09. tbl. 91. árg. 2005

Nokkur orð um sár

Frá starfsmanni lyfjafyrirtækis barst fyrirspurn um tiltekna tegund sárs. Af því tilefni var farið yfir ýmis heiti sem notuð hafa verið um sár. Í Samheitaorðabókinni eru heitin: áverki, ben, bor, kaun, meiðsl, skeina, særi, und. Í Íslenskri orðabók Eddu er nafnorðið sár sagt merkja 1. (opið) meiðsli, ben, und, áverki. 2. brotflötur. Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans má sjá að orðið sár er gamalt og er upphaflega ýmist stafsett sár, sar eða saar. Mörg notkunardæmin eru býsna skemmtileg. Í ritum Lærdómslistafélagsins frá síðari hluta hluta 18. aldar segir til dæmis: Sár innibera svovel undir (vulnera) sem kaun (ulcera). Fram kemur enn fremur að orðið sár hefur verið notað um brotfleti á dauðum hlutum, svo sem á steinum eða bergi, og jafnvel um skurðfleti, svo sem á kökusneiðum og kjötbitum. Samkvæmt hinni miklu orðabók Websters er enska orðið sore talið eiga uppruna í fornensku orði, sãr, en það er sett í tengsl við forn­íslenska heitið sár.

Wound

Enska orðið wound er notað um sár sem verða til við áverka þegar yfirborð húðar eða slímhúðar er stungið, skorið eða rifið. Það er af sama stofni og íslenska heitið und. Latneska heitið er vulnus. Íðorðasafn lækna tilgreinir sár og særi. Þegar mikillar nákvæmi er krafist væri heppilegt að nota yfirheitið áverkasár. Slík sár má svo auðveldlega aðgreina með sértækum íslenskum heitum í samræmi við tegund áverka, stungusár (puncture wound, stab wound), skotsár (gunshot wound), skurðsár (cut, incised wound), rifið sár (lacerated wound), marið sár (contused wound), opið sár (open wound) og afrifusár (avulsed wound).

Ulcer

Enska heitið ulcer er dregið af latneska heitinu ulcus. Íðorðasafn lækna skilgreinir fyrirbærið þannig að um sé að ræða löskun á yfirborði húðar eða slímu vegna vefjataps, oft samfara bólgu. Læknisfræðiorðabók Stedmans er þó enn nákvæmari: meinsemd í yfirborði húðar eða slímhúðar sem stafar af yfirborðslægu vefjatapi, oftast með bólgu. Íðorðasafn lækna tilgreinir sömu íslensku heitin sár, særi. Það er á vissan hátt óheppilegt að geta ekki aðgreint þess konar sár frá áverkasári með stuttu og einföldu heiti. Af nothæfum samsettum heitum má þó nefna drepsár og bólgusár. Sértæk sáraheiti eru mörg. Af þeim má nefna magasár (ulcus ventriculi), ætisár (ulcus pepticum, sjá pistil nr. 60, Læknablaðið 1995; 81: 498), legusár (ulcus decubitus), leggsár (ulcus cruris), ofholdgunarsár (exuberant ulcer) og sprungið sár (ulcus perforans). Rétt er að vekja athygli á því að Íðorðasafn lækna hefur ekki kosið fulla samræmingu í íslensku heitunum þannig að í stað ulcus kemur ýmist sár, særi eða fleiður: glæru­fleiður (ulcus corneae), linsæri (ulcus molle), skriðsár (ulcus serpens). Margir latínugránar telja að ulceration sé heiti sem eigi við um þann feril sem leiðir til þess að sár myndast, en ekki um sárið sjálft.

Erosion

Þetta orð á sér áhugaverðan uppruna. Það er myndað af forskeytinu ex- og latnesku sögninni rodere, að naga, og er því skylt enska nafnorðinu rodent, nagdýr. Orðrétt þýðing á erosion gæti því verið útnögun. Íðorðasafn lækna birtir þýðingarnar fleiður og særi. Grunnt sár til orðið við áverka eða bólgu. Undirritaður hefur notað heitið grunnsæri um þetta fyrirbæri.

Kvensjúkdómalæknar hafa hins vegar notað heit­ið erosion um sérstakt fyrirbæri í leghálsi þar sem tunga af stuðlaþekju úr innhálsi hefur skriðið niður í úthálsinn og komið í stað flöguþekjunnar sem þar á að vera. Svæðið getur verið rautt og hrjúft, en eiginlegt sár hefur ekki myndast. Tannlæknar hafa svo notað heitið erosion um eyðingu tanna af völdum efna og jafnvel um tannslit vegna hlutrænna áverka.

Húðrof

Ýmsir læknar hafa kvartað undan því að orðið húðrof sé í vaxandi mæli notað á sjúkrastofnunum í staðinn fyrir húðsár eða sár í húð. Lausleg leit á netinu leiddi í ljós að orðið kemur fyrir í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7 frá 1998, þar sem fjallað er um starfsleyfi fyrir tiltekinn atvinnurekstur og þá sérstaklega hvers konar snyrti­stofur þar sem húðgötun eða húðrof fer fram. Undirritaður getur ekki lagst gegn þessari notkun. Vísað er mjög almennt í snyrtiaðgerðir, sem geta haft það í för með sér að húð rofni. Annað dæmi fannst á netinu: [bakteríur] geta einnig verið í hálsi og á órofinni húð án þess að gefa nokkur einkenni þaðan. Sýkingin nær oftast fótfestu eftir minni háttar húðrof. Þarna er lögð áhersla á að rof í húð eða slímhúð getur verið uppspretta sýkingar. Hvorki er vísað sérstaklega í áverka- eða drepsár heldur að hvers kyns húðrof auki hættu á að sýklar nái fótfestu í líkamsvef. Ekki er hægt að leggjast gegn orðanotkun af þessu tagi, þegar orðið er notað sem almennt og ósértækt samheiti. Hins vegar virðist engin þörf á því að nota orðið húðrof þegar vísað er til vel þekktra meinsemda, sem augljóslega falla undir samheitið sár.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica