04. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Nýjung í Læknablaðinu: Mynd mánaðarins

Í þessu tölublaði Læknablaðsins er bryddað upp á nýjunginni Mynd mánaðarins. Birt verður gömul mynd sem skírskotar til læknisfræði á Íslandi og stuttur texti. Mynd mánaðarins og Tilfelli mánaðarins munu birtast á víxl annan hvern mánuð.

Umsjón hafa Tómas Guðbjartsson og Engilbert Sigurðsson, sem sitja í ritstjórn blaðsins. Þeim til aðstoðar verða ráðgjafar úr hópi eldri kollega; Höskuldur Baldursson bæklunarskurðlæknir, Ólafur Jónsson svæfingarlæknir, Sigurður E. Þorvaldsson lýtalæknir og loks Páll Ásmundsson nýrnalæknir og Örn Bjarnason læknir sem báðir eru fyrrum ritstjórar Læknablaðsins.

Verkefnið er í samvinnu við Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Kristín Hauksdóttir sagnfræðingur og verkefnastjóri og Sólveig Þorsteinsdóttir bókasafnsfræðingur á Landspítala verða umsjónarmönnum innan handar.

Lesendur eru hvattir til að senda blaðinu gamlar myndir eða tillögur að myndum, úr opinberum söfnum eða einkaeign.

Einnig eru læknar og ekki síst unglæknar hvattir til að senda inn sjúkratilfelli sem gætu birst sem Tilfelli mánaðarins. Slík tilfelli hafa nú birst í rúmt ár í blaðinu og hefur verið vel tekið. Texti með tilfellinu á að vera stuttur og mega fylgja 1-2 myndir, röntgenmyndir, hjarta- eða heilalínurit, myndir af vefjasýnum eða ljósmyndir sem ekki eru persónugreinanlegar. Svar við tilfelli sé 2000 letureiningar og með 4-10 heimildum.

tomasgud@landspitali.is

Læknanemar í verklegri efnafræði

TRO_KOP5_optMyndin er úr ljósmyndasafni Trausta Ólafssonar og sennilega tekin árið 1926. Á myndinni eru Árni Guðmundsson, Guðmundur Karl Pétursson, Þorvaldur Blöndal, Bergsveinn Ólafsson, Arngrímur Björnsson, Haraldur Sigurðsson, Sæbjörn Magnússon, Gerður Bjarnhéðinsson, Kristján Grímsson, Kjartan Jóhannsson og María Hallgrímsdóttir. Trausti Ólafsson efnaverkfræðingur og kennari hópsins er fremst á myndinni fyrir miðju, með hendur í vösum í grárri slopp en hinir. Hann var forstöðumaður Efnarannsóknarstofu ríkisins sem var í bakhúsi við Hverfisgötu 44 og kenndi hann um árabil við læknadeild. Um það leiti sem myndin var tekin var efnafræði kennd á fyrsta ári og var hún þá helsta námsgreinin en einnig sóttu læknanemar á fyrsta ári tíma í líffærafræði og forspjallsvísindum. Á myndinni má sjá tvær af fyrstu konunum sem útskrifuðust úr læknadeild Háskóla Íslands, Maríu Hallgrímsdóttur sem útskrifaðist 1931 og Gerði Bjarnhéðinsson sem útskrifaðist ári síðar. Á undan þeim höfðu aðeins tvær konur lokið prófi frá læknadeildinni, Kristín Ólafsdóttir, sem var þeirra fyrst árið 1917 og Katrín Thoroddsen árið 1921. Á þessum árum lögðu fáar konur stund á læknisfræði, eða innan við 5% læknanema hér á landi, og hækkaði það hlutfall ekki fyrr en upp úr síðari heimsstyrjöld.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Læknar á Íslandi. Ritstjóri Gunnlaugur Haraldsson. Reykjavík 2000: 15-7.
Bjarnason T. Læknanám fyrir 35-40 árum. Læknaneminn 1961: 35-41.
Kolka P. Læknadeild fyrir hálfri öld. Læknaneminn 1968; 3: 28-39.
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica