Ávarp

Ávarp

Vísindaþing Félags íslenskra lyflækna er að þessu sinni haldið á Selfossi. Reynt hefur verið að vanda sérstaklega til dagskrár þessa þings þar sem Félag íslenskra lyflækna á 60 ára afmæli á þessu ári, en það var stofnað 13. mars 1946. Fyrsta þing félagsins var haldið á Akureyri árið 1973 og hafa þingin að jafnaði verið haldin annað hvert ár allar götur síðan. Þessi þing eiga ríka hefð í íslensku vísindasamfélagi enda hafa þau verið helsti vettvangur fyrir lyflækna hér á landi til að kynna vísindarannsóknir sínar og fjalla um áhugaverð málefni er varða starfsemi lyflækna eða stefnumörkun á sviði heilbrigðismála. 


Samþykkt hafa verið 73 ágrip til kynningar á þinginu og endurspeglar sá fjöldi verulega grósku í vísindastarfi lyflækna. Á undanförnum þingum hefur verið lögð áhersla á kynningu vísindarannsókna með veggspjöldum og svo verður einnig í þetta sinn því veggspjöld verða alls 52 en munnleg erindi 21. Ákvörðun um hvort kynning ágrips skuli fara fram með flutningi erindis eða með veggspjaldi byggist ekki einungis á vísindalegu gildi þess, heldur var einnig horft til þess hvort til það fæli í sér mikilvæg skilaboð til lyflækna. Að venju verða veitt verðlaun fyrir framúrskarandi rannsókn ungs læknis og fyrir besta framlag læknanema. Í því samhengi er rétt að ítreka að litið er á veggspjöld og erindi sem jafngild form.


Sú nýbreytni verður á þessu þingi að haldið verður námskeið í klínískri lyflæknisfræði og fer það fram fyrir hádegi á opnunardegi þingsins. Fjallað verður um nokkur hagnýt viðfangsefni og álitamál í lyflækningum. Námskeið þetta er kjörið fyrir unga lækna sem stunda nám í lyflækningum eða heimilislækningum sem og lyflækna og aðra lækna sem vilja sækja sér símenntun á sviði lyflækninga.


Þá er bryddað upp á þeirri nýjung að hafa eitt meginþema á þinginu og urðu hjarta- og æðasjúkdómar fyrir valinu. Tvö málþing verða haldin þar sem valinkunnir læknar munu kryfja til mergjar klínísk álitaefni á sviði hjarta- og æðasjúkdóma. Annars vegar verður fjallað um áhættu hjarta- og æðasjúkdóma í tengslum við töku bólgueyðandi gigtarlyfja (NSAID/coxíb) en eins og kunnugt er hefur þetta málefni verið ofarlega á baugi undanfarin ár. Hins vegar verður tekist á um fyrsta valkost í lyfjameðferð háþrýstings og hvort tölvusneiðmyndun sé gagnleg nýjung við greiningu kransæðasjúkdóms. 


Tveir gestafyrirlestrar verða á þinginu. Þórarinn Guðjónsson, frumulíffræðingur á Landspítala, mun fjalla um notagildi stofnfrumna í klínískri læknisfræði en það er ný nálgun að meðferð sjúkdóma sem miklar vonir eru bundnar við. Þá mun Stefan Lindgren sérfræðingur í meltingarlækningum og prófessor í lyflæknisfræði við Háskólann í Lundi í Svíþjóð flytja fyrirlestur er nefnist „The new biological agents in the treatment of inflammatory bowel disease“. Þetta er mjög áhugavert efni í ljósi þess að notkun einstofna mótefna og annarra hliðstæðra próteinlyfja hefur verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum, einkum við meðferð ýmissa bólgusjúkdóma og illkynja sjúkdóma. Þessi lyf eru undantekningarlaust dýr og því mikilvægt að notkun þeirra sé markviss. 


Óhætt er að segja að lyflækningar séu einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustunnar. Því þykir við hæfi að skoða stöðu lyflækninga á aðalsjúkrahúsi þjóðarinnar, Landspítala. Verður það gert með sérstöku málþingi þar sem fjallað verður um stöðu og framtíð lyflækninga á Landspítala, þörfina fyrir almennar lyflækningar og sérfræðinám í almennum lyflækningum á Landspítala. Auk þess munu tveir gestir, sem koma erlendis frá, veita innsýn í stöðu lyflækninga á bandarískum og sænskum háskólasjúkrahúsum en það eru þau Björg Þorsteinsdóttir, lyflæknir við Mayo Clinic í Bandaríkjunum, og hins vegar áðurnefndur Stefan Lindgren, prófessor í lyflæknisfræði við Háskólann í Lundi og núverandi forseti Evrópusamtaka lyflækna (European Federation of Internal Medicine). 


Ekki má gleyma því tækifæri sem þing sem þetta gefur til að njóta skemmtilegra samverustunda með starfsfélögum og vinum. Því verður að venju efnt til vandaðrar skemmtidagskrár í tengslum við þingið. Sérstakur afmæliskvöldverður verður í tilefni 60 ára afmælis félagsins. 


Að síðustu eru stuðningsaðilum þingsins færðar bestu þakkir. Sérstaklega ber að geta lyfjafyrirtækisins Vistor sem er aðalstyrktaraðili þingsins og má jafnframt geta þess að gerður hefur verið samningur við fyrirtækið um að það verði einnig aðalstyrktaraðili tveggja næstu þinga Félags íslenskra lyflækna. Lyfjafyrirtæki munu að venju standa fyrir kynningu á afurðum sínum í tengslum við þingið.


Ég vonast til að sjá sem flesta lyflækna og aðra áhugasama um lyflæknisfræði á Selfossi.


Runólfur Pálsson læknir,


formaður Félags íslenskra lyflækna



Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica