12. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Um skipun og störf ad hoc ritstjórnar

Læknablaðið er bæði fræðilegt rit um læknisfræði og félagsblað lækna. Ábyrgðarmaður blaðsins tekur ákvarðanir um hvort innsendar greinar sem ekki eru fræðilegs eðlis birtist í blaðinu eða ekki.

Þannig var einnig um grein Jóhanns Tómassonar í 9. tölu­blaði blaðsins "Nýi sloppur keisarans". Með því að leyfa birtingu hennar var ábyrgðarmaður ekki að taka afstöðu til sjónarmiða eða fullyrðinga sem Jóhann setti fram í grein sinni. Eftir birtingu greinarinnar urðu deilur í ritstjórninni um hvernig og hvort bregðast skyldi við óskum um að draga greinina til baka og að beðist yrði afsökunar á hennar. Ábyrgðarmaður vildi hvorugt gera. Fjórir ritnefndarmenn gáfu frá sér yfirlýsingu í 10. tölublaði Læknablaðsins undir fyrirsögninni "Að gefnu tilefni". Þeir töldu að birting ofannefndrar greinar Jóhanns Tómssonar hefðu verið mistök. Ritstjórnin var að mati lögmanns Læknafélags Íslands, vegna starftengsla einstakra ritnefndarmanna við Kára Stefánsson, öll vanhæf til að fjalla um málið. Sjónarmiðum sínum um það efni hefur lögmaðurinn komið á framfæri í Föstudagsmola nr. 45 sem birtist þann 30. september síðastliðinn á heimasíðu Læknafélags Íslands www.lis.is Um mánaðamótin október/nóvember sagði öll ritstjórnin nema ábyrgðarmaður af sér. Skömmu síðar bárust stjórnum Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur formlegar kröfur frá Kára Stefánssyni í þá veru að grein Jóhanns yrði tekin af vefútgáfu blaðsins og að beðist yrði afsökunar á birtingu hennar, en Kári Stefánsson hefur jafnframt kært undirritaðan til Siðanefndar Læknafélags Íslands fyrir að leyfa birtingu ofannefndar greinar Jóhanns Tómassonar. Kunnugt er að stjórnir læknafélaganna hafa vísað kröfum Kára Stefánssonar frá að sinni og stjórn Læknafélags Íslands hefur vísað grein Jóhanns Tómassonar til Siðanefndar til umfjöllunar.

Hér eru birt bréfaskipti sem urðu í kjölfar þess að stjórnir læknafélaganna afréðu að setja á laggirnar bráðabirgðaritstjórn til þess að bregðast við kröfum Kára Stefánssonar vegna birtingar greinar Jóhanns Tómassonar. Bréfin eru fjögur: bréf frá formönnum félaganna til þeirra þriggja manna sem skipuðu bráðabirgðaritstjórnina, bréf til formanna félaganna frá oddamanni umræddrar ritstjórnar, bréf með niðurstöðu þremenninganna og bréf frá landlækni sem bráðabirgðaritstjórnin kallaði eftir.

Vilhjálmur Rafnsson

Skipunarbréf ad hoc ritstjórnar

Jón Steinar Jónsson, læknir

Tryggvi Ásmundsson, læknir

Örn Bjarnason, læknir

Kópavogi, 9. nóvember 2005

Á fundi stjórna Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur, sem haldinn var í dag, var samþykkt að fara þess á leit við ykkur að þið takið sæti í "ad hoc" ritnefnd fyrir Læknablaðið.

Örn Bjarnason kalli hópinn saman og sé í forsæti hans.

Tildrögin eru þau, að í 9. tbl. Læknablaðsins 2005 birtist grein eftir Jóhann Tómasson, lækni, undir heitinu "Nýju fötin keisarans? [Nýi sloppur keisarans " leiðr. Læknablaðið].

Upp kom ágreiningur í ritnefnd Læknablaðsins m.a. um hvort rétt hefði verið að birta greinina, hvort hún ætti að vera á vefsíðu blaðsins og hvort biðjast ætti afsökunar á birtingu hennar.

Í framhaldi deilna um þessi atriði og önnur sagði ritstjórn af sér að ábyrgðarmanni, Vilhjálmi Rafnssyni, undanskildum.

Stjórnir læknafélaganna fela ykkur hér með að taka ákvörðun um það hvort umrædd grein Jóhanns Tómassonar skuli tekin af vefnum, einstök atriði hennar eða hún öll, tímabundið eða varanlega og hvort biðjast skuli afsökunar í næsta tölublaði á birtingu greinarinnar. Ef svarið við síðarnefnda atriðinu er jákvætt óska stjórnirnar eftir að sú afsökunarbeiðni verði orðuð af ykkur.

Þess er óskað að þið komist að niðurstöðu fyrir 17. þessa mánaðar.

Meðfylgjandi eru ljósrit af öllum fyrirliggjandi skjölum málsins.

f.h. stjórnar LÍ f.h. stjórnar LR

Sigurbjörn Sveinsson Óskar Einarsson

formaður LÍ formaður LR

Svarbréf ad hoc ritstjórnar

Til eigenda og útgefenda Læknablaðsins,

Hlíðasmára 8. Kópavogi

Reykjavík 17.11.2005

Með bréfi þessu dagsettu 9. nóvember 2005 fóru stjórnir LR og LÍ þess á leit, að við Jón Steinar Jónsson og Tryggvi Ásmundsson tækjum til bráðabirgða sæti í ritnefnd fyrir Læknablaðið og vísast til málsatvika og erindis, sem rakin eru í því tilskrifi.

Við þrír höfum komizt að samhljóða niðurstöðu um málið og fylgir álit okkar með bréfi þessu.

Örn Bjarnason læknir

Grandavegi 47, 107 R.

Álit ad hoc ritstjórnar

Óskar Einarsson, formaður LR

Sigurbjörn Sveinsson, formaður LÍ

Reykjavík, 18. nóvember 2005

Með bréfi ykkar dagsettu 9. nóvember sl. vorum við undirritaðir skipaðir í ritnefnd Læknablaðsins til bráðabirgða. Tildrögin voru deilur sem orðið höfðu vegna greinar Jóhanns Tómassonar í 9. tölublaði Læknablaðsins 2005. Nefndin komst að eftirfarandi niðurstöðu:

Í grein Jóhanns Tómassonar er gefið í skyn að Kári Stefánsson stundi lækningar án tilskilinna leyfa. Þetta er rangt eins og meðfylgjandi bréf Landlæknis sýnir. Nauðsynlegt er að fjarlægja þessi ummæli tafarlaust og varanlega af vef Læknablaðsins. Sjálfsagt er að biðja Kára Stefánsson afsökunar á því að þessi ummæli hafi verið birt. Greinin í heild er til umfjöllunar hjá siða­nefnd LÍ að beiðni stjórnar LÍ og er rétt að bíða úrskurðar hennar hvort þörf sé frekari aðgerða.

Tillaga að afsökunarbeiðni til Kára:

"Í 9. tölublaði Læknablaðsins á þessu ári birtist grein eftir Jóhann Tómasson þar sem gefið er í skyn að þú stundir lækningar án tilskilinna leyfa. Þetta hefur reynst vera rangt. Þú ert beðinn afsökunar á því að þessi ummæli skuli hafa birst í Læknablaðinu. Þau verða umsvifalaust fjarlægð úr netútgáfu blaðsins. Greinin í heild er til umfjöllunar hjá siðanefnd LÍ að beiðni stjórnar LÍ og mun nefndin skera úr um hvort þörf sé frekari aðgerða."

Virðingarfyllst

Örn Bjarnason, formaður

Jón Steinar Jónsson

Tryggvi Ásmundsson

Vitnisburður landlæknis

Tryggvi Ásmundsson læknir

Heilsuverndarstöð Reykjavíkur

Barónsstíg 47, 101 Reykjavík

Seltjarnarnesi, 16. nóvember 2005

Efni: Lækningaleyfi Kára Stefánssonar læknis

Vísað er til samtals okkar í dag, 16. nóvember. Samkvæmt læknaskrá sem birt er á vef Land­læknisembættisins fékk Kári Stefánsson (lnr. 1168) almennt og ótakmarkað lækningaleyfi þann 10. júní 1977 og sérfræðileyfi í taugalækningum þann 14. desember 1984. Kári lauk prófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1976. Eitt af skilyrðum sérfræðileyfis er að sjálfsögðu almennt lækningaleyfi. Aðrar upplýsingar eru ekki hjá Landlæknisembættinu um leyfisveitingar Kára Stefánssonar. Hann hefur því fullt og ótakmarkað lækningaleyfi á Íslandi.

Með kveðju,

Sigurður Guðmundsson

landlæknir

Eigendur Læknablaðsins hafa orðið við tillögu bráðabirgða­rit­nefndarinn­ar og sent Kára Stefáns­syni lækni afsökunar­beiðni samhljóða tillögunni.

21/11/2005

Óskar Einarsson

Sigurbjörn Sveinsson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica