12. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Kalla eftir meira frumkvæði

Björg Árnadóttir markaðsstjóri Novartis og Halldóra Erlendsdóttir rannsóknafulltrúi eru bjartsýnar á framtíð lyfjarannsókna á Íslandi á vegum síns fyrirtækis. Þær segja að vissulega hafi Novartis nokkra sérstöðu hvað þetta varðar því greinilega hafi dregið úr klínískum lyfjarannsóknum í heild. 


„Við höfum haldið óbreyttum mannafla á rannsóknarsviði og tekist að halda í svipaðan fjölda rannsókna og áður,“ segir Björg.


Aðspurð um ástæður þessa segir hún að margt komi til en nefna megi sérstaklega að þau hafi sótt hart að móðurfyrirtækinu að halda áfram rannsóknum á Íslandi. „Við höfum einnig verið heppin að því leyti að rannsóknarsetrin hafa verið stór og stjórnendur þeirra, læknarnir, hafa vakið athygli á heimsvísu fyrir rannsóknarvinnu sína, og það virkar sannarlega hvetjandi á stjórn fjölþjóðlegs fyrirtækis eins og Novartis.“


Þær leggja áherslu á að samkeppni um rannsóknir hafi aukist mjög frá því sem áður var. „Það er langt frá því sjálfsagt að fá rannsóknir hingað til Íslands. Það þarf að vinna í því og það þarf að standa við allt sem sagt er. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að finna góða samstarfsaðila hérlendis, fólk sem er tilbúið að leggja vinnu og tíma í verkefnið; allar tímasetningar og fyrirheit um fjölda þátttakenda verða að standast,“ segir Halldóra. 


Björg tekur undir þetta og segir að íslenska lækna- og vísindasamfélagið hafi kannski ekki fyllilega áttað sig á þessu ennþá. „Við myndum gjarnan vilja sjá meira frumkvæði að rannsóknum úr þeirri átt. Yfirleitt erum það við sem komum með rannsóknarverkefnin og leitum samstarfsaðila í röðum lækna. Það hefur tekist mjög vel og samstarfið verið með miklum ágætum og ekki yfir neinu að kvarta í þeim efnum en við köllum eftir meira frumkvæði.“


Rannsóknir skila verulegum tekjum


Þær taka heilshugar undir með öðrum við-mælendum Læknablaðsins að Ísland sé að mjög mörgu leyti vel fallið til klínískra lyfjarannsókna. „Hér eru mjög hæfir vísindamenn, auðvelt að fá fólk til þátttöku í rannsóknum og auðvelt að fylgja því eftir. Brottfall þátttakenda úr íslenskum rannsóknum er mjög lítið. Þetta eru okkar rök gagnvart aðalstjórn fyrirtækisins og á þau hefur verið hlustað, enda árangurinn mjög góður,“ segir Björg.


Þegar fjallað er um klínískar lyfjarannsóknir á Íslandi er sjaldan talað um hver fjárhagslegur ávinningur sé af þeim. Þó er ljóst að hér er um verulega fjármuni að ræða. Björg segir að stutt samantekt á rannsóknum Novartis á Íslandi, rannsóknir sem hafi allar snertiflöt við daginn í dag, það er sem er að ljúka, eru í gangi eða eru að hefjast; sýni að beinn útlagður lyfjakostnaður sé um 100 milljónir og heildargjaldeyristekjur af þessum rannsóknum séu um 200 milljónir. „Lyfin sem notuð er í klínískum lyfjarannsóknum eru alltaf greidd af framleiðanda lyfjanna svo hér er um umtalsverðan sparnað að ræða fyrir bæði þátttakendur og hið opinbera. Það eitt og sér ætti að vera hvetjandi til að efna til og taka þátt í klínískum rannsóknum.“


Halldóra bætir því við að þátttakendur í klínískum lyfjarannsóknum fái þá bestu þjónustu og umönnun sem hugsast getur því mikið sé í húfi við framkvæmd rannsóknanna. „Fólk með erfiða og langvinna sjúkdóma sækist beinlínis eftir því að taka þátt í klínískum lyfjarannsóknum því það veit að þá fær það bestu hugsanlega meðhöndlun.“


Þær segjast bjartsýnar á framtíð klínískra lyfjarannsókna á Íslandi en segja mikilvægt að lyfjafyrirtækin og heilbrigðisyfirvöld komi sér upp formlegum samskiptavettvangi þar sem hægt sé að skiptast á skoðunum og eiga málefnalegt samtal um samskipti og tengsl þessara aðila. „Sem stendur er enginn slíkur vettvangur fyrir hendi og það er mjög ólíkt því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum þar sem þessum málum er ágætlega fyrir komið,“ segir Björg Árnadóttir markaðsstjóri Novartis á Íslandi.


Halldóra Erlendsdóttir rannsóknafulltrúi hjá Novartis og Björg Árnadóttir markaðsstjóri.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica