06. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Norrænt þing um hagnýtan lækningahúmor

Þau eru ekki mörg norrænu samtökin þar sem Ís­lendingar eru með næstflesta þátttakendur. Þannig er það þó í Nordisk selskap for medisinsk humor (NSMH) en íslenska deildin, Hið íslenska félag um lækningahúmor (HÍFL), er næstfjölmennasta deildin á eftir Norðmönnum. Danir eru heldur fámennari en Íslendingar, Svíar eru mun færri og enginn Finni er í samtökunum. Þetta er greinilega verðugt verkefni fyrir þjóðarsálfræðinga að skoða og skilgreina.

Því er á þetta minnst hér að dagana 9.-13. júní ætla þessi samtök að halda þriðja norræna þingið um lækningahúmor hér á landi, nánar tiltekið í Hringsal Barnaspítala Hringsins. Yfirskrift þingsins er Praktisk bruk av medisinsk humor sem útleggja mætti Hagnýti lækningahúmors á íslensku og verða fluttir margir fyrirlestrar um efnið. Meðal fyrirlesara eru forystu­menn samtakanna á Norðurlöndum, Mats Falk, Stein Tyrdal og fleiri, og tveir heimsþekktir menn á sviði húmor- og hláturlækninga, Indverjinn Madan Kataria og prófessor Rod Martin frá Kanada.

Doktor Madan Kataria er stofnandi hreyfingar sem nefnd er Hláturklúbbarnir en sjálfur hefur hann verið kallaður Guru of Giggling. Hann er heimilislæknir að mennt og hefur þróað sérstaka hláturtækni sem byggð er á grunnþáttum jógaspekinnar. Nú eru starfandi yfir 2500 hláturklúbbar víða um heim, þeir eru til á öllum Norðurlöndunum nema hér á landi. Dr. Kataria er þekktur fyrirlesari og veitir mörgum stórfyrirtækjum ráðgjöf á sviði heilsueflingar og streitumeðferðar.

Doktor Rod Martin er klínískur sálfræðingur og kennir við háskóla í Ontario í Kanada. Hann hefur samið tugi fræðigreina og bókarkafla um sálfræði húmors, einkum hlutverk hans í streitumeðferð og tengsl húmors og hláturs við andlega vellíðan og góða heilsu. Undanfarin ár hefur hann rannsakað muninn á neikvæðum og jákvæðum húmor og á þinginu mun hann fjalla um leiðir til að greina þar á milli.

Auk þess munu íslenskir fyrirlesarar koma við sögu, þeirra á meðal Sigurður Guðmundsson landlæknir, Óttar Guðmundsson geð­­læknir, Pétur Lúðvígsson barnalæknir, Hildur Helgadóttir hjúkrunarforstjóri og Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur.

Bjarni Jónasson er formaður Hins íslenska félags um lækningahúmor en á því hvílir ábyrgðin á þinghaldinu. "Þetta er í þriðja sinn sem NSMH heldur norrænt þing og þau fyrri hafa verið mjög skemmtileg. Þingið er opið öllum, ekki bara læknum, enda er það stefna okkar að útvíkka lækningahúmorinn þannig að hann snúist ekki einvörðungu um lækna. Hann snýst fyrst og fremst um jákvæð lífsviðhorf og að nota húmor til að auka starfsánægjuna, bæta samskiptin við sjúklinga og samstarfsfólk og hamla gegn streitu. Þetta er ekkert "djók" heldur tökum við á húmornum af mikilli alvöru," segir Bjarni.

2004-06-u12-fig1

Merki Norrænna samtaka um lækningahúmor.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica