10. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Vel sóttur aðalfundur LÍ

Aðalfundur Læknafélags Íslands var haldinn á Egilsstöðum 1. og 2. september. Fundurinn var einkar vel sóttur en 54 fulltrúar voru mættir af þeim 57 sem atkvæðisrétt hafa fyrir hönd svæðaog sérfélaga innan LÍ. Auk þeirra sátu fundinn 12 gestir úr hópi lækna en allir félagar í LÍ mega sitja aðalfund með málfrelsi og tillögurétt. Þá voru margir makar með í för þannig að nær 100 manns voru gestkomandi á Egilsstöðum af þessu tilefni.

Að hefðbundnum aðalfundarstörfum slepptum urðu allsnarpar umræður um ýmis málefni er tengdust Landspítala og voru samþykktar harðorðar ályktanir þar sem stjórn LSH var átalin fyrir vinnubrögð í málefnum er snerta lækna og stjórn spítalans; meðal annarra uppsagnir yfirlæknanna Stefáns Matthíassonar og Tómasar Zöega og málarekstur í kjölfar þeirra. Má sjá ályktanirnar í heild sinni á heimasíðu LÍ, www.lis.is Hafa þær vakið talsverða umræðu og viðbrögð í kjölfarið.

Dagskráin á laugardeginum teygðist nokkuð vegna umræðna um ályktanir og var fundi ekki slitið fyrr en rúmlega sjö um kvöldið en það var almennt mál manna að umræður hefðu verið gagnlegar og mikill einhugur í fundarmönnum um efni ályktananna.

Málefni unglækna og 5.- 6. árs læknanema voru einnig til umræðu en fulltrúar Félags unglækna báru upp tillögu þess efnis að 5. og 6. árs nemar fengju inngöngu í LÍ með þeim rökum að í störfum sínum á sjúkrahúsum og í læknishéruðum landsins ynnu nemarnir iðulega sömu störf og bæru sömu ábyrgð og læknar gera. Var á það bent að þetta tíðkaðist óvíða nema hér að nemar störfuðu sem fullnuma læknar væru en engu að síður væri þetta staðreynd sem taka yrði tillit til. Tillögunni var á endanum vísað til næsta aðalfundar. Samþykktar tillögur má einnig sjá á www.lis.is

Eftir að fundi lauk á föstudeginum var ekið sem leið lá inn að Skriðuklaustri hvar staðarhaldari Gunnarsstofnunar tók á móti hópnum með góðum veitingum og fyrirlestri um hið forna klaustur og kynnti vísbendingar um að þar hafi í raun verið rekinn fyrsti spítali landsins á vegum klaustursins. Var að lokum gengið um svæðið sem grafið hefur verið upp. Eftir þetta var haldið um borð í Lagarfljótsorminn, fljótandi veitingahús Héraðsbúa, og snæddur kvöldverður meðan siglt var frá Atlavík út til Egilsstaða.

Á laugardagsmorguninn var haldið í skoðunarferð um Kárahnjúkasvæðið í boði Landsvirkjunar og væntanlegt risavaxið raforkuverið kynnt í bak og fyrir. Var fundi síðan fram haldið eftir hádegi þegar Kárahnjúkafarar voru snúnir aftur til byggða og búnir að jafna sig á þeim tíðindum er virkjunin sætir. Aðalfundi LÍ 2006 lauk með sameiginlegum málsverði fundarmanna, maka og gesta þá um kvöldið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica