10. tbl 92. árg. 2006

Ritstjórnargrein

Smitsjúkdómar hjá innflytjendum

Arthur Löve

Í þessu hefti Læknablaðsins birtist athyglisverð grein "Lifrarbólga af völdum lifrarbólguveira B og C hjá innflytjendum á Íslandi". Er þar fjallað um greiningu lifrarbólguveiranna tveggja á árunum 2000-2002 hjá einstaklingum sem sóttu um dvalarleyfi hérlendis og voru frá löndum utan EES. Ekki er krafist læknisskoðunar hjá þeim sem koma frá löndum innan EES og voru því ekki með í þessari athugun. Niðurstöður voru flokkaðar eftir upprunasvæði umsækjanda og aldri. Þær komu ekki á óvart þar sem svipaðar rannsóknir hefur verið gerðar á Norðurlöndum og víðar, en alltaf er fróðlegt að sjá niðurstöður athugana á heimavelli. Það vekur athygli að af skráðum nýgreindum lifrarbólguveiru B sýkingum á Íslandi á tímabilinu voru um 57% þeirra dvalarleyfisumsækjendur og einnig yfir 10% skráðra lifrarbólguveiru C sýkinga.

Smitsjúkdómar hafa oft misjafna dreifingu meðal manna og fer hún eftir ýmsu, svo sem landsvæðum, veðurfari svo og þjóðerni, kynstofni og hegðunarmynstri. Stundum er þekkt hvers vegna dreifing er misjöfn en varðandi lifrarbólgu B er það óljóst. Fyrir áratugum kom í ljós að algengið er miklu hærra í Austurlöndum fjær og á ýmsum svæðum Afríku og Suður-Ameríku en víðast hvar á Vesturlöndum, ekki síst í Norður-Evrópu. Faraldsfræði lifrarbólguveiru C er með nokkuð öðrum hætti. Algengi sýkinga víðast hvar í heiminum er lágt, um það bil 1%, og "náttúruleg" smitleið líklega óþekkt. Blóðsmit hefur helst verið nefnt og á það vissulega við um eiturlyfjaneytendur sem deila sprautum en meðal þeirra er algengi og nýgengi sýkinga iðulega hæst.

Þegar einstaklingar flytja hingað til lands frá öðrum heimssvæðum skal engan undra þótt sumir greinist með smitsjúkdóma. Einkum á það við um langvinna smitsjúkdóma sem fólk getur borið alla ævi og því verið smitandi lengi en það á við um lifrarbólguveirur B, C og HIV.

Hvert er markmið þess að rannsaka innflytjendur fyrir þessum og öðrum sjúkdómum? Er það til þess að koma í veg fyrir innflutning fólks frá fyrrnefndum svæðum, til að koma í veg fyrir útbreiðslu smits til annarra landsmanna eða að eiga möguleika á að lækna þá smituðu?

Ekki er ljóst hve algengt er að lifrarbólguveiru B smit berist til annarra landsmanna en sennilega eru slíkar sýkingar fátíðar, jafnvel afar fátíðar. Unnt er að meðhöndla þá sem bera langvinnt lifrarbólguveiru B smit og hefur lyfjameðferð verið í talsverðri þróun síðastliðin ár. Einnig er auðveldlega hægt að koma nær alveg í veg fyrir smit frá móður til barns við fæðingu, en það er talin aðal-?smitleið á fyrrnefndum heimssvæðum þar sem langvinn sýking af völdum lifrarbólguveiru B er algeng. Fræðilega er því hægt er að útrýma sýkingunni eftir einn ættlið. Jafnframt er unnt að bólusetja þá sem eru í næsta nágrenni við lifrarbólgu B veiru sýktan einstakling til að koma í veg fyrir sýkingar. Lifrarbólguveiru C er hægt að meðhöndla með lyfjum en árangur fer allmikið eftir arfgerð veirunnar. Mikilvægast er þó að ná tökum á lyfjafíkninni sem oftast er til staðar. Hve algengt er að innflytjendur beri lifrarbólguveiru C smit til annarra er óþekkt og vafalaust erfitt að rannsaka þar sem bæði þeir og aðrir sem eiga eða hafa átt við lyfjafíkn að stríða greina oft ekki frá því.

Hérlendis eru gerðar hefðbundnar ráðstafanir gegn smitsjúkdómum, svo sem skimanir og aðrar rannsóknir til að greina smitsjúkdóma hjá fólki sem flytur til landsins. Það er hagur beggja, innflytjandans sem getur fengið meðhöndlun á sjúkdómi sínum og þjóðfélagsins sem hann flytur til sem þarf ekki að óttast innflutta sjúkdóma. Það ræðst meðal annars af heims- og landsstjórnmálum svo og utanríkissamningum hverju sinni frá hvaða heimssvæðum fólk flyst til landsins og ekki síst hvaða einstaklingar þurfa að gangast undir læknisrannsókn. Þarf það ekki að samrýmast sígildum markmiðum og aðferðum sóttvarna til að sporna við útbreiðslu smitsjúkdóma.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica