12. tbl. 95. árg. 2009

Ritstjórnargrein

Heilsufar íslenskra bænda


Sigurður Thorlacius


Landbúnaður hefur lengi verið einn af mikilvægustu atvinnuvegum landsins og því er verðugt viðfangsefni að skoða heilsufar bænda. Fram undir heimsstyrjöldina síðari höfðu vinnubrögð í íslenskum landbúnaði lítið breyst allt frá landnámi. Með vélvæðingu um miðja síðustu öld breyttust bústörfin.1 Má gera ráð fyrir að þetta hafi haft umtalsverð áhrif á heilsu bænda. 


Í þessu tölublaði Læknablaðsins og næstu tveimur á undan er í þremur greinum greint frá athyglisverðri rannsókn á heilsufari íslenskra bænda.2-4 Þar er lýst sérstöðu búskapar sem starfsgreinar. Vinnustundir eru langar og óreglulegar. Vinnan er nátengd heimilislífinu. Oft eru notaðar vélar og tæki sem krefjast mikillar einbeitingar, geta verið hættuleg og þarfnast mikils viðhalds. Umhirða búpenings getur verið erfið, sérstaklega þegar um er að ræða stórar skepnur eins og nautgripi. Líf og starf bóndans er auk þess háð duttlungum veðurs og búfjársjúkdóma. Þetta hefur vakið upp spurningar um hvort heilsufar bænda kunni að vera lakara en annarra og er framangreindum rannsóknunum ætlað að svara þeim spurningum.


Ekki reynist mikill munur á almennu heilsufari bænda og annarra, þrátt fyrir hærri aldur bændanna.2 Tvær meginskýringar eru á því að heilsufar bænda er síst lakara en annarra. Annars vegar að til þess að halda áfram að sinna bústörfum þarf bóndinn að vera við góða heilsu, en bregða búi ella. Hins vegar er jákvæður lífsstíll bænda með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma, því í starfinu felst mikil líkamshreyfing og þeir reykja sjaldnar en aðrir.1,2


Bændur hafa minni merki um andlega vanheilsu en úrtak fólks úr samfélaginu.3 Bændum finnst síður en öðrum vinnuálag vera of mikið, vinna hlaðast upp eða þeir hafa of mikið að gera, en þeim finnast hins vegar verkefni sín oft of flókin eða að þá skorti kunnáttu til að glíma við þau. Þetta bendir til þess að bæta megi líðan og vinnuumhverfi bænda með átaki í menntun þeirra til að styrkja þekkingarlega undirstöðu þeirra til að leysa flókin verk. 


Áður hafa verið skoðaðar dánarorsakir hjá íslenskum bændum. Dánartíðni bænda reyndist lægri en hjá öðrum, meðal annars dánartíðni vegna krabbameins almennt, sem er rakið til lægri dánartíðni vegna krabbameina sem tengjast reykingum, enda reykja bændur almennt minna en aðrir. Nýgengi ákveðinna illkynja sjúkdóma, hvítblæðis, húðkrabbameins og krabbameins í heila og taugakerfi, var þó hærra á meðal bændanna en annarra. Aukin dánartíðni vegna húðkrabbameins er rakin til mikillar útiveru í útfjólublárri geislun sólar, en aukin tíðni hvítblæðis hefur m.a. verið tengd notkun ólífræns áburðar, illgresiseyðis og meindýraeiturs.1 Íslenskir sauðfjárbændur hafa reynst beita mikið böðun sauðfjár með skordýraeitrinu lindane, sem hefur verið tengt krabbameini í eitilvef og heila. Í rannsókn þar sem skoðað var nýgengi krabbameins í sauðfjárbændum á tímabilinu 1962 til 2003 reyndist nýgengi krabbameins í vör aukið, sem tengt er mikilli útivinnu bænda í útfjólubláu ljósi sólar. Ekki reyndist um marktækt aukna tíðni annarra forma krabbameins að ræða hjá bændunum, þar á meðal ekki þeirra forma sem tengd hafa verið notkun lindane.5

Tíðni vinnuslysa hjá bændum reynist há.4 Algengast er að umhirða búpenings valdi slysum. Þá hafa þeir bændur sem gengið hafa til starfa undir áhrifum áfengis fremur orðið fyrir slysum en aðrir, en fremur algengt er að bændur hafi einhvern tímann verið ölvaðir við störf. Áfengisneysla og áfengisvandamál eru hins vegar minni á meðal bænda en gengur og gerist.2,3 Þetta verður einna helst skýrt með því að bændur geta sjaldan tekið sér alveg frí frá störfum. Fjarvistir bænda frá vinnu vegna veikinda eru skemmri en hjá öðrum, sem endurspeglar vinnuumhverfi bænda, þar sem sinna þarf bústörfum daglega, allan ársins hring, þrátt fyrir að upp komi tímabundin veikindi.2 Langvarandi fjarvistir bænda frá vinnu vegna vinnuslysa eru hins vegar algengar, sem undirstrikar hve hættuleg bústörfin geta verið.4 Í slysavörnum í landbúnaði hefur verið lögð megináhersla á umbætur á búnaði, svo sem veltigrindur á dráttarvélar, öryggishlífar á tækjabúnað og bætta aðstöðu fyrir mjólkurkýr, sem og aukna menntun og þjálfun bænda. Framangreindar niðurstöður sýna hins vegar að nú er þörf á að gera átak í forvörnum vegna slysa af búpeningi og notkunar áfengis við bústörf.


Niðurstöður þessarar rannsóknar geta þannig verið notadrjúgar við endurskoðun á menntun bænda og slysavörnum í landbúnaði. 




Heimildir

1. Rafnsson V, Gunnarsdóttir H. Mortality among farmers in Iceland. Int J Epidemiol 1989; 18: 146-51. 

2. Guðmundsson G, Tómasson K. Almennt heilsufar íslenskra bænda. Læknablaðið 2009; 95: 655-9.

3. Tómasson K, Guðmundsson G. Geðheilsa og líðan íslenskra bænda. Læknablaðið 2009; 95: 763-9.

4. Guðmundsson G, Tómasson K. Vinnuslys íslenskra bænda. Mat á áhættuþáttum. Læknablaðið 2009; 95: 831-5.

5. Rafnsson V. Cancer incidence among farmers exposed to lindane while sheep dipping. Scand J Work Environ Health 2006; 32: 185-9.

sigurdth@hi.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica