10. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Hreinsunareldur óhóflegrar vinnu ekki nauðsynlegur

Fulltrúar unglækna voru talsvert áberandi á nýafstöðnum aðalfundi LÍ og eins og kemur fram í eftirfarandi viðtali við Bjarna Þór Eyvindsson formann FUL, deildarlækni á slysa- og bráðadeild Landspítala, hafa tekist fullar sættir milli unglækna og LÍ eftir að í odda skarst fyrir nokkrum árum sem olli því að um tíma stóð Félag ungra lækna fyrir utan Læknafélag Íslands.

"Ég tel að það hafi verið mikið happaskref fyrir Félag ungra lækna og Læknafélag Íslands að félögin sameinuðust að nýju. Það var ekki síst fyrir atbeina Sigurbjörns Sveinssonar formanns LÍ að tókst að lægja öldurnar sem risu sem hæst 2002 og á nýafstöðnum aðalfundi LÍ kom skýrt í ljós að fullar sættir hafa tekist," sagði Bjarni Þór í samtali við blaðamann í kjölfar aðalfundarins.

"Ímyndin sem unglæknar höfðu á sér var að þeir ynnu myrkranna á milli og á frekar lélegum launum. Okkur hefur þó tekist að breyta þessari ímynd og breyta starfs- og launakjörum unglækna í þá veru að þetta sé fólki bjóðandi. Lengi var sú hugmynd uppi að til þess að verða fullnuma sérfræðingur í læknisfræði þá þyrfti fólk að ganga í gegnum eins konar hreinsunareld yfirgengilegrar vinnu um nokkurra ára skeið. Við höfum viljað beita okkur fyrir því að kjör unglækna séu með þeim hætti að ungt og efnilegt fólk treysti sér í læknisfræði þó það sé ekki tilbúið að fórna samveru við fjölskyldu langtímum saman vegna starfsins. Unglæknar eiga að geta notið starfsins og annarra gæða sem lífið hefur að bjóða rétt eins og aðrir."

 

Hörð barátta um sjálfsögð réttindi

Bjarni Þór leggur áherslu á að megintilgangur FUL sé að gæta að kjörum unglækna og kröftum stjórnar félagsins hafi á undanförnum árum nær eingöngu verið beint í þann farveg.

"Félag ungra lækna hefur frá upphafi verið ætlað að standa vörð um hagsmuni ungra lækna og sækja þau fríðindi okkur til handa sem aðrir læknar hafa notið en við ekki. Eitt fyrsta baráttumál FUL var að unglæknar hefðu rétt til að fara heim og sofa eftir sólarhringsvakt. Fyrir 35 árum þótti það ekki sjálfsagt að unglæknir sem tók næturvakt til viðbótar sinni dagvinnu fengi svefntíma daginn eftir. Það þótti sjálfsagt að hann héldi áfram daginn eftir og lyki dagvinnutímanum. Samfelldur vinnutími gat því orðið 32 klukkustundir eða jafnvel lengri. Það voru alls ekki allir sáttir við þessa breytingu þar sem þetta þýddi skerðingu á tekjum fyrir suma; menn héldu áfram á yfirvinnu eftir næturvaktirnar og juku tekjur sínar með þeim hætti. En þessi breyting komst á og þá með vinnuverndarsjónarmið og hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Þetta var sérstakt hagsmunamál fyrir unglækna þar sem sérfræðingar voru með allt annan vinnutíma og samninga og þarna kristallaðist þörfin á því að unglæknar ættu sitt félag sem gætti hagsmuna þeirra sérstaklega. Aðrir hópar lækna innan Læknafélags Íslands höfðu í sumum tilfellum fengið ýmis réttindi sem unglæknar höfðu ekki, og því var það ekki forgangsatriði í þeirra augum að sækja þennan rétt fyrir unglækna. Þeir urðu að gera það sjálfir."

Bjarni Þór segir að um allangt skeið hafi það loðað við kjarasamningagerð Læknafélags Íslands að nota unglækna sem eins konar skiptimynt við samningaborðið þegar verið er að ljúka samningsgerðinni. "Kjör þeirra hafa því stundum verið fyrir borð borin og því borið við að menn staldri hvort eð er stutt við sem unglæknar og þurfi því ekki að kvarta. Kjarasamningur sem gerður var 2002 var unglæknum mjög óhagstæður og varð til þess að Félag ungra lækna sagði sig úr Læknafélagi Íslands og stóð fyrir utan það til ársins 2003. Það sem olli hvað mestum illindum var að ákvæði í samningunum sem verið hafði í gildi frá 1997 fyrir sérfræðingana átti ekki að taka gildi fyrir unglækna eins og vonast hafði verið eftir. Þetta varð til þess að Félag ungra lækna fór í mál við stjórn Landspítala um túlkun á orðalagi kjarasamnings um hvíldartíma. Það leystist ekki fyrr en í ár og samkomulag tók gildi 1. september síðastliðinn. Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hafði til ársins 2001 verið í gildi undanþáguákvæði um unglækna hvað varðaði þetta en okkur tókst að fá það fellt niður úr þeim lögum þegar þau voru endurskoðuð 2001 og það var á grundvelli þess sem við hófum málarekstur um túlkun kjarasamningsins og höfðum betur og nú er þetta stóra mál loks í höfn með fullum sigri okkar með því að í síðasta kjarasamningi var samið um aukinn frítökurétt ef brotið er á hvíldartímaákvæðunum. Samhliða þessu hafa staðið yfir breytingar á vaktakerfi unglækna þannig að vaktir okkar standist hvíldartímaákvæði laga. Er þetta mikið framfaraskref og hefði líklega aldrei náðst í gegn nema vegna breytinga á lögum. Frá og með 1. september fáum við meiri frítökurétt ef gengið er á móti hvíldartímaákvæðunum. Þannig fæst einn og hálfur klukkutími í frí fyrir hverja klukkustund sem unnin er ef rétturinn um 11 tíma hvíld milli vakta er ekki virtur. Þetta er því stór áfangi í kjara- og réttindabaráttu ungra lækna."

 

 

Samningar túlkaðir einhliða

Bjarni Þór segir að í gegnum tíðina hafi skoðanir verið skiptar meðal lækna um hvort hagsmunum þeirra væri betur borgið með heildarsamtökum eða sérfélögum. ?

"Skoðun okkar í Félagi ungra lækna er að því stærri sem heildarsamtökin eru og því fleiri sem þar eru innanborðs, því sterkari útávið séum við. Allur klofningur í minni einingar og minni sérfræðifélög er að okkar mati ávísun á lakari árangur í kjarabaráttu. Hins vegar eru hagsmunir lækna ekki einhlítir og störf þeirra og starfsfyrirkomulag mjög ólíkt þó allir séu læknar í grunninn. Samninganefnd ríkisins hefur bent á að sérhagsmunamál sérfræðinga í hinum ýmsu greinum eigi að semja um beint við vinnuveitandann, með svokölluðum vinnustaðasamningi, en eitt af aðalvandamálunum hefur verið að fá stærsta vinnuveitandann, Landspítala, til að semja um slíka hluti. Það er umhugsunarefni að allar starfandi stéttir innan hans eru með vinnustaðasamning nema læknar. Því miður hefur það sýnt sig að ef ekki er samið um öll smáatriði í stóra samningnum og vinnuveitanda sýnt það traust að semja um þau við okkur þá hefur hann tekið sér það vald að túlka samninginn einhliða án samráðs eða samninga við okkur. Hvíldartímaákvæðið er gott dæmi um þetta. Þetta tel ég að sé ein ástæða fyrir óánægju lækna með yfirstjórn spítalans, að mönnum finnist sem réttur þeirra til samninga eða samráðs um störf þeirra innan spítalans sé að engu hafður. Dæmi um þetta er einhliða ákvörðun stjórnar Landspítala að greiða 10% í svokallað helgunar-álag en í samningi er tiltekið að greiða megi allt að 15%. Þarna var ekki haft samráð um túlkun heldur tekin einhliða ákvörðun. Fleiri atriði mætti nefna um einhliða ákvarðanir þar sem vitnað er í ákvæði kjarasamningsins en svigrúm sem er til staðar ekki virt. Þannig má nefna að engar skilgreiningar eru til um það hvað felist í 100% starfi læknis á spítalanum. Í starfssamningi er einungis tiltekið að læknir sé skyldugur til að sinna vöktum á deild svo hægt sé að annast tiltekinn fjölda sjúklinga. Það er hins vegar ekki tiltekið hversu marga lækna þurfi til að standa undir þessu. Taka má dæmi af deild þar sem eru kannski 4-5 læknar og hér áður þegar kom að sumarleyfum voru ráðnir ungir sérfræðingar í afleysingar. Fyrir nokkrum árum síðan tilkynnti stjórnin að engir yrðu ráðnir í sumarafleysingar og niðurstaðan er sú að læknarnir verða að taka á sig vaktir hver annars til að komast í frí án þess að fá greitt fyrir það yfirvinnu þar sem engin skilgreining er fyrir hendi um hversu margar vaktir teljist fylla 100% starf. Þeir vilja einnig sjálfir taka eitthvert sumarfrí svo þeir eru kannski 2-3 í vinnu samtímis. Afleiðingin af þessu er sú að vaktaálagið á læknum á litlum deildum verður miklu meira á sumrin en veturna en þeir fá þó ekkert meira greitt. Þetta skapar megna óánægju svo ekki sé meira sagt. Það má segja að þetta sé ein þeirra aðferða sem stjórn Landspítala hefur notað til að spara útgjöld; að láta lækna vinna meira án þess að borga sérstaklega fyrir það. Það sér auðvitað hver maður að þetta kemur niður á gæðum þjónustunnar því tveir menn komast ekki yfir að sinna öllu sem fjórir gera. Þá verður að forgangsraða verkefnum og það er ekki af hinu góða."

 

 

Innganga 5. og 6. árs læknanema

"Annað af stóru málunum sem við höfum verið að vinna að undanfarin ár er innganga 5. og 6. árs læknanema í Læknafélagið. Þetta hafðist í gegn á aðalfundinum en var vísað til næsta aðalfundar til endanlegrar samþykktar þar sem lagabreytingu þarf til. Þetta er í rauninni réttlætismál þar sem læknanemarnir eru að vinna samkvæmt kjarasamningi LÍ og greiða öll gjöld til félagsins. Þeir njóta hins vegar engra réttinda í staðinn þó segja megi að þeir hafi haft góðan aðgang að félaginu. Kjör læknanema hafa í mörg ár verið í fremur erfiðum farvegi sem rekja má aftur til ársins 1987 er fjármálaráðuneytið gaf út að læknanemi sem lokið hefði 4. ári skyldi fá 75% af grunnlaunum aðstoðarlæknis og 5. árs læknanemi fengi 85%. Þetta þótti læknanemum súrt í brotið þar sem í langflestum tilfellum eru þeir að starfa í afleysingum fyrir aðstoðarlækna og því réttlætismál að þeir fái sömu laun fyrir sömu störf og sömu ábyrgð. Það náðist samkomulag um við stjórn Landspítala fyrir mörgum árum að læknanemarnir fengju 10% til viðbótar sem er ásætttanlegt en á hverju vori verður að sækja þessi sjálfsögðu viðbótarkjör á nýjan leik og stjórn spítalans hefur oft haft á orði að nú ætti að fella þetta niður. Og í vor ætlaði stjórnin að gera alvöru úr þessu með þeim rökum að unglæknar hefðu náð svo mikilli kjarabót í nýgengnum kjarasamningum að læknanemar væru fullsæmdir af 75% og 85% af þeim launum. Það verður síðan enn erfiðara fyrir nemana að sækja þessi mál og standa á rétti sínum þegar þeir hafa í rauninni ekki haft neitt stéttarfélag á bakvið sig. Með inngöngu þeirra í LÍ verður breyting á. Það sér það auðvitað hver maður að þegar 5. eða 6. árs læknanemi fer í afleysingar í hérað og fær útgefið tímabundið lækningaleyfi og ber fulla ábyrgð á störfum sínum þá er fráleitt að honum séu ekki greidd laun í samræmi við það. Það var hins vegar réttilega bent á það á aðalfundinum að það sé óeðlilegt að láta læknanema vinna lækningastörf. Þetta tíðkast ekki víða annars staðar en hefur þróast svona hér og er stundum eina leiðin fyrir lækna í héruðum til að komast í langþráð sumarleyfi."

 

 

35 ára afmæli

Þrátt fyrir áhersluna sem lögð hefur verið á kjaramálin þá er Félag ungra lækna einnig félagslegur vettvangur fyrir meðlimi þar sem fólk skemmtir sér saman og á sér sameiginlega umræðuvettvang um starfið og fræðin. Í haust er félagið einmitt 35 ára og hélt upp á afmælið með pompi og pragt þann 23. september síðastliðinn. En hvað er unglæknir?

"Unglæknir er sá sem útskrifast hefur sem læknir en ekki farið erlendis í sérnám. Á hverjum tíma hafa verið um það bil 180-200 manns í félaginu. Félagið er að stækka og það fer að sjálfsögðu eftir því hversu margir læknar útskrifast úr læknadeildinni. Viðvera lækna í félaginu er yfirleitt fremur stutt, 1-3 ár, en nú erum við að sjá fólk sem er lengur í félaginu og það stafar að hluta til af því að í ákveðnum greinum er hægt að taka sérnámið hérlendis, að hluta eða í heild. Núverandi stjórn hefur til að mynda setið óvenju lengi, í þrjú ár. Félag ungra lækna hefur sömu stöðu innan Læknafélags Íslands einsog svæðafélögin og hefur því rétt til að tilnefna fulltrúa á aðalfund með öllum þeim réttindum sem því fylgja um aðalfundarsetu. Við eigum sjálfkjörinn fulltrúa í stjórn LÍ og erum eina félagið sem nýtur þeirra réttinda og einnig höfum við tvo fulltrúa í kjarasamninganefnd Læknafélags Íslands, það er að segja samninganefnd sjúkrahúss- og heimilislækna sem semur við ríkið."

Bjarni Þór hefur setið lengur á formannsstóli í félaginu en nokkur annar en hann segir það eiga sér ákveðnar skýringar.

"Þegar kosið var um nýja stjórn 2003 var horft til þess að framundan væri langvinn réttindabarátta og mikilvægt að sama fólkið ynni að þeim málum frá upphafi til enda. Það var því ákveðið að kjósa einstaklinga sem voru að byrja í félaginu og gætu því fylgt eftir þessum stóru hagsmunamálum. Það má með vissum hætti segja að með samningnum sem undirritaður var í febrúar síðastliðnum hafi unglæknar fengið kjarabætur umfram aðra læknahópa. Það á sér þó þær skýringar að unglæknar höfðu dregist svo afturúr samanburðarhópum á undanförnum árum að nauðsynlegt var að veita þeim umframhækkanir til að vinna upp forskotið. Samninganefnd LÍ var alveg einhuga um að ná fram þessum kjarabótum eftir að við vorum búin að sýna fram á réttmæti þeirra."

Og með þeim orðum sláum við botn í samtalið og Læknablaðið óskar FUL til hamingju með afmælið.

Bjarni Þór Eyvindsson formaður Félags ungra lækna.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica