04. tbl 93. árg. 2007

Fræðigrein

Ávarp Vísindaþingsins

- Verið velkomin á sameiginlegt vísindaþing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands

Það er okkur sérstök ánægja að kynna 9. sameiginlega ársþing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands. Þingið verður haldið í nýuppgerðum salarkynnum Hótel Sögu og hátíðarsal Háskóla Íslands. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning þess. Auk stjórna félaganna hefur ráðstefnufyrirtækið Congress Reykjavík haft með höndum skipulag þingsins. Samstarfið við Congress Reykjavík hefur verið sérlega ánægjulegt og vonandi hefur okkur tekist að þróa þingið áfram til hins betra. Nýbreytni í ár er að við báðum þátttakendur að skrá sig fyrirfram eða við upphaf þingsins. Skráningargjaldi er stillt í hóf (1000 kr) og læknanemar, unglæknar og hjúkrunarfræðingar greiða ekki þátttökugjald. Í ár koma háls-, nef- og eyrnalæknar auk bráðalækna að skipulagningu þingsins sem vonandi á eftir að auka aðsókn. Einnig vonumst við til að sjá sem flesta kvensjúkdómalækna á þinginu, enda handlækningar stór hluti af starfi margra þeirra. Þingið í ár er óvenjustórt í sniðum, enda á Skurðlæknafélagið 50 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni verður hátíðardagskrá í hátíðarsal HÍ eftir hádegi á laugardeginum. Þar verða stutt ávörp og mun sérstakur gestur þingsins, prófessor Bill Heald, sem er heimsþekktur fyrir skurðaðgerðir á ristli- og endaþarmi, halda heiðursfyrirlestur. Boðið verður upp á málþing um ýmis efni innan skurð-, svæfinga- og gjörgæslulækninga. Þar má nefna nýjar áherslur í vökvameðferð kringum aðgerðir, notkun sogsvamps við skurðsýkingar, meðferð vélindarofs, málþing um greiningu og meðferð andlitsáverka og hvort víkka eigi út gjörgæslumeðferð á legudeildir. Til landsins hefur verið boðið 9 erlendum fyrirlesurum sem munu leiða málþingin sem haldin verða á ensku. En á þinginu verður ekki einungis boðið upp á hreina læknisfræði. Til dæmis mun Haraldur Örn Ólafsson, Everest- og pólfari, flytja fyrirlestur um síðasta áfangann á Everestfjall. Haraldur er áhugamaður um háfjallalæknisfræði og mun segja frá baráttu sinni við kulda og háfjallaveiki við þessar gríðarlega erfiðu aðstæður. Enginn ætti að missa af þessu erindi Haraldar en auk hæsta fjalls veraldar hefur hann lagt að velli alla sjö hæstu tinda hverrar heimsálfu að ógleymdum bæði suður- og norðurpól!

Einn mikilvægasti hluti þingsins er kynning á vísindavinnu. Í ár bárust hátt í 80 erindi sem er umtalsvert meira en á fyrri þingum. Ánægjulegt er að sjá hversu mörg erindi bárust frá læknanemum og unglæknum í sérnámi. Flest ágripanna verða kynnt með stuttum erindum en tæpur þriðjungur sem veggspjöld. Veggspjaldakynning er því fyrirferðarmeiri en á fyrri þingum. Gengið verður milli veggspjaldanna á föstudag, höfundar kynna þau stuttlega og standa síðan fyrir svörum. Með þessu móti vonumst við til að hleypa auknu lífi í umræðurnar og auka fjölbreytni á þinginu.

Önnur nýbreytni er að þrjú bestu erindi ungra vísindamanna munu keppa til verðlauna. Sérstök vísindanefnd félaganna fékk það verkefni að velja þrjú erindi af þeim sem send voru á þingið. Öll ágrip ungra vísindamanna á þinginu koma til greina þegar verðlaunað verður best flutta erindið og/eða kynning veggspjalds.

Þinginu lýkur með fordrykk og þríréttuðum hátíðarkvöldverði í Súlnasal Hótel Sögu. Þar verða skemmtiatriði og lifandi tónlist og nýir heiðursfélagar sæmdir heiðursviðurkenningu. Að loknum kvöldverði munu Bogomil Font og hljómsveitin Flís halda uppi stuði á dansgólfinu í suðrænum anda kalypsó-tónlistar. Á dansleikinn (kl. 22.30) hafa félögin boðið unglæknum og læknanemum á 4., 5. og 6. ári. Hugmyndin er sú að tengja saman (utan skurðstofu og gjörgæslu) eldri, yngri og verðandi kollega.

Fyrir hönd Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands viljum við sérstaklega þakka öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrkt hafa þingið. Gunnhildur Jóhannsdóttir deildarstjóri fær þakkir fyrir frábær störf við skipulagningu vísindahluta þingsins, einnig Læknafélag Íslands og starfsfólk Læknablaðsins fyrir ómetanlega aðstoð við undirbúning þingsins.

Stjórn Skurðlæknafélags Íslands

Tómas Guðbjartsson, formaður

Helgi H. Sigurðsson, varaformaður

Þorvaldur Jónsson, ritari

Fritz Berndsen, gjaldkeri

Hulda Brá Magnadóttir, meðstjórnandi

 

Stjórn svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands

Sigurbergur Kárason, formaður

Felix Valsson, varaformaður

Hildur Tómasdóttir, ritari

Kári Hreinsson, gjaldkeri

Guðmundur Klemenzson, meðstjórnandi



Þetta vefsvæði byggir á Eplica