03. tbl. 91. árg. 2005

Íðorð 174. Málfarsnöldur

Eitt orð eða tvö

Það er farið að valda undirrituðum verulegum áhyggjum hvernig farið er með ýmis samsett fræði­orð á glærum sem sýndar eru í tengslum við annars vandaða fyrirlestra lækna. Nýleg dæmi um slíkt eru orðin: lyfja notkun í stað lyfjanotkun, gall gangar í stað gallgangar, meðal slæmur í stað meðalslæmur og krampa meðferð í stað krampameðferð. Í fljótu bragði virðast menn apa tvískiptingu orðanna eftir ensku. Standa þarf vörð gegn þessu.

Eintala, fleirtala

Sömuleiðis virðast margir eiga í erfiðleikum hvort nota eigi eintölu eða fleirtölu í fyrri orðhlutanum í ýmsum samsettum orðum. Nýleg dæmi um þetta eru fæðingahjálp í stað fæðingarhjálp, melt­inga­færi í stað meltingarfæri, mismunagreining í stað mis­munargreining og loks næringavandamál í stað næringarvandmál. Vera má þó að þetta sé í ein­hverjum tilfellum misritun vegna þess að eign­ar­falls-"r-ið" er orðið svo lint í framburði að það heyrist varla. Undirritaður hefur þó talsverðar áhyggj­ur af því að tilfinningin fyrir málinu hafi dofn­að.

Farið vatn!

Fyrst nöldrið er komið á flug: Hvernig getur þunguð kona "verið með" farið vatn?

Klyftaskol

Víglundur Þór Þorsteinsson, kvensjúkdómalæknir, hringdi og vildi koma á framfæri íslenska heit­­inu klyftaskol. Hann vísaði til þess að kven­sjúk­­dómalæknar gefa stundum ábendingu eða fyrir­­mæli um að kynfærasvæðið skuli skolað eða þveg­­ið. Víglundur hafði rekist á heitin neðanskol og botnskol, sem honum líkaði ekki, og heitið klof­skol, sem hann taldi þó skömminni skárra. Fleir­tölu­orðið klyftir er samheiti á klofi manna og orðið botn er af sumum notað til að vísa í rassinn.

Áður en lengra er haldið vill undirritaður hvetja til þess að öll þessi heiti séu varðveitt og notuð þegar við á. Nauðsynlegt er að læknar hafi á tak­tein­um fleiri en eitt heiti á ýmsum fyrirbærum og að þeir geti notað þau heiti sem sjúklingum þeirra eru tömust, sérstaklega þegar rætt er um viðkvæm mál. Í 94. pistli (Læknablaðið 1997; 83: 768) var ein­mitt rætt um samheiti og tekið dæmi um penis, sem á að minnsta kosti 40 íslensk heiti. Þar var bent á að Íðorðasafn lækna tilgreindi einungis íslenska orðið reður, en að heitin typpi, tilli, getnaðarlimur, limur eða besefi gæti hentað betur í ákveðnum aldursflokkum sjúklinga. Á sama hátt vill undirritaður varð­veita heitið neðanskol fyrir þá siðprúðu einstaklinga sem ekki vilja vísa ótvírætt í kynfæri eða rass.

Bidet

Sagan segir að salernistækið bidet hafi verið búið til í Frakklandi seint á 17. eða snemma á 18. öld. Um er að ræða skál, ekki ósvipaða klósettskál, með útbúnaði til að þvo kynfæra- og endaþarmssvæðið. Franska orðið bidet hafði ver­ið notað um smáhesta, dregið af sögninni bider, sem táknar að brokka. Salernistækið var þannig hannað og notað, að yfir því varð að standa klof­vega og líkingin við smáhest var augljós. Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs tilgreinir íslensku heitin skolskál og skol. Erlenda heitið bidet vísar því annars vegar í tækið sem notað er og hins vegar í aðferðina við að skola umrætt svæði. Því má við bæta að íslenska orðið klyftaskál er ágætis heiti á salernistækinu.

Örvi

Fyrir milligöngu orðabanka Íslenskrar málstöðvar barst tölvupóstur frá almennum notanda sem stakk upp á heitinu viðtakaörvi til að nota um lyf eða efni, agonist, sem leiðir til verkunar með því að bindast viðtaka (receptor). Örvi og viðtakaörvi virðast ágæt heiti, en hyggja þarf þá strax að heiti á antagonist.

Agonist

Heitið agonist er notað um vöðva sem kemur af stað tiltekinni hreyfingu (til dæmis beygju) í liða­mótum og er þá frumhreyfir (prime mover). Vöðvi sem kemur af stað andstæðri hreyfingu (réttingu) er nefndur antagonist. Sömu almennu heitin eru not­uð um lyf eða efni sem leiða til verkunar (agonist) eða hindrunar (antagonist). Í Íðorðasafni lækna er að finna hin stirðlegu heiti: 1. gerandvöðvi og 2. gerandefni.

Verki

Fyrir nokkrum árum var sett fram tillaga (Lækna­blaðið 1997; 83: 340 og 456) sem lýst var þannig: "í stað heitisins beta-nýrilviðtaka-gerandefni komi heitið beta-nýrilverki, þ.e. efni sem verkar á beta-nýrilviðtaka." Sett var því fram sú hugmynd að agonist verði verki og antagonist verði andverki eða mótverki. Undirrituðum er ekki kunnugt um að þessi heiti hafi náð neinni útbreiðslu. Geta má þess að Verki er gamalt heiti á úlfi Óðins og merkir hinn gráðugi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica