11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Tillagan hefur ýmsa kosti

? segir Sigurður Ólafsson formaður skipulags- og þróunarnefndar læknaráðs Landspítala

Meðan dómnefnd lá yfir tillögum arkitektahópanna sjö fékk hún á sinn fund fjölmarga ráðgjafa og fulltrúa starfsmanna til að auðvelda sér ákvarðanatökuna. Meðal þeirra sem nefndin ræddi við var Sigurður Ólafsson sérfræðingur í meltingarsjúkdómum en hann er formaður skipulags- og þróunar­nefndar lækna­ráðs Landspítala. Læknablaðið bað hann að segja álit sitt á sigurtillögunni.

?Ég vil nú taka það fram að ég hef ekki haft tækifæri til að setja mig ítarlega inn í tillögurnar sem bárust en þær voru margar athygl­isverðar. Það hefur ekki verið auðvelt verk fyrir dómnefnd að gera upp á milli þeirra. Ég er hins vegar afar ánægður með að þessum áfanga skuli vera náð og ekki síður að fjármagn sé tryggt til þess að hefja verkið.

Þeir þættir sem ég hafði í huga þegar ég skoðaði tillögurnar voru hvort vel væri hugað að þörfum sjúklinga, hvort skipulag spítalans byði upp á sveigjanleika svo auðvelt verði að laga hann að breytingum sem óhjákvæmilega munu verða, hvort bráðadeildir, svo sem bráðamóttaka, gjörgæsla og skurðstofur, séu nálægt hver annarri og að vegalengd milli klínískra eininga sé ekki mikil. Þetta eru atriði sem skipta lækna og sjúklinga miklu máli. Auk þess þarf að huga vel að háskólastarfseminni.

Sé vinningstillagan skoðuð út frá þessu sjónarhorni hefur hún ýmsa kosti. Það er vel hugsað fyrir þörfum sjúklinga sem verða til dæmis allir á einbýli. Tillagan býður upp á sveigjanleika í útfærslu og áðurnefndar bráðadeildir virðast vera nálægt hver annarri. Þá er vel séð fyrir háskólastarfseminni. Ég tel hins vegar að vegalengdir milli klínískra eininga séu of langar. Því hefði mátt mæta með því að byggja meira á hæðina eins og lagt er til í annarri tillögu. Einnig set ég spurningamerki við það hvort rétt sé að hafa legudeildir barna- og kvennadeildar áfram í sérbyggingum,? sagði Sigurður.

Hann bætti því við að nú þyrfti að bretta upp ermarnar og hefja undirbúning að byggingunni. Í ljósi þess að fjármagnið liggur fyrir væri spurning hvort ekki væri hægt að endurskoða tímasetningar og áfangaskiptingu til þess að hraða framkvæmdum því þörfin sé brýn. Einnig þyrfti að huga að því hvort ekki væri hægt að bregðast við þeim vanda sem bráðaþjónustan er í og verður þar til fyrsti áfanginn er risinn. Hann taldi hins vegar ekkert í tillögunum hamla því að hægt væri að útfæra skipan spítalans þannig að hún félli að hugmyndum lækna um að efla sérgreinar læknisfræðinnar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica