10. tbl. 95. árg. 2009

Fræðigrein

Hverjir skrifa í Læknablaðið - Yfirlit yfir fræðigreinar síðustu fimm ára

Scientific articles in the Icelandic Medical Journal 2004-2008: An overview

Ágrip

Inngangur: Á síðustu fimm árum hafa orðið margháttaðar breytingar á Læknablaðinu samhliða aukinni grósku í rannsóknum hér á landi. Vinnsluferli fræðigreina hefur orðið formlegra, ritrýni hefur verið efld og hlutfall greina sem er hafnað hefur aukist. Þessar breytingar má að hluta til rekja til þess að blaðið fékk inngöngu í Medline gagnagrunninn árið 2005. Nýir efnisflokkar hafa litið dagsins ljós sem tengjast meðal annars sögu, fagmennsku, siðfræði og áhugamálum lækna.

Efniviður og aðferðir: Farið var yfir fræðigreinar áranna 2004-2008, það er rannsóknir, yfirlitsgreinar, sjúkratilfelli og klínískar leiðbeiningar, og þær flokkaðar eftir tegund fræðigreina og hvaða sérgrein efnið félli best undir.

Niðurstöður: Fjöldi fræðigreina jókst á tímabilinu en fjöldi rannsóknargreina hélst í kringum 20 á ári flest árin. Hlutfall rannsóknargreina lækkaði því meðal fræðigreina, en yfirlitsgreinum og sjúkratilfellum fjölgaði á tímabilinu. Klínískar leiðbeiningar hættu að birtast í blaðinu. Framlag einstakra sérgreina til Læknablaðsins reyndist mjög breytilegt.

Ályktun: Hvetja þarf rannsakendur úr röðum lækna og tengdra stétta til að senda fræðigreinar til birtingar í Læknablaðinu. Birting fræðigreina á ensku í vefútgáfu blaðsins kann að vera góður kostur fyrir lækna í sérnámi erlendis, sem og fyrir suma rannsakendur á Íslandi.

Inngangur

Á síðustu árum hefur verið áberandi gróska í vísindastarfi á Íslandi sem endurspeglast í stöðugri fjölgun birtra fræðigreina.1 Aukningin hefur ekki síst orðið innan læknisfræði en fræðigreinum samkvæmt svokölluðum ISI-staðli2 hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Íslendingar eru í dag á meðal efstu þjóða í heiminum þegar talinn er fjöldi ISI-fræðigreina á hverja 100.000 íbúa.3 Margar þessara greina tengjast erfðafræði eða faraldsfræði, oftar en ekki í samstarfi vísindamanna og lækna hjá stofnunum eins og Íslenskri erfðagreiningu, Hjartavernd, Krabbameinsfélagi Íslands, Landspítala og erlendum háskólastofnunum.4 Hafa þessar greinar í vaxandi mæli birst í virtum vís-indatímaritum eins og Nature, Nature Genetics og Circulation.5, 6

Þessi þróun verður að teljast jákvæð. Talað er um vor í íslensku vísindasamfélagi.7, 8 Við töldum áhugavert að kanna hvort aukin gróska í birtingum fræðigreina hafi skilað sér á síður Læknablaðsins á síðustu fimm árum. Jafnframt fannst okkur fróðlegt að athuga hvað hinar ýmsu sérgreinar lækninga hafa lagt af mörkum til viðgangs blaðsins sem vísindatímarits.

Læknablaðið kom fyrst út árið 1904 og hefur verið gefið út nær óslitið frá árinu 1915.9 Blaðið er því eitt elsta vísindarit á Íslandi. Útgáfa þess hefur verið með hefðbundnu sniði í allmörg ár, 11 tölublöð eru gefin út á ári, annars vegar með vísindalegu efni, hins vegar félagslegu tengdu félagsstörfum og áhugamálum lækna. Það var stórt framfaraskref þegar Læknablaðið var tekið inn í Medline-gagnagrunninn árið 2005.10, 11 Á árinu 2008 hafa frekari framfaraskref verið tekin. Blaðið hefur nú fengið inngöngu í ISI-gagnagrunninn2 auk þess sem Scopus-gagnagrunnurinn12 hefur óskað eftir að fá blaðið í gagnagrunn sinn fyrir lok þessa árs.

Á síðustu árum hafa verið gerðar margvíslegar breytingar á blaðinu og vinnsluferli þess.13 Sumar þessara breytinga blasa við öllum lesendum, svo sem breytt efnisyfirlit, en aðrar tengjast leiðbeiningum til höfunda og rýniferli fræðigreina og eru því minna áberandi. Markmið breytinganna hafa verið að efla ritrýni og að blaðið verði um leið læsilegra og aðgengilegra fyrir lesendur. Auk þess hefur verið lögð áhersla á netútgáfu blaðsins og bryddað upp á nokkrum nýjum efnisflokkum á síðustu árum: Mynd mánaðarins14, Læknislist og fagmennsku15, Ljósmyndum lækna16 og nú síðast Siðfræðidálki17. Slíkar nýjungar eru nauðsynlegar til að forðast stöðnun í útgáfu og útliti blaðsins. Mikilvægast er þó blaðinu sem vísindariti að fræðigreinar blaðsins standist kröfur vísindasamfélagsins og þeirra gagnagrunna sem skrá efni þess. Tilgangur rannsóknar okkar var að flokka fræðigreinar sem birst hafa í Læknablaðinu á síðustu fimm árum eftir sérgreinum og vekja athygli lækna á þróun blaðsins sem vísindarits. Horft var bæði til efnis og lykilhöfunda við flokkun fræðigreina.

Efniviður og aðferðir

Farið var yfir allar fræðigreinar sem birtust í Læknablaðinu frá byrjun árs 2004 og til loka árs 2008 og þeim skipt í fjóra flokka: rannsóknir, yfirlitsgreinar, sjúkratilfelli og klínískar leiðbeiningar. Kannaður var árlegur fjöldi innan hvers flokks og breytingar á milli ára. Einnig var lagt mat á hvaða sérgreinar komu mest að útgáfunni. Þegar tvær eða fleiri sérgreinar stóðu að fræðigrein var horft til sérgreinar fyrsta höfundar nema ef um nema eða unglækni var að ræða. Var þá litið til efnis greinarinnar eða sérgreinar síðasta höfundar. Við skiptingu efnis eftir sérgreinum var aðeins lyf- og skurðlækningum skipt í undirsérgreinar.

 

Niðurstöður

Flokkar fræðigreina

Fjöldi fræðigreina hélst fremur svipaður á tímabilinu, eins og kemur fram í töflu I. Rannsóknum fjölgaði ekki, en yfirlitsgreinum og sjúkratilfellum fjölgaði (mynd 1). Mjög hefur dregið úr birtingu klínískra leiðbeininga í blaðinu. Engar slíkar leiðbeiningar voru birtar árin 2007 og 2008.

 

 

Höfundar rannsókna

Í töflu II má sjá hvaða sérgreinar stóðu oftast að útgáfu rannsókna. Barna- og nýburalækningar komu oftast við sögu en trygginga- og vinnulækningar voru skammt undan. Heldur neðar komu geðlækningar og ýmsar undirsérgreinar almennra lyflækninga, svo sem hjarta- og lungnalækningar.

 

Mynd 1. Fjöldi fræðigreina í einstökum flokkum á síðastliðnum fimm árum.

 

Tafla III sýnir þær sérgreinar sem stóðu að útgáfu yfirlitsgreina í Læknablaðinu á þessu tímabili. Yfirlit yfir sérgreinar sem stóðu að útgáfu yfirlitsgreina er sýnt í töflu III. Efstar á blaði eru lungnalækningar en þar á eftir geðlækningar, augnlækningar, smit-, ónæmis- og tauga-lækningar.

 

 

Sjúkratilfelli voru í grófum dráttum tvenns konar, annars vegar hefðbundin sjúkratilfelli með umræðu (n=33) og hins vegar Tilfelli mánaðarins (n=10). Síðarnefndu tilfellin eru styttri og hafa birst í öðru hverju tölublaði frá því í byrjun árs 2007. Flest sjúkratilfelli tengdust hjarta- og lungnaskurðlækningum (n=7), lungnalækningum (n=6), barnalækningum (n=4) og smitsjúkdómalækningum (n=5).

 

 

Umræða

Þessi fimm ára samantekt sýnir að í heildina fjölgaði fræðigreinum í Læknablaðið á árinu 2008 í samanburði við árin 2004-2007. Þetta verður að teljast jákvæð þróun þótt hún skýrist aðallega af fjölgun yfirlitsgreina og sjúkratilfella. Á hinn bóginn lækkaði hlutfall rannsókna úr 75% í 46% á tímabilinu 2004-2008. Fjöldi þeirra stendur þó nokkurn veginn í stað og er í kringum 20 greinar á ári frá 2005 til 2008. Einnig ber að hafa í huga að það er algengara við lok en upphaf tímabilsins að greinum sé hafnað: tveimur greinum var hafnað árið 2004, fjórum árið 2005 en fimm greinum var hafnað árlega 2006 til 2008. Hlutfall höfnunar nemur því um 15% af innsendum fræðigreinum síðastliðin þrjú ár. Fjölgun yfirlitsgreina á tímabilinu úr tveimur greinum í 11 greinar árlega er í takt við ákvörðun ritstjórnar um að fjölga birtingu slíkra greina. Þar er meðal annars horft til þess að yfirlitsgreinar höfða yfirleitt til stærri lesendahóps og geta auk þess nýst vel til kennslu. Fjölgun sjúkratilfella helst í hendur við þá viðleitni að auðvelda unglæknum að birta sínar fyrstu greinar í blaðinu. Á síðustu árum hefur ýmislegt verið gert til að hvetja unga lækna til að senda efni í Læknablaðið. Þetta er í takt við áherslur í sérnámi á háskólasjúkrahúsum erlendis þar sem þeir eru hvattir til ritunar og útgáfu fræðigreina hvers konar. Í þessu skyni var meðal annars á síðasta ári komið á fót á Landspítala sérstökum tilfellafundi kandídata og kandídötum svo boðið að senda inn heppileg tilfelli til birtingar í efnisflokkana Tilfelli mánaðarins og Læknislist og fagmennska.

Það kom á óvart að rannsóknargreinum fjölgaði ekki á þessu fimm ára tímabili, en eins og kom fram að ofan hefur fjöldinn haldist í kringum 20 að jafnaði árlega. Sú tala er í samræmi við lauslega samantekt sem birtist í leiðara í blaðinu árið 2002.18 Rannsóknargreinar eru kjölfestan í útgáfu blaðsins og því eðlilegt að ritstjórn stefni að því að fjölga þeim, án þess að hvikað sé frá kröfum um gæði og innihald. Blaðið hefur leitast við að skerpa og bæta vinnureglur og leiðbeiningar fyrir höfunda og ritrýna á síðustu árum.19 Meðal annars er sú vinnuregla nú ávallt viðhöfð að fá tvo til þrjá ritrýna fyrir hverja fræðigrein.20

Athygli vekur að tilteknar sérgreinar sem hafa verið þekktar fyrir virkni í rannsóknum birtu nær engar rannsóknargreinar í Læknablaðinu frá 2004-2008 (tafla II). Það er verðugt verkefni fyrir ritstjórn blaðsins að hvetja lækna innan þessara sérgreina til að senda efni í blaðið. Útgáfa blaðsins á ensku hefur áður verið til umræðu á síðum blaðsins7, en eitt virtasta vísindarit sem gefið er út hér á landi, Jökull, hefur um árabil birt fræðigreinar á ensku.21 Innlit á heimasíðu blaðsins á netinu eru nú um 12 þúsund á mánuði og fjölgar ár frá ári. Ljóst er að netútgáfa blaðsins nýtur sívaxandi vinsælda20 og er mikilvægt að styrkja hana, enda þótt ólíklegt sé að hún komi nokkru sinni í stað prentútgáfunnar. Ein ástæða þess er sú að nær allar tekjur blaðsins má rekja til auglýsinga í prentútgáfunni.

Nýverið hefur verið rædd sú hugmynd innan ritstjórnar að læknum í sérnámi eða doktorsnámi verði boðið að senda inn greinar á ensku til birtingar í netútgáfu blaðsins. Læknablaðið myndi annast þýðingu þeirra á íslensku til birtingar í prentútgáfunni. Birting á ensku á netinu kynni að vera góður kostur, ekki síst þegar um íslenskar rannsóknir er að ræða eða rannsóknir á íslenskum sjúklingum. Birting á ensku gæti einnig aukið áhuga erlendra vísindamanna á að senda inn greinar í blaðið, þótt slíkt myndi krefjast þess að í auknum mæli þyrfti að leita til erlendra ritrýna, að minnsta kosti þegar um mjög sérhæft efni er að ræða. Önnur leið til að auka lestur blaðsins og streymi á innsendum greinum er að valdar greinar úr prentútgáfu blaðsins yrðu þýddar á ensku fyrir netútgáfu blaðsins. Með þessu væri í engu hvikað frá yfirlýstri stefnu blaðsins um að hafa prentútgáfuna á vandaðri íslensku. Vísir að slíkri útgáfu hefur verið til staðar í allmörg ár þar sem enskt ágrip, töflur og myndir fylgja íslensku útgáfunni.

Það er ekki sjálfgefið að ein fagstétt á jafnlitlu landi og Íslandi nái að halda úti ritrýndu fræðiriti sem kemur út ellefu sinnum á ári í bráðum heila öld. Enn merkara er þó að þetta fræðirit er nú skráð eða búið að fá boð um skráningu í alla helstu gagnagrunna á sviði líf- og heilbrigðisvísinda: Medline11, ISI2 og Scopus.12 Allt efni Læknablaðsins er nú aðgengilegt á heimasíðu blaðsins frá árinu 2000.22 Að auki er nú verið að færa fyrri árganga inn á gagnagrunn Landspítala, Hirslu, þar sem þeir eru öllum aðgengilegir á netinu.23 Engu að síður má ávallt gera betur. Til að forðast stöðnun er ljóst að ritstjórn verður að vinna stöðugt að því að endurskoða og betrumbæta útgáfu blaðsins. Við hvetjum að endingu íslenska lækna nær og fjær til að senda Læknablaðinu fræðigreinar sem þeir telja eiga erindi við íslenskra starfsbræður, læknanema og almenning.

 

Þakkir

Þakkir fá Jóhannes Björnsson ritstjóri Læknablaðsins fyrir aðstoð og góðar ábendingar og Sólveig Helgadóttir læknanemi fyrir yfirlestur. Loks fá Sólveig Þorsteinsdóttir forstöðumaður bókasafns Landspítala og Fanney Kristbjarnardóttir bókasafnsfræðingur á bókasafni spítalans þakkir fyrir aðstoð við gagnaöflun.

 

 

Heimildir

1. Þorsteinsdóttir S, Guðnadóttir AS, Þjóðleifsson B. Vísindastörf á Landspítala. Alþjóðlegur og íslenskur samanburður. Læknablaðið 2004; 90: 839-45.
2. www.isiwebofknowledge.com/
3. www.rannis.is
4. Stefansson H, Rujescu D, Cichon S, et al. Large recurrent microdeletions associated with schizophrenia. Nature. 2008; 455: 232-6.
5. Guðmundsson J, Sulem P, Rafnar T. Common sequence variants on 2p15 and Xp11.22 confer susceptibility to prostate cancer. Nat Genet 2008; 40: 281-3. ?
6. www.hjarta.is/utgafa-greinasafn/visindatimarit
7. Guðbjartsson T. Vangaveltur um framtíð Læknablaðsins sem vísindarits. Læknablaðið 2002; 88: 471.
8. Guðbjartsson T. Vangaveltur skurðlæknis að lokinni vel heppnaðri ráðstefnu HÍ um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum. Læknablaðið 2007; 93: 103.
9. Jóhannsson JH. Læknablaðið sem vísindarit. Læknablaðið 1994; 80: Fylgirit 26/47-54. 
10. Rafnsson V. Mikilvægi skráningar Læknablaðsins í Medline. Læknablaðið 2005; 91: 93.
11. www.medline.com
12. www.info.scopus.com
13. Björnsson J. Verkefni ritstjórnar Læknablaðsins. Læknablaðið 2006; 92: 91.
14. Guðbjartsson T, Sigurðsson E. Nýjung í Læknablaðinu: Mynd mánaðarins. Læknablaðið 2008; 94: 327. 
15. Sigurðsson E. Misskipt er manna láni. Læknablaðið 2008; 94: 581.
16. Nýr þáttur í Læknablaðinu. Ljósmyndir lækna. Læknablaðið 2009; 95: 307.
17. Stefánsdóttir Á, Hjörleifsson S. Siðfræðidálkur. Læknablaðið 2009; 95: 557.
18. Petersen H. Læknablaðið - frá læknum til lækna. Læknablaðið 2002; 88: 183.
19. Björnsson J. Læknablaðið á nýju ári. Læknablaðið 2007; 93: 
20. Björnsson J. Drög að áfangaskýrslu. Læknablaðið 2008; 94: 443.
21. http://en.vedur.is/media/jar/Jokull-guidlines.pdf
22. www.laeknabladid.is
23. www.hirsla.lsh.is/lsh/

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica