02. tbl. 91. árg. 2005

Fræðigrein

Tvær leiðréttingar við Fylgirit 50

Fyrir mistök var birtur rangur titill og höfundanöfn við ágrip veggspjalds. Þetta hefur þegar verið leiðrétt í rafrænni útgáfu blaðsins. Rétt er:

V 16 - Endurtekning háþrýstingssjúkdóma í annarri þungun kvenna í áhættuhópum

Sigrún Hjartardóttir1,2, Reynir Tómas Geirsson1,2, Björn Geir Leifsson3 og Valgerður Steinþórsdóttir4

Fyrir handvömm var birt veggjaspjaldaágrip í síðasta fylgiriti Lækna­blaðsins sem var ekki nýjasta útgáfa af höfundanna hálfu. Ágripið er því birt hér að nýju jafnframt því sem beðist er velvirðingar.

V 52 - Notagildi geislavirks efnasambands og blás litarefnis til að finna varðeitil (sentinel node)

Eysteinn Pétursson1 og Þorvaldur Jónsson2

1Isótópastofa, 2Skurðlækningadeild, Landspítala Hringbraut

Inngangur: Einungis 20-40% kvenna með brjóstakrabbamein reyn­ast með meinvörp í holhandareitlum. Sé hægt að finna og skoða ?varðeitilinn? (VL) sem fyrstur tekur við frumum frá æxlinu á að vera unnt að hlífa 60-80 % kvenna við frekari eitlatöku sé VL án meinvarps.

Efniviður: 33 konur á aldrinum 32-85 ára (meðaltal 59 ár), sem ákveðið var að þyrftu aðgerð með töku allra holhandareitla. Geislavirku 99mTc-nano­colloíði (NC) var sprautað grunnt undir húð yfir þreifanlegu æxli í 20 sjúklingum. Í 13 sjúklingum með óþreifanlegt æxli var sprautað eftir vísbendingu frá ómskoðun í leitarstöð KÍ. Síðan teknar myndir með gammamyndavél að framan og frá hlið. Þegar geislavirkni hafði safnast á afmarkaðan stað var hann merktur á húðina með vatnsheldu bleki. Samdægurs fór sjúklingur í aðgerð, sem hófst með því að sprautað var bláu litarefni undir húð og fylgst með því safnast í eitil; síðan mæld geislavirkni á svæðinu með handhægum geislamæli og allir geislavirkir eitlar fjarlægðir og sendir í frystiskurð. Síðan aðrir eitlar fjarlægðir ásamt frumæxlinu. Allur fjarlægður vefur að lokum skoðaður vandlega vefjameinafræðilega.

Niðurstöður: Í 30 sjúklingum sást vel afmörkuð samsöfnun á NC. Í þremur sjúklingum sást ekki ákveðin afmörkuð upphleðsla. Merkt var þó á húðina þar sem líklegast þótti að eitlar væru til staðar. Í aðgerð fundust geislavirkir eitlar í öllum sjúklingum svarandi til merkinga á húð. Blálitaður eitill fannst í 31 sjúklingi. Geislavirkur/blár eitill var án æxlisvaxtar í 21 sjúklingi. Í þremur þessara fannst krabbamein í öðrum eitlum, það er VL gaf falska vísbendingu. Í einum þessara sjúklinga var þó stórt meinvarp nálægt VL og kann að hafa breytt sogæðaflæðinu í þessum sjúklingum, sem í raun hefði ekki farið í rútínu varðeitilsleit. Í sjö af þeim 12 sjúklingum sem voru með mein í VL voru aðrir eitlar án meins.

Ályktun: Varðeitilsleit með geislavirku nanokolloíði og bláu litarefni virðist áreiðanleg aðferð.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica