02. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Ávarp á Læknadögum 2007

- Ávarp Frú Vigdísar Finnbogadóttur við opnun Læknadaga 2007

Virðulega samkoma!

Fyrst af öllu vil ég votta læknastéttinni aðdáun mína. Eins og aðrir í þjóðfélaginu er ég einarður aðdáandi lækna, þekkingar þeirra og visku - en vil reyndar strax taka það fram að ég er svo lánsöm að vera við svo góða heilsu að ég kann enga nýlega brandara af skiftum mínum við þessa stórmerku stétt. Nema þá kannske eina lungnabólguskruggu, sem mér var galvasklega bjargað út úr af blíðum og laglegum læknum, - það eru allir læknar svo laglegir og fríðir þegar maður er veikur, og á sterkasta minningu um það ævintýri að ég var í hita-fantasíu í óða önn farin að endurbyggja bókasafnið í Alexandríu, sem brann til kaldra kola með allri visku heimsins árið 390. Og geri aðrir betur á bráðavaktinni. Til allrar hamingju höfðu sérfræðiningar í öðru að snúast en að veita athygli þessum mjög svo háleitu verkefnum mínum, - það urðu bara vesalings ættmennin að styðja mig í þeim flóknu byggingaframkvæmdum.

Þá verður hér í upphafi máls að vera á dagskrá að þakka þá sæmd að vera boðið að taka til máls sem leikmaður á Læknadögum. Mér skilst að ég eigi þann heiður því að þakka að menn vöknuðu upp við þá hæpnu staðreynd, að fram að þessu hafði engin kona verið beðin að tala við svo ágætt tækifæri. Og um það efni má segja: ég hefi komið hér áður, það hefur oftar en ekki komið fyrir á mínum ferli að menn hrukku við og spurðu: hvar er kvenröddin - og hringdu í mig.

Og er það nú í góðu lagi. Síðan kom tilboð frá Læknadögum sem lítur ósköp vel og sakleysilega út. Mér var gefið fullt frelsi: þú mátt tala það sem þér sýnist, um hitt og þetta - eins lengi og þú vilt. En hvað er hitt og þetta, spurði ég viðmælandann og svarið var: vertu bara eins og þú ert! – sem ég sjálf hef auðvitað enga vísindalega yfirsýn yfir, sem hæfir svona lærðum selskap og hér er saman kominn.

Þetta frelsi er sem sagt ekki eins notalegt og menn kynnu að halda. Hvað þýðir að tala „lengi“ og hvað er þá að tala „of lengi“, t.d. þegar ekki kemur á það símreikningur?

Einu sinni var ég beðin um að opna Bændaþing og hélt það yrði svosem fimm mínútna spjall, „komiði sælir bændur, það er okkur mikill fengur að þið skulið hittast hér í þéttbýlinu til að ræða framleiðslu á lambakjöti og smjöri og ræktunar-möguleika á nýju kúakyni frá Noregi. Mér það ljúft að lýsa hafinn þennan aðalfund Bændasamtakanna“. Til vonar og vara spurði ég hve lengi ég ætti að messa. Þeir sögðu „helst ekki meira en 45 mínútur“. Svo lengi ætla ég ekki að níðast á þolinmæði ykkar, róleg getið þið setið þess vegna. En stóra spurningin er hvað er að tala um „hitt og þetta“ - fór ég að hugsa vegna þess að allt sem varðar tungumál og „orðavalsvanda“, sem vinur minn Þorsteinn heitinn Gylfason kallaði svo, er mér jafnan hugstætt og þá um leið að reyna að skilgreina orð og orðatiltæki. Jón Friðjónsson hefur það ekki í Merg málsins, svo ég snéri mér að öðru orðatiltæki: hvað skyldi það vera að tala um daginn og veginn - hvaða vegur er það? Laugavegurinn eða Vegurinn og lífið eða Vegurinn sem kínverski spekingurinn Laó Tse fetaði til visku áður fyrr? Og undir degi, en ekki vegi, komst ég nú heldur betur í feitt hjá Jóni. Þar segir orðrétt: tala/ræða/spjalla um daginn og veginn ræða málefni líðandi stundar; ræða (almennt) um eitt og annað (sem manni liggur á hjarta). – ‘Við ræddum ekkert sérstakt, töluðum bara um daginn og veginn. – Hún flutti erindi um daginn og veginn’ – Elstu dæmi um svipað orðafar eru ana áfram daginn og veginn ‘æða áfram lengi og stefnulaust’ (s19 (OHR) og var nú allt viðtal þeirra daginn og veginn (s19 (Þús III, 122)) en nútímamyndin er frá upphafi 20. aldar (OHR). Líkingin er óljós en orðatiltækið á trúlega rætur sínar að rekja til dönsku: have lige til dagen og vejen sem vísar til nauðþurfta líðandi stundar (NDO 1048).”

Þá vitum við það. Við ættum raunverulega að vera að tala um þorramat þegar við erum að spjalla um daginn og veginn.

Svona orðatiltæki á íslensku og reyndar í öllum málum geta vafist fyrir þeim sem þurfa að koma einu máli yfir á annað mál. Hvað skyldi t.d. „hitt og þetta“ vera á öðrum málum? Ditten og datten kannski á okkar fyrstu útlensku, dönskunni. Stundum eru vinir mínir í útlöndum sem eru að þýða úr íslensku að hringja í mig og spyrja um ólíklegustu hluti. Allt í einu eru þeir í vandræðum með orðin „rétt handan við bæinn“ – hvað er það langt frá bænum eða þá að þeir vita ekki hvar maður er staddur þegar hann er kominn „niður undir lækinn“. En alltaf eru orðaglímur skemmtilegar. Góður vinur minn, málsnjall þýðandi úr íslensku á ensku, sagði mér að hann hefði lengi legið yfir Klementínudansi sem sunginn er þindarlaust á útflytjendaskipi í Paradísarheimt Halldórs Laxness:

Litla smáin lofi fáin,

lipurtáin gleðinnar,

ertu dáin út í bláinn

eins og þráin sem ég bar.

Hvernig í ósköpunum átti að þýða þetta á ensku? Þarna kvaldist þýðandinn yfir óleysanlegum vanda - þar til allt í einu rann upp fyrir honum ljós: hann hafði í rauninni alltaf vitað hvað við var átt: þetta var leikur Halldórs Laxness að Oh my darling Clementine.

Oh my darling, yes my darling, oh my darling Clementine . . .

Tungumál, orðavalsvandinn - allt er það spenn-andi vegna þess að „oft má af máli þekkja, mann-inn hver helst hann er“ - eins og skáldið segir. Við tökum til máls og komum um leið upp um það, hver við erum og hvaða afstöðu við höfum til annarra manna og fyrirbæra heimsins um leið.

Nú er að þrengja sviðið og spyrja: hvað láta læknar uppi um sjálfa sig þegar þeir taka til máls. Ég læt mér detta í hug að oft hafi þeir átt í vand-ræðum með að segja og nefna hluti á íslensku, á eigin máli. Þeir hafa í farteskinu læknalatínuna sem nefnir parta líkamans og sjúkdómana með þeirri afdráttarlausu nákvæmni sem læknar verða að hafa í samskiptum hver við annan. Ég kom lítillega að þessu sem barn þegar ég svaraði í síma fyrir móður mína sem var formaður Hjúkrunarfélagsins Líknar, sem tók við pöntunum um heimahjúkrun, og ég nóteraði samviskusamlega niður í bók beiðnir um eitthvað sem mér fannst heita „clysma“ (á sennilega að vera clyster eða hvað? það segir franskan a.m.k.), sem ég seinna komst að væri stólpípa, en átti í meiri vandræðum með að sinna þyrfti sjúklingi sem væri með „ulcus ventriculi“; kannski veit ég ekki hvað það er enn þann dag í dag. Ég kann betur latneska talshætti eins og nemo saltat sobrius - aldrei dansar neinn ófullur - þó ég trúi því nú varla á Rómverja að þeir hafi farið sérstaklega eftir því, eða þá degustibus non disputandum aldrei er hægt um smekk að deila, og er mikil viska.

Læknar þurfa að tala sín í milli - og þeir þurfa að tala við sjúklingana og almenning. Og þá kemur að þeim ágætu möguleikum íslenskrar tungu sem tengjast því að við eigum öfluga hefð fyrir því að mynda orð sem eru gagnsæ, sem leiða þann sem heyrir þau í fyrsta sinn áfram til skilnings á fyrir-bærinu. Það er vissulega allt annað fyrir okkur að átta okkur á tæki eins og barómeter þegar það hefur verið nefnt loftvog í okkar ungu eyru, hvert barn skilur hvað átt er við.

Það hefur verið fagnaðarefni, hve duglegir íslenskir raunvísindamenn hafa verið við að smíða orð yfir allt sem að þeirra fræðum snýr - og ekki síst verkfræðingar og læknar.

Vilmundur Jónsson landlæknir var til dæmis stórsnjall orðasmiður. Man nokkur nú að það var hann sem bjó til orðið „tandurhreinn“ um pýrogenfrítt vatn? - frábært orð sem lagði síðan í langt og skemmtilegt ferðalag út úr sérfræðinni og til sterkrar áherslu á það sem alhreint er. Allir muna auðvitað að það var þessi orðsnjalli landlæknir sem skáldaði upp veiruna, á meðan Sigurður Nordal sem við skulum hér kalla lýtalækni erlendra slettuorða fann upp tölvu-orðið fyrir PC-ið og lét það ríma við hina dularfullu völvu, - og nú getum við tengt öll möguleg orð við orðið tölva, tölvu-leikir, tölvunámskeið, eða tölvu-idjót. Það vildi ég óska að það hefði verið búið að finna upp i-pod-ið í tíð Vilmundar eða Sigurðar Nordal – okkur vantar svo gott orð yfir i-pod. (Og kannske er nú reyndar búið að því, þótt mér hafi ekki borist það til eyrna). Það eru alveg gríðarleg skilaboð í orðum ef þau eru góð ég tala nú ekki um ef um tækni er að ræða.

Orðavalsvandinn er margskonar. Hann snýr að því, hvað hlutirnir eiga að heita, og hann snýr að samhengi hlutanna. Við vitum að á okkar sérhæf-ingartímum er það mikil freisting að festa sig í tiltölulega lokuðum málheimi ákveðinna starfs-stétta - eins og unglingarnir festast í sínu slangi. Hvort sem að baki er meðvitaður tilgangur eða ekki þá verður niðurstaðan svipuð: öðrum er haldið fyrir utan umræðuna og samskiptin – „þið skiljið okkur ekki“, þið sem ekki eruð unglingar eða lögfræðingar eða hagfræðingar. Og þegar öðrum er haldið fyrir utan samtalið þá erum við komin í vafasamt valdatafl fyrr en varir. Sem er stundum spaugilegt. Eins og við sjáum á fjöldamörgum dæmum um það að menn leggja stóra lykkju á leið sína til að vera sem allra tyrfnastir í málfari. Hér er eitt dæmi sem að mér barst um daginn: - um viðgerðaráætlanir í fjölbýlishúsi:

„Enda þótt enn geti brugðið til beggja vona um tímatafir og málalyktanir telur stjórnin tímabært að hefja umhugsun og undirbúning að þeirri umgjörð félagslegrar, tæknilegrar og fjárhagslegrar stjórnunar sem koma þarf upp til að valda því vandasama verkefni sem verða mun framundan.“

Þetta hljómar eins og áform um nýja Kárahnjúkavirkjun að minnsta kosti, en þetta er nú ekki annað en saklaus orðsending til meðlima í húsfélagi hér í bæ. En það er hámenntaður sérfræðingur sem hana skrifar.

Ég efa ekki að þið kannist öll mætavel við skyld dæmi úr ykkar starfi og málnotkun ykkar kollega. Á bak við þessar málfarsæfingar er ekki endilega gikksháttur, vitaskuld, -það skiljum við líka. Það er svo margt nýtt að gerast. Allt hefur alltaf verið á sama stað í mannslíkamanum sem þið rýnið í, en menn sjá alltaf lengra inn í líffærin og greina smærri einingar og finna alltaf ný og ný sambönd efna og það er stundum ekki nokkur leið að hafa við að smíða þau orð sem þarf um allt sem sést og verður til. Og mörgfyrirbæri eru svo sjaldgæf að þau komast aldrei út fyrir samskipti milli læknanna sjálfra.

En við skulum nú samt gá að þessu hér: Það er í okkur flestum - læknum og heilbrigðisstétt- um sem öðrum - ákveðin togstreita. Annars vegar tilhneiging til að nota lokað mál sem vísar inn á við, til dæmis með því að læknar hristi saman latínuheiti, enskuslettur, spítalaslang og fleira. Og svo hins vegar hin góða barátta: að vilja tala skýrt og með gagnsæjum íslenskum orðum um hvaðeina svo aðrir viti og skilji. Hið síðarnefnda er tengt metnaði sjálfstæðisbaráttunnar á sínum tíma, metnaði sem síðar varð mikils ráðandi í stefnu háskólamanna sem vildu gera allt og tjá allt á íslensku, sem auðvitað er ekki hægt frá degi til dags í kapphlaupi við hraðann í framförum í vísindum og heimsvæðinguna, sem kallar á tals- verðan lærdóm í tjáningu á öðrum tungumálum. (Alltaf kemst ég fyrr eða síðar að uppáhalds- áskorun minni: lærið tungumál, lærið fleiri tungu-mál en bara ensku, það er aðeins hinn enskumæl-andi heimur sem hugsar á ensku, og það er svo flott að skilja og tala önnur tungumál og það er virðing við menningu þeirra þjóða sem nota þau). Svo þarf í okkar dæmi einnig að muna, að um leið og læknar eru með nokkrum hætti hafnir á stall í samfélaginu þá eru þeir í nánari samskiptum við annað fólk en flestir aðrir sérfróðir menn og vís-indalega þjálfaðir - og þurfa að finna sameiginlegt tungutak við allan almenning.

Allt þetta leiðir hugann „að hinu og þessu“ eins og sagt var í upphafi. Til dæmis að stöðu lækna í samfélagi og að því, hvernig þeir og aðrir bregðast við þeirri stöðu.

Sumir segja að læknar séu aristókratar nútímans, einskonar aðall - sem um leið er í afar nánu sambandi ekki aðeins við aðra höfðingja heldur og alla alþýðu - en slíkt gerðist ekki áður hjá aristókrötum nema einhver þeirra yrði skotinn í alþýðustelpu og kippti henni innfyrir dyr á kastal- anum sínum.

Sumir segja: læknar eru háklerkar nútímans eftir að samfélagið sekúlariseraðist (sletta!) - það er til þeirra sem menn snúa sér í vanda sem tengist lífi og dauða. Frásagnir og bókmenntir heimsins minna okkur að sönnu á að menn hafa alltaf haft tilhneigingu til að hafa tröllatrú á læknum. Líka á þeim tímum þegar þeir vissu á okkar mælikvarða lítið sem ekki neitt - eins og skáld á borð við Moliére og Holberg gerðu óspart gys að í gamanleikjum um ímyndunarveika menn og fláráða skottulækna. En tröllatrúin á lækna hefur vaxið - bæði vegna þess að læknavísindum hefur fleygt fram, þau standa svo miklu betur undir stórum væntingum en áður - og svo vegna þess að öðrum stéttum hefur hrakað sem leiðbeinendum í stórum vanda. Ég á við efahyggjuna, við það að víða hafa klerkar kirknanna misst tiltraust og þá skapast tómarúm og natura vacuum abhorret (latínusletta fyrir sérhæfða áheyrendur) náttúr- unni geðjast lítt að tómi, og læknar eru látnir fylla það, áhrifasvið þeirra stækkar og stækkar ? hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Þetta ástand byrjar kannski seint á 19. öld. Þá komast læknar mjög í tísku með bjartsýnni og bláeygri vísinda- og framfaratrú. Mörgum þótti sem þessu fylgdi ofmat á læknavísindum. Altént fannst mörgum læknar orðnir svo fyrirferðarmikl-ir að nauðsynlegt væri að bregðast við og „taka þá til umræðu“ eins og Brandes kvað. Gaman að skoða hvað hin ýmsu stórskáld tímans höfðu til þessara mála að leggja. Rússneski sagnameistarinn Tolstoj í fer í sögunni um Dauða Ivans Ivanovits með afar grimma ádrepu á lækna, sem vilja ekki sjá að hér er maður að deyja með harmkvælum heldur halda uppi kaldrifjuðum deilum um það hvort það sé ristillinn eða nýrað. Og þetta er svo sem ádrepa sem oft hefur verið ítrekuð síðan, líka af þeim læknum sem best hafa haldið á penna. Aðrir rithöfundar voru svo mun jákvæðari en Tolstoj í garð lækna. Til dæmis leikskáldin Ibsen og Tsjekhov (sem var sjálfur læknir), - læknirinn í leikritum þeirra er ekki þangað kominn til að glíma við sjúkdóma, hann er traustur og raunsær vinur einhverrar aðalpersónu sem á í kreppu og siðferðilegum vanda. Þarna sjáum við mjög aðlaðandi mynd af lækni sem húmanista: læknir er sá sem sér langt út fyrir sín fræði, en læknisfræðin gerir honum um leið fært að sjá samhengi ekki aðeins milli líffæra heldur og milli tilfinninga og milli persóna. Mannþekkingin hefur reyndar gert fleiri lækna að skáldum en Rússann Anton Tsjekhov - Rabelais hinn franski var læknir, þýska skáldið Schiller lærði til herlæknis, og þeir voru læknar Rússinn Bulgakov, þýska skáldið Gottfried Benn, og franska ljóðskáldið Aragon, - Cronin var læknir og eilítið gagnrýnin á lækna, meira að segja höfundur Sherlock Holmes, Arthur Conan Doyle var læknir. Sem minnir líka á það að læknar hafa ekki barasta búið um sig í hámenningunni, þeim hefur líka verið komið kyrfilega fyrir í allskonar dagurbókmenntum. Læknar eru ekki bara sá góði Watson, sambýlismaður Sherlock Holmes. Þeir eru hinn fagri og trausti bjargvættur og draumaprins í þúsund og einni ástarsögu sem gerast á spitölum og heilsuhælum. Þeir eru drjúgur partur af brjálaða vísindamanninnum sem leikur lausum hala í hroll-vekjum og framtíðarsögum og gerir sig líklegan til að koma mannkyninu fyrir kattarnef eins og það leggur sig. Og eins og vænta mátti koma þeir næst á eftir rannsóknarlögreglumanninum snjalla sem nauðsynleg driffjöður í endalausum sjónvarpsþáttum um hverskyns mannamein.

Já, læknar eru fyrirferðarmiklir hvert sem litið er, á þeim standa mörg spjót forvitni og aðdáunar. Það er sem sagt draumur að vera læknir og auðvitað draumur líka að verða læknir. Ég segi fyrir mina parta: læknar eru yfirleitt ákaflega geðþekkt fólk, ég held ég hafi ekki kynnst nema skínandi skemmtilegum mönnum, körlum og konum, sem bera starfsheitið læknir. Þeir „finna hvað á spýtunni hangir“ eins og móðir mín komst stundum að orði. Þeir vita að „í maga vorum býr mestur dugur/mannvit í görnum líka“ eins og segir í Íslandsklukkunni. Ég hefi alltaf kunnað vel við það að meðal þeirra hefur verið vel virk sterkari húmanísk hefð og breytni en við ættum kannski von á - og þar með tek ég fúslega undir túlkun og skilning leikhúsmanna eins og Ibsens og Tsjekhovs á læknum. Enda hlýtur það líka að vera okkur óskhyggja að vísindi og mannhyggja nái sem best saman. Án húmanisma geta menn ekki verið - án hans og þeirra mannlegu samstöðu og yfirsýnar sem hann gefur er hætta á því, að þótt tæki batni og stórmerkileg lyf finnist - þá verði allur árangur mjög í skötulíki ef gróði einn og valdshyggja ræður ferð.

Eins og ég sagði í byrjun þessa máls þá fylgdi ég því ráði að tala bæði um hitt og þetta - og nú er að spyrja: er nokkur leið til þess að draga megi saman þræðina í þessu spjalli sem svo mjög hefur farið bæði út og suður? Hvað hefi ég eiginlega verið að tala um? Ég sagði áðan að það eru gerðar margar kröfur á lækna. Það standa á þeim mörg spjót. Þeim er lyft hátt á stall. Það eru gerðar til þeirra ótal kröfur sem kannski reka sig hver á annarar horn. Þeir eiga að vera svo ótal margt í senn. Þeir eiga að vera öflugir sérfræðingar - en um leið eiga þeir að sjá langt út fyrir sérfræðina og hafa heildarsýn í betra lagi en aðrir menn. Þeir verða að gæta sín á hroka vísindanna og vita að háskaleg getur sú valdastaða verið sem fylgir óttanum við dauðann og oftrú alþýðu á möguleik-um þeirra. Þeir verða líka stundum að glíma við vantrú á starfi og möguleikum lækna, það er að sjálfsögðu líka til. Allt getur snúist upp í stórvanda þegar að tilveru og starfi lækna kemur. Og þá eins gott að glata hvorki jarðsambandi, ábyrgðartilfinningu, né heldur þeirri sjálfsgagnrýni sem bæði læknar og skjólstæðingar þeirra þurfa að sinna bæði í gamni og alvöru.

Sumar kannanir virðast benda til þess að í löndum sé algeng þrískipting mannfólksins eftir afstöðu manna til lækna. Einn þriðjungur getur aldrei látið lækna í friði með sínu kvabbi. Annar þriðjungur vill svo aldrei við lækna tala og sem minnst af þeim vita og mér er sagt að meðal þeirra séu ansi margir karlmenn. Sá þriðjungur sem þá er eftir - það eru þeir sem hafa vit á að leita í hæfilegum mæli til lækna. Við skulum vona, allra okkar vegna, að sú miðja stækki jafnt og þétt á kostnað jaðarhópanna.

Vilmundur Jónsson landlæknir varaði einhverntíma við því að læknar lifðu og hrærðust í sjúkdómum - helst vildi hann að þeir væru eins-konar varðliðar heilbrigðisins. Kannski færi best á því að læknar eigi sé það markmið sem á að vera tilgangur allra slökkviðliðsmanna - að það sé engin þörf fyrir þá, þeir verði óþarfir. En þeir séu samt á sínum stað. Þetta er að vísu óframkvæmanlegt eins og hver maður getur séð - því menn eru ekki hús, það er ekki veruleg eldhætta nema í sumum húsum en við mannsskrokkar erum öll brothætt. En það sakar þó ekki að setja sér flott markmið og skemmtileg á nýju ári og á nýbyrjuðu árþúsundi.

Til hamingju með tilveruna, læknar.

(P.S. Læknar á Læknadögum bentu mér á að komið er íslenskt orð fyrir i-podið = tónhlaða. Skyldi það festast?)

 

Gerður Gröndal, Arna Guðmundsdóttir og Þórgunnur Ársælsdóttir.

Þórður Harðarson og Tómas Helgason.

Hjónin Haukur Hjaltason og Þóra Steingrímsdóttir sem er í ritstjórn Læknablaðins.

Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri LÍ, Tómas Zoëga og Margrét Georgsdóttir.

Víkingur Arnórsson og Tómas Helgason.

Felix Valsson og Bjarni Torfason.

Lokaatriði Læknadaga var undir stjórn Gunnars Guðmundssonar, Ólafs Samúelssonar og Ásmundar Jónassonar, klassísk spurningakeppni þar sem spekingar svöruðu því m.a. hver væri líklegastur af jólasveinunum til að fá HIV og hversu mörg börn Barbapapi ætti. Þegar nóg var spurt var farið í æsilegt reiptog!

Ólafur Skúli Indriðason, Michael Clausen og Sigrún Hjartardóttir.

Samúel J. Samúelsson, Kristján Sigurðsson, Einar Hjaltason og Ásgeir Theodórs.

Magnús Ásmundsson og Halldóra Ólafsdóttir.

Davíð O. Arnar og Karl Andersen sem er í ritstjórn blaðsins.

Geir Gunnlaugsson og Sigrún Gunnarsdóttir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica