02. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar. Einn veldur, annar geldur - veldur sá er á heldur. Birna Jónsdóttir

birna2Ég var á fádæma góðum félagsfundi í Læknafélagi Reykjavíkur, LR, í vikunni. Eftirfarandi var efni fundarins:

„Drög að nýjum heilbrigðislögum og lögum um embætti landlæknis“.

Fulltrúum þingflokkanna var boðið að sitja fundinn og mættu fulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Framsögu höfðu fulltrúar okkar sem valist hafa til að umsegja drögin og síðan var orðið laust og fjölmargir tóku til máls. Almennt heyrði ég áhyggjutón frá læknum, ekki síst frá læknum Lanspítala, þar sem þeim fannst heldur að sér vegið og þess ekki gætt nægjanlega að þeir bæru faglega ábyrgð. Stjórn Landspítala (sem á ekki lengur að heita háskólasjúkrahús, loksins er öllum orðið ljóst að spítalinn er það) voru ekki vandaðar kveðjurnar á fundinum og enginn reis upp henni til varnar. Kvað svo hart að að blöskra mátti. Undir fundarlok töluðu stjórnmálamennirnir, þökkuðu góðar ábendingar og skýrðu sín sjónarhorn. Ég hrökk við þegar formaður fjárlaganefndar alþingis sagði sitt álit á vanda Landspítala sem mikið væri búinn að vera í umfjöllun utan sjúkrahússins og menn væru enn hér að bera sig undan, þetta væri innanhúss vandamál. Ha? Hva? Má þá ekki tala um það utanhúss? Mega bara starfsmenn hússins ræða málin innanhúss? Ekki hefur manni virst sem heildarsamkunda lækna, Læknaráð, finni mikinn hljómgrunn við sínar skoðanir.

Hvernig getur það verið innanhússmál þegar stærsti vinnustaður heilbrigðiskerfisins, sem nánast er með einokunarrekstur á dýrasta hluta þjónustunnar, er á stundum líkastur logandi vígvelli? Allir landsmenn eru með almannatryggingum þjónustaðir frá þessum langstærsta spítala landsins sem stendur í harðvítugum illdeilum við suma dýrustu starfsmenn sína. Þetta eru starfsmennirnir sem með pennanum stofna til mestra útgjalda í heilbrigðiskerfinu og böndum verður ekki náð um þann kostnað nema með samvinnu við lækna. Þetta snýst um peninga og völd. Læknum finnst mörgum hverjum þeir valdalitlir og að ýmsir millistjórnendur kerfisins hefti gerðir þeirra. Þeir finna sig vanmáttuga jafnvel þannig að bitni á lækningum og þegar til kastanna kemur verður einatt kostnaðaraukning vegna aðgerða sem ætlaðar eru til aðhalds, en þar sem yfirsýn skortir.

Maður mér náinn hefur haldið því fram í mín eyru að furðulegt sé hve heft læknastéttin er að mörgu leyti. Hvernig stendur á því að ekki kemur meir frá þessum rjóma íslenskra menntamanna í þjóðfélagsumræðunni? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Ég heyrði þó á haustdögum útskýringu hjá reyndum félaga á því hvers vegna læknar létu fara með sig eins og óþekk börn. „Sko fyrst förum við í læknadeild, þar sem bókin er kennd. Eftir deildina í hæst launuðu sendlastörf spítalans. Þar erum við einskis virt. Þegar við erum komin uppá annað hnéð og teljum okkur eitthvað hafa lært förum við til náms erlendis. Úti er okkur aftur pakkað saman og þá fáum við auk þess tungumál til að berjast við. Nýbúar vita vel að sviptur móðurmáli hljómar maður a.m.k. 20% vitlausari en reyndin er. Takist manni að reisa sig aftur, orðinn fullfleygur og miðaldra sérfræðingur er maður heppinn að komast aftur heim. Þangað komin margtiltuktaður er lítill vandi að pakka manni enn einu sinni saman.“ Mér verður ekki oft orðvant en sat þegjandi og hnípin undir þessu. Svei mér þá ef þetta minnti ekki á konu í Kvennaathvarfinu.

Aftur á fund LR, þar vaknaði með mér von um að þessi kollegi hefði alrangt fyrir sér. Einn af þeim læknum sem síðastur talaði um drög að nýjum heilbrigðislögum sagðist vera nýkominn heim frá námi og sérfræðingur á Landspítala. Tindrandi augum og afar ákveðinn notaði hann tækifærið og dró saman vanda Landspítalans: „ ... hann er ekki lækningavandi, ekki hjúkrunarvandi, heldur stjórnunarvandi“. Framsóknarmaðurinn sem sat á bekknum fyrir framan mig og stuttu áður hafði fengið að heyra að með því alræðisvaldi sem ráðherra heilbrigðismála fengi með nýju lögunum væri engu líkara en flokkurinn héldi að hann sæti þar um alla tíð, læddi þá útúrsér, að það væri kannski rétt að bæta því í lög.

Læknar! Við viljum og getum valdið þeirri ábyrgð sem við köllum yfir okkur með starfsvali. Öxlum ábyrgð!



Þetta vefsvæði byggir á Eplica