12. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Um fulltrúalýðræði í LÍ

Læknafélag Íslands var komið að fótum fram um miðja síðustu öld. LÍ hafði frá byrjun verið félag einstakra lækna og var það ein af ástæðum veikrar stöðu þess. Þetta var læknum ljóst á 5. áratugnum og hófust þeir handa við að stofna landshlutafélög lækna m.a. í því skyni að þau gætu orðið stólpar undir nýrri skipan LÍ. Við þær breytingar, sem gerðar voru á skipulagi LÍ 1952, breyttist það úr máttlitlu félagi embættismanna sem tók því sem þeim var skammtað úr ríkisins hendi, í félag með breiða og sterka hagsmunagæslu fyrir lækna (1).

LÍ er þannig félag annarra félaga lækna þar sem einstaklingsaðild er möguleg en veitir takmörkuð tækifæri til áhrifa á málatilbúnað aðalfundar og þar með stjórnar félagsins. Til þess að nýta atkvæði sitt til áhrifa innan LÍ verða læknar að taka þátt í kjöri aðalfundarfulltrúa sinna félaga eða m.ö.o. taka virkan þátt í félagsstarfi lækna á þennan hátt. Fulltrúalýðræði liggur því starfi félgsins til grundvallar. Fulltrúar læknahópsins, sem hafa að jafnaði umboð 20 lækna taka því ákvarðanir um allt það sem skiptir máli í starfi LÍ og stjórnarmenn, sem segja má að hafi hver um sig umboð 100 lækna sjá um að framfylgja þessum ákvörðunum. Hvernig til tekst um val þessara fulltrúa er háð þátttöku lækna í félagsmálum stéttar sinnar og má segja að umboð fulltrúanna sé því veikara sem læknar gerast sinnulausari um hagsmunamál sín.

Ég átti á dögunum samræður við kollega um málefni LÍ. Þetta er læknir á Landspítala sem þekktur er fyrir að láta sér annt um sjúklinga sína og starf og sýna réttindum sínum og samstarfsfólks ræktarsemi. Snemma í tali okkar kom það fram að hann taldi það altalað á spítalanum að LÍ hefði hrakist af leið og sjónarmið spítalalækna ættu undir högg að sækja hjá forustu félagsins. Ég sagðist hafa heyrt það en taldi vandasamt að fara eftir öðru en fyrirmælum aðalfundar en þar væri fast að helmingur fulltrúa starfsmenn LSH. Hann taldi að samt sem áður ættu spítalalæknar ekki nógu skýra rödd innan stjórnar LÍ. Ég spurði hann þá hvort hann gerði sér grein fyrir að fimm af níu stjórnarmönnum LÍ væru launþegar á sjúkrahúsinu. Hann kvaðst ekki hafa gert sér grein grein fyrir því, en þeir væru varla helgir menn; það skipti verulegu máli; læknar sem ættu hagsmuni annars staðar en á sjúkrahúsinu hefðu undirtökin í valdataflinu þar innan veggja.

Þetta svar olli mér nokkrum heilabrotum, þegar við slitum samtalinu þar sem ég vissi ekki betur en að 3 af 9 læknum í stjórn LÍ væru eingöngu launþegar LSH og tilheyrðu því þeim „valdalitla“ hópi sem nefndur var ([i]). Það má velta þessu áfram yfir til heimilislæknanna en þeir eru tveir í stjórn LÍ fyrir um 200 lækna. Þannig hefur að mínu mati tekist nokkuð bærilega að gæta jafnræðis í fulltrúalýðræðinu í LÍ að öðru leyti en að jafnstöðu karla og kvenna. Um þessar mundir eru 5 af 9 stjórnarmönnum konur og endurspeglar það hlutfall ekki kynjaskiptingu stéttarinnar en gæti gert það í tímans rás. Við getum kallað þetta til gamans uppbót fyrir misrétti fortíðarinnar.

Þrautalending þess sem þrátt fyrir að vera talinn eiga eðlilega aðkomu að valdastofnunum LÍ en telur sjónarmið sín verða undir, er auðvitað sú að stofna sérstakt félag um skoðanir sínar innan eða utan LÍ. Það hefur þann kost, að ekki þarf að ná málamiðlun um niðurstöðu hópsins; minni áreynsla fer í að leita að hinum eina sanna tóni og minni hætta verður á að minni hluti myndist, sem heldur uppi gagnrýni á niðurstöðu meirihlutans og veikir þar með áhrif hópsins út á við. Ókosturinn er sá að lítill hópur hefur að jafnaði minni slagkraft en stór og auðveldara veður að deila og drottna yfir hópnum í heild með því að láta hluta hans jagast um molana sem til fala t.a.m. í samningum.

Mál Stefáns E. Matthíassonar er eitt birtingarform þess vanda sem lítil læknafélög með sérhæfðan, einsleitan hóp innanborðs gætu ratað í. Í því máli eru allir leikendurnir í miklu návígi og eitt aðalhlutverkið í höndum eins af brautryðjendum Skurðlæknafélags Íslands – stéttarfélags, fyrrverandi formanns og núverandi varaformanns auk margvíslegra persónulegra tengsla sem flækja það mál svo ekki sé meira sagt. Hvernig væri umhorfs í Skurðlæknafélaginu ef LÍ hefði ekki tekið upp þykkjuna fyrir Stefán en Skurðlæknafélagið þess í stað axlað ábyrgð sína sem stéttarfélag hans? Það félag væri nú vísast brunarústin ein.

Næst um félagsgjöldin.

1 Ísberg JÓ. Líf og lækningar. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2005, bls. 279.
2 LSH án skurðlækna: Kandidatar: Fjöldi starfsmanna: 29,Læknar án sérfræðileyfis: Fjöldi starfsmanna i hlutastarfi: 28, Fjöldi starfsmanna í fullu starfi: 83, Sérfræðingar og yfirlæknar (sviðsstjórar meðtaldir): Fjöldi starfsmanna i hlutastarfi: 173, Fjöldi starfsmanna í fullu starfi: 169


Þetta vefsvæði byggir á Eplica