10. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Mynd mánaðarins

Lilja Guðnadóttir skenkir kaffi í bolla Katrínar Gísladóttur.

Katrín Gísladóttir var hér fyrr á árum nánast táknmynd skurðstofu Landspítalans. Hún sagði mér eitt sinn að hún hefði hafið störf sem hjúkrunarnemi á skurðstofu við opnun spítalans. Hún átti síðan langan starfsferil á skurðstofum Landspítalans frá 1934 og langt fram á sjöunda áratuginn, fyrst sem skurðstofuhjúkrunarfræðingur, síðan yfirhjúkrunarfræðingur. Eftir að hún lét af því starfi var hún áfram á skurðstofugangi, sá m.a. um kaffistofuna sem þá var búið að koma á laggirnar á ganginum.

Lilja Guðnadóttir var á sama tímabili eina starfsstúlkan (voru á þeim tíma nefndar gangastúlkur) á skurðstofugangi. Hún var systir Árna Guðnasonar magisters og enskukennara, en hjá honum hafa margir af eldri læknum landsins numið grunnatriði enskunnar. Lilja var í uppáhaldi hjá læknanemum, enda sá hún þeim fyrir spítalafötum og gaukaði oft að þeim kaffibolla á skolinu.

Myndin er úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Andrés Kolbeinsson tók hana árið 1958.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica