12. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Kvenlæg gildi – áhættumeðvitund í efnahagskreppu. Birna Jónsdóttir

Gylfi Zoëga hagfræðingur, sem hafði framsögu á síðasta aðalfundi LÍ, í kjaramálahluta fundarins, var í pallborðsumræðum á fundi viðskiptaráðs 18. nóvember sem bar yfirskriftina: „Fjármálakreppan - er lausn í sjónmáli“. Á þessum fundi lýsti hann framtíðarsýn á efnahagsástandið og taldi að við fengjum mjög djúpa lægð, með atvinnuleysi kringum 10% og taldi að lending okkar yrði hörð, kallaði hana „móður harðra lendinga“. Ég neita því ekki að ég hrökk við í sætinu. Myndlíkingar úr gamalli sjómennsku hafa verið ákaflega vinsælar í umfjöllun um „strand þjóðarskútunnar“, að „ausa bátinn“, „leggjast á árarnar“ hefur verið mikið notað. Minna hefur verið sótt til kvenna og því kom orðanotkun Gylfa mér á óvart. Hins vegar er nú svo komið að farið er að kalla eftir breyttum viðhorfum til stýringar fjármálastofnunum landsins og gerast háværari þær raddir sem líta til kvenna. Það þarf að „hreinsa til“. Ársgamalt fjárfestingafyrirtæki rekið af konum byggir á viðhorfum sem þær kalla „áhættumeðvituð“. Þær afþökkuðu gildi útrásarvíkinganna og efnahagskerfi vafninga. Undir formerkjum kvenlægra gilda þegar áhættan er betur meðvituð er afkoman ekki eins sveiflukennd.

Lítil saga úr nærumhverfi mínu hefur sótt á hugann í hremmingunum að undanförnu. Vinkona mín var að segja frá afdrifum hlutabréfa fjölskyldunnar. Þau hjónin höfðu keypt í líftæknifyrirtæki fyrir nokkrum árum og horfðu á eignina bólgna út. „Við vorum orðið ansi rík, á pappírunum,“ sagði hún, „þá hrundu bréfin“. Auðvitað voru þau vonsvikin, en hún tók gleði sína eftir stutta stund. „Ég fór að hugsa um, að ef ég væri svona rík, gæti ég ekki lengur notið á sama hátt og áður þess eðliskosts sem ég hef lengi þroskað með mér og er stolt af, sem er að geta gert mikið úr litlu.“ Það er ef til vill ekki vísindalega sönnuð staðreynd að konur séu nægjusamari og hagsýnni en karlar. Vel má vera að það sé frekar einstaklingsbundið. Ég hef hins vegar heyrt að vísindalega hafi verið skoðað hvort kynbundinn munur sé á því hve dýrar gjafir börnum eru gefnar. Niðurstaðan var að leikföng drengja voru dýrari á öllum æviskeiðum og urðu dýrari eftir því sem þeir eltust. Ég hlustaði á rithöfund á fundi fyrir skömmu sem sagði sögu úr sinni fjölskyldu. Hann hafði viljað kaupa sér atvinnuhúsnæði sem honum bauðst að fjármagna á hagstæðu myntkörfuláni, en fékk ekki fyrir frúnni. Eiginkonan vildi að hann kæmi sér fyrir í bílskúrnum við skriftirnar. Samningar tókust milli þeirra um að hann leigði atvinnuhúsnæði. Eins og málin hafa þróast á lánamarkaðnum sagði hann líklegt að fjölskyldan væri flutt í skúrinn hefði hann ráðið ferðinni einn. Mórallinn í sögu hans var að þau bættu hvort annað upp. Hrun bankakerfisins skýrist af ofvexti í bönkunum og skulda- og eignastaða landsins var ofþanin, þessar eru helstu skýringarnar á fyrirsjáanlegri óvenju harðri lendingu í efnahagsmálum, „móður harðra lendinga“ á Íslandi, ásamt lengri kreppu en í nágrannalöndunum, eins og okkur er nú spáð.

Hlutverk LÍ við þessar aðstæður er alveg ljóst. Okkar ber að standa vörð um læknisþjónustu á Íslandi. Vil ég sérstaklega benda á áskorun stjórnar LÍ sem send var í lok október til íslenskra stjórnvalda en þar segir meðal annars:

„Ríkisstjórnin hefur í ljósi aðstæðna boðað niðurskurð á opinberum útgjöldum. Stjórn Lækna-félagsins varar við því að útgjöld til heilbrigðismála verði lækkuð . . . Stjórn Læknafélags Íslands leggur áherslu á að framlög til heilbrigðismála verði fremur aukin til þess að hægt verði að mæta þeim heilbrigðisvandamálum sem fylgja núverandi fjármálakreppu . . . Stjórn Læknafélagsins telur að brýnt sé að halda áfram þeirri uppbyggingu sem á sér stað í heilbrigðismálum. Hún áréttar að nú sé enn mikilvægara en áður að hefja byggingu nýs húsnæðis undir starfsemi Landspítalans. Bygging spítala felur í sér mörg störf í byggingargeiranum á tímum þar sem atvinnuleysi verður umtalsvert . . . Þá telur stjórn Læknafélags Íslands mikilvægt að stjórnvöld finni verkefni við hæfi fyrir þau sem missa atvinnuna. Brýnt er að auka aðgang að námi eða starfsmenntun þann tíma sem starfsmissir varir. Er í því sambandi minnt sérstaklega á ungt fólk, sem atvinnuleysi hefur afar slæm áhrif á.“

Læknar eru ábyrgir fyrir lækningum. Stjórn-málamennirnir eru ábyrgir vegna strandsins. Þeirra er að setja lögin, skipa embættismenn og halda uppi eftirlitsaðgerðum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica