12. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Af hornsteinum og sjálfbirgingslegum embættismönnum. Elínborg Bárðardóttir

Eins og kunnugt er eiga heimilislæknar á Íslandi sér sögu um endurtekin átök við yfirvöld um kjör sín og fyrirkomulag heimilislæknisþjónustu á Íslandi. Uppsagnir þorra heimilislækna 1985 og 1996 bera vott um það sem og hörð átök og uppsögn hóps lækna í Keflavík og Hafnarfirði 2002. Átökin 2002 byrjuðu með svokallaðri vottorðadeilu en þróuðust síðan í baráttu um sömu réttindi og kjör og aðrir sérfræðingar. Í kjölfar þeirra átaka fengust kjarabætur sem tengdu launakjör heilsugæslulækna við kjör sérfræðinga á sjúkrahúsum. Hluti af sáttum heimilislækna og heilbrigðisráð­herra 2002 var að heilsugæslulæknar fóru undan kjaranefnd og eru nú með samningsrétt eins og aðrir læknar. Einnig gerði stjórn Félags ís­lenskra heimilislækna (FÍH) samkomulag við Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra um að heimila aukna starfsemi sjálfstætt starfandi heimilislækna sbr. viljayfirlýsingu ráðherra frá 27. nóvember 2002. Í viljayfirlýsingu ráðherra sagði meðal annars: ".. jafnframt mun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra beita sér fyrir því að sérfræðingar í heimilislækningum geti annaðhvort starfað á heilsu­gæslustöðvum eða á læknastofum utan heilsu­gæslustöðva. Gerður verði nýr samningur um störf á læknastofum sem byggi á gildandi samn­ingum sjálfstætt starfandi heimilislækna og verði lögð áhersla á afkastahvetjandi launakerfi sbr. 2. mgr." Því miður hefur þetta þriggja ára samkomulag FÍH við ráðherra enn ekki verið efnt þrátt fyrir eftirgangsmuni stjórnar FÍH.

Á aðalfundi LÍ í september sem haldinn var í Kópavogi var kynnt skýrsla félagsins um stöðu og framtíð íslenskra heimilislækna og má segja að hún sé afrakstur tilraunar LÍ til að halda sjálfstæðismáli heimilislækna vakandi.

Skýrslan var unnin af nefnd sem sett var á stofn í kjölfar aðalfundar LÍ 2004 en þar var samþykkt ályktun um að fela stjórn að gera greinargerð um stöðu heimilislækninga hérlendis og bera saman við þróun í rekstri heimilislækninga í nágranna­löndum. Í umræddri skýrslu er rakin söguleg þróun heimilislækninga, fjallað um stöðu heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og gerður samanburður við helstu nágrannalönd hvað varðar rekstur heimilislækninga. Stefna ríkisstjórnarinnar í heilsugæslumálum er rakin sem og stefna stjórnmálaflokkanna. Fjallað er um hvernig sjónarmið um einkarekstur falla að stefnu stjórnvalda og hvernig rammasamningur LÍ við heilbrigðisyfirvöld fyrir sjálfstætt starfandi lækna gæti litið út. Loks um hverju þurfi að breyta í laga- og reglugerðarumhverfi svo auka megi sjálfstæði heimilislækna.

Niðurstaða skýrslunnar er í stuttu máli sú að nauðsynlegt sé að auka sjálfstæði heimilislækna og stuðla að vali og fjölbreytileika í grunnþjónustunni til að tryggja hag sjúklinga og heimilislækna. Það verði gert með samningi um sjálfstæða starfsemi heimilislækna sem dragi úr þeirri miðstýringu sem nú ríki í kerfinu. Það er skemmst frá því að segja að krafan um aukið sjálfstæði í rekstri heimilislækninga stangast alls ekki á við stefnu stjórnvalda eða helstu stjórnmálaflokka og virðist þvert á móti geta leitt til að markmiðum heilbrigðisyfirvalda verði náð, það er um valfrelsi sjúklinga annars vegar og hins vegar að heimilislæknirinn verði fyrsti valkostur sjúklinga. Samkvæmt núgildandi löggjöf hefur heilbrigðisráðherra víðtækar heimildir til að haga almennri læknisþjónustu með ýmsu móti. Vilji og framkvæmd er allt sem til þarf. Eins og komið hefur fram hefur stjórn FÍH ítrekað gengið eftir efnd loforðs um samning um sjálfstæðan rekstur heimilislækna, sbr. viljayfirlýsingu ráðherra frá 27. nóvember 2002 en ennþá án árangurs. Þegar stefna stjórnarflokkanna og framkvæmd heilbrigðisráðuneytisins í málinu er skoðuð virðist annað af tvennu liggja fyrir. Annaðhvort fylgja stjórnarflokkarnir og/eða ráðherra annarri stefnu en þeirri sem þeir/hann opinberlega segjast fylgja eða að embættismannakerfi heilbrigðisráðuneytisins lifir sjálfstæðu lífi og fer hreinlega ekki eftir stefnu ríkisstjórnarinnar og ráðherra. Eða mega embættismenn ráðuneytisins kannski ekkert vera að því að sinna málum heimilislækna sem eru hornsteinar grunnþjónustunnar í landinu?

Höfundur er formaður Félags íslenskra heimilislækna og fulltrúi þess í stjórn LÍ.

Í pistlunum Af sjónarhóli stjórnar birta stjórnarmenn LÍ sínar eigin skoðanir en ekki félagsins.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica