06. tbl. 94. árg. 2008

Hugleiðing höfundar. TEIP. Auður Ava Ólafsdóttir

Á dögunum hringdi í mig kona sem hafði lesið Afleggjara og spurði hvernig rithöfundi dytti í hug að skrifa skáldsögu um 22 ára strák með áhuga á rósarækt, kynlífi og dauða, um getnað í gróðurhúsi, stelpujesúbarn og matreiðslu á sinnepshéra eða hvaðan væri annars ættuð þessi þráhyggjukennda leit höfundar að fegurð og tilgangi, hvernig fær maður viðlíka hugmyndir, spurði konan, ja hérna og annað eins, hver er hvatinn, eða varstu ekki í fínu djobbi þegar þú kúventir og gerðist óþekkt skáld? Svarið er eftirfarandi: Það var límbandsrúlla sem gerði það að verkum að ég tók skáldskaparveikina eins og jóðsótt á einni nóttu og ákvað að verða rithöfundur.

p01-fig2Við upphaf Persaflóastríðs, fyrsta stríðsins sem boðið var uppá í beinni sjónvarpsútsendingu á Íslandi og helst skyldu menn vaka alla nóttina til að missa ekki af leikslokum í áttafréttum CNN morguninn eftir, kviknuðu engu að síður fáeinar efasemdaraddir; hvað ef stríðið skyldi nú berast alla leið til eyjunnar okkar, hvað þá, er nokkur sjens að von sé á svo válegum tíðindum?

"Ef menn hafa sýnt þá fyrirhyggju að kaupa límband, er ástæðulaust að hafa áhyggjur af yfir-vofandi stríðsátökum", var þá haft eftir íslenskum embættismanni og nú get ég ómögulega munað hver heimildamaður minn er þótt ég hafi soldið gramsað, en ég sé hann engu að síður fyrir mér í peysu með vaffhálsmáli og hárið enn ekki farið að grána, þannig að þetta hefur annaðhvort verið sjónvarpsviðtal eða grein í blaði með mynd, en það skiptir ekki máli, því boðskapurinn til þjóðarinnar var skýr. Með því að líma límband "í kross yfir rúður" mætti koma í veg fyrir að menn skæru sig á öxl á glerbroti í loftárás. Þótt stæðir nakinn í miðju dúnhreiðrinu, var ástæðulaust að gera sér rellu ef þú áttir klístraða límbandsrúllu undir koddanum því um leið og þú sæir gult glampaskin af fallandi SMART sprengjum í garði nágrannans og fyndir lykt af bráðnuðu malbiki, sveipar þú um þig sloppi og segist aðeins ætla að skjótast fram og líma í kross yfir stofugluggann. Ekki var sérstaklega tiltekið hvaða tegund af límbandi væri æskilegt að nota, á mínu heimili er bara til þetta mjóa, glæra sem er aðallega notað til að pakka inn afmælisgjöfum til vina barnsins, þetta sem hefur tilhneigingu til að klofna niður í örmjóar ræmur.

Ég var nýkomin til landsins eftir tíu ára dvöl erlendis og fyrstu viðbrögð mín voru þau að vilja ekki tilheyra þjóð sem hélt að stríð væri límbandsrúlla og til vara að stríð væri fótboltaleikur sem menn sætu yfir með flögur og bjór, þar til hermenn bönkuðu upp á og bæðu um leyfi til að mega skjóta. Síðan hugsaði ég með mér; ókei, ég get ekki breytt því að hafa fæðst á þessari eyju, þar er líka lóan, en ég ætla að verða rithöfundur og skrifa um reynslu mína af límbandsrúllu. Þá gæti ég líka dvalið samtímis á mörgum stöðum í einu, sitt á hvað skautað milli stríðshrjáðra heimshorna eða öslað um þúfnakarga og mýrarfláka, skipt um kyn og persónuleika eftir því sem skáldskapurinn krefðist, ég myndi fjalla um háskaleiki eins og ástina og glás af því sem gerist í bilinu milli fæðingar og dauða, ég myndi stækka veröldina og færa fáránleika styrjalda inn í sálarkima söguhetjanna og sýna fram á að maðurinn geti aðeins glímt við sjálfan sig og aðeins sigrað sjálfan sig, í heimi skáldsögunnar gæti allt gerst og ekkert væri ómögulegt. Jafnvel þótt höfundur væri sá eini sem vissi af því, þá lægi ósýnilegt gangvirki límbandsrúllunnar á bakvið allt saman, eins og áminning um tilgangslausa þjáningu mannsins. Og síðan sú vitneskja að maðurinn ætti sér þrátt fyrir allt líka hugsjónir. Því "ég hallast að því að maðurinn sé í eðli sínu, í stórum dráttum, góður og heiðarlegur, ef aðstæður leyfa." (Afleggjari)

Og það er sama hvert viðfangsefnið kann að vera á yfirborðinu: ungur karlmaður sem heldur út í heim með þrjá rósaafleggjara í farteskinu og það markmið að koma í stand gömlum klausturgarði í órækt, kona sem talar of mörg tungumál og á líka of marga elskhuga og tekur að sér mállaust barn, fótalaus unglingsstúlka sem fer í fjallgöngu af því að hana dreymir um "að vera stödd fyrir ofan allt sem er fyrir neðan", karlmannleg viðkvæmni, veiðimenn, samband líkama og tungumáls, logn, suddi, að borða pylsu; á bakvið mörg lög af orðum lúrir ávallt vitneskjan um límbandið og spurningin hvort hægt sé, þrátt fyrir heimsku mannanna, að auka á fegurð heimsins. Og þá getum við ályktað eins og Jón Gunnar Árnason myndhöggvari gerði þegar hann benti á að það mætti nota hníf til að skera brauð ekkert síður en mann.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica