Ávarp

Vísindi á vordögum 2008

Enn er komið að Vísindum á vordögum – árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala. Þetta er í annað sinn sem ágrip veggspjalda eru birt í fylgiriti með Læknablaðinu. Að þessu sinni eru ágripin 112, voru 109 í fyrra og 56 árið þar áður. Höfundar eru alls um 350 og fulltrúar frá 14 starfsstéttum kynna nú sín verk.

Það hefur oft verið spurt hvort svona starfsemi eigi rétt á sér á Landspítala. Því hefur verið haldið fram, einkum þegar harðnar á dalnum, að sjálfsagt sé að minnka fjármagn til kennslu og vísinda, sérstaklega ef draga þarf saman í þjónustu við sjúklinga. Þess vegna hafa menn haft af því áhyggjur, að þegar ráðist er í að kostnaðargreina kennslu- og vísindastarf á háskólaspítalanum geri það þennan þátt starfseminnar berskjaldaðri og viðkvæmari og í sérstakri hættu á að lenda í niðurskurði.

Þessi umræða varð sérstaklega hávær á árinu 2004 og þess má sjá merki í yfirliti yfir birtar greinar á þessu tímabili. Sú umræða sem þá átti sér stað, þótt erfið væri, hefur eflaust verið til góðs þegar upp var staðið og vísindastarfsemi á spítalanum hefur vaxið og dafnað síðan þá sem aldrei fyrr. Spurningunni hefur í raun verið svarað af stjórnendum spítalans í þá veru að spítalinn geti ekki án þessa starfs verið; á kennslunni byggi framtíðarmönnun heilbrigðiskerfisins og á vísindastarfinu framfarir, gæði og frjó hugsun, til góða fyrir sjúklingana okkar. Þjónustan, menntun og vísindi eru samofin í okkar stofnun eins og vera á hjá góðum háskólaspítala.

Þegar litið er yfir þetta hefti er það ekki bara fjöldi ágripa sem vekur athygli. Fjöldinn getur verið breytilegur frá ári til árs og því hefði alveg mátt búast við því að aftur yrði fækkun eftir svo góða aukningu á síðasta ári. Ég trúi því að þessi áframhaldandi fjöldi sé einfaldlega merki þess, að þessi virkni hafi fest sig í sessi með órækum hætti og því komin til að vera.

Þegar litið er yfir höfundaskrá og heitin á ágripunum blasir fjölbreytnin við. Fjöldi starfsstétta leggja hér sitt af mörkum. Verkefnin eru margvísleg; grunnrannsóknir, klínísk uppgjör, meðferðartilraunir, snarpasta bráðameðferð, fullkomin hátækni en ekki síður er fjallað um mannlega þáttinn af innsæi og skilningi, sem skilar sér inn í vísindastarf spítalans. Þverfræðileg nálgun og samstarf við fólk utan spítalans tengir vísindastarfið enn betur daglegum raunveruleika.

Yfirstjórn spítalans hefur fyrir sitt leyti svarað spurningunni sem minnt er á að ofan. Æ fleiri skilja mikilvægi þessa starfs fyrir þjóðfélagið og hafa sýnt skilning og vilja í verki. Þar er fyrst að nefna ráðherra heilbrigðismála og menntamála sem og rektor Háskóla Íslands og háskólasamfélagið allt. Það sama á við um stjórnmálamenn almennt og raunar almenning allan.

Það er mikilvægt að geta fylgt þessum framförum eftir og raunar er það skylda okkar, sem erum að vasast í stjórnun á Landspítala, að virkja þennan meðbyr og skapa kennslu og vísindum það vægi og aðstöðu sem nauðsynlegt er til að halda megi áfram á framfarabraut.

 

Kristján Erlendsson læknir

framkv.stj. kennslu, vísinda og þróunar á Landspítala

og varadeildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands






Þetta vefsvæði byggir á Eplica