04. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Bylting í búsetu og þjónustumálum aldraðra

Í framhaldi af velmegun stríðsáranna fluttu bænda­fjölskyldur í stríðum straumi til bæja og borga. Þar eð lítið pláss fannst fyrir aldrað fólk í þriggja herbergja borgaríbúðum urðu til öldrunarstofnanir er tóku við þeim öldruðu. Þegar hafnir voru hreppaflutningar á öldruðum af landsbyggðinni til stóru stofnana á Reykjavíkursvæðinu var farið að byggja öldrunarstofnanir utan Reykjavíkur. Einnig endurbyggðu menn gömlu sjúkrahúsin og bættu við nýjum á landsbyggðinni. Þar eð skurðlækningar lögðust af á mörgum minni sjúkrahúsum á landsbyggðinni breyttust þau í öldrunarstofnanir með ónotaða skurðstofu í endanum. Fyrir 30-35 árum fannst ekki orðið heimaþjónusta í íslensku máli.

Upp úr 1970 var hafin barátta fyrir aukinni heima­þjónustu og endurhæfingu á stofnunum. Fyrstu tillögur komu frá landlæknisembættinu og Þór Halldórssyni öldrunarlækni. Heimaþjónusta hefur smám saman eflst nokkuð í Keflavík, Reykja­vík og Akureyri þó að hægt gangi. Við erum verulegir eftirbátar nágrannaþjóðanna. Tvær töflur er hér verða sýndar varpa ljósi á stöðu okkar í búsetumálum aldraðra miðað við hin Norðurlöndin. Við bjóðum öldruðum mun oftar stofnanavistun og fjölbýli en nágrannaþjóðirnar. Þjónustuíbúðir í íbúðahverfum eða tengdar stofnanir eru mun algengari kostur í nágrannalöndunum en á Íslandi.

Landsamband eldri borgara lagði fram þann 21. desember 2005 ákveðnar kröfur til ráðherranefndar um gerbyltingu í þessum málum. Framvegis verði höfuðáherslan lögð á fjölbreyttari búsetuskilyrði fyrir aldraða, aðallega byggingu smáíbúða og tvö­földun á framlagi til heimaþjónustu á næstu tveimur árum. Elliheimili eiga að hverfa.

Ráðherranefndin samþykkti að fulltrúar sam­bandsins og nefndin starfi saman að tillögugerð í málinu sem skal lokið á næstu mánuðum.

Nokkur bjartsýni ríkir um árangur, sérstaklega vegna þess að kosningar nálgast nú óðum!



Þetta vefsvæði byggir á Eplica