05. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Innflytjendur og heilbrigðisþjónustan

Ekki svo frábrugðið annarri læknisþjónustu - Jón B.G. Jónsson var læknir á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem innflytjendur eru stór hluti íbúanna

Eitt er að taka á móti innflytjendum þegar þeir koma til landsins en annað að veita þeim þjónustu þar sem þeir setjast að. Jón B.G. Jónsson heimilislæknir sem nú gegnir starfi yfirlæknis á heilsugæslusviði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur reynslu af samskiptum við innflytjendur. Hann lauk sérfræðinámi árið 1993 og fór fljótlega til starfa á Patreksfirði þar sem hann var yfirlæknir til ársins 2004.

"Áður en ég fór vestur hafði verið þar töluverður hópur af fólki frá Portúgal, Ástralíu og Nýja-Sjálandi en eftir að ég kom fór Pólverjum fjölgandi. Það hefur orðið mikil sprenging í fjölda Pólverja á sunnanverðum fjörðunum og má segja að þeir haldi sjávarútveginum gangandi. Þetta á við um Patreksfjörð og þó sérstaklega Tálknafjörð þar sem Pólverjar eru fimmtungur íbúafjöldans."

Jón segir að Pólverjarnir hafi ekki mikinn áhuga á að seta sig inn í íslenskt samfélag. "Þeir bregðast við með svipuðum hætti og Íslendingar gera í útlöndum, halda hópinn og blanda fyrst og fremst geði við landa sína. Maður hefur líka á tilfinningunni að langflestir þeirra ætli ekki að dvelja hér lengi. Þótt einhverjir geri sig líklega til að setjast hér að til langframa þá líta flestir á dvöl sína hér sem tímabundið ástand. Þeir senda peninga heim til sín og eru sparsamir, enda standa þeir oft í húsakaupum í heimalandinu. Þeir sækja því ekki mikið í skemmtanalífið."

Misjafnt menntunarstig

- Leita innflytjendur mikið til heilbrigðiskerfisins?

"Já, og það kom mér dálítið á óvart. Ég held að heilbrigðisþjónustan sé ekki jafngóð í heimalöndum þeirra en hér eru þeir mjög kræfir á þjónustu. Þeir mættu hvenær sólarhringsins sem er án þess að hringja á undan sér. Pólverjar voru mjög fljótir að aðlagast kerfinu og kunnu margir hverjir betur á það en Íslendingar eftir skamman tíma. En þetta var upp til hópa mjög ljúft fólk."

- Hvernig gengu samskiptin við fólk sem talaði tungumál sem þú kunnir ekki?

"Þau gengu misjafnlega. Menntunarstig fólksins var misjafnt og það skipti máli fyrir samskiptin. En það voru alltaf einhverjir sem höfðu dvalið lengur hér á landi og gátu túlkað. Einnig gátum við hringt í fólk sem kunni íslensku og pólsku en bjó á Ísafirði eða Bolungarvík og gat túlkað í gegnum síma. Þá var skotið á símafundi.

Þorpin eru ekki stór og fólk var fljótt að kynnast. Eftir smátíma vissi maður allt um fólkið. Það leitaði til manns með ýmis vandamál og lét tungumálaerfiðleika ekki hefta samskiptin. Ef einhverjir lokuðu sig af var jafnvel komið með þá til mín eða ég beðinn að fara í vitjun til þeirra. Sumir áttu í andlegum erfiðleikum þegar þeir voru komnir þarna út að endimörkum hins byggilega heims, fjarri vinum, ættingjum og kaþólsku kirkjunni sem flestir tilheyrðu. Íslenskt frjálsræði hentaði þeim ekki alltaf. Ógiftar konur sem urðu óléttar gátu lent í vandræðum gagnvart foreldrum sínum í Pólandi."

Vildu ekki fara suður

Eins og Jón nefndi héldu Pólverjar hópinn og blönduðu ekki mikið geði við Íslendinga. "Þeir tóku þó þátt í íþróttum, meðal annars innanhúsfótbolta og voru með sitt eigið lið. Þeir höfðu gaman af þessu en ef það var einhver von um vinnu þá mættu þeir ekki, hún gekk alltaf fyrir."

- Lentirðu aldrei í því að ná ekki sambandi, geta ekki sinnt fólki vegna tungumálaörðugleika?

"Jú, það kom fyrir en alltaf tókst nú á endanum að ná í einhvern sem gat túlkað. Pólverjarnir eru yfirleitt fólk á besta aldri og heilsuhraust. Vandamálin sem þeir leituðu með til mín voru því oft af félagslegum eða sálrænum toga og það átti ekki síst við um konurnar. Oft höfðu þær þurft að skilja börnin sín eftir hjá afa og ömmu heima í Póllandi og leið illa út af því. Svo voru þess dæmi að hingað kæmi eldra fólk sem reyndist vera fárveikt. Það hafði ekkert gert í málunum áður en það kom en var jafnvel við dauðans dyr þegar hingað kom. Þetta sagði mér þá sögu að heilbrigðisþjónustan heimafyrir hafi ekki verið upp á marga fiska eða dýrari en svo að fólk hefði efni á henni.

Stundum kom það fyrir að maður vildi senda fólk suður til rannsókna og lækninga eða til dæmis frumbyrjur til fæðinga en fólkið neitaði að fara. Það var dýrt að ferðast suður og halda sér uppi í Reykjavík. Á meðan var það ekki að vinna og missti þess vegna laun. Oft endaði þetta með því að verðandi móðir mætti heim til manns þegar vatnið var farið og þá varð maður bara að bjarga sér. Sem betur fer gekk þetta yfirleitt alltaf vel."

Misjöfn viðbrögð við veikindum

Jón segir að heilsufarsvandi innflytjenda hafi ekki verið frábrugðinn því sem gerist og gengur meðal Íslendinga. Hins vegar var nokkuð áberandi að þeir leituðu til læknis með vandamál sem Íslendingar hefðu ekki gert.

"Oft var eins og barn mætti ekki fá hita, þá var farið með það til læknis, jafnvel um miðja nótt. Það var eins og fólk kynni ekki að gefa barninu hitalækkandi lyf eða beita þeim ráðum sem flestir þekkja og bíða svo næsta dags, hvort ekki brái af barninu. Oft var þetta vegna þess að fólk var eitt og átti engan að sem það gat leitað ráða hjá. Þetta fór að nokkru leyti eftir menntunarstigi fólks en Pólverjanna voru sumir frá fátækari hluta heimalandsins og höfðu að mestu leyti farið á mis við skólagöngu. Sama máli gegndi um Portúgalina sem margir hverjir voru úr fátækrahverfum Lissabon," sagði Jón og bætti því við að meðal Portúgalanna hefðu verið nokkrir smitaðir af HIV-veirunni en það hefði gengið mjög erfiðlega að fá þá til að skilja nauðsyn þess að sýna varkárni í samskiptum við fólk.

"Að öðru leyti var þetta ósköp svipað og önnur læknisþjónusta. Mæðra- og ungbarnaeftirlit gekk mjög vel og vandamálin voru ekkert meiri en hjá Íslendingum. Fámennið hjálpaði líka til því þá var auðveldara að fylgjast með fólki. Þó gat það komið manni á óvart hversu misjafnlega fólk upplifir og bregst við sársauka og vanlíðan. Það virðist vera hluti af þeim menningarmun sem er á þjóðunum," sagði Jón B.G. Jónsson.

u08-fig1ny

Jón B.G. Jónsson heimilislæknir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica