10. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Stiklað yfir 100 ár í þróun læknisfræðinnar. Gestur Þorgeirsson, Högni Óskarsson

Það er ótrúlegt að setja sig í aðstæður kollega okkar, eins og þær voru fyrir 100 árum og svo fram eftir síðustu öld, framfarir í mörgum sérgreinum hafa orðið slíkar. Til að skapa yfirlit um þróun læknisfræðinnar hérlendis og alþjóðlega báðum við forsvarsmenn sérgreina að senda blaðinu yfirlit um helstu áfanga í þróun sinnar sérgreinar. Svör flestra eru mjög ítarleg, en vegna takmarkaðs rýmis urðum við að velja og hafna. Í þeirri vinnu kom upp sú hugmynd að setja upp á vefsíðu LÍ yfirgripsmeiri sögu sérgreina, og yrði ábyrgð á umsjón þeirra falin hverju sérgreinafélagi. En þetta er seinni tíma mál.

Yfirlitið, sem hér fylgir, er um margt fróðlegt en alls ekki tæmandi. Eðli máls samkvæmt hefur þróun rannsóknargreina verið mestmegnis á tæknisviði, ljósþræðir, geislar og tölvutækni hafa drifið þá þróun áfram. Í þróun margra klínískra greina eru lyf hvað mest áberandi, en tæknin kemur þó alls staðar nærri, jafnvel í grein eins og geðlæknisfræði.

Hverju má svo spá um þróun næstu 10 ára, 50 eða 100? Í „Læknaklúbbnum“ föstudaginn 16. október, þar sem læknar koma saman til að fagna afmæli LR, mun Tryggvi Helgason barnalæknir gera tilraun til að sjá fram í tímann. Hugmyndir allra eru vel þegnar.

 

Höfundar vilja þakka þeim fjölmörgu læknum sem lögðu efni til þessa verkefnis.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica