11. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Jón forseti - WMA

Á aðalfundi Alþjóðasamtaka lækna (World Medical Association) var Jón Snædal kjörinn næsti forseti samtakanna. Jón tekur formlega við embættinu að ári þar sem sá háttur er hafður á við skipan forseta að hann er kjörinn ári fyrr og því er árið sem fer í hönd eins konar undirbúningsár.

Aðspurður um hvernig þetta hefði komið til svaraði Jón að þetta væri fyrst og fremst viðurkenning á því að fulltrúar Læknafélags Íslands hefðu verið virkir innan samtakanna undanfarin ár. „Það má líka þakka kjör mitt því hversu vel fulltrúar læknasamtaka á Norðurlöndunum stóðu saman. Þetta hefur þau áhrif að hlustað er meira á okkar sjónarmið. Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ hefur meðal annars beitt sér í innri málum samtakanna svo sem um kostun utanaðkomandi aðila á verkefnum á vegum samtakanna. Það er mikill menningarmunur á afstöðu einstakra félaga til þessa, annars vegar Bandaríkjamenn sem telja að kostun af hálfu fyrirtækja sé mjög ásættanleg til að koma verkefnum á legg og hins vegar Norðurlöndin sem hafa hinsvegar staðið talsvert gegn þessu og viljað setja ákveðnari skorður. Þetta er ágreiningsefni innan samtakanna og ekki búið að leysa úr því en staðreyndin er þó sú að langflest verkefni á vegum samtakanna eru kostuð með aðildargjöldum svo kostun er mjög lítil og hefur minnkað á allra síðustu árum. Þetta er eitt dæmi þar sem hlustað hefur verið á okkar sjónarmið."

Á hvaða sviðum beita Alþjóðasamtökin sér einna helst?

„Samtökin gefa út yfirlýsingar og ályktanir fyrst og fremst um siðferðileg málefni en einnig um almenn heilbrigðismál, svo sem framboð og aðgengi að heilbrigðisþjónustu og jafnan aðgangur að henni hvar sem er. Þau hafa einnig reynt að hafa áhrif á stjórnvöld varðandi faraldra, notkun tóbaks og áfengis, ofbeldi og ölvunarakstur. Samtökin beina ályktunum sínum gjarnan að læknafélögum í viðkomandi löndum og hvetja þau til að hafa áhrif á stjórnvöld heimafyrir. Síðan eru aðrar yfirlýsingar sem eiga að hafa almennari skírskotun og ná lengra. Þekktasta dæmið er Helsinkiyfirlýsingin sem fjallar um rannsóknir á mönnum með þátttöku manna. Sú yfirlýsing er nú grunnurinn að öllum rannsóknum á mönnum og yfirleitt eru slíkar rannsóknir ekki leyfðar í dag nema skilmálum Helsinkiyfirlýsingarinnar sé fylgt. Samtökin reyna einnig að hafa áhrif á aðrar alþjóðastofnanir, eins og t.d. Alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO, og fylgist með því hvað þessar stofnanir hafa á prjónunum og reyna að hafa áhrif á stefnumótun þeirra. Dæmi um góða samvinnu þessara aðila er afstaða til tóbaks en dæmi um hið gagnstæða er að í síðustu yfirlitsskýrslu WHO (World Health Report 2006) er ýtt undir þá hugmynd að mennta megi fólk til að sinna heilbrigðisþjónustu með styttri námskeiðum svo komið verði til móts við þörfina á þeim svæðum í heiminum þar sem lítið framboð er af menntuðu starfsfólki. Með þessu er verið að búa til nýja stétt heilbrigðisstarfsmanna með miklu minni þekkingu en vissulega er verið að bæta úr brýnni þörf. Alþjóðasamtök lækna hafa skilning á því að bæta þurfi úr þessari þörf en þau hafa engu að síður sett sig upp á móti þessu þar sem ljóst er að sum ríki líta á þetta sem leið til að spara menntun heilbrigðisstarfsfólks og að þessi leið verði miklu útbreiddari en lagt er upp með."

Jón segir að sér hafi komið nokkuð á óvart að núverandi forseti samtakanna sem er frá Malasíu, hyggist leggja áherslu á lífstílssjúkdóma, velmegunarsjúkdóma, sem margir telja að séu fyrst og fremst vandi Vesturlanda.

„Hann tjáði mér að hans helstu áhersluatriði yrðu fyrst og fremst lífstílssjúkdómar sem væru stórt vandamál í SA-Asíu. Og vandinn er af svipuðum toga og hjá vestrænum ríkjum. Orkurík fæða er sú ódýrasta fæðan sem fólk getur fengið. Þetta er því sá matur sem fátækt fólk velur sem hefur ekki efni á hollum og dýrum mat. Framboð í þróunarríkjum er mikið líka þar sem fólk hefur á annað borð aðgang að fæðu. Vannæring fólks á ákveðnum svæðum er yfirleitt tímabundin, tengd veðurfari og styrjöldum. Þau svæði geta svo búið við velmegun þarna á milli ef annað ástand skapast. Þetta þekkjum við mætavel úr okkar eigin sögu."

Jón segir að hlutverk sitt sem forseti samtakanna verði að koma fram fyrir þeirra hönd við ýmis tækifæri, sitja fundi og halda erindi í nafni Alþjóðasamtaka lækna. „Þetta er ólaunað starf og mér reiknast lauslega til að á næsta ári muni um 2-3 mánuðir fara samtals í erindrekstur á vegum WMA. Jón hefur áður setið í stjórn WMA og tók þar þátt í átaki gegn pyntingum í heiminum sem WMA beitti sér fyrir. „Þetta var þriggja ára verkefni og seinni hluti þess hefst á næsta ári og ég geri ráð fyrir að taka þátt í því á sama hátt og áður. Það felst í því að heimsækja lönd þar sem vitað er að pyntingar eru stundaðar og að vekja lækna og lögfræðinga til vitundar um afleiðingar pyntinga og réttindi fórnarlambanna."

Aðspurður um hver verði áhersluatriði hans sem forseta segir Jón að það verði læknisfræðileg siðfræði. „Siðfræði lækna er í rauninni flaggskip þessara samtaka og mikilvægt að halda henni á lofti. Síðan vil ég leggja áherslu á mál sem kemur alltaf upp með reglulegu millibili en hefur aldrei verið komist að niðurstöðu með. Það snýst um flutning lækna á milli landa og aðgengi þeirra að störfum utan heimalandsins. Af ýmsum ástæðum vilja yfirvöld víða setja strangar skorður við flutning heilbrigðisstarfsfólks úr landi og oft er það af efnahagsástæðum en líka stjórnmálaástæðum. Á aðalfundinum í Suður-Afríku var tekið undir þetta sjónarmið og Suður-afríkska læknafélagið hefur sett sér stefnu sem þeir kalla „að gera heimahagana grænni" og hefur það markmið að halda fólki heima með því að gera betur við það. Umræðuefni á fundinum í haust var einmitt að benda yfirvöldum á að fjárfesting í heilbrigðisþjónustu skilar sér strax út í samfélagið með heilbrigðara fólki og meira vinnuframlagi. Þetta á ekki hvað síst við í þróunarlöndunum þar sem margir algengir sjúkdómar eru auðveldir í meðferð. Málið verður hins vegar nokkuð flóknara þegar kemur að vestrænum samfélögum en þó er full ástæða til að taka þetta mál upp og fylgja því eftir á næstu árum," segir Jón Snædal sem tekur við embætti forseta Alþjóðasamtaka lækna á aðalfundi þeirra í Kaupmannahöfn næsta haust.

Jón Snædal öldrunarlæknir sem verður forseti Alþjóðasamtaka lækna árið 2007-2008.

Stund milli stríða í S-Afríku. Jón og Sigurbjörn umvafðir kvenfólki, eiginkonum sínum og yngstu dætrum, auk eiginkonu og dóttur Gunnars Ármannssonar framkvæmdastjóra LÍ.

Jón Snædal í pontu á fundi WMA.

Sigurbjörn Sveinsson og Jón Snædal á aðalfundi WMA sem haldinn var í Suður-Afríku í október.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica