06. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Á að sameina lífeyrissjóðina?

2004-06-u07-fig1
Þorkell Bjarnason formaður stjórnar Lífeyrisjóðs lækna.

Nú eru uppi raddir um að Lífeyrissjóður lækna sé orðinn of lítill og að rétt sé að huga að sameiningu hans við annan sjóð. Umræða um þetta hefur verið í gangi allt frá ársbyrjun 2003 þegar grípa varð til skerðingar á réttindum sjóðfélaga og lífeyrisþega um tæplega 10%. Umræðunni er ekki lokið en Þorkell Bjarnason formaður sjóðsstjórnar segir að gott væri að ákvörðun um sam­einingu yrði tekin á næsta ársfundi sem haldinn verður vorið 2005. Þarna gætu því orðið töluverð tíðindi og því þótti Læknablaðinu rétt að ræða við Þorkel um stöðu sjóðsins og sameiningarhugmyndirnar.

Þorkell sagði að skerðing réttindanna sem kom í kjölfar þriggja magurra ára hjá sjóðnum hefði kveikt umræður um það hvort hægt væri að fyrirbyggja slíka atburði með því skipta sjóðnum upp í deildir.

- Þá komumst við að því að sjóðurinn væri of lítill til þess að hægt væri að deildarskipta honum. Um sama leyti varð ljóst að rekstrarumhverfi lífeyris­sjóðanna var að breytast, vextir að lækka og framboð á ríkisskuldabréfum með föstum vöxtum að minnka. Meðalávöxtun sjóðsins undanfarin 10 ár hefur verið 5,6% og eina leiðin til að halda slíkri ávöxtun væri að fjárfesta á hlutabréfamarkaði. Aðstæður á fjármálamörkuðum hafa verið að breytast og síðast en ekki síst hefur íslenska krónan tekið upp á því að sveiflast, ekki bara niður eins og við þessir eldri þekkjum vel heldur einnig upp á við sem er alveg ný reynsla. Það segir sig sjálft að það hefur áhrif á eignastöðu sjóðsins þegar dollarinn hrynur úr rúmlega 100 krónum niður fyrir 70 eins og gerðist.

Fleira hefur orðið til að breyta stöðu lífeyrissjóðanna. Til dæmis hefur örorkubyrði margra sjóðanna verið að þyngjast þótt Lífeyrissjóður lækna hafi ekki fundið eins mikið fyrir því og aðrir sjóðir. Langlífi Íslendinga hefur sem betur fer verið að aukast og það þrengir einnig að sjóðunum."

Réttindin haldast óbreytt

Í þessari stöðu fer stjórn sjóðsins að líta í kringum sig eftir vænlegum kostum til sameiningar. Augun beindust fljótlega að Almenna lífeyrissjóðnum og segir Þorkell ýmsar ástæður vera fyrir því.

"Í fyrsta lagi er það sami aðilinn sem sér um rekstur beggja sjóðanna. Í öðru lagi er stór hluti virkra félaga í Lífeyrissjóði lækna með séreignarsparnað sinn í Almenna lífeyrissjóðnum og í þriðja lagi er örorkubyrði sjóðanna mjög svipuð. Við þetta má bæta að sjóðirnir eru svipaðir um margt, okkar fé­lags­menn eru þó tekjuhærri. Tryggingafræðileg staða sjóðanna er svipuð sem auðveldar þá aðgerð sem nauðsynlegt er að grípa til við sameiningu, sem sé að jafna réttindin."

- Þá kemur að þeirri spurningu sem brennur á allra vörum: Munu réttindi sjóðfélaga breytast við sameininguna?

"Verði sameiningin að veruleika munu sjóðfélagar halda þeim réttindum sem þeir hafa daginn sem hún kemur til framkvæmda. Breytingin hefur því engin áhrif á þá lækna sem komnir eru á eftirlaun og sáralítil á þá sem eru að nálgast starfslok. Yngri læknar þurfa hins vegar að hugsa sinn gang."

Nú eru reglurnar þannig að mökum sjóðfélaga eru tryggð góð eftirlaun til æviloka en það mun breytast ef af sameiningu verður. Í staðinn munu eftirlaun sjóðfélaga hækka í framtíðinni. Sjóðsstjórn heldur því fram að með þessu sé verið að færa réttindi sjóðfélaga nær þeim veruleika sem læknar búa við. Þegar reglurnar voru settar voru karlar í miklum meirihluta í læknastétt og algengasta mynstrið var að eiginkonur þeirra ynnu ekki úti. Þess vegna var eðlilegt að þeim væri tryggður góður makalífeyrir, ekki síst í ljósi þess að konur eru almennt langlífari en karlar.

Nú horfir öðruvísi við. Konur eru orðnar mun fjölmennari í læknastétt og algengast að makar lækna vinni utan heimilis og skapi sér sinn eigin eftirlaunarétt. Það er því ekki mikið vit í því fyrir konur í læknastétt að fórna möguleikanum á að hljóta hærri eftirlaun fyrir rétt á makalífeyri sem ólíklegt er að eiginmenn þeirra muni njóta. Með skerðingu makalífeyris munu örorkulífeyrisréttindi aukast, sérstaklega hjá yngri læknum.

Nú þurfa menn að hugsa

Eins og staðan er núna eru heildarskuldbindingar sjóðsins í framtíðinni rúmlega 26 milljarðar. Þar af eru skuldbindingar vegna makalífeyris um 5,6 milljarðar, eða um það bil fimmtungur. Það er ekki verið að tala um að afnema makalífeyri með öllu held­ur er gert ráð fyrir því að maki njóti lífeyris í hálft þriðja ár eftir andlát sjóðfélaga eða þar til yngsta barn nær 18 ára aldri.

"Ef við hugsum okkur þrítugan lækni sem hefur rúmar 400 þúsund krónur í mánaðarlaun og greiðir 11% af launum sínum í sjóðinn til starfsloka. Að óbreyttu á hann rétt á 230 þúsund króna eftirlaunum á mánuði. Verði makalífeyririnn skertur eins og um er rætt fengi hann 269 þúsund krónur á mánuði sem jafngildir 17% hækkun á eftirlaunum. Það munar um minna, ekki síst ef hann lætur af störfum 65 ára og lifir í 18 eða 20 ár eftir það. Það eru ýmsir möguleikar á að tryggja maka sínum lífeyri ef menn telja þörf á því, til dæmis með því að kaupa líftryggingu, en halda samt hærri eftirlaunum. Einnig er hægt að skipta eftir­launaréttindum á milli sjóðfélaga og maka.

Þessi dæmi verða menn að hugsa og gera upp hug sinn til þess hvernig þeir telja hag sínum best borgið," segir Þorkell.

Hugmyndin er sú að skipta hinum sameinaða sjóði í þrjár deildir:

Tryggingadeild tekur við iðgjöldum og greiðir ör­orku-, maka- og barnalífeyri

Eftirlaunadeild ávaxtar fé sjóðfélaga sem nota skal til ellilífeyrisgreiðslna, en þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris færist eign hans yfir í

Lífeyrisdeild sem greiðir ellilífeyri til æviloka.

Hugsunin með þessari deildaskiptingu er að veita sjóðnum möguleika á að reka mismunandi fjárfestingarstefnu eftir því hvaða deild á í hlut en jafnframt að draga úr áhættunni á því að slæm fjárfestingarár hefðu mikil áhrif á lífeyrisréttindi þeirra sem eldri eru.

Lífeyrissjóðum fækkar

Þorkell segir að sjóðsstjórn hafi ekki skoðað aðra sjóði og raunar sé honum ekki vel við þá spurningu. Honum líkar ekki sú tilhugsun að fara með réttindi sjóðfélaga á einhvern uppboðsmarkað. Það sem hann sjái í þessari sameiningu sé að með henni verði til nokkuð stór og öflugur sjóður.

"Lífeyrissjóðirnir eru um það bil 50 talsins um þessar mundir og þeim á örugglega eftir að fækka á næstunni. Fyrir örfáum dögum voru fréttir sagðar af því að tveir af stærstu sjóðunun, Lífeyrissjóður sjómanna og Framsýn, væru að ræða sameiningu. Sjóðirnir eru ekki í neinni samkeppni sín á milli, þvert á móti er mikil samvinna á milli þeirra," segir hann.

Talsverður stærðarmunur er á sjóðunum tveimur ef litið er á fjölda sjóðfélaga. Lífeyrissjóður lækna taldi 1134 virka félaga um síðustu áramót en Almenni lífeyrissjóðurinn 11.300. Eignir LL eru hins vegar mun meiri en samtryggingarsjóðs Almenna og sömuleiðis eru skuldbindingarnar meiri en það stafar af því að LL er mun eldri sjóður, sjóðfélagar með hærri laun og hlutfall samtryggingar er mun hærra í LL. Almenni lífeyrissjóðurinn er upphaflega stofn­aður sem séreignarsjóður í vörslu Íslandsbanka en fyrir nokkrum árum sameinaðist hann lífeyris­sjóðum arkitekta, tæknifræðinga, hljómlistarmanna og leiðsögumanna. Framkvæmdastjóri beggja sjóða er sá sami, Gunnar Baldvinsson.

"Þetta er rétt skref"

- En hver er staða málsins núna?

"Hún er sú að framkvæmdastjóri og tryggingastærðfræðingar sjóðanna tveggja hafa sett upp líkan að uppbyggingu sameinaðs sjóðs og stjórnir sjóðanna hafa gefið út viljayfirlýsingu um að þær ætli að halda viðræðunum áfram. Næsta skref verður að leggja hugmyndir okkar fyrir Fjármálaeftirlitið sem verður að samþykkja þær. Enn eru ýmis útfærsluatriði eftir, svo sem um tengsl sjóðsins við Íslandsbanka.

Að sjálfsögðu verður þetta borið undir sjóðfélaga á næsta ársfundi og það verður ekki farið út í sameininguna nema um hana ríki sátt. Ég er bjartsýnn á að þetta geti gerst eftir næsta ársfund."

- Sameiningarhugmyndin hefur verið rædd á tveim­ur fundum lækna að undanförnu, formanna­fundi LÍ og ársfundi LL, og urðu þar allnokkrar um­ræður um málið. Eru ekki töluverðar tilfinningar í þessu máli eða taka læknar afstöðu á grundvelli kaldra skynsemisraka"

"Það eru miklar tilfinningar á ferðinni og þær eru auðskiljanlegar. Sjóðurinn er rótgróinn og mönnum þykir vænt um hann. Sumir þeirra eldri muna enn þann slag sem það kostaði að koma honum á laggirnar. Svo á hann allt í einu að skipta um nafn og sameinast öðrum sjóði."

- En það er enginn efi í þínum huga að þetta sé rétt skref?

"Ég er búinn að hugsa mikið um þetta og því meir sem ég hugsa þeim mun sannfærðari verð ég um að þetta sé rétt. Við lækkum kostnað við rekstur sjóðsins, drögum úr áhættu, gerum sjóðinn og réttindi sjóðfélaga sveigjanlegri. Menn fá einfaldlega meira fyrir peningana sína," segir Þorkell Bjarnason stjórnarformaður Lífeyrissjóðs lækna.


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica