01. tbl. 95. árg. 2009

Fræðigrein

Algengi geðlyfjanotkunar eldri Íslendinga utan stofnana

Prevalence of psychotropic drug use among elderly Icelanders living at home

Ágrip

Markmið: Að meta algengi geðlyfjanotkunar aldraðra sem bjuggu utan stofnana árið 2006.

Efniviður og aðferðir: Lýsandi áhorfsrannsókn sem byggði á gögnum úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins. Þýðið var Íslendingar 70 ára og eldri sem bjuggu utan stofnana (8,6% af heildarmannfjölda). Algengi þunglyndis-, geðrofs-, kvíðastillandi- og svefnlyfjanotkunar (ATC-flokkar N06A, N05A, N05B, N05C) var skilgreint sem fjöldi einstaklinga á hverja 100 íbúa sem leysti út eina eða fleiri lyfjaávísun á tiltekin lyf árið 2006. Niðurstöður voru bornar saman við upplýsingar úr lyfjagagnagrunni um geðlyfjanotkun Dana á aldrinum 70 til 74 ára.

Niðurstöður: Einstaklingar 70 ára og eldri leystu út þriðjung allra lyfjaávísana á Íslandi árið 2006, þar af var fjórðungur á geðlyf. Eldri konur voru líklegri en karlar til að nota geðlyf (RR=1,40 95% CI: 1,37-1,43). Algengi geðlyfjanotkunar í þýðinu var 65,5% fyrir konur og 46,8% fyrir karla. Algengust var notkun kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja (N05B eða N05C), 58,5% meðal kvenna og 40,3% meðal karla. Algengi þunglyndislyfjanotkunar var 28,8% meðal kvenna og 18,4% meðal karla. Um 5% þýðisins notaði geðrofslyf. Algengi geðlyfjanotkunar meðal 70-74 ára var 1,5 til 2,5 falt hærra á Íslandi en Danmörku.

Ályktun: Geðlyfjanotkun eldri Íslendinga er almenn, einkum í flokkum kvíðastillandi- og svefnlyfja. Samanborið við upplýsingar úr dönskum lyfjagagnagrunni fyrir aldurshópinn 70-74 ára er ávísun á geðlyf algengari á Íslandi.

Inngangur

Öldruðum hefur fjölgað í heiminum á síðustu áratugum. Hlutfallsleg fjölgun er mest meðal háaldraðra. Sjúkdómar sem þurfa lyfjameðferðar við verða algengari með aldrinum. Í okkar heimshluta er víða meira en helmingi lyfja ávísað til einstaklinga eldri en 65 ára.1 Ný lyf og ábendingar lyfjameðferðar koma stöðugt fram og algengara er að fleiri en eitt lyf séu notuð samhliða við sömu ábendingu.

Lyfjanotkun aldraðra á Norðurlöndunum hefur aukist jafnt og þétt á síðustu áratugum.2-4 Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð er meira en fjórðungi lyfja ávísað til einstaklinga 75 ára og eldri sem eru 9% af heildaríbúafjölda.5 Samanburðarrannsókn í Gautaborg á hópum 70 og 80 ára einstaklinga á 30 ára tímabili sýndi að í lok tímabilsins voru að jafnaði notuð fleiri lyf og færri voru lyfjalausir.6 Vandamál tengd óviðeigandi lyfjaávísun, meðferðarheldni, ofnotkun og vanmeðhöndlun eru öll vel þekkt við lyfjameðferð aldraðra.7-11

Geðlyfjanotkun aldraðra skýrist meðal annars af algengi geðrænna einkenna meðal eldri aldurshópa.12-14 Þótt geðlyf virki á einkenni geðsjúkdóma, svefntruflanir og hegðunarvandamál getur notkun þeirra verið vandkvæðum bundin vegna líffræðilegra breytinga sem tengjast aldri. Aldraðir eru viðkvæmir fyrir aukaverkunum lyfja, svo sem slævandi áhrifum, truflunum á vitrænni getu, utanstrýtueinkennum og byltum.7, 15, 16 Þær upplýsingar sem liggja fyrir um geðlyfjanotkun aldraðra hér á landi sýna yfirleitt hlutfallslega mikla notkun samanborið við lyfjanotkun í nágrannalöndum okkar.17-19, 10

Norðurlöndin reka opinbera lýðgrundaða gagnagrunna um lyfjanotkun á landsvísu. Lyfjagrunnarnir sem flestir eru nýir byggjast á upplýsingum frá lyfsölum um lyfseðilsskyld lyf sem leyst hafa verið út í lyfjaverslunum. Áhersla er nú lögð á úrvinnslu úr þessum grunnum til rannsókna og stefnumótunar og við gæðamat.

Markmið þessarar rannsóknar var að greina algengi geðlyfjanotkunar á Íslandi meðal einstaklinga 70 ára og eldri, sem búsettir voru utan dvalar- og hjúkrunarheimila. Jafnframt var al-gengi geðlyfjanotkunar meðal yngri aldraðra borið saman við sambærilega notkun í Danmörku.

Efniviður og aðferðir

Um var að ræða lýsandi áhorfsrannsókn sem byggði á gögnum úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins. Rannsóknartímabilið náði frá 1. janúar 2006 til og með 31. desember 2006. Þýðið var Íslendingar 70 ára og eldri sem bjuggu utan dvalar- og hjúkrunarrýma allt rannsóknartímabilið. Gerður var samanburður við geðlyfjanotkun yngri aldurshópa hér á landi. Geðlyfjanotkun meðal 70 til 74 ára í Danmörku var höfð til samanburðar við sama aldurshóp hér á landi. Í þessum yngri hópi aldraðra eru hlutfallslega fáir búsettir á stofnunum, sem dregur úr skekkjum við samanburð á milli landanna, en lyfjaupplýsingar um þá sem dvelja á stofnunum eru hluti af danska lyfjagagnagrunninum en ekki þeim íslenska.

Mynd 1. Aldursdreift algengi geðlyfjanotkunar á Íslandi árið 2006 fyrir geðlyf úr ATC-flokkum N06A, N05A, N05B og/eða N05C. Fjöldi notenda á hverja 100 íbúa utan stofnana (%).

Gögn

Lyfjagagnagrunnur Landlæknisembættisins geymir upplýsingar af lyfseðlum sem afgreiddir hafa verið utan stofnana á Íslandi. Hann er starfræktur í samræmi við IX. kafla lyfjalaga nr. 93/1994, með síðari breytingum. Lögum samkvæmt eru persónuauðkenni sjúklinga og lækna sérstaklega dulkóðuð í lyfjagagnagrunninum og geymd að hámarki til þrjátíu ára. Skráð gögn í grunninum miðast við afgreiðsludag lyfja og eru upplýsingar uppfærðar mánaðarlega.

Upplýsingar um algengi geðlyfjanotkunar meðal 70 til 74 ára í Danmörku voru fengnar úr danska lyfjagagnagrunninum sem er opinn almenningi á netinu: www.medstat.dk/MedStat-DataViewer.php. Gögn þessi eru ópersónugreinanleg og byggja á sambærilegum upplýsingum og lyfjagagnagrunnur Landlæknisembættisins.

Mannfjöldatölur voru frá Hagstofu Íslands (31. desember 2006). Tölur um aldur og fjölda íbúa á öldrunarstofnunum voru fengnar úr gagnasafni RAI-mats, en það er mælitæki sem notað er til að meta hjúkrunarþarfir og heilsufar íbúa öldrunarstofnana á Íslandi og lýtur faglegu eftirliti Landlæknisembættisins. Öll hjúkrunarheimili á landinu framkvæma RAI mat og fara matsgögnin í miðlægan gagnagrunn sem er staðfesting á því að tiltekinn einstaklingur hafi búið á stofnun á rannsóknartímabilinu.

Aðferðir

Algengi lyfjanotkunar (%) var skilgreint sem fjöldi einstaklinga á hverja 100 íbúa utan stofnana sem leysti út eina eða fleiri lyfjaávísun á tiltekin lyf árið 2006. Lyfjaflokkar voru skilgreindir í samræmi við ATC-flokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofn-unarinnar (WHO): Geðrofslyf (N05A), kvíðastillandi lyf (N05B), svefnlyf (N05C) og þunglyndislyf (N06A). Lyf úr öðrum flokkum geðlyfja (til dæmis litíum og örvandi lyf) eru lítið notuð meðal aldraðra og ekki talin með í þessari úttekt.

Til að ákvarða rannsóknarþýðið var fjöldi íbúa á öldrunarstofnunum samkvæmt RAI-mati dreginn frá heildaríbúafjölda 70 ára og eldri á Íslandi árið 2006. Þetta var gert því upplýsingar um lyfjanotkun fólks á stofnunum koma ekki fram í lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins.

Notkun margra geðlyfja samtímis var metin með því að greina fjölda einstaklinga sem leysti út þrjú eða fleiri mismunandi lyf úr flokkum N05A, N05B, N05C og N06A á þriggja mánaða tímabili, frá og með 1. október til og með 31. desember árið 2006. Val tímabilsins miðaði að því að niðurstöður myndu ekki raskast vegna mögulegs fráviks í lyfjaávísun lækna yfir sumarleyfistímann.

Hlutfallsleg áhætta (relative risk, RR), með 95% öryggisbil (95% CI), var reiknuð til að meta kynjamun geðlyfjanotkunar í rannsóknarþýði. Einnig voru hlutfallslegar (95% CI) líkur á notkun geðlyfja reiknaðar fyrir 70-74 ára Íslendinga með Dani á sama aldri sem viðmið.

Við útreikninga og gerð mynda var notast við Excel-töflureikni. Öll gögn voru dulkóðuð og ópersónugreinanleg áður en vinnsla þeirra hófst. Vísindasiðanefnd veitti leyfi til rannsóknarinnar (tilvísunarnúmer VSNb2007110012/03-15). Vinnsla persónuupplýsinga um lyfjanotkun var jafnframt tilkynnt Persónuvernd.

 

f01-TI

 

Niðurstöður

Útleystar lyfjaávísanir á Íslandi árið 2006 voru alls 2.460.988. Rannsóknarþýðið, 70 ára og eldri utan stofnana, var 8,6% af heildarmannfjölda ársins og leysti út 719.051 lyfjaávísanir, eða 29,2%. Tæplega fjórðungur (23,7%) allra útleystra lyfjaávísana fyrir 70 ára og eldri árið 2006 voru á geðlyf (N05A, N05B, N05C, N06A).

Á mynd 1 sést aldursdreifing þeirra sem notuðu geðlyf á Íslandi árið 2006. Algengi hækkaði með aldri og var 11,3% hjá ungu fólki (20-24 ára), 24,1% hjá miðaldra fólki (45-49 ára), 49,4% hjá yngsta aldurshópi aldraðra (70-74 ára) og 85,6% í elsta aldurshópnum (95 ára og eldri). Aldurstengd aukning á algengi geðlyfjanotkunar var mest áberandi fyrir kvíðastillandi lyf og svefnlyf.

 

 

Marktækur kynjamunur var á notkun geðlyfja í rannsóknarþýðinu. Algengi geðlyfjanotkunar (N05A, N05B, N05C eða N06A) var 65,5% fyrir konur og 46,8% fyrir karla. Algengust var notkun kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja (N05B eða N05C), en 58,5% kvenna og 40,3% karla leystu út lyf í þessum flokkum (tafla I).

Tafla II sýnir notkun á mismunandi tegundum lyfja innan hvers geðlyfjaflokks. Í flokki kvíðastillandi- og svefnlyfja (N05B og N05C) var notkun nýrri skammverkandi svefnlyfja (zópiklón og zolpidem) algengust. Sérhæfðir serótónín-endurupptökuhemlar (SSRI) voru algengastir í flokki þunglyndislyfja (N06A) og fentíazín í flokki geðrofslyfja (N05A).

Notkun einstakra lyfja innan hvers geðlyfjaflokks er sýnd á myndum 2a og 2b. Af einstökum geðlyfjum var svefnlyfið zópíklón mest notað, bæði meðal kvenna (35,5%) og karla (24,3%).

Athugun á fjölgeðlyfjanotkun rannsóknarþýðis leiddi í ljós að á þriggja mánaða tímabili, 1. október til 31. desember árið 2006, leystu 8,5% kvenna og 4,4% karla út þrjú eða fleiri mismunandi geðlyf úr flokkunum N05A, N05B, N05C og N6A.

Hlutfallslegur munur geðlyfjanotkunar eftir lyfjaflokkum á Íslandi og í Danmörku meðal 70-74 ára er sýndur í töflu III. Algengi geðlyfjanotkunar meðal 70-74 ára var hærra á Íslandi og er munurinn 1,5- til 2,5-faldur. Mestur munur var á svefnlyfjanotkun þessa aldurshóps en 2,5 sinnum fleiri Íslendingar leystu út svefnlyf árið 2006 en í Danmörku sama ár (RR 2,47; 95 % CI: 2,40 - 2,54).

 

Mynd 2a. Algengi helstu kvíðastillandi- og svefnlyfja (N05B og N05C) meðal 70 ára og eldri á Íslandi árið 2006. Fjöldi notenda á hverja 100 íbúa utan stofnana (%). kvk - konur, kk - karlar.

 

Mynd 2b. Algengi helstu þunglyndislyfja (N06A) meðal 70 ára og eldri á Íslandi árið 2006. Fjöldi notenda á hverja 100 íbúa utan stofnana (%).

 

Umræða

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna notkun geðlyfja meðal aldraðra utan stofnana á Íslandi eftir aldri og kyni samkvæmt upplýsingum um útleystar lyfjaávísanir. Notkunin var borin saman við geðlyfjanotkun yngri aldraðra í Danmörku. Einnig var kannað umfang fjölgeðlyfjanotkunar aldraðra hér á landi.

Aldurshópurinn 70 ára og eldri leysti út tæplega fimmfalt fleiri ávísanir en einstaklingar yngri en 70 ára, bæði á geðlyf og önnur lyf. Þetta er í samræmi við erlendar rannsóknir.1, 4 Rannsóknin sýnir almenna notkun þunglyndislyfja, kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja hér á landi. Rannsóknir hafa sýnt að allt að þriðjung svefntruflana meðal aldraðra má rekja til þunglyndis auk þess sem kvíðaeinkenni fylgja oft þunglyndi hjá öldruðum.12, 13, 20 Með aukinni notkun þunglyndislyfja á seinni árum hefði mátt ætla að draga myndi úr notkun kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja. Í því ljósi vakna spurningar um hversu viðeigandi ábendingar þessara lyfja eru hérlendis. Samkvæmt erlendum rannsóknum er algengi þunglyndis meðal aldraðra í heimahúsum á bilinu 10-15%.21 Sé um sambærilegt algengi þunglyndis að ræða hér á landi virðist ávísun á þunglyndislyf mikil. Þó ber að hafa í huga að lyfin eru stundum notuð við öðrum ábendingum en þunglyndi, til dæmis langvinnum verkjum.

 

 

Geðlyf hafa eðli samkvæmt verkun á miðtaugakerfið og geta haft bæði bein og óbein áhrif á jafnvægi og viðbragð. Fjöllyfjanotkun og notkun ákveðinna lyfjaflokka eru áhættuþættir fyrir byltum aldraðra. Því er mikilvægt að meta bæði ávinning og áhættu sem fylgir geðlyfjanotkun en í vissum tilvikum getur fækkun geðlyfja dregið úr hættu á byltum. Notkun benzódíazepín og skyldra lyfja var langalgengust en fjöldi rannsókna hefur tengt notkun þessara lyfja við aukna hættu á byltum.22-25

Það kemur fram að fleiri eldri konur en karlar notuðu geðlyf og var munurinn um 30-60% eftir lyfjaflokkum. Munurinn var mestur í flokki kvíðastillandi lyfja. Þessi kynjamunur er í samræmi við margar fyrri athuganir sem sýna að algengara er að læknar ávísi geðlyfjum á konur en karla. Þetta kann meðal annars að skýrast af því að geðræn einkenni eru algengari meðal kvenna en karla og að konur leita oftar læknis. Einnig geta áherslur í markaðssetningu lyfja og ávísanavenjur lækna haft áhrif.26-28

Fleiri Íslendingar á aldrinum 70-74 ára nota geðlyf en gerist meðal Dana á sama aldri. Mestur var munurinn í flokki svefnlyfja, tæplega 2,5-faldur. Þetta er í samræmi við vísbendingar um meiri notkun geðlyfja hérlendis samkvæmt opinberum sölutölum þar sem miðað er við fjölda dagskammta á hverja þúsund íbúa á dag.3 Skilgreindir dagskammtar eru oft notaðir þegar skoða á lyfjanotkun og munurinn, sem kemur fram á lyfjanotkun milli landanna, er óbreyttur þegar þessari aðferð er beitt (niðurstöður ekki sýndar). Ekki er augljós skýring á þessum mikla mun á geðlyfjanotkun milli annars sambærilegra hópa Íslendinga og Dana. Mögulegar skýringar gætu legið í ávísunarvenjum lækna sem og ólíku lyfjagreiðslukerfi landanna tveggja, þar með töldu útsöluverði tiltekinna lyfja og greiðsluþátttöku sjúklinga. Á Íslandi greiðir sjúklingur kvíðastillandi- og svefnlyf að fullu en útsöluverð sumra þeirra er hins vegar tiltölulega lágt. Geta ber þess að munurinn á geðlyfjanotkun Íslendinga og Dana gæti í raun verið enn meiri en niðurstöður þessarar rannsóknar benda til. Er það vegna þess að lyfjagagnagrunnur Landlæknisembættisins inniheldur ekki upplýsingar um lyfjanotkun á öldrunarstofnunum líkt og danski lyfjagagnagrunnurinn gerir. Höfundar gerðu tilraun til að lágmarka þetta misræmi undirliggjandi gagna með því að skoða einungis aldurshópinn 70-74 ára, þann aldurshóp aldraðra sem ólíklegastur er til að dvelja á slíkum stofnunum.

Athugunin sýndi að 8,5% kvenna og 4,4% karla leystu út þrjú eða fleiri mismunandi geðlyf á þriggja mánaða tímabili. Notkun margra geðlyfja samtímis vekur spurningar um gæði lyfjaumsjár og á það ekki síst við um aldraða einstaklinga. Í Svíþjóð hefur hlutfall aldraðra sem nota þrjú eða fleiri geðlyf samtímis verið notað sem gæðavísir varðandi lyfjameðferð. Árið 2006 reyndist þetta hlutfall í Svíþjóð vera á bilinu 4-8% eftir landshlutum.29 Þekkt er að fjöllyfjanotkun getur aukið líkur á aukaverkunum hjá öldruðum.30, 31 Því gæti verið ástæða til að kanna umfang og afleiðingar fjölgeðlyfjanotkunar frekar hér á landi, til dæmis eftir landsvæðum eða heilsugæsluumdæmum.

Áður hefur verið leitað leiða til að meta gæði lyfjameðferðar hjá öldruðum, til dæmis með því að skilgreina lyf sem talin eru óæskileg fyrir aldraða. Svonefndur Beers-listi yfir óæskileg lyf hefur verið hafður til viðmiðunar í rannsóknum á gæðum lyfjameðferðar aldraðra í þessu skyni. Meðal lyfja á þessum lista eru langvirk benzódíazepín og lyf með umtalsverða andkólínerga verkun, til dæmis amitryptilín.32, 33 Hér á landi er amitryptilín allmikið notað meðal aldraðra, en rúm 6% eldri kvenna 70 ára og eldri utan stofnana leystu út ávísun á lyfið árið 2006. Í ljósi þekktra aukaverkana meðal aldraðra er vert að meta á gagnrýninn hátt notkun lyfja með mikla andkólínerga verkun.34

Einn helsti styrkur þessarar rannsóknar felst í notkun gagna sem ná yfir lyfjanotkun heillar þjóðar. Árið 2006 innihélt lyfjagagnagrunnur Landlæknisembættisins upplýsingar um 98,6% allra lyfseðla sem afgreiddir voru utan stofnana á landinu. Takmarkanir rannsóknarinnar eru hins vegar nokkrar. Í fyrsta lagi veitir rannsóknin ekki upplýsingar um hvort útleyst lyf hafi í raun verið notað. Niðurstöður rannsóknar gætu í því ljósi ofmetið raunverulega geðlyfjanotkun, ýmist vegna þess að hætt hafi verið við lyfjameðferð eftir að lyf voru leyst út eða vegna ófullnægjandi meðferðarheldni sjúklinga. Í þessari rannsókn var engin tilraun gerð til að meta meðferðarheldni en léleg meðferðarheldni getur verið allt að 40 til 75% samkvæmt rannsóknum í þessum aldurshópi.35, 36 Rannsókn Tómasar Helgasonar og félaga á hópi 18-75 ára einstaklinga sýndi talsvert minni raunverulega notkun geðdeyfðar-, kvíða- og svefnlyfja en sölutölur gáfu til kynna, sem gæti bent til lélegrar meðferðarheldni.18 Sama rannsókn sýndi einnig að langtímanotkun þessara lyfja jókst með aldri. Niðurstöður nýlegrar athugunar á vegum Rannsóknastofnunar um lyfjamál sýnir að á Íslandi tapast árlega verulegt fjármagn vegna ávísunar lyfja sem aldrei eru notuð.37 Í öðru lagi er takmörkun þessarar rannsóknar sú að erfitt er að segja til um með hvaða hætti lyfin hafi verið notuð, hafi þau á annað borð verið tekin inn, en lyfjagagnagrunnur Landlæknisembættisins geymir upplýsingar um útleyst lyf án notkunarfyrirmæla og ábendinga. Í þriðja lagi tekur rannsóknin einungis til lyfjanotkunar aldraðra utan stofnana en nálægt 10% Íslendinga 70 ára og eldri búa á öldrunarstofnunum. Notkun lyfja á öldrunarstofnunum er almennt meiri en hjá þeim sem búa heima og á það ekki síst við um geðlyf.38, 39 Tölur um geðlyfjanotkun án tillits til búsetuforms Íslendinga 70 ára og eldri yrðu því vafalaust hærri en niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna. Í fjórða lagi skal bent á að aðferðin sem notuð var til að meta fjölgeðlyfjanotkun tók mið af fjölda mismunandi geðlyfja sem viðkomandi einstaklingur leysti út að minnsta kosti einu sinni á þriggja mánaða tímabili. Vegna áðurnefnds skorts á notkunarfyrirmælum í lyfjagagnagrunninum er óvíst hvort geðlyfin hafi í raun verið notuð samhliða þrátt fyrir að þau hafi öll verið afgreidd innan sama tímabils. Ólík aðferðafræði gerir erfitt um vik varðandi samanburð milli landa en nefna má að nú standa yfir rannsóknir á heppilegum aðferðum til að nálgast fjöllyfjanotkun og raunlyfjanotkun út frá tölum úr lyfjagagnagrunnum Norðurlandanna. Loks má nefna að rannsókn sem þessi verður aldrei betri en skráning gagnanna sem liggja til grundvallar. Höfundar hafa þó enga ástæðu til að ætla að skráning lyfseðla á geðlyf fyrir aldraða árið 2006 hafi verið ófullkomin.

Athugun þessi er gott dæmi um gagnsemi lyfjagagnagrunna í lyfjafaraldsfræði. Kortlagning lyfjanotkunar í stóru þýði opnar möguleika til notkunar lyfjagagnagrunns Landlæknisembættisins í víðara samhengi með það markmið að stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun í landinu. Með því að samkeyra upplýsingar úr lyfjagagnagrunni við breytur úr öðrum gagnagrunnum má fá fram mikilvægar upplýsingar um tengsl lyfjanotkunar við heilbrigði, heilbrigðisþjónustu og félagslega þætti. Til dæmis mætti kanna tengsl lyfjanotkunar og byltna hjá öldruðum með tengingu lyfjagagnagrunns við slysaskráningu. Rannsókn af þessu tagi leggur einnig grunn að hagkvæmnigreiningu tiltekinna lyfjameðferða sem verður að teljast verðugt framtíðarverkefni ekki síst í ljósi ört stækkandi hóps aldraðra og fjölveikra.

Ályktun

Niðurstöður þessarar úttektar gefa til kynna að geðlyfjanotkun eldri Íslendinga sé almenn, sérstaklega hvað varðar notkun kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja. Samanborið við upplýsingar úr sambærilegum dönskum lyfjagagnagrunni virðist ávísun á geðlyf umtalsvert meiri hér á landi. Höfundar telja þörf fyrir frekari umræðu og rannsóknir á undirliggjandi orsökum, gagnsemi og afleiðingum almennrar notkunar geðlyfja meðal aldraðra Íslendinga.

Þakkir

Þakkir fær Kristinn Jónsson, kerfisfræðingur, Landlæknisembættinu.

Heimildir

1. Shah RR. Drug development and use in the elderly: Search for the right dose and dosing regimen. Br J Clin Pharmacol 2004; 58: 452-69.
2. Jyrkka J, Vartiainen L, Hartikainen S, et al. Increasing use of medicines in elderly persons: a five-year follow-up of the Kuopio 75+ Study. Eur J Clin Pharmacol 2006; 62: 151-8.
3. Medicines consumption in the Nordic Countries 1999-2003: Nordic Medico Statistical Committee (NOMESCO)2004.
4. Wettermark B, Hammar N, Ford CM, et al. The New Swedish Prescribed Drug Register - Opportunities for pharmacoepidemiological research and experience from the first six months. Pharmacoepidemiol and Drug Saf 2007; 16: 726-35.
5. Indikatorer för utvärdering av kvaliteten I alders läkemedelsterapi: Svenska Socialstyrelsen 2003.
6. Lernfelt B, Samuelsson O, Skoog I, Landahl S. Changes in drug treatment in the elderly between 1971 and 2000. Eur C Pharmacol 2003; 59: 637-3.
7. Gurwitz JH, Field TS, Harrold LR, et.al. Incidence and Preventability of Adverse Drug Events Among Older Persons in the Ambulatory Setting.?JAMA 2003; 289: 1107-16.
8. Piette JD, Heisler M, Wagner TH. Cost-Related Medication Underuse Among Chronically Ill Adults. Am J Public Health 2004; 94: 1782-1787.
9. Solomon D. Underuse of osteoporosis medications in elderly patients with fractures:  American J Med 2003; 115: 398-400.
10. Fialová D, Topinková E, Gambassi G, et al. Potentially Inappropriate Medication Use Among Elderly Home Care Patients in Europe. JAMA 2005; 293: 1348-58.
11. Samúelsson O, Björnsson S, Jóhannsson B, Jónsson PV. Lyfjanotkun aldraðra á bráðasjúkrahúsi: Aukaverkanir og gæðavísar. Læknablaðið 2000; 86: 11-6.
12. Giron MS, Forsell Y, Bernsten C, et al. Sleep problems in a very old population: drug use and clinical correlates. J Gerontol A Biol Sci Med Sci 2002; 57: M236-40.
13. Buysse DJ. Insomnia, depression and aging. Assessing sleep and mood interactions in older adults. Geriatrics 2004; 59: 47-51.
14. Skoog I. Psychiatric epidemiology of old age: the H70 study - the NAPE Lecture 2003. Acta Psychiatr Scand 2004; 109: 4-18. 
15. Hanlon JT, Schmader KE, Koronkowski MJ, et al.; Adverse drug events in high risk older outpatients. J Am Geriatr Soc 1998; 46: 252-3.
16. Moore AR, O?Keeffe ST. Drug-Induced Cognitive Impairment in the Elderly Drugs Aging 1999; 15(1): 15-28.
17. Sigfússon E. Notkun svefnlyfja og róandi lyfja síðustu 26 árin. Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið 2004.
18. Helgason T, Tómasson K, Zoëga T. Algengi og dreifing notkunar geðdeyfðar-, kvíða- og svefnlyfja. Læknablaðið 2003; 89: 15-22.
19. Sigurðsson JÁ. Notkun róandi lyfja og svefnlyfja: upplýsingar frá apóteki og úr sjúkraskrám í Egilsstaðalæknishéraði 1986-1989. Læknablaðið 1994; 80: 99-103. 
20. Kamel NS. Gammack JK. Insomnia in the elderly: cause, approach, and treatment. Am J Med 2006; 119(6): 463-9.
21. Evans ME, Mottram P. Diagnosis of depression in elderly patients. Advances in Psychiatric Treatment 2000; 6: 49-56.
22. Sorock GS and Shimkin EE. Benzodiazepine sedatives and the risk of falling in a community-dwelling elderly cohort. Arch Int Med 1988; 148: 2441-4.
23. Ray A, Griffin MR, Downey W. Benzodiazepines of long and short elimination half-life and the risk of hip fracture. JAMA 1989; 262: 3303-7.
24. Swift C. Falls in late life and their consequences?implementing effective services. BMJ 2001; 322 : 855-7. 
25. Campbell AJ, Robertson MC, Gardner MM, et al. Psychotropic medication withdrawal and a home-based exercise program to prevent falls: a randomised, controlled trial. J Am Geriatr Soc 1999; 47 : 850-3.
26. Paulose-Ram R, Jonas BC, Orwig D, et al. Prescription psychotropic medication use among the U.S. adult population: results from the third National Health and Nutrition Examination Survey, 1988-1994.  J Clin Epidemiol 2003; 57: 309-17.
27. Simoni-Wastila L. Gender and Psychotropic Drug Use. Med Care 1998; 36: 88-94.
28. Roe CM, McNamara AM, and Motheral BR. Gender- and age-related prescription drug use patterns. Anna Pharmacother 2002: 36: 30-9.
29. Öppna jämförelser av hälso- och sjukvårdens kvalitet och effektivitet. Jämförelser mellan landsting 2007. Sveriges kommuner och landsting. Stockholm 2007.
30. Hayes B, Klein-Schwartz W , Barrueto F. Polypharmacy and the Geriatric Patient. Clin Geriatr Med 2007; 23: 371-90. 
31. Johnell K, Klarin I. The Relationship between Number of Drugs and Potential Drug-Drug Interactions in the Elderly: A Study of Over 600.000 Elderly Patients from the Swedish Prescribed Drug Register. Drug Saf 2007; 30: 911-8.
32. Beers MH. Explicit criteria for determining potentially inappropriate medication use by the elderly. Arch Int Med 1997; 157: 1531-6.
33. Fick DM, Cooper JW, Wade WE, et al. Updating the Beers criteria for potentially inappropriate medication use in older adults: results of a US consensus panel of experts. Arch Intern Med 2003; 163: 2716-24.
34. Fastbom J, Claesson CB, Cornelius C, Thorslund M, Winblad B. The use of medicines with anticholinergic effects in older people. J Am Geriatr Soc 1995; 43: 1135-40.
35. Salzman C. Medication compliance in the elderly. J Clin Psychiatry1995; Suppl 1: 18-22.
36. MacLaughlin EJ, Raehl CL, Treadway AK, et al. Assessing medication use in the elderly: Which tools to use in clinical practice. Drugs and Aging 2005; 22: 231-55.
37. Ásgeirsson ÁG, Almarsdóttir AB. Umfang og ástæður sóunar lyfja á Íslandi - skil almennings. Rannsóknarstofnun um lyfjamál við Háskóla Íslands, Reykjavík: 2008.
38. Tybjerg J, Gulmann NC. Use of psychopharmaceuticals in municipal nursing homes. A nationwide survey. Ugeskr Laeger 1992; 154: 3126-9.
39. Hughes CM, Lapane KL, Mor V, et al. The Impact of Legislation on Psychotropic Drug Use in Nursing Homes: A Cross-National Perspective. J Am Geriatr Soc 2000; 48: 931-7.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica