07/08. tbl. 90.árg. 2004

Umræða og fréttir

34 læknar útskrifaðir frá Háskóla Íslands

Nýir læknar

Á kvenréttindadaginn 19. júní útskrifaði lækna­deild Háskóla Íslands 34 nýja lækna og að vanda var þeim boðið til teitis í húsakynnum Læknafélags Ís­lands daginn áður. Þar undirrituðu þeir heitstaf lækna, hlýddu á hollráð sér eldri lækna og nutu veit­inga í boði félagsins.

Allt var þetta með hefðbundnu sniði, að því frá­töldu að formaður LÍ, Sigurbjörn Sveinsson, var fjarri góðu gamni svo það kom í hlut Jóns Snædal varaformanns að bjóða gestina velkomna. Hann lýsti fyrir þeim kostum þess að ganga í LÍ og önnur félög lækna sem væru mörg enda væri það þannig að þegar undirsérgrein teldi þrjá sérfræðinga væri stofnað félag um hana.

Stefán B. Sigurðsson deildarforseti læknadeildar tók örlítið forskot á útskriftina og ávarpaði nýju læknana og svo tók Sigurður Guðmundsson land­lækn­ir til máls og sagði meðal annars að þessi nýju læknar væru örugglega betri en hann og hans jafnaldrar því ef svo væri ekki hefði þeim eldri mistekist eitthvað. Lestina rak svo Óskar Einarsson formaður LR sem bauð nýju læknunum að setjast við borð, undirrita heitorð lækna og þiggja eintök af lögum LÍ og kjara­samningum félagsins sem þar lágu frammi.

Eftir að menn höfðu undirritað og gert veit­ing­un­um skil voru veittar viðurkenningar úr Minn­ing­ar­sjóði læknanema en hann var stofnaður í fyrra í minningu Sigríðar Reynisdóttur læknanema sem hefði að réttu átt að útskrifast vorið 2003 en lést áður en að því kom. Sjóðnum er ætlað það hlut­verk að efla rannsóknarstörf unglækna og er þetta í annað sinn sem hann veitir læknanemum við­urkenningu fyrir framúrskarandi árangur á skriflegu prófi í lyflæknisfræði. Að þessu sinni hlutu viðurkenninguna Ragnar Freyr Ingvarsson og Berg­lind Þóra Árnadóttir.

Helga Eyjólfsdóttir læknakandídat afhenti viður­kenningarnar og skýrði hún blaðamanni frá því að enn hefði enginn hlotið úthlutun úr sjóðnum og staf­aði það af því að enginn hefði enn sótt um. Það er því greinilega þörf á að vekja athygli þeirra unglækna sem stunda rannsóknir á tilveru þessa sjóðs og hvetja þá til að sækja um styrk úr honum.

-ÞH

Á efstu myndinni má sjá splunkunýjan lækni undirrita heitorð lækna en á borðinu eru staflar af kjarasamningum LR og lögum LÍ. Til vinstri er Stefán B. Sigurðsson deildarforseti að ávarpa hópinn og neðst gæða gestir sér á kræsingunum sem Læknafélag Íslands bauð upp á.

Andri Valur Sigurðsson

Ágúst Ingi Ágústsson

Árni Grímur Sigurðsson

Áskell Yngvi Löve

Berglind Þóra Árnadóttir

Björn Logi Þórarinsson

Davíð Björn Þórisson

Dögg Hauksdóttir

Emil Árni Vilbergsson

Friðný Heimisdóttir

Gísli Björn Bergmann

Guðrún Dóra Clarke

Gunnþórunn Sigurðardóttir

Haraldur Már Guðnason

Hjördís Sunna Skírnisdóttir

Hólmfríður Lydía Ellertsdóttir

Jakob Pétur Jóhannesson

Jóhann Páll Ingimarsson

Jóhann Davíð Ísaksson

Jón Þorkell Einarsson

Jónas Geir Einarsson

Kolbrún Pálsdóttir

Lýður Ólafsson

Margrét Kristín Guðjónsdóttir

Ólöf Viktorsdóttir

Pétur Snæbjörnsson

Ragnar Freyr Ingvarsson

Rakel Sif Guðmundsdóttir

Sigurdís Haraldsdóttir

Steinunn Þórðardóttir

Þorgeir Gestsson

Þóra Sif Ólafsdóttir

Þórður Guðmundsson

Þurý Ósk Axelsdóttir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica