12. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Mikilvægt að skimað sé fyrir öðrum hugsanlegum röskunum

Sólveig Jónsdóttir sálfræðingur varði doktorsritgerð sína í klínískri taugasálfræði við læknadeild Ríkisháskólans í Groningen í Hollandi þann 27. september síðastliðinn. Doktorsritgerðin fjallar um athyglisbrest með ofvirkni og tengsl hans við fylgikvilla og kyn og nefnist hún á ensku: ADHD and Its Relationship to Comorbidity and Gender.

Doktorsritgerðin byggir á fjórum rannsóknum sem Sólveig hefur gert á undanförnum árum um a) kynjamun á einkennum athyglisbrests og ofvirkni og öðrum geðröskunum í heilbrigðu íslensku þýði, b) áhrif sértækrar málþroskaröskunar á vinnsluminni barna sem eru með samsetta gerð af ADHD, c) sambandið milli taugasálfræðilegs mats á stjórnunarfærni (executive function) og hegðunarmats foreldra og kennara á einkennum athyglisbrests, ofvirkni og hvatvísi og d) áhrif taugaraförvunar gegnum húð (transcutaneous electrical nerve stimulation, TENS) á vitsmunastarf, hegðun og sveifluna á milli hvíldar og virkni í börnum með ADHD. Þrjár greinar byggðar á þessum rannsóknum hafa þegar birst í erlendum ritrýndum vísindatímaritum.

"Megin greiningarskilmerki ADHD eru athyglisbrestur, ofvirkni og hvatvísi. Hins vegar er sýnt fram á í þessari ritgerð að fylgikvillar og kynferði í ADHD hafa mikilvæg áhrif á vitsmunastarfsemi og á hegðun. Þannig er sýnt fram á í fyrstu rannsókninni að heilbrigðir íslenskir drengir eru metnir með meiri einkenni um ofvirkni/hvatvísi og árásargirni, en heilbrigðar íslenskar stúlkur bæði af foreldrum og kennurum. Kennarar meta drengi einnig með meiri einkenni um athyglisbrest en stúlkur, en að mati foreldra er ekki munur á kynjum hvað hann varðar. Fyrirferðarmeiri og sjáanlegri hegðun drengja gæti útskýrt hvers vegna þeim er frekar vísað til greiningar á ADHD heldur en stúlkum og hvers vegna meiri samsvörun er á milli mats foreldra og kennara á ADHD einkennum hvað drengi varðar heldur en stúlkur. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að kennarar geti í sumum tilfellum verið að ofgreina einkenni um ADHD og að þættir eins og bekkjarstærð og menningarsvæði geti haft áhrif á skoðanir kennara á því, hverjir nemenda þeirra séu með einkenni um röskunina," segir Sólveig, sem hefur starfað sem sálfræðingur á Íslandi frá 1985. Hún hlaut sérfræðingsviðurkenningu í klínískri barnasálfræði árið 2000 og í klínískri taugasálfræði barna árið 2002.

Sólveig segir að rannsóknir hennar hafi leitt í ljós að þáttur málþroskaröskunar, sem yfirleitt er ekki skimað fyrir, sé stórlega vanmetinn í greiningu á ADHD. "Sett hefur verið fram sú kenning að stjórnunarfærniþátturinn vinnsluminni sé eitt af grundvallarvandamálunum í ADHD. Í annarri rannsókn minni er sýnt fram á að skert yrt vinnsluminni stafar af málþroskaröskun, sem er algengur fylgikvilli með ADHD. Þriðja rannsóknin sýnir að sá þáttur sem best spáir fyrir háu mati kennara á athyglisbresti er lélegur málþroski. Það er vel hugsanlegt að sum greiningarskilmerkin fyrir ADHD, sérstaklega hvað einkenni um athyglisbrest snertir, gætu í raun skýrst af skertum málskilningi. Lélegur málskilningur getur farið mjög leynt og kemur oft ekki í ljós fyrr en barnið er prófað formlega. Málþroskaröskun samhliða ADHD gæti hugsanlega skýrt hvers vegna meðferð með örvandi lyfjum, sem er algengasta meðferðarform við ADHD, virðist ekki bæta námsárangur eða félagslega færni barnanna. Niðurstöður rannsókna í þessari ritgerð vekja þá spurningu hvort athyglisbrestseinkennin í ADHD stafi í raun af skertum málskilningi. Það er þörf á frekari rannsóknum til að athuga hvort svo geti verið," segir Sólveig.

Fjórða rannsóknin sýnir fram á að meðferð með TENS (taugaraförvun gegnum húð) hafði jákvæð áhrif á vitsmunastarf, hegðun og svefnmynstur barna með ADHD. Þær niðurstöður sem sýndu að marktækt dró úr hreyfivirkni barnanna í svefni segir Sólveig vera sérstaklega áhugaverðar í ljósi þess að svefntruflanir eru algengt vandamál barna sem eru með ADHD.

"Niðurstöður okkar sem sýna að TENS meðferð dregur úr hreyfivirkni í svefni gætu bent til þess að börnin eyði meiri tíma í REM (rapid eye movement) svefni, en meðan á því svefnstigi stendur eru engar vöðvahreyfingar til staðar og líkaminn er sem lamaður. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að börn með ADHD eyða minni tíma í REM svefni en önnur börn. REM svefn tengist framleiðslu á taugaverjandi þáttum (BDNF) og kann þannig til dæmis að hafa jákvæð áhrif á minni og nám. Niðurstöður okkar geta hugsanlega verið vísbending um að TENS meðferð hafi jákvæð áhrif á svefn barna með ADHD og hafi um leið jákvæð áhrif á hegðunarmynstur þeirra og vitsmunastarf. Þessar niðurstöður gætu einnig verið klínískt mikilvægar í ljósi rannsókna sem sýnt hafa fram á auknar svefntruflanir hjá börnum með ADHD sem eru á meðferð örvandi lyfja. Frekari rannsókna er þörf til að kanna þetta betur."

Sólveig segir meginniðurstöðu doktorsrannsóknar sinnar vera þá að "þegar greining á ADHD fer fram sé það grundvallaratriði að skimað sé fyrir öðrum hugsanlegum röskunum sem valdið geti einkennum eins og til dæmis málþroskaröskun og svefntruflunum svo tryggt sé að börnin fái viðeigandi meðferð."



Þetta vefsvæði byggir á Eplica