem ekki lögðust inn var 4,3 (± 2,8) klst. Í um þriðjungi tilfella (52; 32%) útskrifast sjúklingar án greiningar. Algengasta greiningin var BPPV (31 tilfelli; 19%). Hjá sjúklingum sem greindir voru með BPPV voru teknar blóðprufur í 20 tilfellum (65%), TS og/eða MRI í 20 tilfellum (65%) og í einungis 6 tilfellum (19%) var BPPV klínísk greining án nokkurra rannsókna. Skipt var í hópa eftir fjölda rannsóknaþátta sem notaðir voru við uppvinnslu og reyndist enginn marktækur munur á hversu margir útskrifast án greiningar.

Ályktanir: Svimi er algeng kvörtun á SBD. Rannsóknum virðist vera ofaukið í mörgum tilfellum. Bæta þarf klíniska greiningargetu á BPPV. Þörf er á verkferlum við svimauppvinnslu.

 

 

V094 Hvaða sjúkdómar valda verulegri hækkun á ALAT í blóðsermi?

Rúnar Bragi Kvaran1, Hulda Ásbjörnsdóttir2, Einar Stefán Björnsson1, 2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2meltingarlækningaeiningu Landspítala

 

Inngangur: Alanín amínótransferasi (ALAT) er ensím í blóðsermi og vefjum líkamans, einna helst lifrinni. Hækkun ALAT er oftast talin vísbending um undirliggjandi sjúkdómsástand í lifur og við mikla hækkun er mikilvægt að greina ástæðu hækkunar sem fyrst. Efri mörk ALAT eru 45 U/L fyrir konur og 70 U/L fyrir karla. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna orsakir mikillar hækkunar ALAT á LSH auk þess að athuga hvort brugðist sé við rannsóknarniðurstöðunum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er framsýn og er reglulega keyrð beiðni í tölvugagnagrunni rannsóknarstofu LSH sem skilar öllum rannsóknarniðurstöðum þar sem ALAT mælist yfir 400 U/L. Rannsóknin hófst í mars 2010 og stendur yfir í eitt ár. Sjúkraskrár sjúklinga með ALAT > 400 U/L eru rannsakaðar og upplýsingar um ALAT hækkun skráðar.

Niðurstöður: Alls hafa 86 tilfelli verið skráð. Helstu orsakir voru gallsteinar í gallgangi (20%), blóðþurrð í lifur (19%), lifrarskaði af völdum lyfja (13%) og veirulifrarbólga (13%). Færri tilfelli voru af völdum krabbameins (6%), krabbameinslyfjameðferðar (5%), alkóhóls (3%) og annars. Í 17 (20%) tilfellum var ekki minnst á ALAT hækkun sjúklings í sjúkraskrá hans en í 65% þeirra tilfella tókst rannsakendum að ákvarða orsök ALAT hækkunar út frá upplýsingum í sjúkraskrá. Í 14 (19%) tilfellum var ekki hægt að ákvarða orsök hækkana á ALAT. Annars vegar var það vegna skorts á skráningu klínískra upplýsinga og hins vegar voru tilfelli þar sem ekki var hægt að greina orsök.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að gallsteinar í gallgangi og blóðþurrð í lifur eru algengustu orsakir ALAT hækkunar. Greinilegt er að í sumum tilfellum er ALAT hækkun ekki fylgt eftir af lækni. Bæta þarf úr eftirfylgni þar sem hækkun ALAT getur verið vísbending um alvarlegan undirliggjandi sjúkdóm.

 

 

 

V095 Lifrarskaði af völdum lyfja og náttúruefna – framsýn rannsókn á Íslandi

Rúnar Bragi Kvaran1, Óttar Bergmann2, Sigurður Ólafsson2, Sif Ormarsdóttir3, Einar Stefán Björnsson1, 2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2meltingarlækningaeiningu Landspítala, 3lyfjadeild Lyfjastofnunar

 

Inngangur: Lifrarskaði er þekkt aukaverkun ýmissa lyfja og náttúruefna (e. drug induced liver injury (DILI)). Frönsk rannsókn, sem er eina birta framsýna rannsóknin á nýgengi DILI, sýndi nýgengi 14 á hverja 100.000 íbúa á ári. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna nýgengi DILI, algengustu orsakir og afla vitneskju um meinmynd og horfur.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er framsýn og tekur til allra tilfella af ófyrirsjáanlegum (e. idiosyncratic) DILI á Íslandi frá upphafi mars 2010 til loka febrúar 2012. Í byrjun árs 2010 fengu allir læknar á Íslandi bréf um rannsóknina og voru þeir beðnir um að tilkynna öll tilfelli DILI. Orsakagreining var gerð með svokallaðri RUCAM aðferð.

Niðurstöður: Niðurstöður sem birtast hér ná yfir fyrstu sex mánuði rannsóknartímabilsins. Tilfellin voru 29 og er nýgengi DILI samkvæmt því 18 tilfelli á hverja 100.000 íbúa á ári. Konur eru í meirihluta (59%) og meðalaldur er 53 ár. Algengustu orsakir voru amoxicillín með klavúlansýru (28%) og náttúruefni (21%), fjögur tilfelli tengd notkun á Herbalife® vörum og tvö vegna neyslu efna sem innihalda þykkni græns tes (Camellia sinensis). Tvö tilfelli voru orsökuð af díklófenaki og tvö af fleirum en einu lyfi. Aðrir orsakavaldar voru ísóníazíð, trímetóprím/súlfametoxazól, doxýcýklín, interferón β-1a, infliximab, nítrófúrantóín, atorvastatín, azatíóprín, enoxaparín, fenoxýmetýlpenicillín og fenýtóín.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að nýgengi DILI á Íslandi sé hærra en nýgengi í rannsóknum frá öðrum löndum. Greining sjúkdómsins er erfið og því er hann hugsanlega vangreindur. Einnig treystir rannsókn sem þessi á tilkynningar lækna og er ekki víst að öll tilfelli séu tilkynnt. Læknar eru hvattir til þess að hafa mismunagreininguna í huga og tilkynna öll tilfelli (lifrarskadi@landspitali.is).

 

 

V096 Vélindabakflæði í svefni og öndunarfæraeinkenni

Össur Ingi Emilsson1, Þórarinn Gíslason1,2, Bryndís Benediktsdóttir1,2, Sigurður Júlíusson4, Christer Janson5

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lungnadeild, 3háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala, 5lungnadeild Háskólasjúkrahússins, Uppsölum, Svíþjóð

 

Inngangur: Undanfarin ár hefur vélindabakflæði (VBF) hlotið vaxandi athygli sem sérstakur áhættuþáttur sjúkdóma í öndunarfærum, svo sem astma og langvinns hósta. Nýlegar rannsóknir benda til að þessi tengsl VBF séu sterkust meðal þeirra sem hafa einkenni í svefni og hefur hugsanlegur þáttur kæfisvefns einnig verið til skoðunar. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna samspil VBF, öndunarfærasjúkdóma, kæfisvefnseinkenna og blástursgetu í almennu þýði.

Efniviður og aðferðir: Samanburður var gerður í almennu þýði Svía og Íslendinga (svörun >70%) 40 ára og eldri (n=1325) sem höfðu tekið þátt í rannsókn á algengi langvinnrar lungateppu (www.BOLDCOPD.org) með því að fara í blásturspróf fyrir og eftir gjöf berkjuvíkkandi lyfs og svara spurningalistum um öndunarfæra- og kæfisvefnseinkenni, almennt heilsufar og einkenni vélindabakflæðis.

Niðurstöður:Hópnum var skipt í fjóra undirhópa og hópur 1 notaður sem viðmið: 1) Án lyfja við VBF, án einkenna VBF í svefni (n=1040), 2) Með lyf við VBF, án einkenna VBF í svefni (n=183), 3) Með lyf við VBF, með einkenni VBF í svefni (n=66), 4) Án lyfja við VBF, með einkenni VBF í svefni (n=36). Einkenni frá öndunarfærum voru marktækt algengari í hópum 2, 3 og 4. Þar af voru langvinnur hósti, ýl, mæði við áreynslu og ofnæmi í nefi algengust í hópi 4. Saga um lungnaþembu, langvinna berkjubólgu eða astma var algengust í hópi 4. Einkenni kæfisvefns voru marktækt algengari í hópum 2, 3 og 4. Þar af voru dagsyfja og tíðar vaknanir algengastar í hópi 4, en öndunarhlé í svefni algengust í hópi 3. Blásturspróf sýndu að öndunargeta var marktækt lökust í hópi 4.

Ályktanir: Saga um VBF í svefni tengist sterklega einkennum frá öndunarfærum. Blásturspróf sýndu marktæka skerðingu á öndunargetu meðal þeirra sem höfðu einkenni VBF, en höfðu ekki fengið meðferð.

 

 

V097 Orsakir ascites eru aðrar á Íslandi en í öðrum vestrænum löndum

Einar Stefán Björnsson, Hildur Þórarinsdóttir

Meltingarlækningaeiningu Landspítala

 

Inngangur: Að fá ascites er oftast teikn um alvarleg undirliggjandi veikindi. Í flestum vestrænum löndum er skorpulifur algengasta orsök ascites. Hér á landi hefur þetta lítið verið rannsakað. Markmið rannsóknarinnar var að athuga algengi ascites meðal inniliggjandi sjúklinga á LSH og kanna helstu orsakir.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir innlagnir þeirra sem lögðust inn á LSH frá 2000-2009 og fengu sjúkdómsgreininguna ascites (R 18). Farið var í gegnum sjúkraskrár og undirliggjandi orsakir kannaðar.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fengu 159 einstaklingar sjúkdómsgreininguna ascites: 100 konur og 59 karlmenn. Algengasta ástæða ascites voru illkynja sjúkdómar í 89/159 (56%), 38/159 (24%) með skorpulifur og hjartasjúkdómar hjá 13/159 (8%), aðrar orsakir 14/159 (9%). Hjá 5 sjúklingum (3%) var ástæða óþekkt. Meðal illkynja sjúkdóma voru 40/89 (45%) með eggjastokkakrabbamein, 10/89 (11%) með brjóstakrabbamein, 7/89 (8%) með prímert peritoneal, 7/89 (8%) með magakrabbamein, 7/89 (8%) ristilkrabbamein og 12/89 (13%) með önnur krabbamein. Uppruni æxlis fannst ekki hjá 5 einstaklingum (6%). Skorpulifur var í 63% tilfella tengd áfengisdrykkju. Ef tímabilinu er skipt í tvennt voru fleiri sem lögðust inn á seinni hluta tímabilsins en hlutfall þeirra sem var með skorpulifur tengda áfengi var svipaður; 9/14 (64%) vs 15/24 (63%).

Ályktanir: Illkynja sjúkdómar eru algengasta ástæða ascites á Íslandi sem er ólikt því sem gerist í öðrum vestrænum löndum þar sem skorpulifur er algengari. Áfengisneysla var algengasta ástæða þeirra sem hafa skorpulifur. Svo virðist sem ascites vegna áfengistengdrar skorpulifrar fari ekki vaxandi.

 

 

V098 Paracetamóleitranir á Landspítala 2004-2009

Ragna Sif Árnadóttir1, Óttar Bergmann2, Einar Stefán Björnsson1, 2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2meltingarlækningaeiningu Landspítala

Inngangur: Paracetamól er algengasta orsök bráðrar lifrarbilunar í mörgum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum. Líklega er þó aðeins lítill hluti þeirra sem innbyrða of stóran skammt af paracetamóli sem hljóta lifrarskaða. Algengi lifrarskaða af völdum paracetamóls hefur lítið verið rannsakað á Íslandi. Það er því óljóst hve stór hluti sjúklinga með lyfjaeitrun af völdum paracetamols hlýtur lifrarskaða og hverjir hljóta paracetamóleitrun af slysni.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til sex ára tímabils, 2004-2009. Leit að sjúkdómsgreiningum sem tengjast lyfja-eitrunum og bráðri lifrarbilun var framkvæmd í tölvukerfi LSH. Teknir voru með í rannsóknina þeir sjúklingar sem lögðust inn á LSH vegna ofskammts af paracetamóli. Leitast var við að fá sem heildstæðasta mynd af sögu sjúklingsins.

Niðurstöður: Á 6 ára tímabili var um að ræða 101 innlögn af völdum paracetamóleitrana á LSH (konur 71, 30 karlar; meðalaldur 33 ár). Alls 80 innlagnir voru vegna vísivitandi eitrana og 17 vegna óáformaðra eitrana (af slysni). Konur áttu í hlut í 76% vísvitandi eitrana en aðeins 41% óáformaðra eitrana (p=0,005). Í heild voru lifrarpróf hækkuð í 22 tilfellum (21,8%). Lifrarpróf voru hækkuð í 11,3% vísvitandi inntaka, en í 70,6% af óáformuðum eitrunum. Minnihluti (14%) lagðist inn á gjörgæslu og fimm af þeim fengu skilgreinda lifrarbilun en enginn sjúklingur dó eða þurfti lifrarígræðslu.

Ályktanir: Þó svo paracetamóleitranir séu nokkuð algengar hér á landi er ljóst að tíðni lifrarskaða er mjög lág og dánartíðni er ennþá lægri. Oftast er um sjálfsskaðandi athæfi að ræða og eru konur í meirihluta. Athygli vekur að oftar er hækkun á lifrarprófum þegar um óáformaða eitrun er að ræða. Þessi niðurstaða bendir til þess að tímalengd inntöku skipti máli varðandi þróun lifrarskaða.

 

 

V099 Athugun á fjölþáttaupplifun verkja og áhrifum hennar á andlega líðan gigtarsjúklinga í reglubundnu lyfjaeftirliti

Árni Halldórsson1,2, Eggert Birgisson3, Elínborg Stefánsdóttir4, Arnór Víkingsson4, Eiríkur Örn Arnarson2,5

1Háskólanum í Árósum, 2sálfræðiþjónustu geðsviðs, 4gigtardeild Landspítala, 3greiningardeild, Þraut, 5læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: Talið er að sársauki sé margþættur, sem sé ekki einungis ákvarðaður af líffræðilegum ferlum, heldur huglægu mati og viðbrögðum sjúklings gagnvart ástandi sínu. Líkamleg og tilfinningaleg svörun sjúklinga við verkjum er því mótuð af samspili hlutlægrar skynjunar og huglægrar upplifunar.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna upplifanir gigtarsjúklinga á verkjum með hliðsjón af sálfélagslegum breytum og áhrif verkja á andlega aðlögun að sjúkdómnum.

Efniviður og aðferðir: 192 sjúklingar með ólíkar gigtargreiningar fylltu út fjölþátta spurningalista um sálfélagslega upplifun verkja ásamt spurningalistum um andlega líðan. Mælingum á hlutlægum eiginleikum verkja var einnig safnað, svo sem um staðsetningu og hve lengi þeir höfðu varað.

Niðurstöður: Sjúkdómsbreytur, til að mynda fjöldi sársaukanæmra svæða, hafa almennt ómarktæk eða takmörkuð áhrif á andlega líðan verkjasjúklinga (r(165) = 0,10, p0,01). Tilfinningaleg svörun virðist fremur háð hugsunum og viðbrögðum þátttakenda gagnvart vefrænum einkennum (r(146) = 0,28-0,63, p 0,01). Þannig virðast verkir leiða til þunglyndis- og kvíðaeinkenna fyrir tilstyrk huglægra þátta eða mats þátttakenda á alvarleika, viðráðanleika og félagslegum afleiðingum verkja samfara viðbrögðum við þeim. Niðurstöður benda til að kvartanir gigtarsjúklinga um verki séu oftar en ekki af sálvefrænum toga.

Ályktanir: Nýta má fjölþátta verkjakvarða til að greina sjúklinga, sem teljast líklegir að upplifa vanlíðan og/eða aukna líkamlega fötlun vegna viðhorfa þeirra til verkja og viðbragða við meðhöndlun þeirra.

 

 

 

 

 

V100 ICEBIO - kerfisbundin skráning meðferðagagna

Björn Guðbjörnsson, fyrir hönd ICEBIO-hópsins: Arnór Víkingsson, Árni Jón Geirsson, Björn Guðbjörnsson, Björn Rúnar Lúðvíksson, Gerður Gröndal, Helgi Jónsson, Kristján Steinsson, Sigríður Valtýsdóttir

Rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum, Landspítala

 

ICEBIO er gagnagrunnur þar sem stöðluðum heilsufarsupplýsingum er safnað með framvirkum hætti hjá sjúklingum á meðferð með líftæknilyfjum vegna liðbólgusjúkdóma. Kerfisbundnir starfshættir tryggja öryggi og hámarka meðferðarárangur ásamt því að tryggja að fjármunir séu notaðir á hagkvæman hátt, sérlega ef vinnulagið er samkvæmt sannreyndum verkferlum. Notkun líftæknilyfja hófst hér á landi 1999 og nam lyfjakostnaður vegna gigtarsjúkdóma á síðastliðnu starfsári 1.250 milljónum króna. Um síðustu áramót voru 444 sjúklingar í virkri meðferð með líftæknilyfjum skráðir í ICEBIO; 214 með iktsýki, 108 með hryggikt og 87 með sóragigt, en 35 sjúklingar voru með aðra gigtarsjúkdóma. Ítarlegar heilsufars- og sjúkdómsupplýsingar eru skráðar í ICEBIO, m.a. fyrri lyfjameðferð, ýmsir lífstílsþættir, atvinna ofl. Þá eru skráðar rannsóknarniðurstöður (sökk og CRP), gigtarpróf (RF og CCP) og hvort liðskemmdir sjást á röntgenmyndum. Gigtarlæknir framkvæmir liðmat þar sem hann telur fjölda bólginna og aumra liða. Að lokum svarar sjúklingur stöðluðu spurningakveri. Meðalaldur sjúklinga sem eru á meðferð með líftæknilyfjum er fyrir: iktsýki, 54 ár (18-87 ár; 76% konur), hryggikt 44 ár (18-64 ár; 31% konur) og sóragigt 41 ár (26-78 ár 59% konur). Niðurstöður sýna að sjúkdómsvirkni minnkar marktækt, metið með staðlaðri sjúkdómseinkunn (DAS28) og færni sjúklinga eykst til muna aðeins örfáum mánuðum eftir að meðferð hefst með þessum lyfjum. ICEBIO-gagnagrunninum verður lýst, m.a. með tilliti til staðlaðs einstaklingsbundins árangursmats. ICEBIO gefur einnig möguleika á sjálfvirkri skýrslugerð sem er mikilvægur þáttur í gæðaeftirliti á notkun dýrra lyfja. Þá verður ICEBIO-gagnagrunnurinn mikilvægt rannsóknartæki í framtíðinni.

 

 

V101 Áhrif natalizumab (Tysabri) á þreytu hjá MS-sjúklingum

Sólveig Jónsdóttir, Elías Ólafsson, Haukur Hjaltason, Jónína Hallsdóttir, Sóley Þráinsdóttir

Taugalækningadeild Landspítala

 

Inngangur: Þreyta er eitt algengasta einkenni MS-sjúkdómsins og skerðir verulega bæði lífsgæði og starfshæfni sjúklinga. Undanfarin ár hafa komið á markað lyf, sem draga úr bólguvirkni MS-sjúkdómsins, en áhrif þeirra á þreytu hafa lítið verið könnuð. Markmið rannsóknarinnar var að athuga áhrif 12 mánaða meðferðar með natalizumab á þreytu hjá MS-sjúklingum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er hluti stærri rannsóknar, sem öllum MS-sjúklingum, sem fara á natalizumab meðferð á Íslandi, er boðin þátttaka í. Þreyta var mæld hjá 16 MS-sjúklingum (meðalaldur 45,9; konur 56,3%) fyrir natalizumab meðferð og aftur eftir 12 mánuði á meðferð. Þreyta var mæld með Modified Fatigue Impact Scale (MFIS) (skor 0 til 84; skor >38 = alvarleg þreyta). Þunglyndi var metið með Beck Depression Inventory (BDI). MFIS þreytukvarðinn var líka lagður fyrir16 heilbrigða einstaklinga (meðalaldur 47,5; konur 75%).

Niðurstöður: Meðal þreytuskor sjúklinga fyrir meðferð var 43,6 (SD 12,5) og lækkaði niður í 27,8 (SD 10,4) (p < 0,001) eftir 12 mánaða meðferð. Þreyta minnkaði hjá öllum sjúklingum nema einum. Fyrir meðferð voru 75% sjúklinganna með alvarlega þreytu, en eftir meðferð voru þeir 18,8%. Meðal þreytuskor hjá heilbrigðum var 16,8 (SD 9,3). Meðal þunglyndisskor fyrir meðferð hjá sjúklingum var 11,1 (SD 8,5) og eftir meðferð 8,2 (SD 6,8) (p = 0,06). Enginn sjúklinga mældist með alvarlegt þunglyndi.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til að tólf mánaða meðferð með natalizumab dragi mjög marktækt úr þreytu hjá MS-sjúklingum. Meðferðin hafði ekki marktæk áhrif á þunglyndiseinkenni. Niðurstöður vekja vonir um að lyfið natalizumab bæti bæði lífsgæði og starfshæfni MS-sjúklinga.

 

 

V102 Nýgengi og algengi Multiple System Atrophy (MSA) á Íslandi – lýðgrunduð rannsókn með nýjum greiningarskilmerkjum

Anna Björnsdóttir1, Elías Ólafsson1, Grétar Guðmundsson1, Hannes Blöndal2

1Taugadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

 

Inngangur: MSA er taugahrörnunarsjúkdómur sem einkennist af parkinsonisma, cerebellar og autonom einkennum. Upphleðsla á a-synucleini í glia-frumum sérkennir MSA og greiningu er eingöngu hægt að staðfesta með krufningu. Ný greiningarskilmerki sem kynnt voru 2008 miða að nákvæmari klínískri greiningu. Við ákvörðuðum 10 ára nýgengi MSA á Íslandi 1999-2009 og stundaralgengi 1. apríl 2009.

Efniviður og aðferðir: Tilfella var leitað með ICD-10 kóðum í gögnum frá taugadeild LSH. Auk þess var haft samband við alla starfandi taugalækna á landinu. Við skoðuðum allar sjúkraskrár sjúklinga sem komu á taugadeild LSH vegna parkinsonisma á 10 ára tímabili til að útiloka MSA greiningu.

Niðurstöður: Nítján einstaklingar greindust með MSA á tímabilinu, 11 konur og 8 karlar. Nýgengi var 0,6:100.000. Aldursstaðlað nýgengi (Europe) var 0.7:100,000 (95% CI: 0.4-1.1). Stundaralgengi (point prevalence) var 3.1:100.000 en þá voru 10 einstaklingar á lífi. Sextán tilfelli féllu undir skilmerki probable og 3 undir possible MSA. Sextán höfðu MSAp en 3 MSAc. Meðalaldur við greiningu var 68 ár og meðalaldur við upphaf einkenna var 65 ár. Níu létust á rannsóknartímabilinu og 3 þeirra voru krufðir og greiningin staðfest í öllum tilvikum. Meðaleftirfylgd var 23 mánuðir (bil:1,5-99).

Ályktanir: Nýgengi MSA á Íslandi er svipað því sem mælst hefur í öðrum löndum þar á meðal í Olmsted County, MN, USA (0,6:100.000). Í flestum fyrri rannsókna hefur tilfellaleit byggt á parkinsonisma. Þá er hætta á að sjúklingar með cerebellar einkenni verði útundan. Rannsóknin nær til fleiri tilfella MSA en áður hefur verið greint frá í sambærilegum rannsóknum.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica