Vísindi á Landspítalaháskólasjúkrahúsi

Ágrip vísindaverkefna þeirra, sem kynnt eru á vísindadögum Landspítala 2007, eru nú birt í samvinnu við Læknablaðið í fyrsta sinn. Tilgangurinn er að auka dreifingu og gefa fleirum tækifæri til að fylgjast með þeirri vísindavirkni sem fram fer á spítalanum.

Að þessu sinni hefur ágripum fjölgað og losa þau nú hundraðið. Er það nánast tvöföldun frá síðustu árum.

Það er sama hvert litið er, alls staðar eru merki vaxandi grósku í vísindarannsóknum í heilbrigðisvísindum. Á það ekki hvað síst við á Landspítala. Ný tækifæri blasa við, en jafnframt mikið verk að vinna.

Endurskoðuð vísindastefna spítalans er nú tilbúin og er sett fram á skýran og hnitmiðaðan hátt. Það markmið að verja skuli sem nemur 3% af rekstrarútgjöldum til vísindarannsókna á háskólasjúkrahúsinu er metnaðarfullt og alls ekki óraunhæft. Helmingur þess fjár á að renna í Vísindasjóð spítalans. Samkvæmt kostnaðargreiningu, sem gerð var á síðasta ári, er þetta um það bil tvöföldun á opinberu framlagi spítalans til vísindastarfa. Auk þess er markmiðið að vísindamenn spítalans afli samsvarandi fjárhæðar til vísindastarfa frá öðrum aðilum. Áhersla er lögð á úthlutun styrkja á samkeppnisgrunni. Þá er markmiðið að fyrir 2012 verði spítalinn meðal fimm bestu háskólasjúkrahúsa á Norðurlöndum hvað rannsóknir varðar.

Á sama tíma hefur Háskóli Íslands sett sér markmið um að ná í hóp 100 bestu háskóla í heimi og því hefur fylgt umtalsvert fjármagn frá menntamálaráðuneytinu. Þegar litið er til þess að á undanförnum árum hefur Landspítali átt um þriðjung af öllum ISI greinum sem birtar eru frá Íslandi er ljóst að þarna er ekki bara tækifæri fyrir spítalann til að sækja aukið fé til rannsókna, heldur er Landspítalinn ómissandi þátttakandi að því markmiði Háskóla Íslands að komast í hóp 100 bestu.

Stöðugt birtast nýjar kannanir sem sýna glæsta frammistöðu íslenskra vísindamanna á heilbrigðissviði. Nýbirt er OECD skýrsla sem Finnar létu gera fyrir sig um stöðu vísinda með áherslu á fjölda birtra ISI greina og fjölda tilvitnana og enn á ný eru íslenskir heilbrigðisstarfsmenn meðal fjögurra efstu hvað þetta varðar.

Þessu hafa yfirvöld tekið eftir og ánægjulegt er að geta þess að stofnuð hefur verið nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar með fulltrúum þriggja ráðuneyta; heilbrigðis-, iðnaðar- og menntamálaráðuneytis ásamt fulltrúa frá samtökum atvinnulífsins og fulltrúa LSH. Nefndinni er ætlað að finna leiðir til að styrkja enn frekar rannsóknir í heilbrigðisvísindum er leitt gætu til nýsköpunar og útrásar.

Þá hefur frammistaða vísindamanna spítalans m.a. orðið til þess að fengist hafa fleiri og betri styrkir úr samkeppnissjóðum, innlendum sem erlendum og ýmis fyrirtæki hafa litið til Landspítala um samstarf við hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna. Hið sama á við um erlenda vísindamenn sem sækjast eftir rannsóknarsamstarfi.

Í lögunum eru einnig opnaðir möguleikar á miklu víðtækari samvinnu en verið hefur við utanaðkomandi aðila, m.a. í vísindarannsóknum. Það er eitt af aðalsmerkjum háskólaspítala að saman fléttist kennsla, vísindi og þjónusta þar sem allir þættir styrkja hver annan. Háskólaspítalinn hefur enn fremur fest í sessi með nýjum heilbrigðislögum og skilgreiningu á stöðu spítalans sem háskólasjúkrahúss.

Öll þessi tækifæri krefjast þess hins vegar að spítalinn búi sig undir að efla innviði sem geti hjálpað starfsmönnum að nýta þessi tækifæri, skapa þeim sem besta aðstöðu og veita þeim eins góða aðstoð og kostur er við þær bráðabirgða aðstæður sem búa verður við þar til aðstaða batnar stórlega í nýrri háskólasjúkrahúsbyggingu.

Spítalinn er stoltur af þeirri vísindavirkni sem þetta blað ber vitni um. Hér eru góðir hlutir að gerast og ég óska vísindamönnum Landspítala og Háskóla Íslands til hamingju með frammistöðuna.

 

Kristján Erlendsson

framkvæmdastjóri kennslu, vísinda og þróunar á LSH

og varadeildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands






Þetta vefsvæði byggir á Eplica