07/08. tbl. 94.árg. 2008

Umræða og fréttir

Bráðaaðgerð á slóðum Hringadrottins

Að baki ferðinni stóð gönguhópurinn Sárir og súrir fætur sem stofnaður var árið 2002 af hjónunum Ölmu Eir Svavarsdóttur heimilislækni og Guðjóni Birgissyni skurðlækni og Hilmari Kjartanssyni bráðalækni og Svövu Kristinsdóttur. Þessi hópur hefur farið ört stækkandi og gengið víða um land á undanförnum árum en þetta var í fyrsta sinn sem haldið var útfyrir landsteinana til gönguferðar. Aðalhvatamenn ferðarinnar til Nýja-Sjálands voru Hilmar og Svava sem bæði stunda nám þar, Hilmar er að klára nám í bráðalækningum og Svava stundar nám í heilsuverkfræði.

Að sögn þeirra sem þátt tóku í ferðinni gekk hún framúrskarandi vel og var mikil upplifun enda gengið um stórbrotið landslag, skóga og fjöll, gil og dali, yfir vatnsmiklar ár á hengibrúm, eftir einstigum yfir hengiflugi, en svæðið er hluti af þjóðgarði og náttúrufar og dýralíf mjög fjölbreytt og litskrúðugt.

Þegar þau Svava ákváðu að flytja til Nýja-Sjálands hafi þeim verið uppálagt að skipuleggja gönguferð fyrir gönguhópinn og sagði Hilmar að þau hefði eiginlega ekki grunað að ferðin yrði nokkurn tíma að veruleika.

„Fólkið í þessum gönguhóp er ekki að mikla hlutina fyrir sér og ákvað að stytta harðan vetur á norðurhveli til að fara í gönguferð eins langt í burtu og hægt er. Ferðin byrjaði ekki gæfulega þar sem við lentum í hinu mesta óveðri frá Christchurch yfir á hinn hluta eyjarinnar, yfir fjallgarðinn þar sem grjótskriður, aurskriður og snjókoma um mitt sumar gerðu sitt til að reyna að stöðva okkur, en yfir á vesturströndina komumst við þrátt fyrir að bílar á eftir okkur hafi ekki verið eins heppnir þar sem veginum var lokað fyrir umferð stuttu síðar. Í byrjun ferðarinnar fór hópurinn í kajakferð en svo var haldið áfram og útsýnið til Franz Josef og Fox jöklana þar sem þeir ryðjast niður úr fjöllunum ofan í regnskóginn var alveg magnað. Það er sannarlega óraunverulegt að sjá skriðjökla enda niður í regnskóg og.ekki alveg það sem við erum vön frá Íslandi. Næstu nótt gistum við í Haast og þaðan var ekið til Queenstown næsta dag. Í Queenstown bættust svo fleiri í hópinn. Á fimmtudeginum var svo tekin rúta árla morguns frá Queenstown til Te Anau Downs og svo ferja að upphafi göngunnar. Næstu fjóra daga gengum við svo Milford Track gönguna sem snemma á síðustu öld var lýst sem „finest walk in the world" í bresku blaði og hefur þessi gönguleið sennilega haldið sessi sem ein af topp tíu gönguleiðum jarðar. Það er skemmst frá því að segja að þessa ganga býður upp á magnaða fjölbreytni, tröllslegt landslag, forna skóga, fallegar ár og eina af hæstu fossum heims að ónefndum óteljandi sandflugum. Við vorum búin að vara gönguhópinn við þessari óværu en það var ekki fyrr en eftir fyrsta daginn að við vorum tekin trúanleg og eftir það var ekki hægt að þekkja gönguhópinn Sára og súra fætur frá hópi hryðjuverkamanna enda stóð nefbroddurinn einn framundan klæðum sumra göngumanna."

Allir komu heilir heim en það er meira en sagt verður um áströlsku konuna sem hópurinn gekk fram á leiðinni en hún hafði ökklabrotnað mjög illa og gat sig hvergi hreyft og var mjög kvalin er íslensku læknarnir fundu hana. Ferðina hafði hún farið í tilefni af sextugsafmæli sínu og bar afmælið einmitt upp á þennan dag. Er óhætt að segja að hún hafi tæpast getað verið „heppnari" með afmælisgjöf því hvorki fleiri né færri en fjórir sérfræðingar tóku að sér að sinna henni, heimilislæknirinn Alma Eir gaf henni verkjastillandi og hélt eiginmanninum rólegum, bæklunarskurðlæknirinn Kristbjörg Sigurðardóttir greindi brotið og stjórnaði spelkuaðgerð sem Guðjón Birgisson skurðlæknir og Annika Suneson sænskur heila- og taugaskurðlæknir (vinkona Kristbjargar) aðstoðuðu hana við. Ekki löngu síðar var konan sótt af þyrlu og flutt á sjúkrahús til frekari aðhlynningar. Þótti henni svo mikils vert um þessa frábæru aðstoð að eftir heimkomuna til Ástralíu þar sem hún sat með gifsklæddan fótinn og beið þess að brotið greri, samdi hún ítarlegt þakkarbréf til íslensku læknanna og kvaðst seint fá fullþakkað hversu vel þau önnuðust um hana á slysstað. Bréfið stílaði hún á Læknafélag Íslands sem kom því áfram til hlutaðeigandi.

Hópurinn hélt síðan áfram göngu sinni og lauk ferðinni með sóma og var almenn ánægja með ferðina þegar heim var komið.

Nýsjálenskir bráðaliðar ganga frá búnaði í sjúkraþyrluna.

Íslensku læknarnir gera að ökklabroti Allison Wraight frá Ástralíu.

Gönguhópurinn á Makinnon skarði, einum efsta hluta Milford Track gönguleiðarinnar á Nýja Sjálandi. Aftasta röð frá vinstri: Pétur Jónsson, Steingrímur Birgisson. Næsta röð f.v. Sigrún Sigurðardóttir, Soffía Lárusdóttir, Svanhildur Vilhelmsdóttir, Kristbjörg Sigurðardóttir, Guðfinna Magney Sævarsdóttir, Annika Suneson, Elínborg Bárðardóttir, Ívar Pálsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Ingólfur Kolbeinsson, Carolyn Parker, Einar Hreinsson, Kelvin McKinstry, Svanur Sigurbjörnsson, Eggert Vébjörnsson. Fremsta röð f.v. Hilmar Kjartansson, Svava Kristinsdóttir, Kristinn Ingólfsson, Alma Eir Svavarsdóttir, Guðjón Birgisson, Kristveig Sigurðardóttir, Sveinn Eiríksson, Rósa Guðmundsdóttir, Svanfríður Birgisdóttir og Sigurbjörn Kristinsson. Í baksýn má sjá páfagauk af tegundinni Kia á flugi sem er eins konar einkennisfugl svæðisins. Á myndina vantar: Kila Calarco og Melo Calarco sem voru að mynda hópinn.

Ekki fer á milli mála að ökklinn er brotinn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica