01. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Síra Jón Steingrímsson - líf hans og lækningar II

Sex árum eftir að Jón Steingrímsson hlaut viðurkenningu konungs, eins og sagt var frá í síðasta tölublaði, urðu harkaleg umskipti á stöðu hans og högum. Síra Jón lýsir upphafi Skaftáreldanna svo:

Svo byrjast upphaf drottins tyftunar og nýrra hörmunga, sem komu yfir mig og aðra, þó með stærri biðlund og vægð en verðskuldað höfðum, sem eftir fylgir. 1783 þann 8. Junii á hvítasunnuhátíð gaus hér eldur upp úr afréttarfjöllum, sem eyðilagði land, menn og skepnur ... (1)

Þarf ekki að eyða mörgum orðum á þær ægilegu hörmungar sem yfir landið gengu og mest þó yfir síra Jón og sóknarbörn hans, svo kunnar sem þær eru allri þjóðinni.

Peningatökumálið

Vorið 1784 fór síra Jón fótgangandi frá Prestbakka suður á Álftanes til fundar við Lauritz Andreas Thodal stiftamtmann, því engan reiðskjóta var að fá í sveitinni. Thodal afhenti prófasti hluta þess fjár sem borizt hafði frá Danmörku til hjálpar nauðstöddum.

Í formála að ævisögu Jóns Steingrímssonar segir Guðbrandur Jónsson að á prófasti hafi mjög mætt svonefnt peningatökumál, sem varð þegar Jón Steingrímsson "af hjálparsjóði til þeirra, er orðið höfðu fyrir tjóni af Skaftáreldinum, sem hann átti að flytja Lýð sýslumanni Guðmundssyni, tók fé til bjargar mönnum að austan er voru staddir á Rangárvöllum til fjárkaupa. Auðvitað var það sem síra Jón þarna gerði alveg hárrétt eins og á stóð, og nú á dögum myndi honum hafa verið þakkað tiltækið, það er að segja ef ekki hefði hlaupið pólitík í málið. En yfirvöldunum þá fór öðruvísi því þau tóku á þessu af fullri óskynsemi og reyndu að auðmýkja og lægja Jón fyrir þetta svo sem unnt var, enda þótt hann með kvittunum gerði fullnægjandi reikningskap ráðsmennsku sinnar með féð. Honum gramdist sem von var og fannst vera lagt á sig þjófsorð" (1). Þess ber að geta að sýslumanni var upp á lagt að útbýta fénu "milli þeirra bænda, sem mest höfðu liðið af eldsins yfirgangi, til að kaupa þeim gripi og kyrrsetja þá svo við jarðirnar. Áttu þeir gripir að sækjast austur í Múlasýslu ..." (1). En þegar síra Jón kemur að Stórólfshvoli, berast þangað "bréf og aðrar bevísingar, að pestin hafði og komið í Múlasýslu, og þar engin lífsbjargarskepna fáanleg" (1). Síra Jón gerði Thodal að sjálfsögðu grein fyrir ráðstöfun fjárins og Thodal vísaði málinu til stjórnvalda í Kaupmannahöfn.

Árið 1785 tók Hans Christoffer Didrik Victor von Levetzow kammerherra við stiftamtmannsembættinu af Thodal. Levetzow var fæddur árið 1754, kominn af þýzkum aðalsættum, eins og margt stórmenna í Danmörku, og hafði framazt í hirðmennsku frá unga aldri. Kammerherrann fær þá umsögn um miðja 20. öld að hann hafi verið ötull og kappsamur og að mörgu röggsamlegt yfirvald. Þó hafi hann komið sér heldur illa við landsmenn, og olli því bráðlyndi hans og stórbokkaháttur, er leiddi hann hvað eftir annað í gönur. Levetzow hafi verið einn af þeirri tegund háttsettra embættismanna á einveldisöld, er gerði strangar kröfur um skilyrðislausa hlýðni og auðmýkt af hálfu undirmanna sinna (16). Urðu ýmsir fyrir hroka hans og yfirgangi, þeirra á meðal Hannes Finnsson, er tók við biskupsembættinu af föður sínum, Finni Jónssyni, árið 1785.

Síra Jón skal straffa

Jón Steingrímsson segir frá því, að "herra biskup Hannes fær skrif frá cancellíinu af 25. Junii, í hverju stiftamtmanni Levetzow og honum er uppálagt að straffa mig fyrir upptekning og útdeiling úr pakkanum. Gerir biskup þar skrif til mín af 21. Septembris 1785, að eg gefi honum skriflega til kynna, fyndi eg mér nokkuð til forsvars eður málsbóta móti svo harðri áklögun" (1).

Síra Jón segir frá því að varalögmaður setti "sig til að koma í veg fyrir sérhvað, er mér mátti mein að verða, varaði mig við því, er honum sýndist mér hætt, gaf mér forskriftir til eins og annars, er eg hlaut að láta fyrir æðri menn koma, þótt fátt sjáist hér" (1). Hér víkur síra Jón að jafnaldra sínum, Magnúsi Ólafssyni úr Svefneyjum, varalögmanni sunnan og austan, en Eggert bróðir hans, sem drukknaði árið 1767, hafði gegnt embættinu áður. Magnús var tengdasonur Finns biskups og mágur Hannesar biskups. Hefir ekki verið ónýtt fyrir síra Jón að eiga vináttu Magnúsar, sem enn var stólshaldari í Skálholti árið 1785.

Prófasturinn segist hafa afhent biskupi alla vitnisburði sem fyrir lágu, bæði þá sem að undan greinir og auk þess frá ýmsum sóknarbörnum hans og verður vikið að þeim síðar.

Í byrjun október 1785 kemur til Jóns frá stiftamtmanni og biskupi "sú þeirra ályktan, að af ásigkomulagi og kringumstæðum minnar meðhöndlunar með peningana, samt minnar fátæktar vegna, sé eg álitinn fyrir yfirsjónina að láta úti 5 rd. til fátækra presta, og biðja opinberlega fyrirgefningar fyrir sýnódalréttinum vorið eftir" (1). Málið skyldi rekið fyrir dómstól kirkjunnar - sýnódalréttinum. Þar sat stiftamtmaður að sönnu í forsæti (17), en biskup var einn um að tilnefna í dóminn (16).

Jón Steingrímssyni var sem sagt boðið upp á það, að hann játaði að honum hafi ?orðið á í messunni?. Yfirsjón kallast einnig afglöp, glópska, misgáningur, vangá, jafnvel synd og allt slíkt er hægt að fyrirgefa. Enn hvarflar það að síra Jóni, að halda málinu áfram, en hann afræður að lokum að beygja sig undir valdið:

Vildi því heldur saklaus líða og ofsóttur verða. Þyngst þótti mér að verða að biðja fyrirgefningar á svoddan miskunnar- og kærleiksverki, sem eg gerði, hvar um eg skrifaði biskupi til, en hann svaraði með einu bréfi af 12. Junii 1786, að hann þyrði ei annað en eg gerði það með víðara. Svo fór eg til þings um sumarið, lagði út greinda 5 rd. og lét biskup ráða um fyrirgefningarbónina (1).

Systrastapi og Skaftá. Handan Stapans stöðvaðist hraunrennslið í farvegi Skaftár meðan á "Eldmessunni" stóð ". . . enda hagaði hans (guðs) ráð því svo til, að eldurinn komst ei þverfótar lengra en hann var fyrir embættið, heldur hrúgaðist hvað ofaná annað í einum bunka" (Ævisagan).

Um athafnir síra Jóns

Síra Jón er svo sannarlega ekki sáttur við málalokin og hann stælist við mótlætið, á sama hátt og varð, þegar hann var flengdur, barinn og laminn að ósekju í Hólaskóla og hann lætur ekki bugast frekar en þá. Hann sezt því við og skrifar varnarrit fyrir gerðir sínar og þar birtir hann vitnisburði sóknarbarna sinna. Verður hér á eftir getið nokkurra þeirra ummæla er varða líkn hans og lækningar,

Hinn 18. júní 1785 ritar síra Jón eftirfylgjandi:

Virðulegir minnar sóknar meðhjálparar og þessarar sveitar hreppstjórar, gerið svo vel sem eg hér beiðist, og segið sannleika um það, hverninn eg hafi hér næst afliðið fardagaár hagað mér:

1. í mínum embættisverkum utan kirkju sem innan;

2. í þeim verðslegu við einn og sérhvern, sem vitið;

3. hvert gagn eg hef haft af þeim nýja selabát, sem eg hefi aðkeypt fyrir peninga þá, sem háyfirvöldin, stiftamtmaður og biskup, hafa lagt mér, og hverninn eg hefi hagað því gagni;

4. hverninn háttað er mínu búskaparstandi.

Ekki stóð á svarinu, því tveimur dögum síðar votta Pétur Sveinsson spítalahaldari á Hörgslandi og Oddur Bjarnason á Hörgslandi, síðar á Seglbúðum, eftirfarandi:

Til þess fyrsta svarast, að velæruverðugur prófasturinn ... hefur ... að allra sjón stundað sín embættisverk með lastvörum lifnaði huggunar- og lærdómsfullri kenningu innan kirkju sem utan.

Til hins annars svarast, hann hélt einn þann þyngsta niðursetning, sem hér var á sveitinni, og hefur þar að auki lagt sig allan til, langt yfir megn, að hjálpa nauðlíðandi með ráð og dáð, svo margir hafa hér þar fyrir við lífið haldizt ... Gesti og umferðarfólk hefur hann framar öllum líkindum hýst ...

Til hins þriðja svarast: Af bátnum hafði hann það gagn í vor, að þá harðast var og lá við uppflosnun, fór hann með hann þangað á fjöru, sem ei varð öðru vísi á komizt; náði hann þar 54 kópum, býtti þeim og gaf þá út, bæði þeim sem þar með honum voru, sem og öðrum nauðlíðandi í sveitinni. Þar á eftir lét hann fara í einn veiðiós, hvar í [nótina] náðust 30 kæpur og nokkuð fleiri smákópar, sem skipt var jafnt milli þeirra, sem í veiðinni voru, og síðan hafði þess öll sveitin not, svo og margir í Meðallandi. Og guð veit, hver neyð og bágindi hér hefði upp á fallið, hefði guð ei gefið þá veiði.

Til þess 4. svarast: Hann er nú einstæðings ekkjumaður, hefur væntanlega fram að færa 8 menn í heimili, en vinnumannslaus, á engan mannshlut í útverum, er enn búinn að missa úr pestinni kú, ... og er okkur sjáanlegt, að hann geti hér lengur við haldizt, nema meðan hann eyðir þessum uppdráttarkúm, verði honum ei með öðru móti bjargað, því prestinntektin hleypur hér ei yfir 3 ríxdali, vegna fátæktar fólksins (1).

Sýslumaðurinn, Lýður Guðmundsson staðfesti ofanritað vottorð og endurtekur sumt til frekari áherzlu. Lýður bætir því við, að prófastur verði nú að þræla sem erfiðismaður væri og að hann fái nær engan stuðning frá sókninni og nær engar tekjur ?vegna hennar fátæktar, fyrir sín þungu og trúu embættisverk eftir tíðinni og sitt stöðuglyndi að víkja ei frá henni, sem aðrir gert hafa, hverjar ógnanir sem á hafa gengið. ... (1)

Skaftáreldahraun og Lakagígar. Myndin er tekin norðan við fjallið Laka sem sést í fjarska á miðri mynd.

Um hagi síra Jóns

Sjálfur lýsir síra Jón ástandinu með þessum orðum:

Frá ... haustnóttum 1784 til vorsins 1785 átti eg þá allra daufustu ævi, sem eg hefi aflifað. Þá eg missti mína ágætu konu, féll mér svo að segja allur ketill í eld. Eg fékk það allra sterkasta óyndi og svefnleysi, sem verkaði hjá mér skaðlega þanka og alls kyns handa freistingar. Eg var ljósfeitislaus, og varð því að rorra uppi í sífelldu myrkri. Varð fólk mitt að vera í fjósi vegna mjólkurpenings og þjófaumferðar, en þar varð eg að liggja og sitja í kreppu. ... Í bænum, sem nú var auður, var herfilegur kuldi (1).

Ástandið var orðið svo yfirþyrmandi, að síra Jón hugleiðir jafnvel að stytta sér aldur. En sem fyrr stælist hann við mótlætið og um vorið fer hann á selaveiðarnar, sem fyrr er lýst og árið eftir (1786) votta síðan þrír meðhjálparar, að eftir fardaga, sem er í byrjun júní, sex vikum eftir sumardaginn fyrsta, að klerkur hafi farið til veiða á sömu slóðum og fyrr var lýst,

með sömu selanót í þann sama veiðiós og með honum nokkur sóknarbörn hans, sem ei lágu sjúkir í bólunni eður voru annað hindraðir, eftir því sem til hlýddi útbúnir til veiðanna að standa í stöðum í flæðarmáli og eftir því sem sjórinn flæddi á land, án hverrar fyrirstöðu veiðin kunni ei að takast. Veiddist svo fyrir hans framfylgi, sameinaða krafta og verkfæri tveggja annarra, er hann tók í lið með sér, með hálfu sjávarfalli þann sama dag 73 stórselir, 120 smáselir, sem þessu Kirkjubæjarþinglagi, ásamt Leiðvallarþinglags innbyggjurum, kom til stórrar lífsbjargar í þeim matarskorti og gripaleysi, sem hér er, þar margir lafa hér með 4 og fimm menn á einni kú (1).

Þeir félagarnir, Oddur og Pétur, sendu 13. september 1785 frá sér yfirlýsingu, þar sem þetta má lesa:

Vér vitum ei né heyrum um getið, að nokkur maður í landinu hafi afliðna eldtíð meira liðið eður lagt á sig, sem hann með óþreytanlegu stöðuglyndi að blífa hér við og halda sem flestum við lífið upp á sinn eigin kostnað, því þá hann kom hingað með það, sem þau góðu landsyfirvöld lögðu honum, því annað hafði hann lítið, þá seldi hann í fyrrahaust jarðarpart, er hann átti, fyrir 25 rd., ei allraeinasta handa sér, heldur til þess ..., að vesalingar hér í sókn kynnu sem lengst við líf og jarðir að haldast, sem þeirra vitnisburðir ... sýna bezt. Það er og að segja um þá, er hér dóu, að hann lagði á sig stóra mæðu, jafnan fótgangandi, að þeir skyldu komast í guðs barna reit, því þann eina hest, sem hann átti eftir tórandi, léði hann að bera þá dauðu til kirkju, en gekk sjálfur; gaf og svo 5 ef ekki fleiri kistu um sig. Hér hafðu og orðið færri við jarðir en eru, hefði hann ei í svoddan háska og neyð, er þá yfir gekk og á stóð, bjargað bændum hér um peninga af þeim sjóð, hverninn sem hans misunnarar, ef nokkrir eru, hafa kunnað að útleggja það. ... (1)

Prestbakkakirkja á Síðu. Vígð á sumardaginn fyrsta árið 1859.

Læknisdómur við næringarkröm?

Jón Steingrímsson heldur uppteknum hætti við lækningarnar og hér verða tilfærðar nokkrar frásagnir, sem varpa ljósi á nýjan vanda, sem nú var við að etja.

Kona á Núpsstað segir:

Var eg þá svo aum af sinakreppu, að eg skreið af rúminu á höndum og fótum, þegar eg gat komizt það. Mín þrjú piltbörn voru svo upp þrungin af vatnsbjúg, að sér gátu enga björg veitt. Bjó hann þá til handa okkur graut úr fíflalaufum og lét okkur neyta hans mest matar... (1).

Maður á Fossi segir síra Jón hafa lagt "allan hug og dug að bjarga mér við einni harðri sinakreppu ..." og hann bætir við: "Keypti hann undir sjálfs síns nafni hest handa mér, svo ef eg hefði ei hann fengið, svo hefði eg ei við búskap getað haldið" (1). "

Annar maður segir, að hann

tvíli að eg og börn mín hefðu nokkurn tíma í þessu lífi til heilsu komizt, ef [minn fyrrverandi sóknarprestur] hefði ei svo nákvæmlega og við okkur leitazt með innvortis og innvortis meðulum við þeirri vatnsuppþembingu og sinakreppu, sem við lágum, sérdeilislega eg, í rúma 7 mánuði, sem eg hef ekki getað honum borgað (1).

Að lokum þessi vitnisburður Odds Bjarnasonar, þess er áður var getið:

Hér með geri eg augljóst, að það hélt mér og mínum mörgu börnum við lífið, með guðs hjálp, að eg eftir prófastsins ráðleggingum brúkaði í fyrra sumar með öllum hvítumat fíflarótarblöðin (1).

Það sem hér er tekið með, er aðeins brot af því sem er í sjálfsævisögu eldklerksins, en það sem vekur athygli hér, er að þarna er lýst sjúkdómsheilkenni og lækningu á því. Þar með er hægt að kanna hvort saman eigi kvillinn og meðalið og sé svo, þá má í beinu framhaldi spyrja: Hvað var það í túnfíflinum, sem olli umskiptunum og gat síra Jón haft þekkingu þar um úr lækningabókum?

Næringarkröm af völdum langvarandi hungurs kemur þannig fram, að fyrst hverfur fitan úr líkamanum, en síðan fer að ganga á prótínin. Af því leiðir aftur að aukinn vökvi safnast milli frumna líkamans og verður þegar fram í sækir merkjanlegur sem bólgulopi, bjúgur, vatnssýki. Í textanum hér að ofan kemur fyrir heitið ?vatnsuppþembing?. Það heiti má túlka sem sambland vatnssýki og uppblásins kviðar af spennuleysi innyflavöðva vegna skorts á kalíni. Þegar kalínið hverfur úr frumunum veldur það einnig máttleysi í útlimavöðvum. Máttleysið er einnig eitt einkenna í skyrbjúg, sem er af völdum hörguls á askorbínsýru. Þeim skorti fylgja einnig verkir í ganglimum og gæti þar verið skýringin á kreppunni, sem lýst er.

Fífill - túnfífill, sem síra Jón beitir með svo góðum árangri, heitir á nútímalatínu: Taraxacum officinale. Heitið er komið úr miðaldalatínu og mun dregið af tarakshaqún í arabísku, þar sem það merkir villt kaffijurt eða einfaldlega beizk jurt, því það er hún svo sannarlega (18). Áður var hún nefnd Leontodon taraxacum (18, 19). Á ensku heitir hún dandelion, sem er afbökun á dens leonis, tönn ljónsins, á þýzku: Löwenzahn. Franska heitið er hins vegar pissenlit (18, 20) - eiginlega "væta rúmið". Þetta heiti endurspeglar það, að jurtin hefir virk þvagræsiáhrif, þó ekki sé vitað á hverju sú verkun byggist. Í jurtinni er auki mikið magn kalínsalta og skýrir það verkunina að hluta. Þar að auki eru í henni öll mikilvægustu bætiefnin (A, B, C og D) (20).

Fíflinum er fyrst lýst í kínverskri læknisfræði um 656 e. Kr. og í evrópskri læknisfræði um 1485 e. Kr. Arabískir læknar mæltu með henni á 11. öld, hún var notuð í Wales á 13. öld og á 16. öld hlaut jurtin fulla viðurkenningu og var tekin upp í lyfjaskrár (18) og hlaut þar með viðheitið officinale. Laufin og ræturnar, bæði fersk og þurrkuð, eru enn notuð í alþýðulækningum. Í vasabók, sem útgáfufélag þýzkra lyfsala gefur út, segir að rótina og jurtina alla (Taraxaci radix cum herba) megi nota "við truflunum á gallflæði, sem þagræsilyf, við lystarleysi og meltingartruflunum ([því það] eykur gallrennsli úr lifur) [og] við bólgukvillum í þvagfærum" (21).

Vitneskja um lækningamátt fífilsins, Taraxacum officinale, hafði örugglega borist hingað til lands á dögum Bjarna landlæknis og síra Jóns, því jurtin var tekin upp í dönsku lyfjaskrána (22), sem gilti hér á landi frá 1772, enda er þvagræsiáhrifunum lýst í dönsku jurtabókinni árið 1648 (23) og jurtarinnar er getið í lyfjaforskriftum Bartholins frá 1658 (24).

 

Gröf sr. Jóns Steingrímssonar og konu hans, Þórunnar Hannesdóttur í Kirkju-bæjarklausturskirkjugarði. Áletrunin á steininum er svohljóðandi: Hér undir hvílir blundað hold prófasts, þakið foldu, síra Jóns Steingrímssonar. Sendur, boð herrans kenndi. Skaftafellssýslu skartið skæra bar list og æru. Lifir hans minning ljúfust, látinn þó öldin gráti. Fæddur 1728, dag 10. sept. Varð prestur 1761. Próf. 1774. Deyði 1791, d. 11. ág. Begr. 18. ed. Samhvílir maka sínum sóma vafin, með blóma, madame Þórunn þýða, þæg dróttum, Hannesdóttir. Sálirnar lifa í sælu, segja hjá drottni eja, líkömum meður líka, ljómandi eftir dóminn.

Líkn og lækningar?

Nítjándu aldar læknirinn Rudolf Virchow, upphafsmaður nútímalæknisfræði, beindi sjónum inn í frumuna og sagði að þar væru sjúkdómarnir. Hann var líka róttækur í betra lagi og hann vildi bæta kjör fólksins til þess að tryggja heilbrigði allra. Hann setti fram þá kenningu, að læknisfræðin væri félagsvísindi og stjórnmál væru ekkert annað en læknisfræði í víðustum skilningi.

Síra Jón Steingrímsson skildi þetta miklu fyrr og breytti eftir því. Hann vissi sem var að til lítils væri að fást við lækningarnar, ef fólkið svalt og var klæðlítið. Hann var minnugur orðanna: "... því að hungraður var eg, og þér gáfuð mér að eta; þyrstur var eg, og þér gáfuð mér að drekka; gestur var eg, og þér hýstuð mig, sjúkur var eg, og þér vitjuðuð mín." (Matt. 25.35-37)

Í lok síðari heimsstyrjaldarinnar var sett fram hugmyndin um félagslegt öryggi. Á það var bent að þó hugtakið væri ekki gamalt er sú hugsjón sem á bak við liggur, ein af elztu siðgæðishugsjónum mannkynsins. Hún er spunnin af sama toga og bræðralagshugsjón kristindómsins, hún er reist á sömu rökum og krafa frönsku stjórnbyltingarinnar um jafnrétti og bræðralag, hún á rætur sínar að rekja til þeirra mannúðarhugsjóna, sem ýmsir beztu menn þjóðarinnar og andlegir leiðtogar með ýmislegar skoðanir og trúarbrögð hafa barizt fyrir.

Jón Steingrímsson var persónugervingur alls þessa. Þess vegna skulum við minnast hans, þegar farið er að tala um það, að nú eigi fólkið að fá að kaupa sér pláss fremst í biðröðinni í heilbrigðiskerfinu.

Að lokum þetta: Ég legg til, að Jón Steingrímsson frá Þverá í Blönduhlíð í Hegranesssýslu fái verðskuldaða umfjöllun næst þegar Læknatalið verður búið til prentunar.

 

 

Heimildir

  1. Ævisaga síra Jóns Steingrímssonar eftir sjálfan hann. Skaftfellingafélagið gaf út. Guðbrandur Jónsson sá um útgáfuna. Helgafell, Reykjavík 1944. Önnur útgáfa 1945.

  2. Hjartarson Á, Guðmundsson GJ, Gísladóttir H. Manngerðir hellar á Íslandi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1991: 290-1.

  3. Der teutschen sprache stammbaum und teutscher sprachschats .. gesammelt von den Spaten. Nürnberg 1691. Stieler, Kasp. ps: Filidor der Dorferer der Spate (1632 ? 1707); sjá Deutscher Wörterbuch von Jakob Grimm und Wilhelm Grimm. Quellenverzeichnis. Leipzig von S. Hirzel 1971. Kaspar von Stieler (aðlaður 1705) ritaði fjölda rita um málnotkun og málvísindi. Það rit, sem hér er tilgreint, ber hæst verka hans - "sprachtheoretisch-lexicographish Hauptwerk" - sjá Brockhaus Enzyklopädie in Zwanzig Bänden. Wiesbaden: F.A. Brockhaus 1966-1974. 

  4. Benediktsson J. Gísli Magnússon (Vísi-Gísli). Ævisaga, ritgerðir, bréf. Gefið út af Hinu íslenzka fræðafélagi í Kaupmannahöfn. Safn fræðafélagsins, XI. bindi. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1939.

  5. Hrafnkelsson Ö. Lækningahandrit og prentaðir lækningatextar. Valin dæmi frá 17.-18. öld. Ráðstefnurit I. Annað íslenska söguþingið, Reykjavík 2002: 186-92.

  6. Ísberg JÓ. Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2005: 51.

  7. A Catalogue of Seventeenth Century Printed Books in the National Library of Medicine. Compiled by Peter Kravitsky. U.S. Department of Health and Human Servicis. Public Health Service. National Institutes of Health. Bathesda, Maryland: National Library of Medicine 1989.

  8. Blankaart, Steven (1650 - 1702). Praxeos medicinae idea nova. In qua origo omnium morborum ex acido, humanorum incrassatione, atque eorundem obstructione, verissimis & rationi congruentissimis fundamentis esse ostenditur. Amstelodami, Ex officina Johannis ten Hoorn, 1685. Heimild í (6) Þýzk endurútgáfa frá árinu 1700 er til: Neuscheinende Praxis der Medicinae, worinn angewiesen wird, dass alle Krankheiten eine Verdikkungs des Bluts und der Säffte sind, und bloss von Sauer und Schleim entstehen ... Auffs neue gedrukkt und abgetheilet in drey Theile ... Heimild í (10).

  9. Biographisches Lexikon der hervorragenden Ärzte aller Zeiten und Völker vor 1800. Dritte, unveränderte Auflage. Erster Band. München - Berlin: Verlag von Urban & Schwarzenberg 1962.

  10. Blankaart, -. Lexicon medicum, Graeco-Latinum, in quo termini totius artis medicae, secundum neotericorum placita, definiuntur vel circumscribuntur. Graecae item voces ex originae sua deducuntur, & Belgica nomina, si quae fuerint, adjunguntur. Amstelodami, Ex officina Jahannis ten Hoorn, 1679. Í Leipzig kom latnesk-gríski textinn út árið 1693. Heimild í (7) Ensk útgáfa kom 1684 og önnur útgáfa bar heitið: The physical dictionary; Wherein the terms of anatomy, the names and causes of diseases, chyrurgical instruments and their use; are accurately describ?d. Also the names and virtues of medicinal plants, minerals, stones, gums, salts, earths, &c. And the methods of choosing the best drugs ... London, S. Crouch, 1693 Heimild í (7).

  11. Blankaart, -. Collectana medico-physica; oft, Hollands Jaar-Register der geneen natuurkundige Aanmerkungen van gantsch Europa &c. Beginnende met het jaar 1680. Door eigen ondervinding en gemeen-making van verscheidene heeren en liefhebbers ... Amsterdam, Johan teen Horn, 1680-1688. Heimild í (7) Þessi rit voru síðan endurútgefin í Leipzig: Collectana medico-physica ... Aus dem Holländischen in das Hoch-Teutsche überssetzet ... 1690. Heimild í (7).

  12. Blankaart, -. De Kartesiaanse Academie; ofte, Institutie der medicyne, Behelsende de gansche medicyne ... Amsterdam, Johnnes ten Hoorn, 1683. Heimild í (7).

  13. Blankaart, -. Cartesianische Academie; oder Grund-Lehre der Arzney-Kunst, worinnen die völlige ArtzneyLehre, wie solche Wissenschaft der Gesundheut und deren Erhaltung, auch in Erkäntnüss der Kranckheiten und ihrer Heilung bestehet, auf den Natur-mässigen Gründen des weltberümten Cartesii aufgeführet wird ... Anjetzo aus dem Niederlandischen ins Hochdeutsche übersetzet. Zum anderem Mahl aufgelegt. Leipzig, Verlegts Johann Friedtich Gleditsch, 1693. [8] 408, 428, [60] p. Illus., plates. Heimild í (7). 

  14. Ove Malling, historiker og geheimestatsminister (1747 - 1829). Store og gode Handlinger af Danske, Norske og Holstenere, samlede ved Ove Malling. Femte Oplag. Kiøbenhavn, 1810. Ved Kongelige Majestæts allernaadigst Privilegium trykt paa den Gyldendalske Boghandlings Forlag hos M.-J. Sebbelow: 418-20. Fyrsta útgáfa árið 1777. Þýðing: Örn Bjarnason. 

  15. Den Store Danske Encyclopædi. Niende Bind. København: Danmarks Nationalleksikon 1997: Indfødsretten, lov om statsborgerskab, proklameret under store festligheder på Christian 7.s fødselsdag 29.1.1776. Fæðingarrétturinn fékk á sig yfirbragð stjórnarskrár, og einvaldur konungurinn lofaði því, að sá réttur yrði aldrei dreginn til baka. Frá þessum tíma var það skilyrði fyrir því að hljóta embætti í ríkinu, að vera fæddur innan þess, en ríkið var skilgreint sem öll lönd og lendur konungsins, það er að segja Danmörk, Noregur og hertogadæmin Slésvík og Holstein. 

  16. Saga Íslendinga. 7. bindi. Tímabilið 1770-1830. Upplýsingaöld. Samið hefir Þorkell Jóhannesson. Menntamálaráð og Þjóðvinafélagið, Reykjavík.

  17. Laxness E. Íslandssaga. Önnur útgáfa. III. bindi S-Ö. Alfræði Vöku-Helgafells, Reykjavík 1998. Synodalréttur (consistorialréttur): Frá 1550 yfirdómur í kirkju- og hjúskaparmálum. Ásamt biskupi hafði umboðsmaður stiftamtmanns, oftast amtmaður, forsæti í synodalrétti Skálholtsbiskupsdæmis, eins og á prestastefnu á Þingvöllum, en biskup var þó einn um að tilnefna í dóma. Árið 1770 tók stiftamtmaður við forsæti.

  18. The Royal Horticultural Society New Encyclopedia of Herbs & their uses by Deni Bown. Dorling Kindersley, London 2002.

  19. Heinz A. Hoppe. Drogenkunde. Handbuch der pflanzlichen und tierischen Rohstoffe. Siebente veränderte und erweiterte Auflage. Cram, De Gruyter & Co, Hamburg 1958.

  20. Encyclopedia of Medicinal Plants by Andrew Chevallier. London: Dorling Kindersley 2000. 

  21. Arzneidrogenprofile für die Kitteltasche. Beratung-sempfehlungen für die Pharmazeutische Praxia. Beatrice Gehrmann, Wolf-Gerald, Claus O Tsirch, Helmut Brinkman. Stuttgart: Deutscher Apotheker Verlag 2000. Löwenzahn. Taraxaci radix cum herba. Taraxacum officinale WEB. Anwendungsbebiete: Störung des Gallenflusses, als Diureticum, bei Appetitlosigkeit und dyspeptischen Beschwerden (Chloreticum), bei entz[ündlichen] Erkrankungen der ableitenden Harnwege.

  22. Pharmacopoea Danica, Regia auctoritate. A Collegio Medico Hauniensi conscripta. Hauniae apud Heineck & Faber, Bibliopolas. Typis Nicolai Mölleri, Aulae Typographi, 1772. Ljósprentun gefin út af Dansk Farmcihistorisk Selskab í 600 tölusettum eintökum árið 1972. Taraxaci. Lövetand[rod] Præstekrone[rod] Munkehovedrod. Fivel. Kabbelaup. Laxeblomsterrod. Pfaffenröhrlein[wurz] Löwenzahn[wurz] Löwenkrautwurz. Leontodos Taraxaci Radix perennis, oblongata, ramosa, minimi digiti crassitiei; foris subfusca, intus pallida; saporis amaricantis. Recens verna colligatur tempore.

  23. Flora Danica. Det er Dansk Vrtebog. Med største Fljd oc Umage elaborerit aff Simone Paulii Anatom. Chirurg. Ac Botan. Prentet i Kiøbenhafn aff Melchiore Martzan Aar 1648. 4°. 4 dele. 746 blade. 

  24. Bartholin T (1616-1680). Dispensatorium Hafniense, Jussu Superiorum á Medicis Hafniensibus adornatum. Thomas Bartholinus Publici juris fecit. Hafniæ Typis Georgi Lamprechti, Sumptibus Joachimi Moltken Bibl. MDCLVIII. Ljósprentun gefin út af Dansk Farmcihistorisk Selskab í 500 tölusettum eintökum árið 1966.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica