11. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Læknirinn og skáldið eru eitt. Ari Jóhannesson í viðtali

"Bandaríski skáldlæknirinn William Carlos Williams hefur verið einn mesti áhrifavaldurinn á mig sem ljóðskáld," segir Ari Jóhanneson læknir og sérfræðingur í lyflækningum sem á dögunum hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Öskudagar.

Ari JóhannessonÞetta er fyrsta ljóðabók Ara og hann segist ekki hafa byrjað að yrkja fyrr en fyrir rúmum fjórum árum; löngunin hafi þó blundað í honum allt frá menntaskólaárum en ekkert hafi orðið úr ljóðagerðinni fyrr. "Það var kannski bara eins gott því ég held að ég hafi ekki verið nógu þroskaður þá og ekki verið nógu mikið mál. Það glæddi áhuga minn á bókmenntum verulega að hafa íslenskukennara í menntaskóla á borð við Jón Guðnason og Véstein Ólason," segir hann. "Þegar ég byrjaði í læknisfræðinni gaf ég hugmyndir um ljóðagerð þó alveg upp á bátinn en lofaði sjálfum mér því að ég myndi kannski taka til við að yrkja einhvern tíma seinna. Það tók nærri 40 ár."

Oskudagar_mynd_stor_optÖskudagar sem bókaútgáfan Uppheimar gefur út er væn ljóðabók, 81 blaðsíða að stærð og ljóðin eru ríflega 50 talsins. Þau skiptast í þrjá kafla, Sjáöldur og silunga sem Ari segir að fjalli um "landið og söguna", "Hvítan hamar", sem eru læknaljóð, og loks Þessar stundir - sem eru ljóð héðan og þaðan, af ferðalögum og um ýmsa staði sem ég hef komið eða ekki komið á," segir Ari.

Ég má ekki gleyma þeim

augnablikunum

sem ljóma í tímanum

eins og fjarlægar stjörnur.

Þannig hefst fyrsta ljóðið í bókinni og valið er eflaust ekki tilviljun því ljóð Ara eru mörg hver byggð á augnabliksminningu, tilfinningu sem hann laðar fram, veltir fyrir sér og dregur upp mynd af. Ljóðin eru óbundin af stuðlum, höfuðstöfum og rími að mestu leyti þó eins og Ari bendir á þá detta inn stuðlar á stöku stað, "meira þó fyrir tilviljun en að ég hafi verið að eltast við það."

"Það var búið að freista mín nokkuð lengi að yrkja ljóð út frá mínu starfi en þegar ég settist niður árið 2003 þá ákvað ég að byrja ekki á því, heldur fást við hefðbundnari yrkisefni eins og landið og söguna meðan ég væri að ná tökum á ljóðinu sem slíku. Það leitaði þó stöðugt á mig að yrkja út frá starfinu og ég veit ekki til þess að íslenskir skáldlæknar hafi gert það svo neinu nemi þótt dæmi séu um slíkt erlendis frá. William Carlos Williams er líklega þekktasta dæmið en hann starfaði alla tíð sem læknir en er núna talinn eitt fremsta ljóðskáld Bandaríkjanna á síðustu öld. Ég er reyndar alls ekki að líkja mér við hann á nokkurn hátt og hann er ekki endilega mitt uppáhaldsskáld en sannfæring hans um að rithöfundurinn og læknirinn væru eitt og hið sama og að þar yrði alls ekki skilið á milli, heillaði mig mjög. Þetta hafði ég í huga þegar ég byrjaði að semja ljóð útfrá mínu starfi."

Ari segist hafa talið það verða næsta auðvelt að yrkja um læknisstarfið en það hafi reynst alveg öfugt. "Ég hélt að það yrði auðveldara fyrir mig að fást við það en önnur yrkisefni en því var alls ekki að heilsa. Það var kannski af því að ég var harður á því að gefa sjálfum mér ekki neinn listrænan afslátt af þeim ljóðum, því þó ég þættist vita að yrkisefnið væri nýstárlegt þá yrðu ljóðin að standa og falla með listrænu gildi sínu."

Svo fagurskapað brjóst

fyrrum strokið af

blíðum fingrum elskhuga

líkt og gola léki við

kirkjuhvolfþak

á sumarkvöldi

 

nú fer smásjáin þolinmóðu auga

um skreytta hvelfinguna

finnur að lokum:

 

stjörnumerki

sem skríður út á hlið

og hvessir gular klær.

 

Í læknisljóðunum birtist maðurinn á bakvið lækninn "Læknir þarf alltaf að vera að skoða sjálfan sig líka, ekki bara sjúklingana. Maður þarf sífellt að spyrja sig: Er ég of langt í burtu? Er ég orðinn of kaldhæðinn og ég yrki um það."

 

Líkt og himinn sveipast skýjum

klæðist ég viðmóti

 

sloppurinn er skjannahvítur

og hrukkulaus

 

"Mér fannst mikilvægt að ljóðin væru einlæg og persónuleg en samt frekar beinskeytt. Það hefði verið auðvelt að missa þau útí mikla dramatík og sterkt myndmál sem mér fannst þó ekki myndi passa. Það varð að vera einhver jarðstrengur sem tengdi lesandann við ljóðið annars yrði það ekki trúverðugt. Allar þessar pælingar gerðu að verkum að ég var mjög lengi að yrkja hvert ljóð og hef satt að segja umort hvert eitt og einasta þeirra mörgum sinnum. Lokaútgáfan á því oft lítið sammerkt með frumdrögunum. Ég á einnig erfitt með ákveða hvenær ljóð er tilbúið en hef þó látið við sitja ef ég hef getað lesið það nokkrum sinnum yfir með töluverðu millibili án þess að breyta því."

Ljóð um náttúruna og söguna skipa nokkurn sess enda viðurkennir Ari að hann sé náttúrubarn og margir vita eflaust að hann er hestamaður og hefur ferðast víða um landið. Upplifun hans af íslenskri náttúru er sterk og eflaust eru margir sem finna ilm úr lyngi við lestur ferðaljóða á borð við þetta.

Nýskornir slóðar og vöðin

í nafnlausum dölum að baki

með vígðar áningarlautir

ennþá volgar af söng

 

framundan snjóhvítt og næst mér

af nákvæmni klofið er faxið

í þráðbeina línu, hún bendir

á skínandi stíg heim að kirkju

 

Hefur Ari notið þess að yrkja eða hefur hann kvalist við þessa sköpun.

"Það er hvorttveggja. Ég er óskaplega ánægður með að ég skyldi loks byrja að yrkja og þetta skyldi ganga svona vel þegar litið er á útkomuna, bókina og viðurkenninguna fyrir hana. Því er hinsvegar ekki að leyna að ég hef haft talsvert mikið fyrir þessu og var kominn með verulegan leiða á mörgum kvæðanna áður en yfir lauk og ég gat satt að segja ekki litið á þau aftur mörg hver fyrr en núna eftir að bókin kom út."

En var það markmið að senda handrit inn í samkeppnina um verðlaun Tómasar Guðmundssonar?

"Nei, ég vissi ekkert af keppninni fyrr en í apríl á þessu ári. Þá var ég búinn að yrkja obbann af kvæðunum en ákvað að gefa aðeins í og ljúka handritinu og senda það inn. Eftir að ég fékk verðlaunin tók ég tvö eða þrjú kvæði út og bætti öðrum í staðinn svo í allt eru þetta fimmtíu ljóð."

Hann játar að vissulega hafi verið ánægjulegt að fá verðlaunin og þau séu sannarlega hvatning en hvort erfitt verði að fylgja þessari upphefð eftir muni bara koma í ljós. "Þá getur líka vel verið að ég spreyti mig á öðru formi til að forðast samanburð við sjálfan mig," segir hann brosandi að lokum.

 

Við

 
Við settumst að í störfunum
 
árin hlóðu veggi
kringum líf okkar
þykka af endurtekningum
 
við hlustuðum þreifuðum
sóttum sjúkdómsgreiningar
í sólhvítt hof Asklepiosar
ávísuðum betri heilsu og tókum
í þúsund þakklátar hendur
 
en skynjuðum ekki það sama og þeir
gengum ekki slóð þeirra eftir dalnum
heyrðum aldrei krunkið í hrafninum
 
fundum ekki súginn
 
fyrr en dag nokkurn er
(okkur til opinmynntrar undrunar)
við veiktumst sjálfir
 
þá fundum við og heyrðum allt!

"Læknir þarf alltaf að vera að skoða sjálfan sig líka, ekki bara sjúklingana," segir Ari Jóhannesson ljóðskáld og læknir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica