01. tbl. 91. árg. 2005

Ritstjórnargrein

"Varðveisla íslenskrar læknareynslu"

Sigurbjörn Sveinsson

Bárður SigurgeirssonVel fer á því við þessi tímamót Læknablaðsins að draga fram greinar úr fortíðinni sem athyglisverðar eru að bestu manna yfirsýn. Þorvaldur Veigar Guðmundsson rifjar upp einn áfanga á leið lækninga til nýrrar aldar og velur til þess grein sem hann skrifaði sjálfur í blaðið. Ekki fer á milli mála að þar fer grein sem er "læknisfræðilega mikilvæg og sígild" og "dæmi­gerð fyrir þá þekkingu, sem þá var að ryðja sér til rúms í læknisfræði, þ.e. notkun geislavirkra efna við greiningu sjúkdóma og var alger nýjung hér á landi" (1). Einar Stefánsson fylgir hins vegar úr hlaði grein Guðmundar Þorgeirssonar og félaga um lýðheilsu sem byggist á gagnasöfnun Hjartaverndar. Í Hjartavernd hefur verið unnið merkilegt starf á heimsmælikvarða. Einar hefði þó fullt eins getað valið til að mynda leiðara sem hann skrifaði sjálfur í Lækna­blaðið (2, 3). Komu þar fram tímamótaskoðanir um inntökuskilyrði til læknanáms sem voru tákn um breyttan hugsunarhátt og nýjan skilning á þeim eiginleikum sem góðan lækni mega prýða.

Þannig hefði ég til dæmis getað ritað leiðara um viðhorf lækna til vinnunnar, um þjónustuna við sjúklingana, aðgengi að hinum ýmsu greinum almennrar og sérhæfðrar læknisþjónustu, sjálfstæði lækna, undanlátssemi við miðstýringaráráttu, hlýjuna við kjötkatlana, ánauðina sem fylgir velgjörðum án verðskuldunar eða tilefnis, beneficium accipere libertatem est vendere (4) og fleira og fleira. Hugsanlega hefði það getað orðið tímamótaleiðari. Í anda Guðmundar Hannessonar? En fáir fara í fötin hans Guðmundar Hannessonar og allra síst ég. Og því ætla ég að víkja aðeins sjónarhorninu að honum og draga athyglina að einhverju sem máli skiptir og er skemmtilegt og fróðlegt.

Guðmundur Hannesson var merkilegur læknir á sinni tíð og raunar merkilegur fyrir margt annað en lækningar. Hann var eins og kunnugt er héraðslæknir með aðsetur á Akureyri á árunum 1896 til 1907 og þjónaði allt úr Svarfaðardal til Svalbarðsstrandar að meðtöldum Eyjafirðinum (5). Hefur það verið ærinn starfi fullfrískum manni. En Guðmundur var Húnvetningur og af Guðlaugsstaðakyninu eins og allir vita og ekki fisjað saman (6).

Hann segir í Læknablaðinu mörgum árum síðar: "Meðan eg var héraðslæknir var mér það sönn ánægja hve gott samkomulag var hvarvetna milli lækna og góð vinátta við nánari kynni. Þá voru og deiluefnin fá, því heita mátti að hver læknir hefði sinn afmarkaða verkahring og nóg að gera. Það var þá t. d. venja flestra lækna, er þeir komu á ferðalagi í annan bæ, þar sem læknissetur var, að fyrst fóru þeir að heimsækja stéttarbróður sinn, og brást þá ekki að tekið var við manni opnum örmum. Það var ekki á hverjum degi sem læknar hittust og skorti því ekki viðræðuefni. Oft­ast varð þá læknisfræðin efst á baugi, vandamálin, sem komið höfðu fyrir, erfiðar ferðir, sérstök áhugamál o. þvíl." (7).

Það hefur vafalítið verið þessi þörf fyrir bræðralag um fræðin og aðstæðurnar, sem kallaði menn til samvinnu í læknafélögum fyrir meira en hundr­að árum. Gerð var tilraun til að stofna "Hið fyrsta íslenska læknafélag" eins og það var kallað árið 1898. Í lagafrumvarpi þess var tilgangurinn sagður "að efla samlyndi og bróðerni, samvinnu og persónulega viðkynningu milli íslenskra lækna, að annast öll sameiginleg áhugamál læknastéttarinnar, halda uppi heiðri hennar í öllu og vernda íslenzka læknareynslu frá gleymsku". Þetta læknafélag komst því miður ekki á legg og alþýðlegt tímarit um heilbrigðismál kallað Eir, sem læknar höfðu ekkert með að gera, lognaðist út af eftir taprekstur í tvö ár (8).

Guðmundur Hannesson er í félagsmálavafstri sínu á ferð norðan heiða á árunum 1902-4 ásamt með læknum á Austurlandi með félagsskap lækna og Læknablaðið, sem hann gefur út handskrifað í fjölriti. Félagsmál lækna komast ekki á legg fyrir alvöru fyrr en Guðmundur Hannesson flytur til Reykjavíkur og þá fyrst með stofnun Læknafélags Reykjavíkur 1909 og síðar Læknafélags Íslands 1918. Guðmundur er mikill hvatamaður stofnunar LÍ. Strax í fyrsta tölu­blaði Læknablaðsins 1915 ræðir hann þýðingu slíks félagsskapar til að efla samvinnu og bróðerni milli lækna og auk þess að gefa út blað eða tímarit fyrir lækna eingöngu (8).

Í Læknablaðinu er að finna ýmis merk ummæli mætra lækna sem vert er að halda til haga og okkur í rauninni skylt "til að vernda íslenska læknareynslu frá gleymsku" eins og áður hefur verið minnt á. Guðmundur Hannesson er enn á ferð 1933 þar sem hann rekur mannfjöldaaukningu á Íslandi um og eftir 1890 og framfarir í þjóðlífinu. Hann er sjálfur ekki í vafa hverju sætir.

"Þessi miklu tímamót eru beinlínis verk gömlu læknanna og ljósmæðranna," segir hann. "Það má taka hattinn ofan fyrir þeim. En þeim var líka þakkað, því að engin stétt í landinu naut slíkrar almenningshylli sem læknarnir. Menn höfðu jafnvel oftrú á þeim og fyrirgáfu þeim fjölda yfirsjóna, drykkjuskap o. fl. (9)."

Og tímarnir virðast lítið hafa breyst. Stuttu síðar segir þessi höfðingi, prófessor og leiðtogi lækna: "Þá höfum vér orðið fyrir þeirri injuria temporum, að vera rægðir í blöðum og þingræðum af pólitískum bullukollum, auðvitað undir því yfirskyni, að verið sé að hugsa um almenningsheill. Sumstaðar hefir þetta gengið í fólkið, og er því nokkur vorkunn, þegar landlæknir tekur í sama streng. "Hér gengur látlaus rógur um lækna," skrifar samviskusamur læknir í einu héraðinu. Réttmætar aðfinningar um einstaka lækna tekur enginn illa upp, en sleggjudómar um alla stéttina út í loftið eru og verða ekki annað en illviljað bull." (9)

Og Guðmundur lýkur máli sínu eftirminnilega: "En hvernig getum vér varist rógi og álygum, bætt úr því sem oss kann að vera ábótavant og haldið uppi heiðri stéttarinnar" Vér getum að vísu rekið ósannindi ofan í þá sem láta prenta þau, en hitt skiftir þó mestu að halda vel heitorð lækna og gamlar siðareglur.

Eftir frekasta megni verðum vér að bæta úr því, sem oss kann að vera ábótavant, vanda öll orð og gerðir, svo að ekki verði að þeim fundið með réttu. Ef við þetta bætist harðsnúið Læknafélag með góðri stjórn " þá er heiðri og sóma stéttarinnar borgið!" (9)

Saga samtaka lækna er vörðuð atorku eljumanna sem meðal annars trúðu á útgáfu blaðs á þeirra vegum. Þessir læknar gáfu sig ekki fyrir úrtölum, létu sig ekki í mótlætinu, voru ekki sem reyr af vindi skekinn. Menn eins og Guðmundur Hannesson. Trú þeirra var ekki fánýt. Greinarnar í þessu blaði eru vitnisburður lækna sem unnu áhugavert og skiljanlegt mál í starf sitt og þekkingu. Hver hefði fátækt okkar orðið ef þeirra hefði ekki notið við? Og arfurinn er okkur falinn að slípa og fægja. Það verður ekki gert án nokkurrar fyrirhafnar og jafnvel fórna.

Hver sem framtíð Læknablaðsins verður þá er það skylda íslenskra lækna að varðveita hina íslensku læknareynslu. Það er ekki þýðingarlaust rómantískt markmið heldur mikilsvert til að íslensk læknisfræði þjóni Íslendingum í jarðvegi íslenskrar menningar. Til þess munu komandi kynslóðir velja sér þær leiðir sem duga og ekki okkar að segja þeim fyrir.

Útgáfa Læknablaðsins á okkar tímum er sú leið sem við völdum.

Heimildir

1. Guðmundsson ÞV. Læknablaðið 2005; 91: 51.
2. Stefánsson E. Skilyrði til náms í læknadeild [ritstjórnargrein]. Læknablaðið 1992; 78: 277.
3. Sveinsson S. Áramótahugleiðingar [af sjónarhóli stjórnar]. Lækna­blaðið 2000; 86: 46.
4. Syrus, Publilus.
5. Jónsson V, Blöndal LH. Læknar á Íslandi. Læknafélag Íslands og Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1970, 2.b., s. 80.
6. Haraldsson G. Læknar á Íslandi. Þjóðsaga, Reykjavík 2000, 1.b., s. 500-1.
7. Hannesson G. Stéttarandinn. Læknablaðið 1935; 21: 11.
8. Hannesson G. Íslenzkt læknafélag. Læknablaðið 1915; 1: 3.
9. Hannesson G. Vegur stéttarinnar. Læknablaðið 1933; 19: 41-3.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica