01. tbl 92. árg. 2006

Ritstjórnargrein

Á tímamótum

Karl Andersen er hjartalæknir og í ritstjórn Læknablaðsins.

Þroski einstaklings ræðst öðru fremur af þeirri reynslu sem hann öðlast á lífsleiðinni og því, hvernig honum tekst að draga lærdóm af þeirri reynslu. Á tímamótum staldra menn við og líta um öxl. Rifja upp það sem á dagana hefur drifið og reyna að draga af því lærdóm, ef það má verða til þess að auka þroska þeirra og auka færni í að takast á við ný viðfangsefni. Á tímamótum gefst tækifæri til þessarar sjálfsskoðunar sem krefst bæði heiðarleika og sjálfsgagnrýni. Þegar vel tekst til verður slíkt uppgjör til þess að leggja grunn að framtíðar­áformum, uppbyggingu og auknum framförum. Án þessa uppgjörs verður stöðnun.

Læknar standa á tímamótum í mörgum skilningi um þessi áramót.

Faglega tökumst við læknar sífellt á við sérhæfðari verkefni sem varða líf og heilsu skjólstæðinga okkar. Á tímum upplýsingamiðlunar verða læknar að gæta þess að tapa ekki stöðu sinni sem sérfræðingar á sviði heilbrigðisþjónustu bæði í samskiptum við sjúklinga og heilbrigðisyfirvöld. Fagmennska í læknisfræði tryggir öðru fremur færni stéttarinnar og trúverðugleika. Í samræmi við Codex Ethicus verða hagsmunir skjólstæðinga okkar ávallt að vega þyngra en aðrir hagsmunir. Sparnaður, aðhald eða bágar efnahagslegar forsendur mega ekki rýra læknisfræðilega þjónustu sem sjúklingum stendur til boða. Skottulækningar eru vaxandi þjóðfélagsvandi sem birtast meðal annars í skrumi þar sem læknisfræðileg hugtök eru notuð af fullkomnu ábyrgðarleysi til þess að hafa fé af þeim sem veikir eru fyrir. Læknar bera samfélagslega ábyrgð á því að vara við slíkri starfsemi og koma í veg fyrir hana.

Læknar verða að nýta sérþekkingu sína til þess að verða leiðandi í stefnumótun heilbrigðiskerfisins. Ákvarðanir um markmið og leiðir eru allt­of oft teknar út frá forsendum stjórnmálanna án þess að fagleg rök fái þar áheyrn. Engum ætti þó að dyljast að læknisfræðileg sjónarmið ættu að vera þar í fyrirrúmi. Dæmi um þetta er það hversu litlum fjármunum er varið til forvarna og fyrirbyggjandi læknisfræði. Stjórnvöld hafa rekið hafta­stefnu og skömmtunarkerfi í heilbrigðisþjónustu, en það er hugmyndafræði sem á ættir að rekja til úrelts hagkerfis austantjaldslanda. Sérfræðingum í heilsugæslu er bannað að reka eigin læknastofur, án þess að fyrir því séu nokkur sérstök rök. Sjálfstætt starfandi sérfræðingum er gert að taka á sig skuldbindingar Tryggingastofnunar ríkisins síðustu vikur ársins þegar verkeiningar klárast. Þó hafa skýrslur Ríkisendurskoðunar sýnt að starf­semi einkarekinna læknastofa er bæði ódýrari, hagkvæmari og skilvirkari en aðrir valkostir í heilbrigðisþjónustu.

Læknablaðið stendur á mikilvægum tímamótum. Í tíð fráfarandi ritstjórnar hefur blaðið vaxið og dafnað bæði að ytra umbúnaði og innihaldi. Vefútgáfa blaðsins frá árinu 2000 telst til merkra framfaraspora sem hefur aukið aðgengi að efni blaðsins og auðveldað leit í eldri árgöngum. Á 90. aldursári Læknablaðsins náðist sá mikilvægi áfangi að fá blaðið skráð í Index Medicus. Með því fylgir viðurkenning á þeim háa gæðastaðli sem blaðið heldur uppi. Um leið eru útdrættir vísindagreina sýnilegir á alþjóðlegum leitarvélum netsins og útbreiðsla fræðigreina margfaldast. Þar með opnast gluggi að alþjóðlegu vísindasamfélagi þar sem íslenskir vísindamenn eru virkir þátttakendur. Niðurstöður sem birtar sem hafa verið hafa vakið mikla athygli fyrir fræðilegt innihald og gæði. Ný ritstjórn Læknablaðsins byggir starf sitt á þeim grunni sem lagður hefur verið. Áfram verður unnið að því að auka veg og vanda blaðsins, bæta faglega umræðu og fræðilegt innihald. Á þessum tímamótum er mikilvægt að gera upp við fortíðina og horfa björtum augum til framtíðar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica