11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Um fyrstu íslensku konurnar í læknastétt

II. Hrefna Finnbogadóttir/Harriet Kurtz, síðar McGraw, læknispróf 1907, Chicago

Uppruni

Hrefna fæddist á Íslandi 24. apríl 1875 á Tindum í Geiradal í Barðastrandasýslu, en fæðingardagur hennar er ranglega skráður í kirkjubækur sem 27. apríl 1875. Foreldrar hennar voru Finnbogi Guðmundsson, smiður og skottulæknir, 1841-1883, og kona hans Mildríður Margrét Benediktsdóttir, f. 1848, dóttir Benedikts Einarssonar sem var einn þekktasti skottulæknir síns tíma og Sólrúnar Sæmundsdóttur sem einnig stundaði skottulækningar lengi vel. Hrefna var 7. dóttir foreldra sinna og skírð eftir Ingunni Hrefnu systur sinni, f. 1874, sem lést á fyrsta ári. Hún ólst upp á Tindum og var í miklu uppáhaldi Sólrúnar móðurömmu sinnar sem sinnti henni mikið og las henni sögur og ævintýr.

Flutningur til Vesturheims

Erfitt tíðarfar á Íslandi olli því að foreldrar hennar ákváðu að flytja vestur um haf til Kanada 1883, með dæturnar sex. Þar lenti fjölskyldan í miklum erfiðleikum, fjölskyldufaðirinn dó skömmu eftir komuna þangað, móðirin fór með dætur sínar til Winnipeg og settist þar að, en missti fljótlega allar eignir sínar sem hún hafði lagt í fyrirtæki í góðri trú, og lenti skömmu síðar í slysi svo hún varð óvinnufær. Hún varð því að senda allar dætur sínar frá sér og koma þeim í vinnu, en Hrefnu var komið fyrir í fóstri hjá lögmannshjónum í Winnipeg. Hún var ósátt við fóstrið og fór aftur til móður sinnar. Hún var þá send til frænku sinnar í N-Dakota og dvaldi hjá henni sumarlangt, síðan hjá íslenskum hjónum næsta vetur, en vorið eftir var hún send aftur til Winnipeg til eldri systur sem þar hafði vinnu. Fór þá sjálf að vinna fyrir sér 9-10 ára gömul, fyrst við barnagæslu, síðan sem starfsmaður á veitingahúsi og eftir það við hver önnur störf sem til féllu. Fjórum árum síðar tóku fjórar systra hennar sig upp og fluttu til Sioux Falls í S-Dakota og stofnuðu þar og starfræktu þvottahús og fór Hrefna með þeim. Þar stóð hún við þvottabala í þrjú ár, oft miður sína af ofþreytu og kulda. Þrældómur, vosbúð, næringarleysi og flækingur þessara ára settu mark sitt á hana ævilangt.

Menntun

Þegar Hrefna kom til Kanada var hún vel læs og skrifandi. Í Sioux Falls kynntist hún dönskum prest sem kenndi henni dönsku meðal annars með því að láta hana lesa Biblíuna og kom henni alþýðu­skóla sem hann starfaði við. Þar nefndu skólasyst­kini hennar hana Harriet og gekk hún undir því nafni síðan. Síðan tókst henni að komast í trúboðsskóla í Minneapolis og eftir það í hjúkrunarnám í Lincoln í Nebraska þar sem hún lauk 1900, og síðar í sérnám í hjúkrun. Hún varð alltaf að vinna fyrir sér með náminu og lagði svo hart að sér að með ólíkindum þótti. Hún vann vinnukonustörf á morgnana og á kvöldin, fór í skólann á daginn, lagði sig nokkrar klukkustundir og vaknaði kl. 02 á nóttunni til að lesa. Hún var oft vansvefta, hafði lítið að borða og naumast föt til skiptanna.

Á námsárunum kynntist hún ungum lækna­nema, John Kurtz, og giftist honum er hún hafði lokið námi sínu 1900. Þau fluttu til Colorado þar sem hann var við nám og henni fannst hún vera hamingjusamasta konan í heiminum. En hamingja hennar stóð ekki lengi því eftir þriggja mánaða hjónaband veiktist maður hennar hastarlega af lungnabólgu og lést eftir tveggja mánaða erfiða sjúkdómslegu sem át upp allar eignir þeirra. Hrefna fór þá að vinna við hjúkrun ásamt því að annast mann sinn. Eftir lát hans var hún lengi yfirkomin af harmi, en hún varð að halda áfram að vinna fyrir sér.

Hún fór nú til framhaldsnáms og starfa á Battle Creek Sanatorium í Michigan og hafði þar konu sem yfirmann og yfirlækni sem var henni algert nýnæmi. Það vakti áhuga hennar á læknisfræði og ákvað hún að feta þá braut. Hún sótti um að komast í læknanám í Chicago og fékk viðurkenningarskjal hjá Peter A. Downy, yfirumsjónarmanni læknaskólanna í Chicago, þar sem hann heimilar henni aðgang að öllum þeim læknaskólum í Chicago er taka við kvenfólki í nám. Hún valdi Bennett Medical Collage og hóf nám sitt. Hún vann fyrir sér á námstímanum með hjúkrun, nuddlækningum, blaðasölu og hverju sem gafst. Síðasta árið í náminu rak hún nuddstofu fyrir kvenfólk er læknar sendu til hennar. Hún lauk læknanámi sínu þ. 7. maí 1907 og sama ár framhaldsnámskeiði frá Loyola University. Hún fór í próf til að fá lækninga­leyfi í Illinois og lauk því og þar hitti hún annan íslenskan lækni, Sigurð Júl. Jóhannesson sem starfaði í Winnipeg.

Upphaf starfsferils

Hrefna opnaði lækningastofu í Chicago en skorti fé til að kaupa viðunandi búnað og gekk illa að fá sjúklinga. Lá við að hún léti lífið af næringarskorti á því tímabili. Hún fór þá til Nebraska þar sem systir hennar bjó, tók 50 dala lán sem systir hennar gekkst í ábyrgð fyrir til að kaupa sér lækningaleyfi þar og leigja lækningastofu, en sama gerðist og henni tókst ekki að fá neina sjúklinga. Þá gerðist það einn daginn að kunnugur maður vatt sér inn úr dyrunum og vék að henni 100 dölum, og sagði henni að verja þeim til að bæta starfsaðstöðu sína, fara í betra hverfi og fá sér húsnæði þar og fá sér betri húsmuni og tæki. Hann sagði að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessum peningum sem hún þyrfti ekki að greiða sér fyrr en hún hefði efni til. Hún fór að hans ráðum, flutti sig í annað hverfi og fékk sér betri búnað, gekk þá brátt vel að fá sjúklinga og hafði hún þá ágætar tekjur.

Fjölskylda og heilsufarsvandamál

Hrefna giftist enskum lögfræðingi, Joseph A. McGraw, 7. sept. 1909. Skömmu síðar hrakaði heilsu hennar svo að hún varð að hætta störfum. Var talið að ofþreyta ylli heilsubrestinum, en hún hafði alltaf unnið mikið með námi til að sjá sér farborða og hafði langtímum saman verið svefnlítil, illa nærð og fatalítil. Hún hafði margsinnis veikst illilega af inflúensum og gróf það einnig undan heilsu hennar. Þau hjón fluttu til Kaliforníu þar sem Hrefna hjarnaði við. 1917 veiktist hún enn hastarlega af illvígri inflúensu í 7. sinn, og lá milli heims og helju mánuðum saman, en fór síðan smám saman batnandi. Við þessi veikindi misstu þau hjón allar eignir sínar.

Framhald starfsferils

Hrefna fór aftur að vinna, opnaði stofu, og eitt sinn um 1920 kom maður á stofuna sem eitthvað vissi um aðstæður hennar og skoraði hann á hana að flytja sig í Mc Pearson hérað sem var læknislaust hérað í grennd við smáþorpið Tryon í Nebraska þar sem loftslag þótti mjög heilsusamlegt og gott. Henni fannst lýsing á staðnum spennandi og minna sig á Ísland og tók áskoruninni sem líka fólst í bæjarnafninu, Tryon, og flutti, fyrst ein, en maður hennar kom svo á eftir. Hún fann gamlan veitingaskála sem ekki var í notkun og þreif hann upp, setti þar upp lækningastofu, bjó í bakherbergi og hóf læknisstörfin. Starfið var ekki auðvelt. Héraðið var stórt, um 2240 ferkílómetrar og strjálbýlt, með um 1700 íbúa, mest fátækt bænda­fólk. Landið var erfitt yfirferðar, engir vegir, hjarn og snjór á veturna og oft miklar vetrarhörkur eða sandstormar. Engin járnbraut var í héraðinu, ekkert rafmagn, engin lyfjabúð og 60 km á næsta sjúkra­hús. Tekjur voru rýrar. Flækingshundur og tveir kettir settust upp hjá henni. Hún stundaði almennar lækningar eða heimilislækningar þarna fram til 1937 og fór mjög gott orð af henni. Lækningarnar gengu vel, hún stundaði bæði lyflækningar, gerði skurðaðgerðir og lagaði beinbrot. Hún missti engan sjúk­ling fyrsta árið og fáa eftir það. Hún var ólöt að fara í vitjanir þótt oft væri langt að fara. Var oft ótrúlega seig að komast á milli staða á hestbaki. Mikið orð fór af búnaði hennar í vitjunum, en hún klæddist leðurstígvélum með gæruskinnsinniskóm inni í og skinnstakki miklum úr hrosshúð, og var með loðskinnshúfu, með flónels­grímu er huldi andlitið og varði hana kulda, en var með göt fyrir augun. Þegar hún ætlaði að flytja burt grát­báðu héraðsbúar hana um að fara hvergi og varð hún við þeirra bón og spurði mann sinn hvort hann héldi ekki að það vantaði þarna lögfræðing eins og annars staðar, fór hann þá og skilaði farmiðum þeirra ótilkvaddur. Margar skemmtilegar sögur eru til af læknisverkum Hrefnu, en ekki er hægt að rekja þær hér. Eftir Tryon rak hún lækningastofu í 10 ár í North Plate, í 50-60 km fjarlægð og keyrði á milli, en flutti síðar þangað.

1930 var Hrefna orðin kunn fyrir störf sín og fram að heimsstyrjöldinni birtust margar greinar um hana í bandarískum, kanadískum og jafnvel íslenskum blöðum. 1938 kom grein um hana í bókinni Unsung Heroes, New York, 1938: 265-75, eftir Elmu Holloway sem gerði hana þjóðkunna.

Þann 8. jan. 1939 barst Hrefnu svo hljóðandi skeyti:

?Frú Roosewelt biður dr. Harriet McGraw að heimsækja sig miðvikudaginn 11. janúar kl. 16.30.? Hrefna trúði tæplega skeytinu í byrjun, hélt að um einhvern misskilning væri að ræða, en hafði sím­samband við Hvíta húsið þar sem það var staðfest. Hún fór síðan í heimsóknina á tilteknum tíma og sat lengi á eintali við forsetafrúna. Þetta þótti mikill og sjaldséður heiður sem margir sóttust eftir, en fáum hlotnaðist. Eftir þetta jókst frægð hennar og ýmis stórmenni vottuðu henni virðingu sína og hélt hún þá ávallt íslenskum uppruna sínum á lofti.

Árið 1949 flutti Hrefna með manni sínum til San Bernadino í Kaliforníu og setti þar upp lækningastofu og vann þar henni til dauðadags. Hún missti mann sinn 1948 og var það mikið áfall. Þau eignuðust ekki börn. Hún lést 10. júní 1950 þá 75 ára gömul.

Síðustu árin stóð hún í bréfaskriftum við Krist­mund Bjarnason og stóð til að hann skrifaði ævisögu hennar, en af því var ekki vegna ótímabærs fráfalls hennar. Hann skrifaði grein byggða á bréfum hennar og birti í tímaritinu Heimdraga. Í ýmsum heimildum um Hrefnu er hún talin fimm árum yngri en hún var í raun og stafaði þetta af því að móðir hennar hafði glatað fæðingarvottorði hennar og hún vissi ekki sjálf hver aldur hennar var.

Heimildir

Hrefnu er getið í mörgum samtímaheimildum bandarískum, m.a.:
Who is Who in America, 1944.
Who is Who in Medicine, 1944.
Medical Womens Journal, sept. 1944.
Skjöl frá Office of War Information, send til Íslands 26. maí og 2. júlí 1943.
Sun-Telegram, San-Bernadino, 18. maí 1947.
American Magazin, mars 1928.
Who is Important in Medicine.
Elma Holloway: Unsung Heroes, NY 1938; 265-75.
Sálnaregistur og minsteriabók Garpsdalsprestakalls,
Tímaritið Brautin; Winnipeg, 4. árg. 1947.
Tímaritið Árdís; Winnipeg, 7./8. hefti 1940: 22-5.
Safn fræðafélagsins um Ísland og Íslendinga, IV og XIII.
Norðanfari; maí 1863.
Íslenskar æviskrár.
Skammdegisgestir eftir Magnús F. Jónsson.
Grein í Heimskringlu; 564, ártal óvíst.
Bank of America San Bernadino, Cal., BNA.
Lesbók Mbl. IV, 4. tbl.
Heimildir sem þessi grein er skrifuð eftir eru:
Heimdragi II; 7-36, eftir Kristmund Bjarnason.
Læknar á Íslandi 1970; 444.

Hrefna Finnbogadóttir. Myndin er fengin úr lækna­talinu Læknar á Íslandi 1970.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica