07/08. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Læknar vanmeta áhrif sín

Á þingi norrænna heimilislækna sem haldið var í Reykjavík dagana 14.-16. júní flutti Richard Horton, ritstjóri breska læknatímaritsins The Lancet, þrumandi ræðu um hlutverk og ábyrgð lækna í nútímasamfélagi.

Horton hefur verið ómyrkur í máli í gagnrýni sinni á bresku ríkisstjórnina undanfarin ár fyrir þátttöku landsins í Írakstríðinu og kallað eftir samstöðu breskra lækna um að sýna andstöðu sína við stríðsreksturinn í verki á grundvelliþeirrar staðreyndar að Kofi Annan, þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði stríðið ólöglegt og þjáningar írösku þjóðarinnar vegna stríðsrekstrarins gangi þvert gegn siðferðilegri sannfæringu hvers hugsandi læknis. Eftir Horton liggur allnokkur fjöldi greina um þetta efni.

Horton er sannkallaður eldhugi og hafa skoðanir hans valdið umræðum og deilum en hann er trúr þeirri sannfæringu sinni að læknum beri skylda til að taka þátt í samfélagsumræðunni og taka skýlausa afstöðu til mikilvægra mála er lúta að lýðheilsu og heilbrigði í sem víðustum skilningi.Hann sagði í upphafi samtals okkar að honum hefði þótt mikils um vert að fá tækifæri til að ávarpa svo stórt þing norrænna heimilislækna. „Norðurlöndin eru alþjóðlega viðurkennd sem ein fremstu lýðræðisríki í heiminum og það skiptir miklu að grunnhugmyndir lýðræðisins standi traustum fótum í huga almennings. Þar eiga og geta læknar haft veruleg áhrif.“

Horton hefur einnig tjáð sig í ræðu og riti um fagmennsku í læknastétt og ég bað þvíhann að reifa hugmyndir sínar um þetta efni.

„Samkvæmt hefðinni þá hefur læknum verið innrætt að fagmennska snúist um samskipti þeirra við sjúklinga sína fyrst og fremst. Kjarni þeirra samskipta snýst um hugtök eins og samkennd, heiðarleika, hreinskilni, köllun, en ég hef kallað eftir öðrum þáttum fagmennsku sem snúa að öðrum hlutum. Þar á ég við hlutverk lækna í samfélaginu og faglega skyldu þeirra til að meta siðferðilegt ástand þjóðfélagsins og hvernig landsstjórnin stýrir landinu. Læknar sem bera ábyrgð á heilsu þegnanna fyrir hönd ríkisins geta staðið frammi fyrir því að landsstjórnin er að svíkja hagsmuni landsmanna sinna og stefnir í einhverja þá átt sem teljast verður siðferðilega röng. Ef við hugsum okkur öfgakennt dæmi þar sem einræði yrði skyndilega komið á hér á Íslandi þá væri það á ábyrgð margra hópa innan þjóðfélagsins að stinga við fótum og segja hreinlega: Nei! Þetta er rangt og við viljum ekki einræði. Það sem ég á við er að í öllum tilfellum þar sem siðferðiskennd okkar er misboðið þá eiga læknar að segja nei.“

Í ávarpi þínu til norrænna heimilslækna lagðirðu áherslu á hugtökin réttlæti og sanngirni.

„Og einnig á jafnræði. Ég trúi því að allir eigi að njóta jafnræðis til heilbrigðs lífs við fæðingu. Sumt ójafnrétti verðum við þó að þola einsog til dæmis þá staðreynd að konur lifa lengur en karlmenn og því tel ég að jafnræði sé betra sem félagslegt markmið en jafnrétti í þessum skilningi.“

Læknar hafa misjafnar stjórnmálaskoðanir ekki síður en annað fólk og er því ekki allt eins líklegt að þeir verði ósammála um félagsleg og pólitísk markmið?

„Það er alveg rétt að þeir hafa ólíkar skoðanir á þessum málum og ég er að tala um jöfnuð og réttlæti í sem víðustum skilningi. Stjórnmál byggjast á umræðum og rökræðum til að ná samkomulagi um sameiginleg markmið. Rödd lækna er mjög mikilvæg í því að hafa áhrif á mótun þessara markmiða. Við eðlilegar aðstæður reynir kannski ekki svo mjög á þetta en þegar upp koma aðstæður sem valda því að ríkisstjórnir bregðast við á öfgakenndan hátt þá þarf að halda vöku sinni. Í Bretlandi og Bandaríkjunum hefur á undanförnum misserum verið gengið mjög langt í því að hefta einstaklingsfrelsið og réttlætingin hefur verið hið svokallaða Stríð gegn hryðjuverkum; þarna er um að ræða réttindi sem hefur tekið þegnana áratugi ef ekki aldir að ná fram. Við svo andlýðræðislegum ákvörðunum bera læknar faglega ábyrgð áþví að segja nei.“

Hvernig leggur þú til að læknar geri þetta?

„Í fyrsta lagi þurfa þeir að tjá skoðanir sínar en égtel að læknar séu alltof oft þögulir um mikilvægustu málefni samtímans. Þetta geta læknar gert með greinaskrifum og öðrum hætti hvar og hvenær sem þeir sjá tækifæri til. Ekki síður mikilvægt er að samtök og stofnanir innan læknastéttarinnar tjái skoðun sína opinberlega. Samtökin eru of upptekin af eigin hagsmunum og hugsa lítið um annað en samninga sína við hið opinbera og hvernig afla eigi meiri fjármuna til starfseminnar. Stofnanir og félög innan læknastéttarinnar eru ekki einungis stéttarfélög heldur eiga þau að líta á sig sem framverði réttlætis og jöfnuðar í samfélaginu. Ef læknar gæta ekki að jöfnuði hver gerir það þá?“

Hvernig verður þetta samræmt við hugmyndir um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu og tilhneigingu í þá átt að þeir sem mest hafi efnin njóti forgangs og fái bestu þjónustuna?

„Umræðan hefur þróast í þá átt að heilsa sé vara sem hægt er að kaupa og selja og að læknar búi yfir kunnáttu sem einnig megi kaupa og selja. Það er mjög erfitt að breyta þessu og við verðum að skoða þetta frá tvöföldu sjónarhorni. Í fyrsta lagi er gríðarlega mikilvægt að opinber umræða fari fram um þær breytingar á heilbrigðiskerfinu sem eiga sér stað en í öðru lagi er jafnmikilvægt að muna að hlutverk lækna er að gæta hagsmuna almennings í gegnum þessar breytingar. Þannig mega breytingar sem ganga í þá átt að einkavæða heilbrigðisþjónustu ekki verða til þess að læknar gleymi þeirri grundvallarskyldu sinni að veita þeim fátækustu og afskiptustu í samfélaginu jafngóða læknisþjónustu og þeim sem betur eru settir.“

Eru læknar kannski komnir í þá stöðu að vera hámenntaðir tæknimenn fremur en sú siðferðilega rödd réttlætis og jöfnuðar sem þú kallar eftir?

„Alltof margir læknar líta þannig á sig en þó er enn alvarlegra að stjórnvöld vilja mjög gjarnan líta þannig á lækna og telja sér best borgið með þá í þeirri stöðu. Læknar eru mjög ógnvekjandi hópur fyrir stjórnvöld og því kemur þeim best ef læknar tjá sig ekki opinberlega um neitt sem snertir samfélagsleg málefni. Ástæðan er sú að læknar njóta almennrar virðingar, þeir búa yfir mjög mikilli og sérhæfðri þekkingu, það er hlustað á þá þegar þeir tjá sig en í þessum efnum hafa læknar stórlega vanmetið möguleg áhrif sín. Með því að einkavæða heilbrigðisþjónustu eru stjórnvöld að ýta læknum enn lengra út á kantinn í þjóðfélagsumræðunni og draga úr mikilvægi hlutverks þeirra í að viðhalda þeim félagslega samningi sem verður að vera í gildi milli þegnanna og stjórnvalda á hverjum tíma.“

Finnst þér að leggja ætti meiri áherslu á siðferðilega og mannlega þáttinní menntun lækna?

„Ég get að sjálfsögðu ekki svarað því hvernig menntun lækna á Íslandi er háttað hvað þetta varðar en sannarlega í öðrum Evrópulöndum þar sem ég þekki til er þessu verulega ábótavant og áherslan á tæknilegan og vísindalegan þátt læknisfræði er á kostnað annarra þátta. Læknisfræði byggir á vísindalegri þekkingu en hún er jafnframt annað og miklu meira. Læknisfræði snýst um sjónarhorn á umheiminn. Læknisfræði snýst um siðferðilega og heimspekilega sýn okkar á veröldina. Læknisfræði er miklu víðari vísindagrein en svo að rannsóknarstofuvísindin eigi að hafa þar þá yfirburðastöðu sem þeim hefur hlotnast á undanförnum árum. Það eru mistök.“

Þú hefur tjáð andstöðu þína við stríðsreksturinn í Írak og skrifað greinar í The Lancet um þetta efni. Í hverju er andstaða þín fólgin?

„Lancet er læknisfræðilegt rit og stefna okkar er að birta niðurstöður rannsókna í læknavísindum. Þegar niðurstöðurnar eru sannfærandi og studdar vísindalegum rökum þá fylgjum við þeim eftir og styðjum þær í forystugreinum. Í þessu tilfelli þá birtum við tvær rannsóknarniðurstöður frá hópi lækna við John Hopkins sjúkrahúsið þar sem sýnt var fram á með óyggjandi rökum að dánartíðni meðal írasks almennings hafði hækkað skelfilega frá því innrásin var gerð 2003. Í mínum augum er það eðlilegt skref fyrir ritstjóra Lancet að fylgja þessum niðurstöðum eftir og vekja athygli á þeim. Það er enginn munur á því í mínum augum að vekja athygli á rannsókn sem sýnir fram á að tiltekið lyf hefur ákveðna verkun og að vekja athygli á því hvað þessi ólöglegi stríðsrekstur hefur haft hryllileg áhrif á heilsufar og lífslíkur heillar þjóðar. Hér ættu læknar, læknasamtök og stofnanir þeirra að tjá sig og síðan spyrja í framhaldinu hvað þeir geti gert til að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda. Kannski ættu læknar að hafna samstarfi við stjórnvöld þeirra landa sem taka þátt í Írakstríðinu. Afstaða lækna gæti verið að sinna sjúklingum eins og þeim ber en hafna að öðru leyti samstarfi við stjórnvöld sem standa í ólöglegum og villimannslegum stríðrekstri með þessum afleiðingum fyrir heilsufar heillar þjóðar.“

„Norðurlöndin eru alþjóðlega viðurkennd sem ein fremstu lýðræðisríki í heiminum og það skiptir miklu að grunnhugmyndir lýðræðisins standi traustum fótum í huga almennings. Þar eiga og geta læknar haft veruleg áhrif“, segir Horton ritstjóri The Lancet.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica