02. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Dreifibréf Landlæknisembættisins nr. 3/2005

Dreifibréf Landlæknisembættisins nr. 1/2006

Andlát sem læknar þurfa að tilkynna til lögreglu

Í júní síðastliðnum var sent út til heilbrigðisstofnana dreifibréf landlæknisembættisins með fyrirmælum um hvaða andlát þarf að tilkynna til lögreglu, samkvæmt lögum um dánarvottorð, krufningar og fleira, nr. 61/1998 og reglugerð nr. 248/2001. Ætlast var til að forsvarsmenn stofnananna kynntu efni þess fyrir læknum sínum. Einhver misbrestur hefur sums staðar orðið á því að svo hafi verið gert. Því hefur embættið farið þess á leit að bréfið verði birt í Læknablaðinu, en bréfið má auk þess finna á heimasíðu embættisins www.landlaeknir.is

Sérstök athygli er vakin á því að ákvörðun um réttarkrufningu er í höndum lögreglu en ekki læknis. Ætla má að lögregla taki þá ákvörðun að jafnaði í samráði við lækni. Komi sú staða upp að læknir telji sig ekki vita dánarorsök, en lögregla telji ekki ástæðu til réttarkrufningar ber lækni eftir sem áður að rita dánarvottorð og þá að dánarorsök sé ókunn.

Hafa skal í huga að rétt er að tilkynna um óvænt dauðsfall ef læknir er í vafa. Stundum eru læknar óvissir um hvernig þeir eiga að bera sig að við að tilkynna lögreglu um óvænt dauðsfall. Í mörgum tilvikum nægir væntanlega eitt símtal, einkum ef um er að ræða dauðsfall á sjúkrahúsi eða hjúkrunarheimili. Þegar óvænt dauðsfall er tilkynnt lögreglu hringir læknir í síma 112 og biður um fjarskiptamiðstöð lögreglu sem lætur málið í hendur lögreglumanns með reynslu á þessu sviði.

Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlæknir

Fyrirmæli landlæknis um hvaða andlát þarf að tilkynna til lögreglu skv. lögum um dánarvottorð, krufningar o.fl. nr. 61/1998 og reglugerð nr. 248/2001

1. Dauðsfall þar sem grunur er um refsivert athæfi, óháð tímalengd frá því að verknaður var framinn þar til viðkomandi lést og óháð því hvort áverki/áverkar eru bein dánarorsök eða samverkandi þáttur í dauða.

2. Dauðsfall þar sem grunur er um slys eða óviljaverk, hvort heldur dauðsfallið tengist áfengis- eða vímuefnanotkun eða ekki, óháð tímalengd frá því atviki þar til viðkomandi lést og óháð því hvort áverki telst bein dánarorsök eða samverkandi þáttur dauða.

3. Dauðsfall þar sem grunur er um sjálfsvíg, óháð tímalengd frá því að atburðurinn gerðist og þar til viðkomandi lést.

4. Dauðsfall án sjúkdómsaðdraganda, sem skýrir andlátið.

5. Dauðsfall á vinnustað.

6. Dauðsfall í fangelsi.

7. Dauðsfall sem tengist læknisaðgerð eða lyfjagjöf óháð tímalengd frá því atviki.

8. Dauðsfall sem verður innan við 24 klst. frá innlögn á bráðamóttöku, hafi ekki á þeim tíma fengist fullnægjandi skýring á andlátinu, enda þótt ekkert ákvæði ofangreindra liða 1-7 eigi við.

9. Fæðing andvana barns (fullar 22 vikur og vegur 500 g eða meira) þar sem saga er um áfengismisnotkun og eða eiturlyfjaneyslu móður.

10. Fundið lík.

Dauðsföll sem falla undir lið 1-10 að ofan skulu tilkynnt viðeigandi lögregluembætti í síma 112 og biðja um fjarskipta­miðstöð lögreglu. Skv. lögum skal læknir sem annaðist sjúklinginn eða læknirinn sem kom að andlátinu tilkynna það til lögreglu. Skv. lögum tekur lögreglan ákvörðun um nauðsyn réttarkrufningar en ekki læknar. Þó svo atvikið sé tilkynninga­skylt til lögreglu leiðir það ekki alltaf til réttarkrufningar.

Landlæknir

Bólusetning gegn hettusótt

Að gefnu tilefni vill sóttvarnalæknir koma því á framfæri að einstaklingar sem fæddir eru eftir 1985 en hafa ekki verið bólusettir með MMR bóluefninu eiga rétt á bólusetningu þeim að kostn­aðarlausu. Þessir einstaklingar áttu rétt á MMR bólusetningu við 18 mánaða aldur (hófst 1989) og síðar við 9 ára aldur (hófst 1994) og því ber að líta svo á að ofangreindir einstaklingar falli undir fyrirkomulag almennra ungbarnabólusetninga á Íslandi.

Sóttvarnalæknir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica