02. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Lögleysa leidd í lög

Menn lágu ekki á skoðun sinni á frumvarpi til heilbrigðisþjónustu á fundi Læknafélags Reykjavíkur þann 17. janúar sl. Fundu menn frumvarpinu flest ef ekki allt til foráttu og þegar einn mælenda tók svo til orða að ekkert væri gott við frumvarpið nema fyrsta greinin gall samstundis við úr salnum: Fyrsta greinin er ekki góð heldur!

Til fundarins var boðið öllum læknum á landinu og var hann fjölsóttur en auk lækna sátu fundinn nokkrir þingmenn úr heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis. Nefndin hefur frumvarpið nú til umfjöllunar og mátti heyra á þingmönnum sem tóku til máls á fundinum að þeim væri ljóst að mikil andstaða væri við frumvarpið meðal lækna, ekki síst lækna á Landspítala, og væntanlega yrði tekið tillit til þeirrar óánægju við endurskoðun frumvarpsins áður en það verður lagt fram í þinginu síðar í vetur. Er talað um að frumvarpið eigi að verða að lögum fyrir þinglok sem verða óvenju snemma í vor vegna alþingiskosninganna í maí.

Athugasemdum þeim sem fram komu má skipta í tvennt. Annars vegar eru almennar athugasemdir sem beinast að því að með frumvarpinu er vald ráðherra aukið til muna, frumvarpið sjálft er almennt orðað í flestum greinum og með nánari útfærslu er vísað til reglugerðarheimilda heilbrigðisráðherra. Benti Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands á að með þessu væri ráðherrann í rauninni gerður alvaldur í heilbrigðismálum og tæpast hægt að reikna með því að þann stól vermdi framsóknarmaður til eilífðar þó flokkurinn hefði haldið stólnum mörg undanfarin ár. Gall þá við í Guðjóni Ólafi Jónssyni þingmanni Framsóknarflokksins og formanni heilbrigðisnefndar Alþingis: Eigum við ekki bara að festa það í lögunum líka? Líklega var þetta tilraun til gamansemi en fundarmönnum var þó ekki hlátur í hug þegar þeir gengu í pontu hver af öðrum og lýstu skoðun sinni tæpitungulaust. Aðrar athugasemdir sem fram komu beindust sérstaklega að þætti Landspítala í frumvarpinu en þar er vald forstjóra aukið til muna, dregið úr fjárhagslegri ábyrgð lækna, Læknaráð í rauninni lagt niður og stjórnarnefnd spítalans einnig.

Páll Torfi Önundarson gerði grein fyrir athugasemdum Læknaráðs sem fékk frumvarpið til umsagnar í vetur og hefur nýlega skilað greinargerð til heilbrigðisnefndar Alþingis.

Dýrkeypt tilraun

„Einkennandi fyrir núgildandi lög, sem ég tel að mörgu leyti góð, er að í þeim er skilgreind fagleg ábyrgð og hvernig ábyrgðin eigi að skiptast,“ sagði Páll Torfi í upphafi máls síns. Hann rakti síðan með skýringarmyndum hvernig stjórnskipan Landspítala væri háttað og sýndi síðan hvernig mætti hugsa sér annars konar skipurit þar sem áherslan væri á faglega og fjárhagslega ábyrgð yfirlækna og öryggi og velferð sjúklinga væri í fyrirrúmi. Í athugasemdum Læknaráðs við frumvarpið er lögð áhersla á eftirfarandi atriði:

Ábyrgð lækningaforstjóra á lækningastarfsemi þarf að vera skýr. Fagleg og rekstrarleg ábyrgð yfir starfsemi sérgreina læknisfræðinnar þarf að vera skýr í lögum. Faglegt ráðningarferli þarf að vera vel skilgreint í allar stöður yfirlækna og sérfræðilækna á háskólasjúkrahúsum og auglýsa þarf allar stöður. Hlutverk framkvæmdastjórnar þarf að vera vel skýrt og vel afmarkað frá faglegum rekstri sérgreina læknisfræðinnar. Ráðgefandi hlutverk Læknaráðs þarf áfram að vera skýrt.

Síðan segir í athugasemdum Læknaráðs: „Þessi þættir eru skýrir í núgildandi lögum en ekki í fyrirliggjandi lagafrumvarpi, sem fellir t.d. niður lagagreinar um yfirlækna án þess að getið sé um það í athugasemdum sem fylgja frumvarpinu. Í raun er um að ræða frumvarp til laga sem veitir forstöðumönnum og ráðherra heimild til að byggja upp stjórnskipulag ríkisrekinna sjúkrastofnana að eigin vild en ekki frumvarp um faglega uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar. Læknaráðið telur í raun svo mörgu vera ábótavant í því frumvarpi sem fyrir liggur, að skoða ætti hvort fresta ætti frumvarpinu og vísa til nefndar að nýju.“

Páll Torfi færði rök fyrir því að með því að svipta yfirlækna sérsviðanna fjárhagslegri ábyrgð væri í rauninni verið að svipta þá faglegri ábyrgð að hluta. „Með því koma þeir engu í verk. Þeir þurfa að leita leyfis til sviðsstjóra fyrir öllum fjárútlátum hversu fagleg eða lítilfjörleg sem þau eru og boðleiðirnar verða sífellt lengri. Íslenskir sérfræðilæknar hafa stundað nám og störf við sjúkrahús víða um heim. Þeir búa yfir mikilli þekkingu og reynslu. Á Landspítala starfa 398 sérfræðilæknar í 40 sérgreinum. Við teljum ekki að það sé nauðsynlegt að gera tilraun á Íslandi með nýtt kerfi um lækningar á sjúkrahúsum. Það getur orðið gríðarlega kostnaðarsamt og jafnvel valdið sjúklingum skaða,“ sagði Páll Torfi Önundarson.

Sigurður Björnsson var einn þeirra sem tók til máls og sagði að við lestur frumvarpsins vöknuðu spurningar um fyrir hvern heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé og hagsmuna hverra sé verið að gæta. Þar væru raktir tveir rauðir þræðir sem hnýttust í harðan hnút og langan tíma muni taka að leysa ef verða að lögum. „Hér er ver af stað farið en heima setið,“ sagði Sigurður.

Þorbjörn Jónsson bar upp ályktun um frumvarpið sem samþykkt var samhljóða í lok fundar. Má lesa hana á www.lis.is

Innanhúsvandi Landspítala að lögum

Einar Oddsson spurði hverjir væru stiklusteinarnir í þjónustu við sjúklinga. „Það er öryggi, jafnræði, skilvirkni í þjónustunni, fagmennska og gæði. Er eitthvað um þetta í frumvarpinu? Ég sé það ekki.“

Guðjón Ólafur Jónsson formaður heilbrigðisnefndar Alþingis sagði frumvarpið samið af nefnd sem skipuð var 2003 og skilaði af sér sl. haust. „Nefndin skilaði sameiginlegri niðurstöðu og almennt var góð samstaða innan hennar. Það var þverpólitísk sátt um málið en í henni átti m.a. sæti formaður Læknafélags Íslands og formaður Félags hjúkrunarfræðinga o.fl. Þetta er ekki heilagt frumvarp, það hefur verið sent yfir 100 aðilum til umsagnar og hafa borist svör frá um helmingi þeirra. Af þeim umsögnum sem við höfum fengið virðist mér vera almennt góð sátt um efni þess. Sumum finnst reyndar að vægi lækna sé of mikið í frumvarpinu en ýmsar aðrar heilbrigðisstéttir vilja koma að stjórn heilbrigðisstofnana. Mér heyrist einkum læknar á Landspítala hafa athugasemdir við frumvarpið og snúa þær að valdi forstjóra stofnunarinnar. Að hluta til held ég að þetta sé innanhúsvandamál Landspítala en ekki mál sem varðar almennt lög um heilbrigðisþjónustu í landinu. Þó er umhugsunarefni að málefni spítalans séu afgreidd í einni málsgrein í frumvarpinu.“ Guðjón Ólafur benti síðan á að innan stjórnsýslunnar almennt væri verið að auka vald og ábyrgð forstjóra ríkisstofnana og væru ákvæði þessa frumvarps í samræmi við það.

Ásta Möller þingmaður Sjálfstæðisflokksins kvaðst ekki hafa þann skilning á frumvarpinu að þar væri verið að draga úr faglegri ábyrgð lækna. Hún sagði vel koma til greina að bæta inn í frumvarpið grein um faglega ábyrgð lækna á Landspítala. Hún kvaðst tilbúin til að koma á annan fund með læknum og fara yfir frumvarpið grein fyrir grein. „Til að sjá hverjir ágallarnir eru og hvort við höfum misskilið eitthvað áður en frumvarpið fer alla leið.“

Magnús Karl Magnússon beindi máli sínu til þingmanna í salnum og sagði: „Ef vandi Landspítala er innanhúsvandi þá er með þessum lögum verið að lögleiða þetta vandamál. Núverandi stjórn spítalans hefur brotið gildandi lög og með þessu frumvarpi er verið að leiða þá óstjórn í lög.“

Umsögn Læknafélags Íslands um frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu, 272. mál og frumvarp til laga um embætti landlæknis, 273. mál

Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) þakkar fyrir að vera beðin um umsögn um ofangreind mál. Stjórn LÍ skipaði í nóvember nefnd fjögurra lækna til að semja drög að áliti félagsins um efnið. Í nefndina voru skipaðir Björn Magnússon, Emil L. Sigurðsson, Gísli H. Sigurðsson og Kristján Guðmundsson. Þeim til aðstoðar og ritari nefndarinnar var Gunnar Ármannsson hdl. Nefndin hefur skilað áliti sínu og er það meðfylgjandi. Á fundi sínum þann 16. janúar sl. ákvað stjórn LÍ að gera álit nefndarinnar að sínu fyrir hið háa Alþingi með einni undantekningu.

 

Samantekt

  • Tilgangur frumvarpsins er sagður vera að setja ráðherra og öðrum skýran lagaramma til að starfa eftir.

o Í frumvarpinu er að finna 15 reglugerðarheimildir þar sem ráðherra er falið að fylla upp í hinn „skýra“ lagaramma.

o Ráðherra er ætlað að marka stefnuna innan hins „skýra“ laga ramma.

o Ráðherra skal gæta þess að gera samninga um heilbrigðisþjónustu í samræmi við hina mörkuðu stefnu sem hann sjálfur skal marka.

o Ef það er ætlun löggjafans að heilbrigðisráðherra ráði einn einum veigamesta og fjárfrekasta málaflokki landsmanna er eðlilegt að frá því sé greint í athugasemdum með frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu en ekki falið í þeim búningi að verið sé að setja ráðherra skýran lagaramma til að starfa eftir.

  • Forstöðumönnum er falið mikið vald og ábyrgð en engar hæfniskröfur eru gerðar til þeirra í frumvarpinu.
  • Dregið er úr faglegri ábyrgð heilbrigðisstétta í frumvarpinu.
  • Heilbrigðisþjónusta er í heild sinni undanskilin reglum samkeppnisréttarins.
  • Hagsmunir stofnana ríkisins og forráðamanna þeirra eru settir í öndvegi á kostnað hagsmuna og öryggis sjúklinga.
  • Lagt er til að afgreiðslu frumvarpsins verði frestað til að unnt verði að vinna það betur.

Þingmennirnir, Kristján Möller, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðjón Ólafur Jónsson og Ásta Möller voru mætt til að meðtaka skoðanir lækna á frumvarpinu til heilbrigðisþjónustu.

Fundarsókn bar með sér greinilegan áhuga lækna á efni fundarins.

Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri LÍ og Sigurður Böðvarsson formaður LR höfðu margt að skrafa.

Þrátt fyrir breitt bros var Páll Torfi Önundarson ómyrkur í máli í skoðun sinni á frumvarpinu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica